föstudagur, 13. febrúar 2009

Nú er ég fyrrverandi

Gerðist fyrrverandi Framsóknarmaður á fjórða tímanum í dag. Geri mér grein fyrir að líklegast hefur farið fé betra úr flokknum, en þar hef ég kynnst mörgu góðu fólki.

Tók reyndar lengri tíma að skrá mig af margs konar Facebook síðum sem tengjast starfi flokksins, nú hef ég lokið því verkefni.

Hlakka til að taka þátt í skemmtilegu starfi á nýjum vettvangi.

Einar.

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Merki um stöðugleika?

Þetta er áhugaverð færsla hjá honum nafna mínum. Ef við spáum sérstaklega í þingmannatölu Austurlands, þá sækjast þeir allir eftir endurkjöri utan Valgerði Sverrisdóttur.
Staðan í dag virðist svo í Norðaustur-listamálum:

Sjálfstæðisflokkur
Kristján Þór Júlíusson - Sækist einn eftir 1. sæti D-lista.
Arnbjörg Sveinsdóttir - Sækist eftir 2. sæti D-lista.
Ólöf Nordal - Mun að öllum líkindum sækjast eftir 2. til 3. sæti.

Framsókn
Valgerður fer út.
Birkir Jón Jónsson - Sækist eftir 1. sæti B-lista.
Höskuldur Þórhallsson - Sækist líklegast eftir 1. sæti B-lista.
Huld Aðalbjarnardóttir - Sækist líklegast eftir 3. sæti B-lista.

Vinstri grænt
Steingrímur Joð - Sækist eftir því fyrsta.
Þuríður Bachman - vill vera í öðru sæti.
Hlynur Hallsson - vill annað sætið.

Samfylking
Kristján Möller - ætlar í fyrsta
Einar Már Sigurðar - ætlar í annað
Benedikt Sigurðar - gæti viljað í annað
Sigmundur Ernir - vill í annað

Þannig að ef hinir "geysisterku" þingmenn Norðausturlands halda í sætin verður 10% endurnýjun á þingmannaliði kjördæmisins. Það er væntanlega hin "GRÍÐARLEGA" endurnýjun sem við viljum sjá.

Að missa kíló

Skellti mér í heilsabótargöngu síðdegis í gær. Ég gekk í suðurátt á þjóðvegi eitt öruggum og taktföstum skrefum í átt að hesthúsi Stefáns, hvar ég ríð út frá.

Ég hugðist ná mér í aukalega hreyfingu til að reyna að losa nokkur grömm frá kílóunum hundrað og fjórum. Talsverð umferð er á Vallavegi á þessum tíma, þar eð fólk keyrir heim frá vinnu og sumir til tómstunda í sveitinni.

Á þessari göngu minni hitti ég mikið af fólki. Þetta fólk átti allt sama erindi við mig. Það stöðvaði allt bifreiðar sínar, smellti í bakkgír og athugaði hvað hefði eiginlega komið fyrir. Hvort Einsa vantaði far. Það hafði enginn séð mig ganga heilsubótargöngu áður. Töldu líklegra að bíllinn minn hefði bilað, eða að ég hefði dottið af baki einhversstaðar. Enda var ég ákaflega sveitalega til fara, og algjörlega laus við Nikegalla eða

Ég vil nota tækifærið og þakka fjölmörgum velgjörðarmönnum og konum fyrir hugulsemina, um leið og ég staðfesti að næstu daga mun mér bregða fyrir fótgangandi á Vallavegi án þess að hafa lent í slysi.

mánudagur, 9. febrúar 2009

Flösuvandamál Flokksins

Eftir 18 ára "farsæla" valdatíð með milli 30-40% fylgi að jafnaði hefur Flokknum tekist að raða réttum mönnum á rétta staði, á flestum stöðum. Auðvitað hriktir í þegar Flokkurinn uppgötvar að hann hefur misst völdin. Auðvitað finna Flokksmenn til með Flokksmönnum sínum sem verða "fyrir" því að vera færðir til í starfi eða settir út á guð og gaddinn.

