miðvikudagur, 31. desember 2008

Hreðjatak Boggu

Alveg eins og miklu fleiri ætlaði ég að fylgjast með „kryddsíldinni“. Hún þróaðist eins og svo margt annað á þessu ári, rann í sandinn. Ingibjörg nokkur Sólrún var að sjálfsögðu gáttað á framferði mótmælenda. Sagðist efast um að þeir væru fulltrúar almennings. Ef farið er í hártoganir um skilgreiningar á orðinu „fulltrúi“ þá gæti hún jafnvel fært rök fyrir máli sínu. Ég held samt sem áður að hver mótmælandi fyrir utan Hótel Borg í dag hafi starfað í umboði fjölda manns sem heima sátu.

Jafnvel konan mín, sem aldrei svo mikið sem hugsar um ofbeldi, segir að auðvitað hafi fólkið gefist upp á að tala hið íslenska tungumál sem enginn skilur. Þess vegna hafi mótmælendur gripið til þess ráðs að tala tungumál sem skilst betur.

Hvað sem öðru líður hljómaði rödd almennings fyrir utan Hótel Borg í dag. Aldrei áður í íslensku samfélagi hefur svo mikil heift og reiði blossað upp gagnvart sitjandi stjórnvöldum. Auðvelt er að taka undir orð Steingríms Joð að kröfur almennings eru lítilmátlegar – að stjórnvöld axli ábyrgð og boði til kosninga. Einstaklega lítillát og hæversk krafa, sem Ingibjörg Sólrún vill velta fyrir sér þangað til eftir flokksþing Sjálfstæðiflokksins. Eins og flokksþing Sjalla breyti einhverju um ábyrgð á gjörðum stjórnvalda í fortíðinni. Gjörðir stjórnvalda verða sama staðreynd fyrir og eftir landsþing Sjalla.

Jú Ingibjörg ætlar að halda völdum. Fléttan er fyrirséð. Hún ætlar Sjöllum að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Svo skal gengið til kosninga og í aðdraganda þeirra verður kjósendum sagt að eina leiðin til að Ísland fari í ESB sé að kjósa Sjálfstæðiflokk og Samfylkingu. Þannig ætlar kerling að vinna kosningar í vor og þannig ætlar Geir H. Haarde að halda stóli. Þennan leik skal leikið til að breyta aðdraganda kosninga, þannig skal kosningabaráttan ekki snúast um nýtt fólk eða nýja flokka heldur ESB eður ei. Kerla metur það þannig að kjósendur muni af tvennu illu veita krötum atkvæði.

Boggan hefur klesst Sjallana upp að vegg og heldur um hreðjar þeirra.

Gangi flétta Ingibjargar með flokksþing Sjallana ekki upp, þá veit kerling að hún stendur uppi með pálmann í höndunum. Stjórnarslit og kosningar væri þá næsti leikur. Þá getur hún sagt þjóðinni hversu mikil hetja hún er, hafi boðið Sjöllunum byrginn og hún mun gagnrýna þá harðlega fyrir frjálshyggjustefnuna. Mun segja Íslendingum að eina leiðin að ESB sé að kjósa Samfylkinguna, og já þannig taka talsvert fylgi frá Sjöllum. Hún ætlar sér að verða forsætisráðherra, jafnvel þótt það kosti blóðsúthellingar í miðborg Reykjavíkur.

Við almenningur munum væntanlega sitja heima og jafnvel falla fyrir hvorri vitleysunni sem er, og hún mun væntanlega túlka sig sem fulltrúa almennings – þótt hún bendi á tugþúsundir annarra Íslendinga og segi þá ekki fulltrúa neins.

Húsleit í Teymi takk

Mogginn segir frá því að þetta svokallaða fólk sem stjórnar Teymi hefur sparkað forstjóra símafyrirtækisins TALS. Forstjórinn hafði gert þau afdrifaríku mistök að gera góðan samning fyrir fyrirtækið sem tryggði viðskiptavinum betri kjör. Þar sem Teymi er einnig eigandi Vodafone, gátu stjórnarmenn ekki þolað að TAL færði samninga sína þaðan til Símans. Vilja þannig hafa óeðlileg áhrif á samkeppni í landinu.

