miðvikudagur, 30. apríl 2008

Ágæt staða.....

Við Íslendingar erum einstakir snillingar. Við höfum engan áhuga á Evrópusambandinu, enda erum við sjálfstætt fólk. Við þurfum ekki á Evrópskum reglum að halda. Þetta er sú stefna sem stjórnvaldshafar Íslands hafa.

Gjaldeyrir okkar, þessi títtnefnda króna, þykir afskaplega góð. Þótt hún rokki upp og niður um tugi prósenta á nokkrum dögum, þá virðist það vera í lagi – af því að hún er íslensk. Það skal enginn kasta rýrð á barnið okkar.
Þó að sú staðreynd liggi fyrir að við Íslendingar samþykkjum umbúðalaust reglugerðir frá Brussel í gegnum EES samninginn án þess að vilja hafa neitt af því að segja. Þó að við séum á fríverslunarsvæði Evrópu. Þó að við séum í Schengen og störfum á einu atvinnu- og landamærasvæði. Já þó að við samþykkjum þetta allt sem við þykjumst ekki vilja. Þá finnst okkur krónan vera fín og vera til þess fallin að skapa okkur sem allra mesta velmegun um ókomna tíð.

Þó að stærstu ríki Evrópu hafi séð sér hag í því að taka upp evru og leggja niður sína ríkisgjaldmiðla. Þá finnst okkur krónan mun betri.

Krónan getur jú hjálpað okkur við að halda í hávaxtastefnuna svo almenningur og smærri fyrirtæki í landinu megi svitna. Svo að smærri fyrirtæki í landinu geti aldrei boðið sömu kjör og stórfyrirtæki og þannig stuðlað að samkeppni. Svo að Ísland geti áfram verið ein fárra þjóða í heiminum sem býður þegnum sínum upp á verðtryggingu sem étur eignir þeirra. Svo Íslendingar geti verið fastir í viðjum kotbúskapar um ókomna tíð. Svo lánastofnanir í landinu þurfi aldrei að upplifa lögmál markaðarins.

Landsins mestu fræðingar leggja til að við skiptum um gjaldmiðil til hagsbóta fólkinu í landinu. Landsins mestu stjórnmálamenn hafa ekki lengur hugsjónir – þess vegna munu þeir falla af stalli sínum, og hugsjónafólk mun taka við sem vill vinna fyrir þegna Íslands.

Til lengri tíma litið er sú staða ansi hreint ágæt.

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Egilsstaðabréf

Það er slydda á rúðunni sem lekur niður. Hún breytist í vatn á eftir.

Það er gæs á túninu í góðu skotfæri. Hún er góð á bragðið nýkomin frá Skotlandi.

Það er þungskýjað.

Það er áburður í kantinum, 68% dýrari en í fyrra.

Það er Cheerios á disknum, súrmjólk í ísskápnum og bensínlaus Toyota í bílskúrnum.

.....og svo kemur sólin upp á undan í Færeyjum.

föstudagur, 18. apríl 2008

Bjarga sér frá falli á ársþingi HSÍ?

Afturelding er að falla í 1. deild í handknattleik, þeim langar ekki að falla. Þá grípa þeir til þess ráðs að leggja fyrir Handknattsleiksþing og leita stuðnings við tillögu sinni um að fjölga liðum úr átta í tólf í úrvalsdeild.

Þannig vilja þeir alveg eins og Haukar lögðu til á síðasta ári þegar allt útlit var fyrir að þeir féllu í 1. deild, leggja niður grundvöll neðri deildar í handknattleik. Allt vegna þess að þeir eru ekki með nægjanlega gott lið til að spila á meðal þeirra bestu.

Reyndar var það þannig að áður en núverandi fyrirkomulag var tekið upp, þá hafði Afturelding farið afar illa út úr því deildarfyrirkomulagi sem uppi var. Handknattleiknum í Mosfellsbæ hafði hnignað og var ekki á uppleið.

Þegar spilað er í deildum, þá er það árviss atburður að lið falla. Lið falla vegna þess að þau er ekki nógu góð, en ekki vegna fyrirkomulagsins. Núverandi fyrirkomulag tryggir að handknattleikur sé spilaður í fleiri liðum en áður, og neðri deildin ætti að vera handknattleiknum til framfara á lengri tíma. Það er óþolandi að fall-lið í íslenskum handbolta grípi í sífellu til þess ráðs að reyna að halda sér í úrvalsdeild á ársþingi HSÍ - en ekki á keppnisvellinum sem ætti að best vera til þess falinn.

Úrslitakeppni eða ekki úrslitakeppni, tengist ekki deildafyrirkomulagi með nokkrum hætti.

