fimmtudagur, 26. mars 2009

Fyrir kosningar 2007

Við erum fjölmargir eftiráspekingarnir í þessu landi. Stundum kemur mér samt á óvart hversu vel er hægt að hitta naglann á höfuðið fyrirfram. Rakst á þennan stutta pistil fyrir tilviljun, sem ég skrifaði í Austurlandið fyrir kosningarnar 2007:

27. apríl 2007.

Hvaða flokkur vill afnám verðtryggingar?
Undanfarið hafa farið fram umræður stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar. Málefni eins og umhverfisvernd, staða eldri borgara og öryrkja og velferðarkerfið í heild hafa borið hæst og í raun haft höfuð og herðar yfir önnur mál - eins og þetta séu aðalmálin. Rétt er að þessi mál hafa verið aðalmálin í umræðunni undanfarið kjörtímabil og hafa umhverfisverndarsinnar haft drjúgan tíma fjölmiðla til að kynna sína stefnu hvað eftir annað allt kjörtímabilið, og hafa græningjar haft áhrif til góðs fyrir umhverfið. Auk þess liggur ljóst fyrir að ákveðnar úrbætur standa fyrir dyrum gagnvart eldri borgurum.

Pláss fyrir alvöru kosningamál
Þess vegna vonaðist ég til þess að ný mál yrðu sett á oddinn í kosningunum. Ríkisstjórnarflokkarnir keppast hins vegar við að verja gjörðir sínar undanfarið kjörtímabil, og stjórnarandstaðan hamrar á umhverfismálum sem og einstökum velferðarmálum. Það er mér óskiljanlegt að enginn flokkur geri afnám verðtryggingarinnar að sínu kosningamáli, mál sem hinn almenni neytandi myndi styðja alla leið og gefa atkvæði sitt fyrir. Sá flokkur sem stígur fram fyrstur og lýsir yfir afnámi verðtryggingar myndi að mínu mati ná atkvæðum almennings.
Af hverju skildum við afnema verðtrygginguna?

Afnám verðtryggingar er lykilatriði til þess að hagstjórn litla Íslands komist í réttar skorður. Verðtryggingin baktryggir fjármálstofnanir á borð við Glitni, Kaupthing, Landsbankann, Íbúðalánasjóð og aðrar lánastofnanir á þann hátt að höfuðstóll útlána hækkar alltaf í takt við neysluvísitöluna. Þessi fyrirtæki og stofnanir eru þannig orðin ábyrgðarlaus í efnahagslífinu og þurfa ekki að haga útlánum og fjárfestingum af skynsemi - heldur geta þau hagað sér eins fíflalega og kostur er, og samt haldið áfram að skila methagnaði. Þau útlán sem ekki eru verðtryggð skipta engu máli, því Seðlabankastjóri vor sér um að verðtryggja þau með stöðugri hækkun vaxta á verðbólgutímum. Þeir aðilar sem höndla með meirihluta fjármagns í efnahagskerfinu eru því ábyrgðarlausir með öllu og almenningur borgar brúsann með verðtryggðum lánum og okurvöxtum.

Afnám verðtryggingarinnar ætti því að vera stærsta kosningamál kosningana og myndi stuðla að hvað mestri hagsæld fyrir allan almenning í landinu.

miðvikudagur, 25. mars 2009

Bird whisper

Lítill fugl hvíslaði því að mér að stýrivextir verði lækkaðir um 5% á föstudag.

þriðjudagur, 24. mars 2009

Verðhjöðnunartímabil hafið

Vísitala neysluverð´s fyrir janúarmánuð var 334,8. Fyrir febrúarmánuð var vísitalan 336,5 stig og fyrir marsmánuð 334,5 stig.

Þetta er mikilvæg staðreynd, ennþá hefur ekki mælst verðbólga á þessu ári. Verðhjöðnunarskeið er hafið. Niðurstaðan er hins vegar kynnt á þann veg að verðbólga sé 15%, sem er alveg rétt sé miðað við síðustu tólf mánuði.

