mánudagur, 23. desember 2013

Vantar rjóma í Vöfflusamninginn

Allir þeir sem ég hef rætt við um hinn nýja Vöfflusamning ASÍ eru nokkuð sammála um að best væri að hafna honum og færa forystu ASÍ það verkefni að gera betur. Það er misskilningur hjá forseta ASÍ að einungis rúm 4% félagsmanna hafi athugasemdir við Vöfflusamninginn.

Á nýja Vöfflusamningnum er enginn rjómi, enginn sulta og enginn sykur - eini rjóminn er í skegginu hans Gylfa. Að 12 mánuðum liðnum verður launafólk í sömu eða verri stöðu en nú. Seðlabanki Íslands hefur aldrei náð verðbólgumarkmiði sínu, og ég þekki engann sem er tilbúinn að veðja meira en þúsundkalli á að gerist á næstu árum.

Ólýsanlega þakklátur

Ég er ólýsanlega þakklátur ASÍ og VSÍ fyrir allan stöðugleikann sem þeir hafa fært okkur. Nú hafa þeir fært mér svo mikla gjöf að fæ þeim aldrei fullþakkað, heil 2,8% í launahækkun munu færa þúsundum Íslendinga áframhaldandi stöðugleika. Stöðugleika í því að eiga ekki bót fyrir boruna á sér. Þetta fordæmi hlýtur að vera ótrúlega mikilvægt innlegg í kjarasamninga allra stétta.

Auðvitað vildi ASÍ ekki anda of mikið á rúðu atvinnurekenda, það væri vonlaust ef þar kæmi móða. Auðvitað vildi ASÍ fagna stórsigri svona rétt fyrir jólin. Auðvitað eru gagnrýnendur nýja samningsins óendanlega vanþakklátir skíthælar og þjóðfélagslegir óvinir. Auðvitað hefur Gylfi Arnbjörnsson og aðrir í lífeyrissjóðafélaginu ASÍ lagt dag við dag, og unnið einu sinni langt fram á kvöld til að ná þessu öllu saman í gegn.

Auðvitað væri fáránlegt að ætlast til þess að allir þessir frábærlega vel menntuðu og miklu verkalýðsleiðtogar gætu skilað einhverju sem heitir von í hjörtu launafólks.

Guð hjálpi öllum til að vinna enn fleiri klukkustundir á komandi ári til að hafa í börn og burur.


Sameinum KSÍ og ASÍ – þar gerast kraftaverkin.

föstudagur, 20. desember 2013

Miskrúttlegt að missa djobbið

Það er stutt síðan það þótti eðlilegt að íslenskir iðnaðarmenn, verkfræðingar og tæknimenn misstu atvinnu sína í umvörpum. Þeir misstu vinnuna í mörg þúsundatali á nokkrum vikum og mánuðum. Einkaframkvæmdir lögðust nær af, og á sama tíma neyddust opinberir aðilar til að skera tána af hvað varðar verklegar framkvæmdir.

Þessu tók stétt byggingamanna eins og hverju öðru hundsbiti, rottaði sig saman m.a. á Austurvelli við mótmæli til dægrarstyttingar. Að því búnu flutti stéttin sig að miklu leyti til annarra landa, mest til Noregs. Þeir allra hörðustu skráðu sig atvinnulausa á Íslandi og fengu svo sumir aftur vinnu, reyndar í of mörgum tilfellum utan síns áhuga- og sérsviðs. Þetta þótti að mörgu leyti nánast krúttlegt, og látið var að því liggja hversu gott væri að Noregur stæði vel fjárhagslega til að taka á móti þessum blessuðum fjölskyldum. Vonandi gætu þessi krúttlegu grey flutt heim aftur einhvern tímann og borgað skatta á nýjan leik, þetta fólk væri svo duglegt að bjarga sér.

Til að enginn misskilji mig þá er ég alveg handviss um að það var nauðsynlegt að skera fótinn af við öxl í niðurskurðinum, svo slæm var staðan.

Nú er það hins vegar svo að þegar hreyfa á við niðurskurðarhnífnum í lista- og menningargreinum, t.d. í útvarps- og sjónvarpsrekstri þá ganga allar dyr af hjörum. Allur niðurskurður sem tengist skapandi greinum er fordæmdur, og nánast sagður á vegum djöfulsins. Það er einfaldlega og greinilega ekki jafn krúttlegt, sjálfsagt og eðlilegt að „skapandi fólk“ missi vinnuna.

miðvikudagur, 18. desember 2013

Óhagkvæm verslun

Einhver sætur "verslunargúrú" var í fréttunum núna nýverið. Hann talaði um jólaverslun færi ekki nógu vel af stað og fyrst og fremst væri um að kenna verlsunarferðum til útlanda sem og mikilli vefverslun - sennilegast af kínverskum vefverslunum.