Ég býst við því að Samkeppniseftirlitið og lögreglan geri húsleit strax í dag til að kanna málið. Kanni hvort Teymi stundi viðskiptahætti sem eru ætlaðir til að draga úr samkeppni. Rökstuddur grunur er fyrir hendi og því hægt að fá dómsúrskurð um húsleit á mjög fáum hálftímum. Svona strákar - hott hott - af stað með ykkur. (svona af því ég stefni að því að lifa í siðaðra samfélagi)

þriðjudagur, 30. desember 2008

Þórunnargigg


Eitthvert skemmtilegasta og fyndnasta fréttaefni ársins varð til að mínu mati þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tók þátt í fyrstu misheppnuðu björgunaraðgerð ársins. Eftir að öllu hafði verið til kostað og ráðherrann hafði hlaupið um norðlenska grund í dramatískum tilburðum sínum til að bjarga dýrinu, þá kom allt fyrir ekki. Ráðherra hafði komið með einkaflugi í samkvæmið. Dýrið var skotið með leyfi umhverfisráðherra - þó hvergi sé gert fyrir því í lögum að sérstakt leyfi ráðherra þurfi til að skjóta ísbjörn. Besta fréttamyndin af atburðarásinni verður að teljast vera með meðfylgjandi frétt sem birtist í Fréttablaðinu, myndin sýnir umhverfisráðherra arka hröðum skrefum í átt að dýrinu. Í appelsínugulum innanundirbol ef til vill laus við brjóstahöld - enda slíkt óþarft í sveitinni.

mánudagur, 29. desember 2008

Áramótaávarp forsætisráðherra

Áramótaávarpi Geirs H. Haarde hefur verið lekið hingað af óábyggilegum heimildamanni:

“Kæru Íslendingar, ég vil byrja á að óska ykkur öllum heilla á nýju ári. 

Nú fara í hönd erfiðir tímar. Lúxus og vellysting verða brátt gleymdir frasar meðal almennings. Ráðdeild, hagsýni og útsjónarsemi verða nú þeir mannkostir sem mest verða metnir. Því miður hefur ekki öllum tekist að virkja þessa mannkosti undanfarin ár. Því fólki er vorkunn. Vil ég helst nefna forkólfa útrásarinnar svokölluðu, sjávarútvegsins, stjórnmálanna og stjórnsýslunnar. Þessar smásálir megum við Íslendingar ekki horfa á aðgerðalaus. Þess vegna er mikilvægt að við hugum að því að gleyma skuldum þeirra við þjóðfélagið. Það er ákaflega þarft að auðlindir Íslendinga haldist í einkaeigu. Við megum ekki nota tækifærið og troða fótum ofurskuldsettum einstaklingum og fyrirtækjum í krafti kapítalismans. Það eru ókostir kapítalsimans að hægt er tapa eignum, alveg eins og að græða fé. Þann ókost viljum við varla virkja. Við munum ekki sitja og horfa upp á eignir örkumla viðskiptamanna verði teknar upp í skuldir. Heldur munum við afskrifa megnið af skuldum athafnaskálda.

Til þess að þetta megi gerast verðum við íslenska þjóðin að standa saman. Við höfum gert okkar besta til að regluverkið bregðist ekki í þessum nauðsynlegu hjálparaðgerðum. Okkar mikilhæfustu einstaklingar hafa verið valdir til að stjórna aðgerðunum. Við höfum lagt okkur sérstaklega fram við skipa fólk í réttar stöður sem þekkja og skilja þarfir aumingja viðskiptamanna betur en nokkrir aðrir. Við teljum mikilvægt að þessir stjórnendur þekki viðskiptahættina af eigin reynslu svo að hraðar gangi að bjarga því sem bjargað verður. Allt til þess að taka helsta ókost kapítalismans úr sambandi. Þannig verður aðeins hægt að græða, ekki tapa. Hinir íslensku viðskiptamenn, okkar athafnaskáld, munu því aldrei aftur þurfa að glíma við þann ótta að geta tapað eignum sínum. Þannig náum við að virkja kapítalsimans til hins ýtrasta, og bæla niður ókosti hans.

Þið hin sem heima sitjið megið ekki örvænta. Lífið heldur áfram. Eftir tuttugu til þrjátíu ár munum við líklega sjá til sólar á ný ef vel tekst til. Það er mikilvægt að einstaklingar og fjölskyldur haldi áfram að greiða skuldir sínar, jafnvel þótt eignir þeirra rýrni eilítið í verði og að verðbólgan hækki höfuðstól skulda um nokkur prósent á mánuði. Þessa fórn þarf að færa. Þannig getum við hjálpað þeim mönnum sem mestri hjálp þurfa við – athafnaskáldunum. Ef afar, ömmur, feður, mæður, dætur, synir og ófædd börn þeirra færa ekki fórnir verður mun erfiðara fyrir ríkisrekin fyrirtæki að afskrifa skuldir viðskiptamannana. Vinnan göfgar manninn og mun gjöra yður frjálsan – á nokkrum áratugum. Arbeit macht frei!!!

