fimmtudagur, 9. október 2014

Spenakreistandi hönd markaðarins

Nú hef ég fylgst með umræðu um einhverskonar óstand á mjólkurmarkaðnum, sem virðist hafa varað nokkuð lengi. Það hentar mér ágætlega að byrja að pota í augun á fólki sem hefur lært að nýta sér gallaða lagasetningu og snarmeinað fyrirkomulag á markaði sem á að vera frjáls, en er það ekki.
Það sem reynsla okkar og nágranna segir okkur virðist vera þetta: Stýra þarf framleiðslu og verði mjólkur, þar sem hin ósýnilega hönd markaðarins kann greinilega ekkert með beljuspena að fara.
Ókei, í stað þess að benda á það sem búið er að fara vandlega yfir undanfarna daga um vensl einstaklinga innan mjólkurgeirans, þá langar mig til að benda á eftirfarandi:

1. Flutningskerfi allrar mjólkur í landinu er í höndum einnar fyrirtækjasamsteypu.
2. Að byggja upp annað flutningskerfi í samkeppni við þann aðila sem fyrir er hlýtur að vera óarðbær fjárfesting, og í raun galin.
3. Að ætla nýjum aðila á mjólkurmarkaði að byggja upp sitt eigið flutningsnet, er eins og að ætla í samkeppni við Póstinn, það er ekki hægt.

Ég held að þennan einokunarhnút verði að rjúfa á eftirfarandi hátt:

1. Flutningskerfi mjólkuriðnaðarins verði ríkisvætt, og ríkið reki mjólkurflutninga og mjólkurgeymslutanka á fastri krónutölu per líter. (jájá með tíð og tíma væri hægt að bjóða mjólkurflutninga út á vegum ríkiskaupa til að ná fram hagkvæmni.)

2. Hverjum mjólkurvinnsluleyfishafa verði frjálst að kaupa mjólk af mjólkurtanki ríkisins á
fyrirfram ákveðnu verði, og unnið þær vörur sem eftirspurn er eftir á markaði og myndað þann hagnað sem sóst er eftir í gegnum vöruvinnslu, vöruþróun og vörumerki rétt eins og í hverri annarri sælgætisgerð eða gosverksmiðju.

Þá gætu bændur gert það sem þeir eru bestir í, framleiða mjólk.
Þá gætu mjólkurvöruframleiðendur einbeitt sér að neytendum.
Og þá gæti ríkið veitt nauðsynlegt inngrip sem þegar er gert, á sanngjarnari hátt.

Leikreglurnar gætu þá ekki orðið skýrari, og krafan um kvótakerfi mjólkur og stjórnað verð til bænda væri uppfyllt.

Króna/EURO