sunnudagur, 25. apríl 2010

Draumfarir

Ítrekað dreymir mig sama drauminn.

Að ég hlaupi um, afskaplega léttur á fæti. Einhvernveginn valhoppandi. Hvert skref er ákaflega létt, og ég svíf svona 10-30 metra í hverju skrefi.

Ég hef sagt frá draumförum mínum, og er ekki einn um að hafa dreymt þetta.

Hvað þýðir þetta eiginlega?

laugardagur, 24. apríl 2010

Tapað á daginn og grátið á kvöldin

Staldraði við þessa frétt á DV.is sem gengur stærðfræðilega ekki upp, gefi maður sér hversdagslegar forsendur. - Hverjum sem þar er um að kenna, viðmælandanum eða fréttaskrifaranum.

Hvernig er hægt að vera með tvær stúlkur í vinnu og tapa hálfri milljón á dag? :) Hlýtur að greiða hátt kaup þessi ungi athafnamaður.....

miðvikudagur, 21. apríl 2010

Einn að pæla

Líklega væri rétt að breyta kjördæmaskipan Íslands. Einmenningskjördæmi með jafnt atkvæðavægi er eitt af því sem gott væri að skoða. Einnig þarf að leggja niður forsetaembættið og kjósa forsætisráðherra sérstaklega. Gætum stofnað til kosningar Fjallkonu Íslands ef við þurfum sérstakt sameiningartákn – þó er líklegt að þjóðfáninn, hafið, náttúran og tungumálið sé nægjanlega sameiginlegt og táknrænt fyrir Íslendinga.

Útkoman væri sjálfstæð hugsun meðal þingmanna. Áhrif fjórflokksins myndu dvína og jafnvel hverfa. Alþingi tæki sér sterkari stöðu sem löggjafarsamkoma. Gerræðisvald formanna ríkisstjórnarflokka yrði úr sögunni.

Þingmaður er hefur sigur í einmenningskjördæmi hefur nálægari kjósendur á bak við sig. Kjósendur fylgjast betur með sínum þingmanni, úr sínu hverfi eða kaupstað. Fyrir gjörðir sínar þarf hann að svara, með mun ærlegri hætti í einmenningskjördæmi. Ólíklegra er að þingmaður úr einmenningskjördæmi fari gegn vilja fólksins í þágu flokks eða þrengri hagsmuna. Með einmenningskjördæmi verða þingmenn sjálfstæðari og þurfa að standa í lappirnar vegna vökulli augna kjósenda. Flokkslínur verða óskýrari. Grundvallarhugmyndir og hugsjónir félagshyggju vs frjálshyggju, alþjóðahyggju vs þjóðernishyggju, byggð vs borg, o.s.fr.v. myndu þó standa óhaggaðar. Hægrið og Vinstrið stæðu óhögguð – öfgalausari.

Eða viljum við afhenda næstu kynslóðum alþingið, framkvæmdavaldið og fjórflokkinn eins það lítur út í dag?
_____________________________

ÓRGrímsson segir það óábyrgt að gera lítið úr yfirvofandi VÁ sem Kötlugos er. Enn óábyrgara þykir mér að tíunda og undirstrika VÁ sem ekki er vitað hvort er til staðar.

Jafna:
Bandaríkjastjórn gæti grandað N-Koreu með kjarnorkuflaug = Katla gæti gosið á næstu dögum.

____________________________

Það þykir ekki fínt lengur að mótmæla fyrir utan heimili, eftir að Steinunn Valdís lenti í slíku.

fimmtudagur, 15. apríl 2010

Þjóðar-ó-sáttin

Sú frétt er athyglisverð að Björgvin G. Sigurðsson ætli að víkja tímabundið af þingi. Athyglisvert er að það skuli aðeins vera tímabundið! Í kjölfar hans mega fylgja:

Össur samherji Björgvins sem leyndi hann upplýsingum og kom í veg fyrir að hann gæti rækt skyldur sínar.
Árni Johnsen, dæmdur þjófur.
Bjarni Benediktsson, einn af viðskiptamönnunum með skerta siðferðisgreind.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrir tengsl sín við "Sjö hægri".

Í þeirra kjölfar mega fleiri víkja.

Svo má hefjast vinna við að leggja niður forsetaembættið og að kippa fótum undan fjórflokknum með breyttri kosningalögggjöf og kjördæmaskipan. Endurskoðun stjórnarskránnar þolir ekki öllu meiri bið. Strax má fela fjármálaeftirlitinu að útbúa lista yfir "óvini ríksins", sem eiga þess ekki kost að eiga í stórfelldum viðskiptum við fjármálafyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með.

Þaðan má stefna í þá átt að afnema verðtryggingu og koma eignarhaldi á fiskveiðiheimildum til ríkisins. En um þessi tvö mál er sérstök "þjóðarósátt" um.

miðvikudagur, 14. apríl 2010

Erum við apar?

Við erum á Íslandi – og erum Íslendingar. Vinnusöm og veiklunduð.

Ógengin í gegnum talsverða sjálfskapaða kreppu göngum við nú til verks og bendum hvert á annað – og segjum: “Nei, þú.”, “Það var hann.”, “Það var hún.” Góðu fréttirnar eru að það er rétt – það varst þú, það var hann og það var hún.

Við vitum í raun ekkert hvað gerðist í smáatriðum. Við höfum jú nú á mánudagsmorgun fengið að vita í smáatriðum hvað sumhver sagði og gerði, eða gerði ekki. Við vitum hins vegar ekki hvernig við urðum svona heimsk – við Íslendingar.

Hvar lærðum við að vera svona andskoti heimsk og gagnrýnislaus?

Hnignun íslensks samfélags er líklega rótin að þeim vanda sem við glímum við í dag. Við erum á byrjunarreit, eftir fall Babýlon. Stjórnmál og viðskipti eru talin vera okkur veikustu hlekkir. En líklega er þó réttast að siðferði okkar og skortur á réttsýni er okkar veikasti hlekkur. Það er hlekkurinn sem skilur milli manna og dýra – hlekkurinn milli manns og apa er týndur á Íslandi. Það hefur fyrir löngu gerst.

Verkefnið sem framundan er, er ansi stórt. Að tryggja að ekkert þessu líkt gerist aftur meðan nokkurt okkar lifir.

Við þurfum að kenna börnum okkar réttsýni, heiðarleika, gagnrýni og öguð vinnubrögð, byggð á rökum en ekki tilfinningum. En hvernig er hægt að framselja það sem við höfum ekki öðlast sjálf?

Jú temjum okkur réttsýni, heiðarleika, gagnrýni og öguð vinnubrögð svo við megum framselja kynslóðum þeim er takast á við arfleifð okkar.

Króna/EURO