Til að leggja áherslu á orð mín vil ég minna á kvæði athafnaskáldsins Einars Benediktssonar:

Í þrælsótta
Þjóðin!
Menn á flótta
Hjálp!

Bretar vondir
Hollendingar
Hvar er Churchill?

Evrópan
Vonda fólkið
Hvar er djammið?
Fyrirgefum.
Undanfarin ár hafa verið gerð nokkur smávægileg mistök. Eltum ekki ólar við fortíðina. Gerum upp hið liðna og sættum okkur við orðin hlut. Beiskja fortíðarinnar getur steypt okkur í glötun. Mikilvægt er fyrir ykkur 20% þjóðarinnar sem gæti orðið atvinnulaus á næstu mánuðum að rækta sálartetrið. Sinna andlegum málefnum frekar en eltast við veraldleg gæði. Þótt að gjalda verði keisaranum það sem keisarans er. Það er ekki göfugt að hugsa einungis um eigin hag. Við hin íslenska þjóð ættum að vita það best hversu vandlifað er í þessum heimi. Forfeður okkar sem börðust við spænsku veikina, móðuharðindin, öskuföll, snjóflóð, aurflóð og skrímsli og höfðust við í torfkofum vissu sem var – lífið getur verið ömurlegt. Þetta verðum við að hafa í huga.

Mér sem forsætisráðherra næstu árin bíða ærin verkefni. Það ber margt að skoða í íslensku samfélagi og mörgum spurningum er ósvarað þegar íslenskur tíðarandi hefur færst heila öld aftur í tímann. Það verður að skoða hvort réttlætanlegt sé að konur og verkafólk hafi áfram kosningarétt, hvort húðlitað innflutt atvinnuafli eigi rétt á atvinnu, hvort fólk úr öllum stéttum geti virkilega átt kost á framhaldsmenntun, hvort lengja verði kjörtímabílið í fimmtán ár og svo mætti lengi telja. Ég held ég tali fyrir alla Íslendina þegar ég segi að manngæska, fyrirgefning og dugnaður eru nauðsynleg vopn á þessum tímum.

Sjálfur mun ég með táknrænum hætti leggja mitt af mörkum. Fyrr á þessu ári ferðuðumst ég og hæstvirtur utanríkisráðherra með einkaþotu til að draga úr kostnaði við ferðalagið. Ég hef ákveðið að gera meira af slíku, til að spara enn meiri fjármuni og mun þannig leggja mitt af mörkum með táknrænum hætti. Voanndi fylgja fleiri úr ríkisstjórninni í fótspor mín.

Íslendingar nær og Íslendingar fjær. Þið sem nær mér standið, hafið engar áhyggjur – þið sem fjær liggið, vinsamlegast herðið hug ykkar. Nú dugar ekki þankagangur gungunnar heldur er það arfleifð hins íslenska vinnumannns og kotbónda sem þið þurfið að rækta í huga ykkar. Ég lýk þessu ávarpi með kvæði meistara Hannesar Hólmsteins:

Íslenskt efnahagsundur
Ekkert danaglundur
Veðsetjum fiskinn
Veðsetjum vatnið
Þinglýst afsal
Og syndaaflausn
Og olían vonandi líka.

Góðar stundir.”

þriðjudagur, 16. desember 2008

Að leita ráða.....

Kannski Reynir Traustason leiti ráða hjá Bjarna Harðarsyni, sem hefur reynslu í þessari aðstöðu.

sunnudagur, 14. desember 2008

Skítasneið Þorgerðar

Skemmtileg skítasneið sem Þorgerður Katrín lét falla í fréttatíma Stöðvar2: "Þeir sem eru að líta hýrum augum þangað [í formannsstólinn] eru að ofmeta eigið ágæti."