Það er einhver fáránlegasta staðreynd í hagstjórnun heimsins að á verðhjöðnunarskeiði hafi verið ákveðið að lækka hæstu stýrivexti heims á Íslandi um 1%. Sé miðað við yfirlýsingar ráðamanna að lækka stýrivexti ört í lægri þrepum - þá ætti að vera ástæða til að lækka um annað prósentustig á morgun, og svo næst á föstudaginn.

mbk
Einar

föstudagur, 20. mars 2009

Að ráðstafa öllu, og eignast ekkert

Þessi frétt um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar kemur mér alls ekkert á óvart. Í fréttinni kemur reyndar ekki fram að sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð eru einnig ofurseld fasteignafélaginu Fasteign ehf. og teljast þar góðir og gildir hluthafar.

Þessi sveitarfélög hafa selt sé þá hugmynd að skuldastaða líti mun betur út með leigusamningum við Fasteign, en hafa ráðstafað stórum hluta af rekstrarreikningum sínum í að greiða leigu út fyrirfram ákveðinn leigutíma.

Ég hef verið talsmaður þess að sveitarfélagið Fljótsdalshérað stígi fast til jarðar og reyni að losa sig við hlutafé sitt í félaginu Fasteign ehf. og leysi til sín leikskóla, grunnskóla og knattspyrnuvelli, og eigi þannig og reki sínar fasteignir án þess að þriðji aðili þurfi að koma þar að málum.

Enginn bæjarfulltrúi í sveitarfélaginu, hvorki í meiri- né minnihluta hefur gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur innleitt í starsemi hins opinbera. Enginn hefur getað útskýrt fyrir mér í hverju hagkvæmnin liggur. Þ.e.a.s. að sveitarfélagið ráðstafi rektstrarfé árafjöld fram í tímann í langtímaleigusamninga og eignist aldrei nokkurn skapaðan hlut. Hver er hagkæmnin í því? Er það ekki fjárbinding?

miðvikudagur, 18. mars 2009

Afskrifum 23-26,5%

Hef fylgst þokkalega með umræðum svokallaða "20% niðurfellingu húsnæðisskulda" og litist ágætlega á. Ég er svo fylgjandi henni að þverpólitísk samstaða um lausnina væri mér alls ekki á móti skapi. Umræðan hefur þó þróast í skoplega átt. Á kaffistofum þeim sem ég sæki er helst rætt um hvort Tryggvi Þór Herbertsson sé að eigna sér hugmyndir Framsóknarflokksins. Það fór til að mynda í taugarnar á sumum í morgun að Fréttablaðið skyldi fjalla um á forsíðu að "Tryggvi Þór Herbertsson og Framsóknarflokkurinn." hafi kynnt hugmyndir um 20% leiðina.

Málið snýst þó ekki um einkaleyfisrétt á hugmyndinni, heldur pólitískar aðferðir við að stuðla að skárri efnahag heimilana í landinu. Að mínu viti ætti þetta því í raun alls ekki að vera þrætueplið, hver fékk hugmyndina eða hverjir tali fyrir henni.

Ég hefði frekar viljað ræða hvort sé ekki ástæða til að hækka hlutfallið í 23-26,5%. 20 prósentin eru heldur lág fyrir minn smekk.

Helstu athugasemdir hagfræðinga lúta að réttlæti hugsanlegrar flatrar afskriftar. Þeir segja hugmyndina geta kostað ríkið mikið og gæti verið óréttlát. Hlutverk hagfræðinga er hins vegar ekki að fjalla um réttlæti, það er hlutverk stjórnmálamanna. Réttlæti er í rauninni afstætt og ekki sérstaklega kennt í hagfræðigreinum. Hlutverk hagfræðinga er að meta fræðilega áhrif aðferða og ákvarðana á hagkerfið í heild. Fræðilega hefur hugmyndin um "tuttugu prósentin" því ekki verið hrakin. Það er því hlutverk kjósenda og stjórnmálamanna í kosingunum í vor, að meta hvað þykir réttlátt og hvað þykir ranglátt. Hugur margra hagfræðinga gæti því túlkast ranglátur, ef horft er í það að þeir meta réttlæti ríkiskassans hærra en réttlæti fjölskyldubókhaldsins. Þannig tel ég mig hafa fært þokkaleg rök fyrir því að hagfræðingar eigi alls ekki að taka þátt í pólitískri umræðu heldur halda sig við fræðilegar skruddur sem tengjast faginu.