Það var ýmislegt sem ég staldraði við í málflutningi hans.

a) Íslensk verslun býður upp á svo léleg kjör að íslenskir neytendur eru tilbúnir að bíða eftir vöru í 2-4 vikur til þess að fá betra verð.
b) Íslendingar hafa minna á milli handanna til að versla sér fatnað.
c) Hátt vaxtastig, óhagkvæmt húsnæði og innkaup íslenskra verslana eru ekki nógu hagkvæm.

"Verslunargúrúinn" vildi sérstakar aðgerðir til að koma í veg fyrir frjálsa verslun neytenda við útlönd, en lagði þó ekki til neina sérstaka aðgerð eða aðferð til úrbóta. Í raun ætti hann að hafa kvartað yfir vaxtastigi og ekki nægilega góðum íslenskum kaupmönnum í viðtalinu.

*En getur einhver sagt mér hvernig Hagstofan mælir ábata neytenda af vefverslun við útlönd inn í neysluverðsvísitöluna til lækkunar verðbólgu?

mánudagur, 16. desember 2013

Geðklofa málflutningur ASÍ

Forystan í ASÍ er að sýna getuleysi sitt ár eftir ár. Það er engin dýnamík lengur í starfinu. Starfinu sem snýst orðið meira og minna um að gæta hagsmuna (lífeyris)sjóða sem eiga að skila sem hæstri ávöxtun. Risasjóðir sem reknir eru sem kapítalískir skriðdrekar í höftum, geta varla átt neina sameiginlega hagsmuni við launafólk í landinu. Þetta er eins og að vera samkynhneigður karlmaður í fjölkvæni við hóp kvenna - er bara svo langt frá því að hollt og gott. Að ætla sér að gæta hagsmuna "ávöxtunarsjóða" og á sama tíma hagsmuna launafólks, þetta er súpa sem getur ekki bragðast vel.

Ávöxtunarsjóðirnir (lífeyrissjóðirnir) eiga stór fyrirtæki í atvinnulífinu sem hafa þá hagsmuni að greiða sem allra lægst laun, og sömu menn eru að gæta hagsmuna þessara sjóða og launafólksins. Það er eins og Íslendingum hafi tekist að smíða óendanlega mikið af ósnertanlegum kerfum, sem allir láta eins og séu bara í lagi - en eru svo bara andþjóðfélagsleg þegar betur er að gáð.

Það yrði fyndið að skipta ASÍ í tvær áróðursdeildir, önnur talaði fyrir hagsmunum lífeyrissjóðanna og ynni að eins góðri ávöxtun og hægt væri. Hin deildin gæti þá talað fyrir hagsmunum launamanna. Mikið er öruggt að algjört ósamræmi væri í áróðurstextanum. Málflutningurinn yrði geðklofa.

sunnudagur, 15. desember 2013

Glæpastefna ríksins

Svo virðist vera sem Alþingi Íslendinga líti á nauðganir, limlestingar, hrottafengið ofbeldi og morð nokkuð léttvægum augum. Sé litið til refsiramma og dóma héraðsdóma sem og hæstaréttar í þessum málaflokkum þá verður ekki annað séð en að þingmenn undangenginna ára séu nokkuð sáttir við þá dóma sem hafa fallið undanfarin ár. Því sárafáar úrbætur hafa verið gerðar ef hórerí er undanskilið, sem án vafa telst til léttvægari glæpa.

Þrátt fyrir að þegnar samfélagsins hafi reglulega látið í sér heyra vegna vægra refsinga í mörgum málum þá hefur gagnrýni helst beinst að dómstólum landsins. Alþingismenn verða að bregðast við með breyttri og harðari löggjöf séu þeir því fylgjandi að herða refsingar í fyrrnefndum málaflokkum.

Ég trúi því varla að margir helstu kvenréttindafrömuðir landsins, sem nú sitja margir hverjir á þingi, muni láta það óhreift að við barnaníð og nauðgunum liggi allt að því eingöngu skilorðsbundið fangelsi - eða þægileg betrunarvist í styttri tíma. Eins og staðan er núna þurfa nauðgarar nánast að ganga að konum dauðum án iðrunar til að hreyfa við þyngri dómum.

Gæti það verið að Alþingi Íslendinga geri ekki nóg til að draga úr ofbeldinu?

Ég er ekki að tala um að dómskerfið eigi að verða miskunnarlaust gagnvart unglingum og rónum - heldur að þingmenn sjái til þess að refsingar hæfi efninu. Glæpastefnu ríkisins þarf að endurskrifa.

Króna/EURO