þriðjudagur, 30. nóvember 2010

Eitthvað um niðurstöður

Þessi frétt Skessuhorns um að þrír fulltrúar frá landsbyggðinni hafi hlotið kjör á stjórnlagaþing er athyglisverð.

Sérstaklega er hún umhugsanarverð fyrir nýja þingmenn stjórnlagaþings.

Sem betur er það nú svo að landsbyggð/höfuðborg er alls ekki svo stór breyta þegar kemur að því að skrifa stjórnarskrá. Hún verður alltaf hlaðin lýðræði og manngæsku.

Hættan við að stilla nokkurn tímann upp pólitísku kosningakerfi á þann prófkjörsmáta sem nú var gert, hlýtur að vera afskaplega hættulegt. Að mínu viti áttu öll atkvæði sérhvers kjósanda að hafa sömu vigt. Þá væri hægt að telja heildarfjölda atkvæða og hlutur landsbyggðar jafnast. Þ.e. meirihlutaræði verður ekki algjört, þá er tryggt að veikur minnihluti (eins og landsbyggðin) fái rétt hlutfall fulltrúa - þ.e. ef sá hópur kýs á annan hátt.

Að auki er ég ALLS EKKI viss um að vigtarmunur atkvæða hafi verið kynntur nógu vel til. almennings. Í það minnsta voru í það minnsta tveir kjörstjórnarfulltrúar EKKI vissir, er ég spurði þá út í þetta á kjörstað kl. 21:15 á kjördag. (þegar kjörstað var að loka) Ég spurði af því ég var ekki sjálfur viss. Öðrum kjósanda sem þar var staddur fannst þetta reyndar heimskuleg spurning, þar til hann heyrði svarið - það kom honum á óvart.

Það væri verðugt verkefni stjórnmálfræðinnar í Odda að rannsaka hvort úrslit kosninga hefðu orðið mikið öðruvísi ef vigt greiddra atkvæða milli frambjóðenda hefði verið jöfn.

Nýjir stjórnlagaþingsfulltrúar verða að vanda sig afar vel, þegar atkvæðavægi milli landsbyggðar og höfuðborgar verður jafnað. Það verður að gera þannig að tryggt sé að almenn sátt ríki til frambúðar um nýtt "system". Ég undirstrika að ég er afar sammála því að JAFNA verður atkvæðavægi í alþingiskosningum. Það er hrikalega ósanngjarnt að atkvæði margra landsbyggðarmanna vigti mun meira en annarra íbúa landsins. Tryggja verður að nýtt fyrirkomulag verði ekki undir ógnarvaldi meirihlutans, heldur fái minnihluti hlutfallslega jafn marga fulltrúa út úr kosningum.

Ég veit að 22 fulltrúar höfuðborgarinnar geta lagt til að Ísland verði eitt kjördæmi, en mig grunar að þeir hafi meiri visku en svo. Til eru aðrar leiðir.

Aðalmarkmið stjórnlagaþings hlýtur að vera að tryggja að kenningar Montesquieu um þrískiptingu ríkisvaldsins nái fram að ganga óheft í Íslandi, og bæta þar með íslenska stjórnskipan.

Svo vill ég benda á að Gunnar Hersvein vantar á stjórnlagaþing - það hefði verið notalegra að hafa vellandi viskubrunn þar innandyra.

föstudagur, 26. nóvember 2010

Er #1295 málið?

Ég man þegar símanúmerið heima var 1295. Síðan hafa þrír stafir bæst framan við.

Ef einhver frambjóðandi á stjórnlagaþing reynist með #1295 - þá hlýtur hann/hún mína kosningu.

Að öðru leyti ætla ég að velja fólk sem ég kannast lítillega við og treysti smá.

Þetta er svokallaðar persónukjörs kosningar. Við komum til með að sjá hvernig þær reynast.

Persónukjör og landið eitt kjördæmi virðist því miður vera sérstakt áhugamál of margra frambjóðenda.

Of fáir virðast því miður hafa áhuga á því hvernig kenningar Montisquieu um þrískiptingu valdsins gætu virkað best í reynd með breyttri stjórnarskrá?