Hins vegar er umhugsunarefni hversu getulaus forystan er í að koma handknattleiknum á framfæri í fjölmiðlum. Forystan dregur að sér bestu styrktaraðila til landsliðsins og beinir öllum sínum kröftum og fjármunum til þess. Á meðan fá lið í efstu deild ekki nægjanlega feita styrktaraðila á þeim forsendum að stórfyrirtæki styrki þegar handknattleikinn myndarlega í gegnum landsliðið.

Á sama tíma og allir vita að Ronaldo er markahæstur í enska boltanum - hver veit hver er markahæstur í íslenska handboltanum? Hver er með flestar stoðsendingar í handboltanum? Hver er grófastur? Þetta veit enginn af því að HSÍ hefur mistekist að koma þannig skikki á mótahald á sínum vegum að sómi geti verið af. Hjá nágrönnum sínum í KKÍ og KSÍ gæti HSÍ dregið mikilvægan lærdóm af því hvernig standa á að mótahaldi í íþróttagreinum. Þessi mál eru ekki flókin en þvælast því miður fyrir handknattleikshreyfingunni sem virðist vera með getulaus á flestum sviðum skipulags og nútíma aðferða.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Niðurgangur

Í þessari frétt er sagt frá því að John F. Kennedy hafi verið með bráðan niðurgang og þvagfærasýkingu á sama tíma og hann heimilaði Svínaflóainnrásina 1961. Hann hafi því verið undir áhrifum lyfja.

Er bara að velta því fyrir mér hvort það sé niðurgangur að ganga í Seðlabankanum.....

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Grænn salem

Hvílíkur djöfull fjandans dópið er, og ekki síður reyktóbak.

Raunsönn baráttusaga reykingamanns:

Laugardagur kl. 12:00 - Síðasta Salempakkinn kláraður.
Laugardagur kl. 12:30 - Fyrsta nikótíntyggjóplatan smökkuð.
Laugardagur kl. 14:00 - Fleiri tyggjóplötur smakkaðar.
Sunnudagur kl. 07:00 - Sviti, óróleiki og vaknað án vekjaraklukku.
Sunnudagur kl. 07:01 - Tyggjóplata í kjaftinn.
Sunnudagur kl. 09:00 - Geðsveiflur.
Sunnudagur kl. 10:00 - Farið í reiðtúr til að dreifa huganum.
Sunnudagur kl. 12:00 - "Minningar" um bóhemíska góðlátlega reykjarlykt.
Sunnudagur kl. 00:00- Jæja, þetta hafðist í dag.
Mánudagur kl. 07:00 - Er miklu dýrara að tyggja en reykja?
Mánudagur kl. 07:30 - Ef ég borða 3 diska af Cheerios gæti þetta gengið betur.
Mánudagur kl. 08:00 - Og kannski tvo banana.
Mánudagur kl. 09:40 - Eru allir fávitar nema ég?
Mánudagur kl. 09:41 - Það tekur eina mínútu að skreppa í sjoppu.
Mánudagur kl. 09:42 - Best að kaupa líka kveikjara.
Mánudagur kl. 09:43 - Tóbaksfíkn stjórnar lífi mínu.
Mánudagur kl. 17:00 - Hvað á ég að segja konunni?
Mánudagur kl. 17:01 - Ég hefði ekki átt að segja henni það.
Mánudagur kl. 17:02 - Ég skil af hverju sumir reykja í laumi fyrir konunni.

mánudagur, 14. apríl 2008

Engin geimvísindi

Hér skrifar Atli Rúnar Halldórsson, almannatengslafulltrúi hjá Athygli, um þær fréttir að Austfirðingar muni festa kaup á bornum sem var að klára í Kárahnjúkum.

Þar sem hann er almannatengslafulltrúi, þá trúir hann því að hann hafi einhverjar meiri og betri upplýsingar um borinn heldur en aðrir. Kannski af því hann tók þátt í að skipuleggja einhvern fyrirlestur um borverkefni. Atli er kannski góður í að bjóða í kaffi og snittur og skrifa fréttatilkynningar - en um verklegar framkvæmdir veit hann greinilega ósköp lítið.

Hann Atli lætur líta út fyrir að það að bora í gegnum fjall séu einhver geimvísindi. Ég get staðfest að það að bora í gegnum fjall eru engin geimvísindi, heldur mikil og vandasöm vinna. Atli trúir því líka að enginn geti stjórnað bor nema Kínverskir undirlaunaðir verkamenn - sem höfðu aldrei séð jarðgöng áður en þeir komu til Íslands.

fimmtudagur, 10. apríl 2008

Ég er ekki að upplifa heimsendi

Þó að margir spái heimsendi vegna hlýnunar jarðar þá er óvenju þungur vetur vonandi að klárast hér eystra. Meiri ófærð og snjóþyngsli en hefur verið undanfarin 15 ár dúkkar nú uppi á sama ári og ég hélt að Vatnajökull myndi bráðna og Seltjarnarnes færi í kaf undir sjó.

