mánudagur, 27. maí 2013

Að vona

Nú veit ég ekkert um hvers vegna í ósköpunum ég er að vona að núverandi ríkisstjórn takist vel upp við að endurreisa íslenskt íbúðalánakerfi með tilheyrandi leiðréttingum. Ég bara skil ekkert í því hvers vegna ég vona að það eigi eftir að ganga vel við þessar aðgerðir.

Það er eins og ég vaði í villu míns vegar, ég hlýt að vera að vona eitthvað rangt. Það eru svo margir sem virðast vona að þetta eigi eftir að ganga illa, einhvern eins og að ákveðið fólk voni að silfurskeiðardrengjunum verði á í messunni og það komi í ljós að þeir voru í ruglinu allan tímann. Að þeir hafi bara verið í ruglinu eftir allt saman.

Ég verð bara að viðurkenna að ég vona að þessir menn og konur þarna í ríkisstjórnarflokkunum hafi sem mest rétt fyrir sér, því þá hlýtur eitthvað gott að gerast. Ef ég vonaði að þetta fólk hefði rangt fyrir sér, þá væri ég að vona að eitthvað slæmt gerist.

Annars hlýt ég að vera að vona eitthvað vitlaust, því auðvitað væri langbest að ekkert væri hægt að gera í stöðunni til að laga stöðu heimilisins.

Ég verð bara að vona, að hvað sem ég vona, þá voni ég fallega.

miðvikudagur, 22. maí 2013

Penge i lommen

Seinni part dags fékk ég í lófann nokkra Færeyska seðla. Það er ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að ég fór að spá í hvert væri gengi Færeysku krónunnar. Komst að því að 1.000 krónur Færeyskar eru ca. 21.000 krónur.

Fór svo að velta því fyrir mér fyrst ef Færeyingar hafa 21.000 króna seðil, gætum við Íslendingar þá ekki látið prenta 10.000 króna seðilinn?

Ekki það að seðlaburður sé að fara með bakið á mér.

sunnudagur, 19. maí 2013

Flokkur útvegsmanna


Það verður að segjast eins og er að ein stærstu mistök fráfarandi ríkisstjórnar voru að koma ekki á nýju skipulagi við innheimtu afgjalds fyrir fiskveiðiauðlindina, og það strax í byrjun. Augljóst er að það samstöðuleysi um fyrirkomulag sem fyrrverandi ríkisstjórn glímdi við kom í veg fyrir að hægt var að gera breytingar sem halda lengur en í nokkra daga frá því ný ríkisstjórn tekur við.

Hefði verið gerð grundvallar kerfisbreyting á skipulagi fiskveiða sem nú væri komin á þriggja ára reynsla er án nokkurs efa hægt að segja að þá hefði EKKI verið hægt að labba inn í ráðuneytið og fella niður afgjald af aflaheimildum með einu pennastriki.

Það var meðal annars með von um breytingar á fiskveiðilöggjöf og afgjaldi sem íbúar landsins studdu vinstri flokkana til stjórnar landsins. Það var ein af stóru breytunum.

Nú vildi ég svo innilega að vinstri stjórnin hefði staðið sig svo miklu betur, því þá hefði Flokkur útvegsmanna* ekki átt svo hæg heimatök núna.

*Þar er auðvitað átt við Sjálfstæðisflokkinn sem er ein af verðmætari eignum LÍÚ, og tengslin augljósari en tengsl Repúblikanaflokksins við Samtök byssuframleiðenda í USA.

miðvikudagur, 15. maí 2013

Að vera svikinn...


Fyrir nokkrum árum fóru fram sögulegar kosningar til Alþingis í kjölfar mestu hörmungar í efnahagslífinu í manna minnum. Samfylkingin og Vinstri flokkurinn unnu stórsigur. Jóhanna Sigurðardóttir kom fram upp úr kosningum með frasann "Skjaldborg um heimilin". Þessi setning í sér fyrirheit, risastórt loforð – sem forystan reyndi í hartnær tvö ár að efna með smáskammtalækningum, sem fáum reyndist „Skjaldborg“. 

Hver man ekki eftir löngum samningafundum um „skuldavandamál heimilana“, og hver man ekki eftir vonbrigðunum sem í kjölfarið komu. Ég man þetta vel, enda er ég ágætur kjósandi.

Örlög Samfylkingarinnar nú, sýna nákvæmlega hver örlög Framsóknarflokksins verða ef forkólfum hans tekst jafn hræðilega upp við að efna loforð sín og Samfylkingarþingmönnum á síðasta kjörtímabili. Loforð um „Skuldaleiðréttingu“ skóp stórsigur Framsóknaflokksins í nýafstöðnum kosningum. Loforð beggja flokka á báðum kosningum, eru af nákvæmlega sama toga – spurningin er aðeins hvort Framsóknarfólki tekst betur að spila úr stöðunni en Samfylkingunni.

Verst þykir mér þegar verstu „Skjaldborgarsvikarar“ Íslandssögunnar standa og hrópa „Úlfur! Úlfur!“ áður en samningaviðræðum um ríkisstjórnarsamstarf er einu sinni lokið, og ekkert hægt annað en giska á hvað formönnum tvíflokksins fer á milli.

