fimmtudagur, 27. október 2011

Greiðslumunkurinn

Þegar ég er loksins dauður mun verða gefin út ævisaga mín "Greiðslumunkurinn, íslenskur borgari."

Þegar hafa nokkur greinaskil verið skrifuð og eru þau birt hér:

"Það var Einari líkt að deyja 67 ára að aldri, enda vildi hann alls ekki verða enn einn sligandi bagginn á lífeyrissjóðakerfinu og heilbrigðisþjónustunni. Einar naut þess alla tíð að greiða verðbætur og skatta, einnig brosti hann alltaf út í annað þegar hann fékk þær fréttir að einhver gat gripið sér ölmusu af almannafé. Það hlýjaði honum svo um hjartaræturnar."

"Einar tók snemma þá ákvörðun að borga fyrst til skammtheimtunar og svo til kröfuhafa, síðast hugsaði hann um að reka heimili, enda dáðust ráðamenn þjóðarinnar af eljusemi hans. Vart þarf að tíunda frekar um staðfestu Einars í þessum efnum, þar eð hann hlaut fálkaorðuna árið 2027 fyrir afrek sín í greiðsluþolinmæði. Í greinargerð Deutsche Bank sagði meðal annars: "Hvar hefði Dieter Weber átt að ávaxta gullið sitt ef Einars hefði ekki notið við?""

"Á öðrum áratug þessarar aldar hugsaði Einar oft á tíðum þá skelfilegu hugsun að flytjast til annarra landa, var hann á tímabili myrkurs m.a. reiðubúinn til að yfirgefa stórfjölskyldu sína, vini og ástfólk. Varð honum þá hlustað á eldræðu þáverandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur í sjónvarpsfréttum, þar talaði hún í hann kjark og eldmóð til að lifa lífinu til þess að greiða skuldir Íslands. Einar stóð upp fyrir framan sjónvarpstækið og klappaði taktfast saman höndum. Húrra, húrra, húrra! Mátti heyra hljóma í stofunni hjá þeim hjónum, Einar grét af gleði. Upp frá þessari stundu ákvað Einar að gerast fyrsti greiðslumunkur á Íslandi."

"Einar þótti lengi vel kankvís og gamansamur svo, að undrum sætti. Þessu líferni sneri hann baki við og tileinkaði líf sitt ríkisstjórninni og skattheimtunni sem hann taldi skorta fé. Þótt hlutdrægt þætti að segja að Einar hafi bjargað skattheimtu Íslands, þá má segja sem svo að ef hans hefði ekki notið við hefði verið vonlaust mál að halda úti allri þessari heilbrigðisþjónustu á Vopnafirði."

"Dóttir Einars, Edda Lind, segir svo frá æsku sinni: "Ég man hvað föður mínum þótti mikið vænt um ríkisstjórn Íslands. Á yngri árum var ég oft gröm yfir því hversu ótrauður hann gekk til verks í þjónustu sinni við föðurlandið. Ég man eins og gerst hefði í gær þegar hann borgaði heldur bifreiðagjöldin en að kaupa á mig gleraugun sem mig vantaði vegna sjóndepurðar. Einnig fylltist ég reiði þegar hann sagðist ekki geta greitt tannlæknaþjónustu fyrir mig. "Nei, tennur eru ekki jafn mikilvægar og þak yfir höfuðið." Tönnlaðist faðir minn alltaf á. "Þú mátt velja, þak yfir höfuðið eða tennur?" Nöldraði Pabbi minn. Í seinni tíð hugsa ég alltaf til föður míns með hlýjum hug þegar ég á í vandræðum með að tyggja kjöt. Það vekur upp svo margar hlýjar minningar. Núna skil ég auðvitað að pabbi vildi bara borga og standa sig sem greiðslumunkur. Hans hinsta ósk var að erfðafjárskattur yrði hækkaður svo um munaði, svo dauði hans mætti verða til góðs."

fimmtudagur, 13. október 2011

Ég er fáviti

Ég er einn af þessum fáráðlingum sem er Íslendingur. Ég nefnilega er ólýsanlega vitlaus. Ég yppti öxlum árin 2005, 2006, 2007 og 2008 þegar ég sá verðtryggða lánið mitt hækka daglega. Það var ég sem gerði það.