Nei þá snjóar sem aldrei fyrr og snjóruðningssjóðir Vegagerðarinnar tæmast. Það er að koma sumardagurinn fyrsti og enn keyri ég í gegnum snjógöng á leið minni til vinnu á morgnanna. Samt er búið að byggja álver í bakgarðinum hjá mér sem ég hélt að myndi stuðla að snjóléttari vetrum og lægri hitunarkostnaði. Ég sem ætlaði að hafa hag af hlýnun jarðar - en ekkert bólar á áhrifunum.

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Að vera metrósexúal náungi

Líf mitt er mismerkilegt. Í gær brotnaði tildæmis síminn minn í öreindir, sem varla er fréttnæmt nokkurs staðar. Morguninn eftir beið ég fyrir verslun símans, óþreyjufullur og fullur þarfar til að versla nýjan síma.

Sölumaður: Hvernig síma þarftu?
Ég: Ég þarf bara síma núna, sem passar fyrir þetta kort úr mínum síma.
Sölumaður: Þá þarftu svona síma, hann er með 3G og öllum pakkanum.
Ég: Okei, er 3G hér fyrir austan?
Sölumaður: Nei, en ef þú ferð í bæinn þá virkar það.
Ég: Okei, ég tek hann.
Sölumaður: Hann er reyndar bara til í bleiku.
Ég: Ég þarf síma núna.
Sölumaður: Ég get pantað hann frá Reykjavík, verður kominn eftir tvo daga.
Ég: Ég kaupi þennan bleika.
Sölumaður: Ertu svona metrósexúal náungi?
Ég: Nei ég er maður í brýnni þörf fyrir síma.

Nú á ég bleikan síma - og er þá væntanlega metrósexúal náungi.

þriðjudagur, 8. apríl 2008

Melavellir?

Í morgun færðist ég einu skrefi nær því að verða Óðalsbóndi innan 45 ára. Þá var gengið frá kaupum okkar hjúa á jarðskika á Völlum á Héraði. Ekki slæmt, 21 hektari - og allt að gerast. Þar ætlum við svo að leyfa hestum okkar að bíta gras og byggja okkur draumahöll, helst fyrir árið 2040.

Það er margt sem fer í gegnum huga verðandi óðalsbónda. Hvað kostar tildæmis stykkið af girðingarstaur? Hvað kostar meterinn af rafgirðingavír? Er þjóðfélagið að fara til andskotans? Já sama spurningin dúkkar alltaf upp þótt maður sé ánægður. :)

Við vorum að spá í nafni á skikann, fyrst datt mér í hug að nefna hann Gler. Þá yrðu hross fædd þar frá Glerjum. Það fékk engann hljómgrunn. Svo datt mér í hug Melavellir, það væri fín nafngift, þarna er Melur og þetta er í gamla Vallahreppi. Melavellir - já ég mun berjast fyrir því.

mánudagur, 7. apríl 2008

Helgarsportið: Smalahundakeppni

Það er ýmislegt sem maður er tilbúinn til að eyða misdýrmætum tíma sínum í. Meðan tími sumra er svo dýrmætur að hann er reiknaður í flugstundum, þá er minn tími ekki alveg jafn dýrmætur.

Ég get tildæmis bent á að á laugardaginn fundum við í fjölskyldunni ekkert dýrmætara við tíma okkar að gera en að keyra í Fljótsdal og horfa á smalahundakeppni. Aldrei áður hafði mig grunað að tími minn leyfði að ég sæti í bíl og horfði á hunda smala rollum eftir köllum eigenda sinna. Þetta gerðist samt sem áður á laugardaginn.

Ég horfði ásamt fjölskyldu minni á hvernig smalahundar smöluðu rollum inn í gegnum misstór hlið. Þetta var greinilega mikið nákvæmnisverk. Svo stóðu mannsmalarnir með eitthvað prik og kölluðu skipanir hundsins. Stundum komu rollurnar til smalans og hann barði prikinu í jörðina. Ég veit ekki til hvers, en líklega var þetta þeirra leið til að segja eitthvað við rollurnar. En allavega eltu rollurnar mannsmalana inn í rétt, eftir að þeir höfðu barið prikinu ítrekað í jörðina.

Svo skildist mér að dómarar sætu inn í einhverjum jeppa og reiknuðu út hversu vítt hundarnir smöluðu og hversu breitt þeir fóru fyrir. Svo tóku þeir tíma og ákváðu hver væri frábærasti smalahundurinn.

Ég kolféll ekki fyrir þessu sporti.