Of fáir virðast velta því fyrir sér hvort við þurfum í alvörunni að hafa fjallkonu (forseta) í fullu starfi með full fríðindi og gríðarhá laun?

Of fáir virðast velta því fyrir sér hvernig megi bæta þjóðþingskosningar og jafna atkvæðamagn allra kjósenda, án þess að fara út í persónukjör?

Jæja annars er allt gott að frétta að austan. Frekar ólíklegt að við munum eiga einn fulltrúa á stjórnlagaþing, vona samt að það komist einn inn....?

laugardagur, 13. nóvember 2010

Í þakkarskuld við Eirík Jónsson

Ég ætla nú ekki að leyfa mér að segja að Eiríkur Jónsson sé vanmetinn blaðamaður.

Allir blaðamenn ná einhvern tímann á lífsleiðinni að láta gott af sér leiða, og gagnast lesendum/áheyrendum sínum með einhverjum hætti. Fyrir mína parta skulda ég Eiríki stórann greiða.

Það var einhverju sinni þegar Eiríkur var með viðtalsþátt á Stöð 2. Þangað komu hinir og þessir og voru yfirheyrðir að hætti Eiríks Jónssonar. Einhverju sinni, þegar þættirnir voru búnir að vera of lengi á dagskrá og greinilega var erfitt að fá viðmælendur í þáttinn, þá fékk Eiríkur í heimsókn einhverja konu. Konan var óþekkt með öllu, en hafði með sér vatnsskál, gillette rakfroðu og gillette raksköfu. Þar kenndi hún réttu handtökin við að raka sig. Og ég unglingur taðskeggjaður, horfði á þátt Eiríks fullur af áhuga, og lærði að raka mig.

Þetta er ritað feitum stöfum á hjarta mitt: ÞAÐ ER EIRÍKI JÓNSSYNI AÐ ÞAKKA AÐ ÉG KANN AÐ RAKA MIG.

Segið svo að Eiríkur Jónsson sé ekki mikilvægur blaðamaður.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Nornameðalabókin

Ó.

Mikið held ég að þeir muni eiga ömurleg jól sem þurfa að eyða orku í að rífa pappír utan af bókinni hennar Jónínu Benediktsdóttur. Þessir punktar úr æviminningum hennar um það hvernig hún kom Hreiðari Má til að vatna músum er einkar athyglisvert, svona meðul eru nornir aðeins ánægðar með að hafa bruggað og gefið, held ég svei mér þá.

Allavega frábið ég mér að handleika bókina, sem virðist vera ein allsherjar drullumalls-stólpípa erfiðrar lífsgöngu.

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Ömmi öskrar af schnilld

Ögmundur fær rúmlega tuttugu prik í kladdann fyrir að tala um hluti sem skipta máli.

Hámarksvextir = 2% á verðtryggð lán = Hallelúja

Auðvitað hlýtur hann að taka málið upp í ríkisstjórn og leggja fram frumvarp á Alþingi, sem að sjálfsögðu ætti að vera meirihluti fyrir ef skoðað er hvað þingmenn hafa sagt um þessi mál.


laugardagur, 6. nóvember 2010

Líklegt til vinsælda e. Hannes Hólmstein

Þetta lag á Youtube eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, í útsetningu Eyþórs Gunnarssonar er hrein og tær snilld - ég kann að hafa hlegið talsvert er ég sá og heyrði.

miðvikudagur, 3. nóvember 2010

Að skrifa "fréttir" með rassgatinu

Rakst á þessu "stórbrotnu" frétt á dv.is.

Fréttin er svohljóðandi: "Knattspyrnustjóri enska knattspyrnuliðsins Stoke, Tony Pulis, segir að það gæti liðið heill mánuður áður en Eiður Smári Guðjohnsen fótboltamaður verður kominn í nógu gott form. Pulis segist undrandi á því hvernig standi á því að Eiður sé í svo lélegu formi.

Pulis segist hafa sagt Eiði frá því að hann væri alltof þungur til að fara að spila í ensku úrvalsdeildinni. Stoke keypti til sín Eið á síðasta degi leikmannakaupa í Bretlandi og gerðu við hann eins árs samning."

Fréttin er einhver sú vinsælasta á fréttavef dv í dag.