Hausinn á mér er líklega úr gegnheilu grjóti eins og alþingisveggurinn. Algjörlega óstarfhæft heilabú. Ég hef ekki kastað einu eggi þótt að eftir brauðstrit til margra ára ætti ég ekki skítinn í rassgatinu mér.

Ég er svo mikill aumingi. Ég hef horft á það, án þess að stynja eða ropa hvernig gagnsæja rúðan hennar ríkisstjórnar hefur horfið í móðu. Ég var svo vitlaus að trúa því að Eva Sólan skyldi vera frelsandi franskur engill með silfurfjaðrir Egils. Ég er með svo miklu drullu í hausnum að ég sætti mig líklega við að enginn virðist hafa brotið af sér á árunum fyrir þessa "litlu" kreppu sem við eigum við að etja.

Ég er svo heimskur að ég skil ekki af hverju fjármálafyrirtæki mega ekki fara á hausinn eins og önnur fyrirtæki. Það vantar svo margar heilafrumur í grjóthausinn á mér að ég virðist sannfærður um að best var að ég tapaði öllum eigum mínum svo enginn missti nú trú á skuldabréfamarkaðnum eða hlutabréfamarkaðnum sem er stjórnað af tölvum.

Ég er svo vitlaus að ég er til í að skulda peninga sem hafa aldrei verið til og ég hef aldrei fengið að láni. Ég er svo vitlaus að trúa því að ég skuldi 25 milljónir, þegar ég fékk 15 að láni. Hitt eru peningar sem hafa aldrei verið til. Það er eins og ég hafi verið skotinn með haglabyssu í barnæsku í gagnaugað, því ég er svo vitlaus að ég skil ekkert af þessu.

Ég verð bara að halda áfram að taka á mig skattahækkanir, þjónustuskerðingu, eignamissir, launalækkanir, verðbætur og heilsumissi svo að Ólafur í Samskip og Deutsche Bank geti lifað óbreyttu lífi. Það væri óþolandi ef Ólafur gæti nú ekki riðið Elton John í næsta afmælinu sínu. Það er svo óheilbrigt að vera gramur yfir svoleiðis hlutum sem eru eðlilegir á Íslandi. Það er svo leiðinlegt svona neikvætt fólk sem lætur ekki allt yfir sig ganga og er alltaf að nöldra á netinu. Ég verð bara að reyna að útvega mér DV blaðið frá því í síðustu viku sem ég hafði ekki efni á að kaupa, mig langar svo að vita hvernig ég get aðstoðað fleiri auðmenn í að vera áfram svoleiðis karlar í krapinu. Jón Ásgeir er kúl núna, hann segir að það sé ekki INN núna að vera mikið í einkaþotum og kavíar. Hann kann að tolla í tískunni. Hvað ef það væri í tísku?

Ég á örugglega bara eina heilafrumu, hún segir mér að vera áfram duglegur og elska alla sem gera ekkert í því að gera Ísland að betra landi. Ég er ekki með neina heilafrumu sem segir mér að allir inni á Alþingi séu fávitar með hvorugt eistað undir sér lengur. Mér hefur aldrei dottið í hug eina sekúnda að geldingarnir á Alþingi hafi látið beigja sig til að hugsa ekki heildstæða hugsun. Þaðan af síður hefur mér dottið í hug að gefa Jóhönnu Sigurðardóttur fokkmerki þegar ég sé hana í sjónvarpinu.

Nei heilafruman mín segir mér að vera stilltur strákur og fara út á bensínstöð og borga 250 krónur fyrir olíulítran svo að Steingrímur geti fengið 170 krónur. Nei heilafruman mín er góð, hún vill að ég mæti í vinnuna í kvöld svo að Halldór Ásgrímsson geti fengið eftirlaunin sín.

Nei ekki eina millisekúndu leyfi ég mér að vera neikvæður út í Árna Pál Árnason sem telur líklegast og eðlilegast að mér gangi best að lifa ef ég skulda 110% í íbúðinni sem ég ætti ef að ég hefði ekki borgað með henni til að losna við hana.

Nei ég er ákaflega glaður í hjarta, og veit ekki hvað ég myndi gera ef ég væri ekki svona heimskur og myndi missa þessa einu heilafruma sem ég hef enn til að bera.

þriðjudagur, 4. október 2011

Króna/EURO