Við keyrðum heim á leið eftir að hafa fylgst með þessu athöfnum í meira en 20 mínútur. Þá hafði kona mín reiknað út að tíma okkar væri betur varið annars staðar.

föstudagur, 4. apríl 2008

Bíttað með fundi og mótmæli

Orðið í sveitinni segir að vörubílstjórar á Egilsstöðum séu að spá í að hætta við að loka aðgengi að flugvellinum á Egilsstöðum á morgun. Þar á samgönguráðherrann Kristján Möller að vígja viðbyggingu flugstöðvarinnar við afar hátíðlegt tækifæri.

Orðið í sveitinni er jafnframt það að ef þeir hætti við að loka leiðinni að flugstöðinni, sé það vegna þess að samgönguráðherra vilji funda með þeim um olíuverðið. Staðan sé sú að þeir séu tilbúnir að selja mótmælin fyrir fund með Möllernum.

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Búinn að æfa sig?

Ok, saksóknari áætlar að tala í 15 klst. þegar Baugsmálið verður tekið fyrir, samkvæmt þessu hér.

Þá vakna spurningar:

Skildi hann vera búinn að æfa sig á ræðunni í rauntíma?
Skildi hann ætla að æfa flutning hennar oft?

...og svo enn aðrar

Hlýtur 15 klukkustunda ræða saksóknara jafn mikinn hljómgrunn og 15 klukkustunda ræður Vinstri Grænna hlutu á Alþingi - þ.e. engan?

Skildu dómararnir taka með sér snakk og fylltar lakkrísreimar?

Zeit zum aufgehen

Einhver leiðinlegasta vekjaraklukka í Evrópu er staðsett í svefnherberginu mínu. Betri helmingurinn telur hana vera nauðsynlega. Þegar að fótaferðartími kemur þá gellur í vekjaraklukkunni hvöss kvenrödd sem segir á þýsku: "Zeit zum aufgehen." Sé ekki tekið mark á kvenröddinni heyrist enn hærra með skerandi röddu: "Zeit zum aufgehen!!!" og því lengur sem beðið er með að þagga niður í kerlingu, þá heyrist röddin hærra og hærra - þangað til aðgerða er þörf. Skerandi rödd þýskrar gribbu kemur okkur því á fætur daglega - og oft hefur mig langað í aðra vekjaraklukku en þessa.

Mér sýndist Ingibjörg Sólrún vera jafnpirruð á spurningum um ferðir sínar í einkaþotu á kostnað skattaborgara á blaðamannafundi í gær og ég get verið á vekjaraklukkunni.

Alveg ótrúlega léleg taktísk ákvörðun var tekin með því að fljúga með einkaþotu á einhvern fund á kostnað almennings. Á sama tíma og almenningur og fjölmiðlar öskra á ríkisstjórnina: "Zeit zum aufgehen!!!", þá fljúga ráðherrar á einkaþotum.

Mótsagnakennt.

Þess vegna er ekki hægt að álykta annað en að ríkisstjórnin sé algjörlega sofandi og óafvitandi um þá undiröldu sem orðin er til meðal almennings í landinu. Almenningur er jú uggandi um sín kjör. Burtséð frá því hvað kostar að leigja einkaþotu, og hvað það sparar mikla dagpeninga og tvöfalda Jack Daniels að leigja eina slíka - þá er flug með einkaþotu táknræn svívirðing við almúgann í landinu.

.....góðar stundir.

miðvikudagur, 2. apríl 2008

Ósanngirni fækkað

Já nú er komið fram frumvarp um afnám stimpilgjalda. Afnám stimpilgjaldanna á hins vegar einungis að ná fram til hóps einstaklinga sem eru að eignast sína fyrstu íbúð. Er það öruggt að fólk sem kaupir sína aðra íbúð sé burðugra til að greiða ósanngjarna skatta?

Almennt voru stjórnmálamenn sammála fyrir kosningar um að gjaldtakan væri ósanngjörn í mesta lagi, gagnvart öllum lántakendum. Fyrir mér verður gjaldtakan ekkert sanngjarnari þótt hluti skattgreiðanda sleppi við hana. Þetta er ótrúlega vitlaus tilraun til að réttlæta fáránlega skatttöku. Í prinsippinu er gjaldtakan jafn ósanngjörn, þótt örlítið færri verði fyrir barðinu á henni.

....og hananú.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Mótmælt á EgilsstöðumÞað er ekki á hverjum degi sem mótmæli verða í heimabænum mínum, Egilsstöðum. Þau undur og stórmerki urðu þó í dag þegar atvinnubílstjórar og jeppamenn mótmæltu olíugjaldinu.

Þegar að farið er að skipuleggja mótmæli á þessum slóðum. Þá er ljóst mikil ánægja er með stöðu mála.....

Króna/EURO