sunnudagur, 31. október 2010

Troðslur framundan?

Það eru ágætis fréttir að nýr ritstjóri hefur verið ráðinn á Eyjuna okkar. Vil ég nota tækifærið og óska Sveini Birki til hamingju með vel stigið skref.

Sveinn Birkir er mér ágætlega kunnur. Hann ólst upp í Fellabæ, sem er hinum megin við Lagarfljótið - frá Egilsstöðum séð og gekk hann meira segja svo langt að vera með mér í bekk.

Í mínum bekk var Sveinn Birkir bestur í körfubolta, og lærði hann m.a. mikið af Ívari Webster í körfuboltanum. Veit að hann mun eiga nokkur góð "slam dunk" á Eyjunni.

fimmtudagur, 28. október 2010

Bingó Gröndal

Það eru litlu hlutirnir sem gleðja mig mest í lífinu. Þegar er lítið að gerast á maður ekki von á miklu.

Skellti mér í sveitabingó ásamt betri helmingnum í félagsheimilinu Iðavöllum í kvöld. Þar var meðal annars í vinning gulrætur, kartöflur, ferð til Færeyja og fleira. Ég hef aldrei verið góður í bingó, en náði þó að styrkja hestamannafélagið Freyfaxa um nokkra túskildinga með þáttöku minni.

Þetta er með skemmtilegri viðburðum sem ég hef komið á, þó fyrirfram hafi ég hiklaust sett hann á Topp 5 hallærislega listann. Hefði gefið talsvert fyrir að hafa vit á að hafa vídjókameru í farteskinu til að mynda "bingóstemmingu" í sveitinni.

Svo át ég fullt af kökum.

fimmtudagur, 21. október 2010

Jafn ómissandi og Eiðfaxi

Hef eilítið leyft öðru eyranu og auganu að fylgjast með fréttum af ársþingi ASÍ.

Gylfi Arnbjörnsson byrjaði þennan dag á Rás 2 í viðtali. Soldið gremjulegt að heyra að Gylfi virðist einungis tala opinberlega fyrir hagsmunum félagsmanna ASÍ á "ársþingsdögum". Aðra daga ársins virðist Gylfi algörlega afslappaður "dúddi", og nokkuð hlutlaus fyrir stöðunni í landsmálunum almennt.

Gleymum því ekki að Gylfi hefur farið fyrir þeim hópi innan ASÍ sem telur það EKKI mikilvægt að koma samfélaginu úr klóm verðtryggingar. Svona rétt eins og hann sé formaður félags erlendra kröfuhafa.

Mér líkar vel við verkalýðsleiðtogann á Akranesi, sem leggur til að Gylfi verði afhuga því að starfa meir fyrir ASÍ, það má reyndar segja - að það væri ekki mikil áhætta fólgin í því fyrir almenning ef Gylfi leggur skóna á hilluna. Hann er í það minnsta jafn ómissandi í mínu lífi og áskrift að Eiðfaxa.

þriðjudagur, 19. október 2010

sunnudagur, 17. október 2010

Bla bla jólakaka

Ég velti því stundum fyrir mér af hverju fólkið hefur misst trú á íslenskum stjórnmálum, og hvernig stjórnmálin eru vanmáttug að horfast í augu við sjálf sig. Stjórnmálin halda daglega áfram að draga úr tiltrú almennings á valdhafar séu viti borið fólk.

Átakafletir í þinginu eru margir. Landsbyggð vs. Höfuðborg - Ögmundararmur vs. ríkisstjórn - Sjálfstæðiflokkur vs. rest - Steingrímur og Jóhanna vs. þingflokkar - JÁkæra vs. Neikæra - Konur vs. karlar - Gamlir þingmenn vs. nýjir þingmenn - Kvótakerfissinnar vs. kvótakerfisandstæðingar - Hörð umhverfisvernd vs. náttúrugáleysi..... og svo mætt lengi telja. Þessir átakafletir skína í gegn.

