föstudagur, 25. júní 2010

meninga peninga

Málið hefur einfaldast fyrir mér í kjölfar yfirlýsinga vegna nýfallins hæstaréttardóms um gengistryggð lán.

Íslenskir þjóðfélagsþegnar áttu að greiða fyrir fall bankanna og endurreisn þeirra með ósanngjörnum og ólöglegum lánakjörum.

Peningarnar sem taldir voru í bílalánum eru nú í "money heaven". Já og viðskiptaráðherra reynir að vekja þá upp frá dauðum.

sunnudagur, 20. júní 2010

Jaliesky Garcia Padron

Ég horfi á valda leiki í heimsmeistarkeppni Karla í knattspyrnu. Frekar skemmtilegt sport verð ég að segja.

Er frekar velviljaður Argentínu, Þýskalandi og Englandi.

Argentínu vegna þess að þeir spila frábæran fótbolta.

Þýskalandi, jú af því betri helmingur kemur þaðan - og jú svo er ég af þýskum ættum.

Englandi, ég veit ekki hvers vegna - en líklega held ég mest með þeim. Þekki nöfn flestra í liðinu og ákaflega þægilegt að halda með þeim.

Eitt er þó ljóst, að horfa uppá Emilie Heskey í ensku landsliði er líkt og var að horfa upp á Jaliesky Garcia Padron spila með íslenska handboltalandsliðinu - þ.e. ákaflega og sérstaklega pirrandi.

laugardagur, 19. júní 2010

Bla bla jólakaka

Össur Skarphéðinsson staðfestir ráðaleysi og þau djúpu hjólför ríkisstjórnarinnar sem illmögulegt virðist að komast upp úr. Með hugmynd sinni um þjóðstjórn veit hann sem er, að mögulega getur hann orðið leiðtogi slíkrar ríkisstjórnar. Hugmyndin virkar góð við fyrstu hlustun - jákvæðni var það fyrsta sem kom upp í huga mér.

Í framhaldinu hitti Ögmundur Jónasson svo sannarlega naglann á höfuðið í viðtali við mbl.is segir hann m.a.:
„Í stuttu máli hef ég ekki sannfæringu fyrir því að við náum betur saman um að tryggja betur almannaeign á auðlindum, að stokka upp fiskveiðistjórnunarkerfið og tryggja opinbert eignarhald á orkuauðlindum með aðkomu fleiri flokka að ríkisstjórn. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því.“

Ansi rökgóð hugsun hjá Ögmundi. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur munu ekki taka þátt í dreifingu ættjarðarauðlinda á fleiri hendur.

Eftir stendur að hvorugt líst mér á, þ.e. áframhaldandi hjólfarahjakk ríkisstjórnarinnar eða þjóðstjórn með vísan í orð Ögmundar.

Ef til vill eru kosningar með haustinu snjöll leið til að fá fram þjóðarvilja. Á sama tímapunkti væri hægt að framkvæma hliðarkosningar um fulltrúa á stjórnlagaþing.

Áhættan er vissulega sú fyrir alla flokka að ef þjóðstjórn er ekki leiðin, og ef ríkisstjórnin fer ekki í massíva endurskoðun á aðgerðaplani sínu og eftirfylgni stefnumála, þá verði kosningar til þess að kraftur fjórflokksins þverri um sinn. Pólitísk staða gæti orðið sú að loknum kosningum að VG tapi talsverðu fylgi, enda gangi þeir klofnir og ósamstíga til kosninga eftir erfitt ríkisstjórnarsamstarf og blóðug prófkjör. Að Samfylking tapi út á ódrýgðar gjörðir sínar til handa almenningi og jöfnuði í landinu og skort á forystu. Að Sjálfstæðisflokkur standi brauðfótum með meinta höfuðpaura spilltra prófkjörsmála enn í forgrunni. Að Framsóknarflokkurinn standi uppi laskaður með allnokkra landsbyggðarþingmenn og engann í Reykjavík. Að óþekkt ókomið afl eigi auðvelt með að eigna sér 20-30% atkvæða í alþingiskosningum.

Hversu mikið sem ég velti stjórnarmunstrum fyrir mér, kemst ég alltaf að þeirri niðurstöðu að kosningar innan skamms tíma er ágætis lausn fyrir íslenska þjóð.

föstudagur, 18. júní 2010

Grillað í kvöld


Mikið óskaplega er búið að vera heitt og notalegt í garðinum í dag. 21 gráða þykir mér sallafínt. Hrossin tvö sem kvenpeningurinn er búin að setja í garðinn sem lífræna sláttuvél eru líka afar heimilisleg.



Í kvöld ætla ég að grilla - þótt ekkert hafi ég grætt í dag.

miðvikudagur, 16. júní 2010

Ýkt er drama Ómars

Hér er um að ræða áhugaverða ábendingu frá Ómari Ragnarssyni fyrrverandi rallý-ökumanni. Var einmitt nú rétt nýverið á þessum slóðum og veitti leirfokinu við Kárahnjúka athygli, eins og örugglega allir þeir er koma á þessar slóðir. Ég einmitt tók líka ljósmyndir af ástandinu.