Nú langar mig að vita eitthvað sem "blaðamaðurinn" Aðalsteinn Kjartansson getur alls ekki sagt frá í fréttinni. Var Tony Pullis viðmælandi blaðamanns, eða hvar lét hann ummælin falla? Tók Aðalsteinn viðtal við Pullis, eða var hann að lesa erlenda vefsíðu? Hvenær lét viðmælandinn orðin falla? Ef Aðalsteinn starfar sem þýðandi hjá dv.is, væri þá ekki lagi að geta þess hver í raun og veru skrifaði "fréttina" áður en hún var "íslenskuð"?

En líklega var Aðalsteinn að skrifa með rassgatinu, og situr stoltur eftir dagsverkið - hugsar sem svo: "Ég skrifaði eina heitustu frétt á dv.is í dag."

Lambakjöt á fæti

Festi kaup á fjórum lambakjötskrokkum á fæti nýverið. Svosum ekki í frásögur færandi, nema það er "slátrun" á morgun. Hef kynnt mér það helsta sem hafa ber í huga við dýradráp af þessu tagi og þegið góð ráð vinnufélaga míns sem telst vanur í heimaslátrun.

Vona að þetta hafi áhrif til lækkunar neysluvísitölu.

ps. Er að hugsa um að svíða ekki hausana.

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Fégráðugir utanbæjarmenn

Ókei, ég ætla að hætta mér út á hálann ís.

Því miður er ég einn af virkilega fáum sem hef rætt lítillega um gjaldþrot Kaupfélags Héraðsbúa, sem varð á tíma hrunadansins. Kaup félagsins á verktakafyrirtækinu Malarvinnslunni hf. árið 2007 virðist hafa verið lykillinn að falli félagsins sem varð á 99. starfsárinu.

Í mínum heimabæ virðast menn helst telja að fall Kaupfélagsins sé fyrst og fremst Stefáni Stefánssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarstofu Austurlands, um að kenna. Sá mun hafa þegið á þriðja tug milljóna fyrir ráðgjöf sína við fyrrverandi eigendur Malarvinnslunnar, skv. fréttaflutningi, fyrr og nú.

Engum virðist hafa dottið í hug að sala Malarvinnslunnar hafi eitthvað með þá að gera sem báru fé á títtnefndan Stefán. Eða hafi yfir höfuð eitthvað að gera með þá einstaklinga sem töldu að kaup Kaupfélags Héraðsbúa væri nýtt tækifæri fyrir þetta margrómaða samvinnufélag og hlustuðu á drottins orð Stefán Stefánssonar að því er virðist gagnrýnislaust.

Niðurstaða margra íbúa á Fljótsdalshéraði hefur verið sú að fégráðugur utanbæjarmaður hafi gert Kaupfélagið gjaldþrota í siðblindu sinni. Nú er það í mínum augum rétt að Stefán mun vera fégráðugur, líklega ekki siðvandur og utanbæjarmaður. En hann bar hvorki fé á sjálfan sig né tók þær ákvarðanir sem þurfti að taka til að fall Kaupfélagsins liti dagsins ljós - nokkrum mánuðum áður en Jón Kristjánsson gat lokið við meistarasmíðina um 100 ára sögu KHB.

mánudagur, 1. nóvember 2010

Heimssýn bænda

Heimssýn Bændasamtaka Íslands truflar mig talsvert.

Það að Bændasamtök Íslands sjái sér fært að styrkja stjórnmálasamtökin Heimssýn sérstaklega er ákaflega merkileg staðreynd. Sem meðlimur í Bændasamtökum Íslands verð ég að mótmæla því harðlega að fé okkar félagsmanna sé notað í þessum tilgangi.

Ég veit að líklega er meirihluti félagsmanna er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Hvergi hefur þó verið samþykkt af félagsmönnum Bændasamtaka Íslands að styrkja stjórnmálasamtök sérstaklega. Svo veit ég ekki betur en Bændablaðið sé rekið að miklum hluta fyrir ríkisstyrki. Þannig að siðferðilega orkar ákvörðun stjórnenda Bændasamtakanna mjög tvímælis, og vonandi verður þetta pólitíska prump dregið tilbaka.

Króna/EURO