Ég hef áður verið svikinn, og ætla að gefa mér góðan tíma í að verða svikinn aftur – verði um það að ræða. Uppslættir af þessum toga, eru sliga íslenska stjórnmálaumræðu og stefnir í hatrammari átök á Alþingi en nokkru sinni áður – ef allir halda uppteknum hætti.

þriðjudagur, 14. maí 2013

Altari kapítalismans


Ég velti stundum fyrir mér við hvað er heppilegast að starfa frá degi til dags, til að ná endum saman og til að láta lífið ganga upp á þeim nótum sem við í fjölskyldunni höfum áhuga á. Fyrsta atriðið í okkar lífsstíl er að búa úti á landi. Við elskum náttúruna, kyrrðina, dýrin, fuglahljóðin, víðáttuna og uppeldisparadísina sem við teljum börnin hafa möguleika á.

Þetta fyrsta atriði er eiginlega forsenda alls hins. Við höfum valið okkur þennan lífsstíl og þekktum nokkurn veginn galla þess og kosti. Sjálfur hef ég prufað að búa ein 7 ár í höfuðborginni og það átti aldrei neitt sérstaklega við mig. Komst einhvern veginn aldrei í snertingu við sjálfan mig á því landssvæði. Bestu stundirnar upplifði ég í bleiku sólarlaginu þegar ég reið um Heiðmörk á hestunum mínum.  Ég fann í mér náttúrubarnið í Reykjavík og nágrenni.

Þess vegna skil ég ágætlega að ágætum Reykjavíkurognágrennisbúum standi ekki algjörlega á sama um móður náttúru um allt land. ALLIR eiga að láta náttúruna vera sér fróun, og njóta hennar. Hins vegar hef ég velt fyrir mér ýmsum hlutum og staðreyndum, sérstaklega nýverið eftir að farið var út í þá sálma að Lagarfljótinu á Fljótsdalshéraði hafi verið fórnað fyrir reykspúandi verksmiðju – svo siðlaus kapítalisminn mætti raka saman gróðanum.

Þessi framsetning fer eilítið í taugarnar á mér. Mér finnst einhvern veginn að sannleikanum vegið. Í sannleika sagt hefur Lagarfljótið alltaf verið langt frá því að vera tært. Þess vegna hefur lítið sólarljós skinið niður í vatnið og minni ljóstillífun verið þar en í öðrum vötnum, að öðrum kosti hefði Lagarfljót verið gjöfulusta vatnasvæði landsins og aldrei komið til álita að taka þá áhættu að hrófla við lífríki á vatnasvæðinu. Silungur úr þessu vatni hefur alltaf verið „glær“ vegna sólarskorts og því aldrei verið söluvara, og þess vegna hefur enginn sportveiðimaður úr þéttbýlinu sótt í Lagarfljótið fyrr eða síðar. Þess vegna hefur enginn bóndi gert athugasemdir um ráðahaginn, af því að silungsveiðar í Lagarfljóti hafa alltaf verið í afar litlum mæli. Tiltölulega litlu hefur mér því þótt vera fórnað. Það er virkilega leiðinlegt hvernig "Brynjarar Níelssynir" umræðunnar hafa sagt frá því að Lagarfljótinu hafi verið fórnað fyrir stærri hagsmuni - Lagarfljótinu var aldrei fórnað, en þar voru gerðar stórar breytingar af mannavöldum.

Svo er það hitt að til að geta verið svona lítið og sætt „úti á landi creep“ þá hef ég stundað atvinnu í þessari verksmiðju í Reyðarfirði, sem of margir að mínu áliti, tala um af einhverri heilagri vandlætingu og í einhverjum „þið hin eruð svo vitlaus“ tón. Þannig umræðum er erfitt að taka þátt í, og mínum skoðunum verður alltaf sökkt í báti meðalgáfaðra.

Mín afstaða er byggð á reynslu. Náttúran hér í sveitinni minni er falleg, á fljótinu synda gæsir og í djúpinu synda silungur. Ég fæ að stunda heiðvirða atvinnu á góðum vinnustað, og er stundum stoltur af því sem fjölskylda mín fær áorkað í góðri samvinnu við náttúruna. Mér finnst einhvern veginn að Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði hafi EKKI verið fórnað í fjölmennri messu ameríska kapítalismans. Mér finnst að fækkun á silungi í Lagarfljóti hafi verið partur af því að fleiri íbúar geta nú notið náttúru og frelsis.

Og svo er það spurningin sem ég spyr mig stundum. Er „kapítalismi“ æskilegri við Reykjavíkurtjörn, á Hellisheiði og þar sem Ingólfsfjall var áður? Á fólk að líta sér nær? Á fólk að spyrja sig hvað málmar gera "snertiskjásíma" að tæki sem virkar? Hvað málmar gera flugvélar að flugvélum? Hvaða málmur er í rafstrengnum í götunni þinni sem knýr eldavélina í kvöld? Hvaða álfelgum keyrir þú um á? Hvaða málmur er í reiðhjólinu þínu?

 Heimurinn er margslungin.

Afsakið að ég minntist á þetta.

Króna/EURO