Ómar ef til vill ræðir ekki málið útfrá víðu sjónarhorni - heldur útfrá sjónarhorni fanatíkusins. Að vera fanatíkus á mannvirki og framleiðslu hlýtur að vera langþreytt líf til lengdar.

Ómar sleppir mikilvægum staðreyndum og afleiðum:

- Lónið er í sögulegu lágmarki á þessum árstíma.
- Því nær það yfir óvenjulega lítið landssvæði núna.
- Þess vegna liggur leir yfir miklu landssvæði, sem venjulega er þakið vatni, meirihluta árs.
- Það hefur rignt eina klst. á þessu svæði í júní.
- Sögulega miklir þurrkar mega því teljast á svæðinu, og júní yfirleitt blautur mánuður.
- Þurrkar auka leirfok.
- Það rignir í dag.
- Leir fýkur ekki næstu vikur.
- Lónið verður fullt í ágúst.
- Meira leirfok verður því að öllum líkindum ekki á þessu ári.

Að auki má til gamans geta þess að lítið mál var að keyra umhverfis lónið núna, þrátt fyrir aðeins slælegra útsýni vegna TÍMABUNDINS leirfoks.

Því verður að segjast eins og er að fyrrverandi rallý-ökuþórnum, flugkappanum sem flaug um jökulsárgljúfur og bátsmanninum við Kárahnjúka er farið að förlast á efri árum - geti hann ekki keyrt innan um leirfjúk sem lítur illa út á myndum. Ýkt er drama Ómars - þetta vissulega hafi mátt sjást leirfjúki bregða fyrir.

Té beinið kom sterkt inn


Mikið er ég stoltur af að segja frá því að besti veitingastaður á Austurlandi er á Egilsstöðum.


Lenti í því að klára mig af með grillaðan skötusel og T-bone steik af búinu á Gistihúsinu Egilsstöðum. Verð einfaldlega að segja frá því hvernig bragðlaukarnir kiknuðu í hnjánum. Skemmtilegt að geta farið með góðu fólki á einn af betri veitingastöðum landsins í eigin heimabæ. Já og síðri máltíðir hafa rifið harðar í veskið.


miðvikudagur, 9. júní 2010

ó mæ god

Eitt napurlegasta sjónvarpsefni sem hægt er að komast í tæri við er:

Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður, ræðir við Óla Björn Kárason, alþingismann á ÍNN.

Ofurkapítalísk ógnarstjórn

Opinberar framkvæmdir fjármagnaðar af öðrum en ríkinu eru næsta þjóðarböl sem kallað skal yfir íslenska þjóð. Fréttir af fjármögnun íslenskra lífeyrissjóða á framkvæmdum í vegakerfinu eru dapurlegar.

Hvar verða mörkin dregin í framhaldinu? Verða vegir aðeins byggðir þar sem umferð er nægjanlega mikil til þess að vegatollar standi undir raunvaxtakröfu lánadrottna? Verður þá að leggja sérstaka vegtolla á alla vegi? Ekki getur það talist jafnrétti að sumum íbúum sé gert að greiða vegtolla á nauðsynlegum ferðum sínum um land sitt, meðan aðrir íbúar þurfa ekki að greiða slíka skatta þar eð þeir eru öðruvísi í sveit settir.

Hvernig skal byggja upp nýja vegi á landsbyggðinni og innheimta ekki vegatolla? Hvers konar flækju er verið að búa til? Uppsprettu hápólitískra deilna um ókomin ár. Hingað til hefur verið almenn sátt um að ríkið innheimti skatta og framkvæmi fyrir þá.

Er Norræna leiðin virkilega sú að ríkissjóður dragi sér nánast allt skattfé til vaxtaafborgana af lánum frá AGS og að komandi kynslóðir verði vaxtaþrælar eigin lífeyrissjóða í gegnum vegatolla og sjúkrahúsbyggingar lífeyrissjóðanna?

Er Norræna stjórnin í raun ofurkapítalísk ógnarstjórn? Verndari hægri stefnunnar?

mánudagur, 7. júní 2010

Pólitísk bangsapressa

Hef ekki upplifað mikla pólitíska pressu á Jón Gnarr borgarstjóra í Reykjavík, fram að þessu.

Er þó að finna fyrir síaukinni pressu á meistara Gnarr með hverjum deginum. Sjö ára sonur minn bíður óþolinmóður eftir ísbirninum. Hann segir: "En Jón Narrrr, sagði að þegar hann er borgarstjóri kemur ísbjörn." og svo segir hann: "Viltu koma með mér að sjá ísbjörninn þegar hann kemur?"

Verður maður ekki að segja já?

Ég geri ráð fyrir að fleiri börn í Reykjavík bíði óþreyjufull eftir bangsanum sem var lofað. Ef þú lofar barni bangsa, þá skal það fá bangsa.

Króna/EURO