Skildi vera hægt að snúa setningunni upp á forystuna? Er einhver að ofmeta eigið ágæti þar? Er Flokkurinn ekki lýðræðisflokkur - þar sem lýðræðislegri umræðu og kosningum er fagnað? Var hún að staðfesta framboð Guðlaugs Þórs?

föstudagur, 12. desember 2008

Minn sjóður

Svo virðist sem í mér og fleiri lítilmögnum séu allt í einu talsverð verðmæti fólgin. Jú vinnufúsar hendur mínar gætu aflað tekna í framtíðinni í sameiginlegan sjóð allra Íslendinga - ríkissjóð. Sjóð sem er tæknilega gjaldþrota. Sami sjóður og mér var sagt að væri skuldlaus fyrir nokkrum mánuðum. Ég var hvorki eigandi í sjóð sex eða níu - ég var eigandi í Ríkissjóð. Ég hafði lagt í sjóðinn tæp 40% af tekjum mínum undanfarinn 12 ár. Ávöxtunina og eignina í sjóðnum átti að vera hægt að taka út í þjónustu og neyðarúrræðum, aðallega í heilbrigðis- og menntageiranum. Nú hefur þessi sjóður hins vegar fallið eins og hver annar fjárfestingasjóður.

Þeir sjóðstjórnendur sem hafa setið og hrært í súpunni í rúm fjögur kjörtímabíl vilja endilega að ég haldi áfram að fjárfesta í sjóðnum. Þeir telja sig hafa verið svikna og niðurstaðan tengist þeim vart með nokkrum hætti. Þeir séu jú einungis eins og býfluga í stormi - krækiber á frjálsum markaði, þeir geti ekki haft nein áhrif á heildarútkomuna. Þess vegna telja þeir sig vera traustsins verðir - vilja að ég treysti þeim fyrir tæpum 40% af tekjum mínum, og jafnvel barna, ófæddra barna og ófæddra barnabarna. En ég einhvern þráast við og hugsa með mér að betra sé að hafa menn við stjórnvölinn sem telja sig geta haft áhrif afkomu sjóðsins, Ríkissjóðs.

Ég á vinsamlegast að greiða hærra hlutfall af tekjum mínum í sjóðinn samkvæmt nýjustu útgáfunni af lögum og reglum. Enginn veit samt sem áður hversu mikið af skuldbindingum sjóðurinn hefur tekið á sig. Þó er vitað að um allmargar billjónir dollara er að ræða. Í ofanálag hefur mér verið tjáð að ég taki einn og sjálfur áhættu af öllum þeim áhrifum sem hrun íslensks efnahagslífs hefur á höfuðstól skulda minna. Þannig megi ég búast við því að höfuðstóll skulda minna hækki um 30-40% á næstu tólf mánuðum. Á sama tima verða eignir mínar í lífeyrissjóðum færðar niður um svipaða prósentutölu.Mér er sagt reglulega að Fúsa liggi lífið á við að bjarga öllum þeim gífurlega miklu verðmætum mínum sem liggja í fjármálastofnunum ýmiskonar. Þrotabúavafningar ganga jafnvel kaupum og sölum vafningalaust með niðurfellingu skulda til bjargar fyrirtækjunum, starfsmönnunum og síðast en ekki síst eigendum. Mikill leyndardómur er fólgin í þessum björgunaraðgerðum, og slökkvilið Nýju bankanna neitar jafnvel að segja frá því í hvaða húsi var verið slökkva eld og hver hafi verið eigandi húsinns og hvaða umsjónarmanni hafi verið falið að sjá um það. Brunagóssið er jafnvel selt eða gefið á leynifundum - og fólkið í götunni fréttir ekki einu sinni af þeim.Á nálægri stundu er stórskuldugur sjávarútvegurinn að semja um niðurfellingu skulda upp á tugi milljarða í Nýju bönkunum. Niðurfellinguna mun minn sjóður taka á sig, Ríkissjóður. Minn sjóður. Samt sem áður öðlast minn sjóður enga hlutdeild í auðlindum hafsins, því þessir menn eiga sérstakan rétt á því að eiga allan þann fisk sem lokkaður er upp úr íslensku hafi. Þessir menn eiga einkarétt á fisknum í sjónum í meira en þúsund ár. Samt er einhver að segja mér að ég eigi á hættu að glata fisknum í sjónum gangi Ísland í samband með þjóðum í Evrópu. Fyrirgefðu en mér er nánast sama hverjir eiga óveiddan fisk við Íslandsstrendur við núverandi skipulag. Ég sárvorkenni aðeins þeim hugsjónasjómönnum sem leigja veiðirétt á 250 krónur kílóið, og selja hvert kíló á 290 krónur. Í stað þess að leigja veiðiréttinn beint af mínum sjóði, ríkissjóði, þá hefur minn sjóður gefið ákveðnum hópi manna verðmætin. Skamm. Og hefur engar áætlanir um að sækja föðurarfinn aftur.Skömmu eftir að ég borgaði 2000 krónur fyrir pylsu og kók á Kastrup var mér sagt að mikil tækifæri lægju í íslensku krónunni, leynd viðskiptatækifæri. Ég gapti af undrun, og þagði af vanþóknun.