Að mörgu leyti hljóta margskonar tilfærslur í mannahaldi að vera skiljanlegar. Ekki vill ríkisstjórnin hafa Flokksmenn sendandi SMS dægrin löng um viðkvæm mál, beint til fjölmiðla eða Flokksmanna í þinginu. Pólítískar Flokksráðningar í æðstu stöður í ráðuneytum hljóta að vera eitt af því fyrsta sem ráðherrar skoða. Nýskipaður ráðherra, sem hefur það efst á stefnuskránni að auka traust, hlýtur að horfa til þess hvort hann/hún treystir þeim starfsmönnum sem þeim er ætlað að vinna í hvað mestri nálægð og trúnaði við.

Að skipta út pólitískt ráðnu Flokksfólki er ekki valdníðsla eða einelti, heldur ófrávíkjanleg skynsemi.

Valdhrokann tekur nokkur ár að hrista af öxlum Flokksins. Þetta er eins og að vera með erfiða flösu, þegar hrist er af öxlum þá er jafnmikil flasa á öxlunum andartaki síðar. Þeir sem hafa átt við flösuvandamál að stríða vita að það getur reynst langvinnt. Að skipta um sjampó er ágætis byrjun, svo getur verið fínt að fara í sturtu, fá ráð frá sérfræðingi, fara í flösumeðferð eða hvað svo sem kann að laga þetta hvimleiða vandamál. Vandamál sem stundum getur varað í fjögur til átta ár.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Rassskoran mín

Ég og betri helmingurinn skelltum okkur á þorrablót Vallamanna, það var haldið með móðu á glerjum - enda 18 stiga frost utandyra. Þannig má segja að það hafi verið örlítið notalegt að sitja þröngt og þétt við trogin.

Ég verð að segja að það var viss heiður að vera leikinn á sviði í fyrsta sinn og að sviðsmyndin var jarðskiki okkar, Stormur. 

Mig sjálfan lék Þór Skógarvörður í Hallormsstað og fórst það ágætlega úr hendi. Hann er skolhærður og álíka hávaxinn og ég, að sjálfsögðu voru sett gleraugu á nefholdið á honum og sígaretta í skoltinn. Einnig var hann íklæddur reiðbuxum sem hefðu getað verið mínar eigin. Það var þó bláköld staðreynd sem blasti við mér, rassskorann stóð upp úr buxunum - eða buxurnar voru fyrir neðan rassskoru. Það sem á daglegu máli er kallaður pípararass. Það var bæði skrítið og fyndið að gera sér grein fyrir því, að á Völlunum þar sem ég ríð út, þar hef ég kynnt mig sem manninn með rassskoruna. Ég dáðist þó að því hvað Þór Skógarvörður er með áþekka skoru og ég.

....og hákarlinn var hæfilega kæstur.

laugardagur, 7. febrúar 2009

Kippum úr bakkgír

Þessa dagana erum við að velja okkur dýpri kreppu en við þurfum að lifa við. Stýrivextir eru hagstjórnartækið sem við beitum til þess.

Þau fáu prósent þjóðarinnar sem eiga enn pening sitja á seðlunum eins og ormur á gulli - eða eins og Davíð í stólnum - og geyma fjármagnið í banka meðan hægt er að fá frábæra verðtryggða raunvexti. Þú gerir ekkert betri díl en það. Fjármagnið sem atvinnulífið þarf á að halda er því í sjálfu sér læst inn í banka í krafti stýrivaxta.

Hvað myndi gerast ef stýrivextir yrðu lækkaðir. Jú, sparifjáreigendur fengju neikvæða raunvexti og þyrftu að hugsa sér nýjar sparnaðarleiðir eins og fasteignakaup, fyrirtækjarekstur og aðrar fjárfestingar. Það litla fjármagn sem enn er til kæmist þannig í umferð og kæmi til með að kippa atvinnulífinu úr bakkgír. Verðbólgan hefur ekki skapast vegna víxlhækkunar launa og verðlags, eða vegna vaxandi eftirspurnar - heldur vegna hruns krónunnar. Þess vegna geta háir stýrivextir ekki haft þau áhrif að verðbólga lækki, heldur hækkar hana í ljósi þess að fyrirtæki þurfa í sífellu að hækka vöruverð til að standa undir hærra vaxtastigi um leið og þau reyna að komast hjá gjaldþroti. Þetta er tiltölulega einfalt mál, sem margir virðast flækja fyrir sér - þrátt fyrir að hafa lesið hagfræðiskruddur í mörg, mörg ár.