Stærsta viðvörunin, þegar "trúður" var kjörin borgarstjóri í Reykjavík virðist stjórnmálunum gleymd. Það er eins og stjórnmálin biðji um að vera leyst af hólmi - svona eins og þau segi: "Plís, gerið Gnarr að forsætisráðherra Íslands."

Ég trúi því að Alþingi Íslendinga sé og verði jafn vanhæft til að fjalla um og kjósa um tillögur stjórnlagaþings til breytinga á stjórnarskránni og það hefur verið undanfarin misseri. Allir þeir prófsteinar sem lagðir hafa verið fyrir núverandi alþingi hafa brotnað í höndum þingmanna. Nánast allir hornsteinar Alþingishússins liggja sem brotnir prófsteinar.

fimmtudagur, 14. október 2010

Saarí-inn sem forseta ASÍ

Velti stundum fyrir mér af hvort þessum gæja sé meira umhugað um alþýðuna eða fé alþýðunnar. Eða er bara búið að gelda hann? Af hverju er hann svo linur? Ætli ASÍ sé verndaður vinnustaður staðnaðs háskólafólks?

Þar sem Gylfi er annars vegar - er ekkert fé án hirðis, aðeins alþýða án hirðis.

Myndi styðja byltingu innan ASÍ, gæti trúað því að þetta fólk gæti orðið partur af slíkri byltingu.

Myndi styðja það sérstaklega að Þór Saari yrði næsti forseti ASÍ - samfara þingmennsku. Hann er þó með munn fyrir neðan nefið og algjörlega ógeltur.

(æj sorrí gleymdi að í ASÍ er ekki hægt að gera byltingu sökum þess að verkalýðshreyfingin í heild hugsar meir um orlofshúsaleigu en kaup og kjör)

fimmtudagur, 7. október 2010

Vegagerðin skaðabótaskyld?

Ég er sjálfmiðaður bastarður. Þ.e. mið margt út frá sjálfum mér og hvað ég geri.

Fór til höfuðborgar Íslands í þessari viku til að vera viðstaddur jarðarför.

Og þar sem ÉG var að keyra fór ég að hugsa um umferðaröryggi og umferð yfir höfuð. Aðallega um hve langt Austurland er á eftir í umferðaröryggi sérstaklega hvað varðar vegmerkingar, einbreiðar brýr, vegrið og fleira. Sérlega á þeim hættulegu fjallvegum sem tengja byggðir Austurlands saman. Eftir að hafa keyrt nýjan kafla Skagafjarðarmegin Öxnadalsheiðar varð mér ljóst að bæta má umferðaröryggi mikið á Austurlandi með tiltölulega litlum tilkostnaði.

1. Vegstikur á 25 metra millibili á heiðum í stað 50 metra millibils myndi fækka þeim er "ráða" ekki við akstur í lélegu skyggni um meir en helming. Þegar slys verða á Austurlandi kenna eldri menn því um að ökumaðurinn hafi ekki verið nægilega reyndur og afslappaður í lélegu skyggni. Það er reyndar ekki rétt, mestur partur af útafakstri á vegum á Austurlandi á sér stað þegar sést ekki milli vegstika (eða illa) vegna skafrennings, kófs eða þoku. Þessum slysum mætti því fækka með styttra bili milli stika. 50 metra millibil milli stika á heiðum er það sama og á söndunum á Suðurlandi þar sem skyggni er yfirleitt um 3-5 kílómetrar.

2. Vegrið eru nú sett víða þar sem hátt er fram af vegum. Á Austurlandi þarf fallhæð oft að vera meir en 100 metrar, að mestu frjálst, til að vegrið þyki nauðsyn. Frjálst fall virðist á mörgum stöðum ekki nægjanleg ástæða fyrir vegriðum. Alvarlegum slysum má því nánast útrýma með u.þ.b. 1000% aukningu á vegriðum á heiðum Austurlands - ódýr og hagkvæm aðgerð. Sem mátti ráðast í meðan stærri fjárveitingar eru ekki sýnilegar fjósbitanum.