Augljóslega hefðu afskriftirnar jákvæð áhrif á hagkerfið í heild, og býð ég eftir fræðilegum niðurstöðum hagfræðinga ASÍ og atvinnulífsins, sem hafa hingað til verið sérstaklega viljugir að skrifa tíma á útreikninga sína vegna hagfræðilegra úttekta við inngöngu í Evrópusambandið. Nú gæti alþýðuhreyfingin t.a.m. haft tækifæri til að reikna eitthvað út, sem virkilega skiptir máli, í nánustu framtíð.

fimmtudagur, 12. mars 2009

Hrædd?

Er þessi Þórunn Sveinbjarnar orðin hrædd í slagnum? Finnst henni rétt að minnast á hugsanlegar ástæður tapsins fyrirfram?

Læsilegur spjótkastari

Upp hefur komið ágætis umræða um símreikninga. Sigmar nokkur Vilhjálmsson, spjótkastari, fjölmiðlamaður og markaðsstjóri Tals hefur skrifað þónokkuð læsilega grein í Morgunblaðið um verðlag á símaþjónustu.

Ég þekki málið ekki vel og tala yfirleitt ekki mjög lengi í síma, nema við sálufélaga mína. Símreikningurinn minn er því líklegast undir meðallagi um hver mánaðamót. Ég veit hins vegar að GSM sími, ADSL tenging og heimasimi telur talsvert í heimilisbókhaldinu og reyndar óhuggulega mikið.

Bara þess vegna er fáránlegt að TEYMI sé heimilt að eiga tvö símafélög að meirihluta með góða markaðshlutdeild. Það er TAL og Vodafon. Hvað heimska er það? Hvers lags fávitar erum við? Hvaða samkeppniseftirlit í heiminum, utan það íslenska skildi leyfa þetta fyrirkomulag? Hvaða upplýsingar fær Vodafone frá Tali? Og hvaða upplýsingar fær Tal frá Vodafone? Hvurnig í déskotanum á ég að geta treyst þessu TEYMI?

Svo get ég skipt við NOVA sem Björgúlfur á eða við SÍMANN sem Bakkabræður eiga! Það er verið að þrykkja mig í óæðri í hvert einasta sinn sem ég hringi í einhvern - eða einhver hringir í mig. Það er óframkvæmanlegt að hringja á íslenskri grundu án þess að lenda í viðskiptum við BjörgÚlfinn, JónÁsgeirinn eða Lýðinn. Þetta er hægt að kalla lélegan status á viðskiptalegri stöðu minni í símabransanum.

Ég hef þess vegna ákveðið að tala minna í farsíma, tala hraðar og tala meir um meginatriði en aukaatriði. Það gæti sparað mér nokkra tugþúsundi á ársbasis og meiri árangri. Ég prófa að byrja þarna.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Chilltime

* Þrátt fyrir að vera ekki frambjóðandi í prófkjöri ætla ég að rita nokkur orð.

Hér á Austurlandi snjóar talsvert. Snjókorn eftir snjókorn svífur saklaust til jarðar. Snjótittlingarnir sveima um í leit að æti. Traktorsgröfur skrapa kantsteina í eltingaleik við snjó sem gæti lokað götum. Héraðsdómur iðar af lífi og nærist á gjaldþrotabeiðnum og innheimtukröfum. Iðnaðarmenn frá Reykjavík éta lambakjöt í söluskálanum. Iðnaðarmenn frá Póllandi éta jógúrt í kaffiskúrnum. Vegheflar, beltagröfur og vörubílar standa í snyrtilegri röð merktir Lýsingu. Og fleiri og fleiri vita hvað það er að "chilla".

mánudagur, 9. mars 2009

Sjalla-prófkjör Norðaustur

* Þrátt fyrir að vera ekki frambjóðandi í prófkjöri ætla ég rita hér nokkra línur:

Þessa dagana eru ýmsir að spá í prófkjör X-D í Norðausturkjördæmi. Síðasta könnun gefur reyndar til kynna að Sjallar eigi sem stendur aðeins einn þingmann vísan í kjördæminu og því mikilvægt fyrir þá að stilla upp "trúverðugum" lista - hvað sem það nú þýðir.