Það er því tiltölulega einföld aðgerð sem er mikilvægust í stjórn efnahagsmála á þessum tímapunkti, og hrópar svo augljóslega á okkur.

Ef að þessi aðgerð er ekki fær vegna IMF, þá er augljóst að við höfum glatað sjálfstæði okkar - og því ekkert einfaldara en að sigla til Noregs og undirrita gamla sáttmála á nýjan leik.

.....koma svo!


föstudagur, 6. febrúar 2009

Hvísl dagsins....

Áhugavert hvernig AMX.is (bloggvefur hægri-manna) gerir sig breiðan í fuglahvísli sínu, og virðist hafa tekið sér hlutverk sem einhverskonar "yfirlögga" á fréttamenn og fara meira að segja ekki mjög fínt í það. Svona eins og "Arnar Gauti" tískuheimsins.

Nú fara þeir frekar hörðum höndum um blaðamann mbl.is og kalla þar að auki mann sem hefur fengið hraðakstursbrot "dæmdan glæpamann". Rétt eins og hann hafi drýgt dauðasynd. (samt er ekkert minnst á aksturs og auðgunarglæpi núverandi þingmanna AMX listans.

Gjaldþrota Kaupfélag?

Það riðar víst flest til falls.

Nú berast um það óljósar fréttir í bænum mínum að kaupfélagsstjóri KHB hafi sagt upp störfum í gær og að í gærkvöldi hafi öllum starfsmönnum í Samkaupum hér fyrir austan verið sagt upp störfum. Staða þess starfsfólks sé óljós, jafnvel standi til að endurráða það á lakari kjörum - reyndar telja sumir kjörin geti ekki orðið lakari en nú.

Kaupfélagið hérna hefur átt á vandræðum í talsverðan tíma. Upphaflega var það samvinnufélag bænda sem hefur þróast síðustu ár út í að þjónusta allar aðrar atvinnugreinar en landbúnaðinn. Mjólkurstöðin var seld og Sláturhúsið varð að engu. Eftir stóð rekstur bensínstöðvar, verslana um allt Austurland og kaup á stærsta verktakafyrirtæki Austurlands, sem varð svo gjaldþrota fyrir stuttu.

Sagan virðist því miður ein sorgarsaga undanfarin ár og enginn veit svosum hvort KHB heldur lífi eða ekki. Skvaldrið í bænum segir þá sína sögu um erfiða stöðu KHB, sem hefur þróast úr því að vera Samvinnufélag bænda yfir í eitthvað allt annað.

Seinni Sigmundur

Þessi frétt á DV.is er ansi hreint stórfengleg.

Sigmundur Ernir á leiðinni í framboð í Norðausturkjördæmi. Hef ekki séð hann bregða fyrir fæti á Austurlandi síðan hann var í þættinum Á Líðandi Stundu með Ómari Ragnarssyni. Ákvörðun hans um framboð í Norðausturkjördæmi er helst skiljanleg í ljósi þess að þar er kannski ekki beint um auðugan garð að gresja hvað varðar styrk frambjóðenda. Kristján Möller hefur þótt ágætur samgönguráðherra fyrir kjördæmið, en manni heyrist Einar Már Sigurðarson vera í veikari kantinum, að mati Akureyringa og Héraðsmanna. Hann hafi einfaldlega ekki staðið undir væntingum félagsmanna síðastliðin misseri.

Ef ég skil málin rétt í Norðausturkjördæmi, þá mun Benedikt Sigurðarson aðjúnkt gefa kost á sér í fyrsta sætið. Samkvæmt því sem maður heyrir á götunni þá gætu margir hugsað sér Aðjúnktinn mjög ofarlega á listanum. Þess vegna muni Einar Már eiga mjög undir högg að sækja, og hann megi teljast heppinn ef hann nær að leggja Aðjúnktinn í keppni um annað sætið. Flestir eru sammála um að Möllerinn haldi fyrsta sætinu.