3. Hreinsa mætti vegstikur með reglulegri hætti á Austurlandi til að endurskin sjáist betur. Þar sem þau eru léleg væri ráð að líma nýtt endurskinsmerki á. Hver límmiði ætti ekki að kosta meir en nokkra tugi króna.

4. Til að auka umferðaröryggi og fækka óþarfa útköllum björgunarsveita mætti þjóðvegur 1 liggja um Suðurfirði.

Að lokum verð ég að segja að við útafakstur á heiðum á Austurlandi þá er nánast hægt að fullyrða að Vegagerðin sé skaðabótaskyld vegna lélegra öryggismerkinga og fallvarnarbúnaðar. Hugsanlegt er að tryggingafélög og ökumenn eigi bótarétt á hendur Vegagerðinni sem hefði getað komið í veg fyrir slys með betri merkingum - merkingum sem þeir telja nauðsynlegar á sambærilegum eða auðveldari vegköflum.

mánudagur, 4. október 2010

Þorpsfífl spáir í mótmæli

Hvað myndi ég gera sem mótmælandi? Mig hefur oft langað til að mótmæla fyrir utan Alþingishúsið. Ég er þyrstur í að mótmæla. En ég bý í sveit um það bil 700 kílómetra frá Alþingishúsinu og er frekar bitlaus þaðan. Að fljúga til Reykjavíkur kostar mig reyndar 1,8 sinnum meir en Reykvíking að ferðast til borgar í Amríku - en það er reyndar önnur saga, algjör útúrdúr.

Oft hefur mér verið hugsað ef ég væri staddur á sunnan heiða þá myndi ég sko fá lánaðan 12.000 lítra mykjudreifara og keyra úr honum á Alþingishúsis til að auka grósku í huga þingmanna. Allar hugmyndir sem ég fæ eru alltof stórar og ganga of langt - og sennilega ekki fyrir svo huglausann mann sem mig.

Síðustu mótmæli sem ég tók þátt í voru á Egilsstöðum í janúar 2009. Þá mættu sjö manns og kveiktu í europallettu. Nokkur hundruð manns keyrðu framhjá til að athuga hverjir þessir sjö væru. Þrír lögreglumenn sáu um að halda skikki á mótmælendum. Þetta var rétt við Landsbankann á Egilsstöðum. Þetta kvöld hverfur mér seint úr huga, aðallega fyrir hversu mér þótti það misheppnað. Mér leið eins og þorpsfífli á eftir, frekar en öflugum mótmælanda

Jóhann ef bara væri 2005.....


"Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar, sem flutt er af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, um að fram fari heildarendurskoðun á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð."

"Flutningsmenn telja einnig að rétt sé að kanna hvort ekki væri eðlilegt að tryggja betur rétt minni hlutans á þingi til málshöfðunar. Ástæða þess er einkum sú hefð sem hér er fyrir meirihlutastjórnum og því nauðsynlegt að réttur minni hlutans verði betur tryggður. Það styrkir lýðræðið og veitir um leið stjórnarmeirihlutanum hverju sinni meira aðhald."

"Má t.d. benda á að í Danmörku geta ráðherrar orðið ábyrgir vegna athafna undirmanna á grundvelli skorts á eftirliti og leiðbeinandi fyrirmælum."

"Ljóst er að æðstu embættismenn framkvæmdarvaldsins fara með vandmeðfarið vald og nauðsynlegt er að samhliða slíku valdi fari rík ábyrgð, enda bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt lögunum og stjórnarskrá. Því er nauðsynlegt að styrkja lög um ráðherraábyrgð og veita með því ráðherrum nauðsynlegt aðhald,"


Króna/EURO