Svo er mér sagt í útvarpinu af Steingrími Joð að 30.000 milljónir séu ekki svo mikið til eða frá við svona aðstæður - það liggur við að ég trúi honum. Þótt ég viti í hjarta mínu að það eru 6.000 ársverk vinnandi manna og kvenna.

fimmtudagur, 11. desember 2008

Smjörklípa í hveitið

Skemmtilegar umræður hafa skapast um kornrækt. Steingrímur Joð telur að kornrækt geti orðið til þess að atvinnulífið jafni sig. Páll Magnússon telur að meira þurfi til en kornrækt - og ályktar skynsamlega að enginn uppskera verði af korni Steingríms í janúar. Egill Helgason ályktar í framhaldi af þessu að Páll Magnússon sé á móti íslenskt ræktuðu korni.

Ég hef verið fjarlægur aðdáandi kornræktandans undir Eyjaföllum og fylgst með tilraunum og nýsköpun hans úr fjarska. Mér vitandi mun hann ekki uppskera korn í janúar, þótt honum kunni að hafa gengið vel að rækta korn síðastliðið sumar. Kornræktin undir Eyjafjöllum held ég að hafi ekki verið "point" Páls, heldur að róttækar aðgerðir þurfi til á sviði nýsköpunar. Þess vegna verður færsla Egils að teljast hjákátleg smjörklípa - smjörklípa sem dugar ekki til nokkurs baksturs.

Vonandi mun bóndanum á Þorvaldseyri takast að uppskera korn fleiri sumur svo fleiri megi feta í fótspor hans. Til gamans má geta að "Organic" korn er ræktað í grennd við Egilsstaði, hún byggist að miklu leyti á sjálfboðavinnu erlendra áhugamanna um sjálfbær samfélög.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Ég vill kaupa Morgunblaðið

Máski leyfir Nýi bankinn mér að taka yfir Stoðir. Hann gæti afskrifað 85% af skuldum félagsins og ég gæti aukið hlutafé með lántöku frá EBÞ27, með ábyrgð frá EBÞ25 sem er með 25% ábekingshlutfalli frá RVA13. Svo gæti ég lagt fram skuldabréfavafninga frá Snerri3, Snerri4 og Snerri6. GuttiPett 101 ehf. yrði kjölfestufjárfestir í félaginu.

Er líka að spá í að kaupa morgunblaðið. Tilboð mitt felst í því að ég tek yfir 25 prósent af skuldum Árvakurs. Verð 100% eigandi hlutabréfa í félaginu. Legg svo hlutabréfin að veði í öðrum Nýjum banka fyrir láni sem ég nota til að auka hlutafé Árvakurs. Þetta yrði gert með fulltingi Æskan2 hf og ABC3 ehf.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Móri flissar

Fundurinn með geðstirða pabba olli litlu ráðalausu strákunum í þinginu vonbrigðum í dag. Það kom ekkert sérstakalega á óvart. Geðstirði pabbi neitar að trúa litlum strákum fyrir mikilvægum leyndarmálum bankamanna og býður pjökkunum að kyssa á sér rassinn.

 

____________________

 

Sama dag tilkynnir Valgerður um ímyndarleg einkavæðingar vandræði sín og skynjar að Framsóknarmenn voru um það bil að kasta henni á bálið. Hópur framsóknarmanna á Norðurlandi sem safnaði fylgilagi síðustu daga til að koma henni burt og vilja reka Finn Ingólfsson úr flokknum, getur því einbeitt sér að síðara atriðinu. Að tjaldabaki flissar móri.

 

____________________

 

Þennan dag verða stýrivextir í Vestur Evrópu lægri en þeir hafa verið undanfarna áratugi vegna fjármálakreppunnar. Vextir á Íslandi í verri stöðu hafa hins vegar aldrei verið hærri. Sú bjargfasta trú ríkir að vaxtastig dragi úr verðbólgu í landi þar sem gjaldmiðill hefur hrunið og fyrirtæki eru svo skuldsett að vaxtastig hefur beint áhrif á vöruverð og atvinnustig. Þennan dag má reikna með því að öll framlegð íslenskra fyrirtækja hafi farið í það að greiða vexti, verðbætur og vanskilavexti til lánastofnana.

 

____________________

Króna/EURO