Sigmundur Ernir gæti því flækt stöðuna eilítið. Ferill hans í fjölmiðlum gefur honum sjálfsagt það forskot að þurfa sáralítið að kynna eigin persónu. Málefnin eru hins vegar flókin í Norðausturkjördæmi og byggja að mestu leyti á flókinni samsetningu á hugðarefnum kjósenda, sem munu vera vegamál, jarðgangnamál, nýting orkuauðlinda, álver, olíuauðlindir á Drekasvæðinu, sjávarútvegsmál og gífurleg reiði. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Sigmundi tekst að lesa í hvernig best er að tala á mjög mismunandi hátt í flokksfélögum Samfylkingar í norðaustur.

Það gæti því orðið niðurstaðan að ef Sigmundur fer fram í Norðaustur fyrir Samfylkingu, frekar en Framsóknarflokk í Suður, að Kristján Möller verði í fyrsta sæti, Benedikt Sigurðarson í öðru sæti, Sigmundur Ernir í þriðja sæti og Einar Már Sigurðarson í fjórða sæti.
________________

Spurning hvort Sigmundurnafnið verði samnefnari fyrir skjótan árangur í pólítík. Það er þó ljóst að seinni Sigmundur er ekki beint kallaður inn af götunni.

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Flenging á Austurvelli

Ég bíð afskaplega rólegur eftir að Samfylkingin slái skjaldborg um heimilin í landinu. Enn þá rólegri er ég yfir ástandinu í þjóðfélaginu. Ég er salí rólegur þótt bankarnir vinni eins og einkahlutfélög þótt í eigu ríkisins séu. Það rennur ekkert hraðar í mér blóðið þótt að nýr forseti alþingis hafi verið kosinn, sem ég hafði ekki heyrt nefndan áður.

_________

Ég veit að stjórnvöld eru ráðalaus, og það er ég líka. Ég fékk þó örlætis tilfinningu um snefil af réttlæti þegar Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist frá völdum eftir eigin gjörðir. Þeir höfðu boðið mér á sjóferð á götóttu fleyi án björgunarbáts - svona til að gíra upp latar krónur.

_________

Ég get alveg beðið í nokkur ár eftir þessari svokölluðu Skjaldborg um íslensku heimilin. Næsta tölublað Herðubreiðar mætti útlista þær hugmyndir, svo að maður viti að þær séu til.

__________

Feiti og stóri strákurinn sem hefur staðið ofan á litlu börnunum, lamið þau og rifið af þeim nestispeningana, grenjar við alþingisdyrnar þessa dagana og vænir litlu börnin um valdagræðgi. Svona spikdrengir eiga að vera í skammarkróknum.

__________

Hvað ætli myndu mæta margir ef auglýst yrði opinber flenging Jóns Ásgeir og Davíðs á Austurvelli á laugardaginn. Ég var að spá í svona 5 flengingum á beran bossann, er það of mikið?

__________

mánudagur, 2. febrúar 2009

æji

Soldið skrítin staðreynd að einn þriðji höfuðstóls skulda minna hef ég aldrei fengið lánaðan. Jámm, peningar sem hafa aldrei verið til, og ætlast er til að verði einhvern tímann til. Af því að vísitalan segir það.

Alveg magnað að skulda eitthvað sem maður hefur aldrei fengið, hefur aldrei verið til og verður kannski einhvern tíma til.

Ef ég HEFÐI, þá HEFÐI

Í Fréttablaðinu í dag ræði Árni M. Mathiessen um hvernig hann HEFÐI lagt fram frumvarp ef hann HEFÐI verið í ríkisstjórn sem HEFÐI fjallað um útgreiðslu aukalífeyrissparnaðar, sem hann HEFÐI lagt fram í dag.

Kannski HEFÐI hann fengið tækifæri til þess ef hann HEFÐI gert eitthvað fyrr í málum sem HEFÐI þurft að afgreiða sem fyrst.

Króna/EURO