Nokkuð öruggt má telja að Kristján Þór Júlíusson haldi áfram að verma fyrsta sæti listans, þótt hann verði ef til vill ekki lengur fyrsti þingmaður Austurlands. Um annað sætið er þó erfiðara að spá. Þar þykir Tryggvi Þór Herbertsson alls ekki svo slappur en um það sæti heyir hann baráttu við Arnbjörgu Sveinsdóttur þingflokksformann og einnig Soffíu Lárusdóttur forseta bæjarstjórnar á Héraði.

Almennt telja sveitungar mínir að ABBA sé dottinn úr tísku, og jafnvel megi hún teljast heppin ef hún fær ekki sömu útreið og Einar Már Sigurðarson fékk í Samfó prófkjörinu, sem var vægast sagt harkaleg lending fyrir sitjandi þingmann. Nokkuð viðbúið er að Héraðsbúar muni fylkja sér á bakvið sína konu, en frekar ólíklegt verður að teljast að hún sé svo sköruglegur frambjóðandi að hún nái ofar en í 3. sæti í baráttu við Tryggva sem Fjarðamenn segja mér að eigi atkvæðamagn jafnt úr Fjarðabyggð sem Norðurlandi.

Spá mín verður því að vera þessi:

1. Kristján Þór Júlíusson - verður alþingismaður
2. Tryggvi Þór Herbertsson - verður alþingismaður
3. Soffía Lárusdóttir - verður varaþingmaður

Lengri verður spáin ekki að þessu sinni. Og auðvitað verð ég leiðréttur ef hallað er á einhvern frambjóðanda sem ekki er fjallað um hér.

Sko.....

Sko.

Eftir að hafa fylgst ágætlega með "þróun" stjórnmálanna á Íslandi undanfarna mánuði hef ég ákveðnar efasemdir um að nokkur stjórnmálahreyfing muni njóta nokkurs trausts eftir kosningar.

Því miður er það svo að öllum stjórnmálaflokkum er að mistakast sú endurnýjun sem þeim var falið framkvæma í kjölfar falls ríkisstjórnarinnar. Lítilsháttar andlitsbreytingar verður niðurstaðan hvað varðar forystu stjórnmálaflokkanna. Aðeins að litlu leyti hefur fjórflokkurinn sinnt þeirri skyldu sinni við endurnýjun, endurskoðun, stöðumat og sjálfsgagnrýni. Það er viðurkennd staðreynd að aðeins með algjörri sjálfsendurskoðun getur nokkurt félag eða einstaklingur reist sig úr öskustónni.

Hvað hef ég gert rangt?
Hverju þarf ég að breyta í eigin fari?
Hvað ætla ég að gera í framtíðinni?

Þetta eru þrjár lykilspurningar sem ég hefði viljað sá fjórflokkinn fara í gegnum. Fjórflokkurinn virðist þó fremur leitast við að slá sér á brjóst og telja sjálfum sér trú um að hann hafi brugðist rétt við öllum aðstæðum á öllum tímapunktum.

Níðþungt, vafasamt og ólýðræðislegt valdakerfi er hins vegar það sem fjórflokkurinn skilur eftir sig. Þjóðarsátt er um að Alþingi (fjórflokkurinn) hefur brugðist hlutverki sínu og ekki tekið sér þá stöðu sem til var ætlast. Völd þingsins voru framseld eftirlitslaust til framkvæmdavaldsins, og það er bein afleiðing af hinu íslenska fjórflokkakerfi. Við þetta verðum við að horfast í augu við.

Til þess að þarna megi verða breyting á er aðeins tvennt í stöðunni. Að fjórflokkurinn gangi í gegnum massíva sjálfsendurskoðun, eða það sem einfaldara er að fjórflokknum verði riðlað.

Um tíma var ég nokkuð bjartsýnn á að kjósendur flykktust í félagsheimilin og stofnuðu með sér pólitísk samtök sem myndu riðla framkvæmdavaldi fjórflokksins. Sú von mín hefur veikst og er máttlaus þessa dagana. Einnig vonaði ég innilega að stórir stjórnmálaflokkar klofnuðu og stæðu uppi veikari þar sem að þeim væri sótt með sérframboðum úr öllum áttum.

Króna/EURO