fimmtudagur, 29. desember 2011

Pönkast á mér ósmurðum

Ég er farinn að taka þessu mjög persónulega. Það er verið að pönkast á mér. Daglega. Duglega. Ég er ósmurður.

Um áramótin heldur eineltið áfram og mun taka nýjar hæðir. Jóhanna er búin að fá sér "strap on" og ég ligg varnarlaus handjárnaður við rúmstokkinn, nánast eins og í myndinni "Karlmenn sem hata konur".

Þegar að ég held að hámarkinu sé náð er skattheimta af eldsneyti hækkuð. Svona eins og til reyta mig eins og gæs. Common, æðislegt. Leikskólagjaldið hækkar á sama tíma. Frábært. Svo skilst mér að tóbakið hækki líka - ég veit að ég er ófullkominn að neyta tóbaks og líklega heimskur, en þetta mun hækka skuldir nágranna míns í gegnum neysluvísitölu og verðtryggingu þrátt fyrir að hann hafi aldrei tekið smók á sinni ævi.

Ég er ógeðslegur ræfill sem leyfilegt er að pönkast á til æviloka, og ef ég sætti mig ekki við það - þá þarf ég að flytja til fokkings Noregs af öllum stöðum. Yndislegt.

En að sjálfsögðu er ég bara gramur ræfill sem er að væla á netinu, og hef örugglega misskilið þetta allt saman. Það er nú fullt af gáfaðra fólki sem bloggar á Eyjunni sem getur örugglega útskýrt þetta fyrir mér af hverju þarf endilega að vera pönkast á mér ósmurðum, og getur sagt mér að tæknilega sé það ekki raunin - þetta sé aðeins tímabundið ástand sem varir venjulega frá 25 ára til 62 ára aldurs.

sunnudagur, 25. desember 2011

Félagsfræði 103


Hef tekið að mér að kenna í fyrsta skiptið. Mun verða lærifaðir í Félagsfræði 103. Hef ákveðið að framleiða mitt eigið kennsluefni. Hér er fyrsta glæran:

föstudagur, 23. desember 2011

Efri millistétt gæti gert ALLSKONAR

Nú skilst mér að ég og margir aðrir úr "efri millistétt" séum í miklum vandræðum með að ná endum saman. Sérstaklega má þá nefna mig og Tryggva Þór Herbertsson. Báðir höfum við þurft að borga með okkur. (Skil reyndar ekki út á hvað hugtakið "að borga með sér" gengur út á.)


Ég held í þá von að kollegar mínir úr "efri millistétt" sem eru alþingismenn noti "stórkostlegar" gáfur sínar til að hækka virði launa sín - þrátt fyrir að kjararáð hafi aðeins hækkað þau lítillega. Þetta geta þingmennirnir úr "efri millistétt" auðveldlega gert með lagasetningum sem ganga út á eftirfarandi: Frystingu vísitölu til verðtryggingar, betri (annan) gjaldmiðil og ALLSKONAR!

mánudagur, 19. desember 2011

Dýr slys, ódýrar lausnir

Það er talsvert rætt um Norðfjarðargöng þessa dagana á Austurlandi. Ástæðan er líklega sú að gleymst hefur að framkvæma þau og íbúarnir sem vonuðu – vona enn. Samgönguráðherra segir reyndar að ódýrara sé að moka fjallvegi heldur en gera göng, geri ráð fyrir að það sé algilt og eigi við um allt land.

Dýrar lausnir er oft á tíðum erfitt að fá framkvæmdar. Þrátt fyrir að hægt sé að sýna fram á þjóðarhagkvæmni til lengri tíma.

Austurlandið er afskekkt að mörgu leyti. Þar eru líka starfsmenn Vegagerðarinnar ansi einangraðir í hugsun. Salt er ekki notað nema á allra hættulegustu stöðum og afar lítið er um hálkuvarnir. Í lélegu skyggni gæti verið hægt að bjarga fleiri mannslífum með góðum hálkuvörnum og styttra millibili milli vegstikna, og fleiri vegriðum. Styttra millibil vegstikna fjölgar t.a.m. endurskinum og minnkar líkur á útafkeyrslum og umferð á röngum vegarhelmingu í lélegu skyggni. Það virðist þó einungis vera hægt að framkvæma slíka hluti annars staðar en á Austfjörðum.

Ég þekki það að sækja vinnu um Fagradal til Reyðarfjarðar. Ég hef upplifað það nokkrum sinnum undanfarin ár að keyra fram á alvarleg slys og jafnvel banaslys. Fólk á öllum aldri hefur týnt lífi í umferðinni á fjallvegum Austurlands, erfiðast er að sjá eftir ungu fólki sem sækir atvinnu og menntun milli þéttbýla á svæðinu.
Alvarlegt slys getur verið afar óhagkvæmt borgurum landsins, örorkubætur og heilbrigðiskostnaður getur reynst gífurlegur í áratugi eftir alvarleg slys. Því hlýtur það að vera sérstakt áhyggjuefni að Vegagerðin á Austurlandi sé svo einangruð frá raunveruleikanum að ekki sé hægt að framkvæma ódýrar slysavarnir á hættulegum leiðum um fjallvegina.

Ferskt er mínum huga er slys s.l. fimmtudag rétt við álverið í Reyðarfirði. Þá leið hafði ég keyrt á miðvikudagskvöld, á um 50-60 kílómetra hraða, á leið okkar hjóna til Eskifjarðar á Frostrósatónleika. Á 4-5 kílómetra kafla var þvottabretti úr rásuðum klakabunka á veginum og aðstæður vægast erfiðar fyrir fólksbíla á mjóum dekkjum. Keyrðum við m.a. fram á Toyota Yaris sem hafði snúist og kastast út af veginum, þar varð ekki slys. Ég hafði þá á orði að mjög dæmigert væri að ekkert væri að gert fyrr en alvarlegt slys hefði orðið. Daginn eftir varð ungur maður fyrir því á sama kafla að bíllinn hans rann til yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir bíl úr gagnstæðri átt. Tveir dveljast á Fjórðungssjúkrahúsinu eftir slysið og einn var sendur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Þetta var atvik sem hægt var að koma í veg fyrir með ódýrri aðgerð á sviði hálkuvarna.

Þrátt fyrir að erfitt sé að fá veggöng á Austurland, þá hlýtur að vera hægt að framkvæma ÓDÝRAR úrbætur í slysavörnum á fjallvegum Austurlands. Það er hægt að sjá fyrir mörg slys og koma í veg fyrir þau.

fimmtudagur, 15. desember 2011

Mbl og stærðfræði

Þessi frétt mbl.is í dag:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/12/15/ibudalan_haekka_um_3_4_milljarda/

Þar er rætt um vísitölu neysluverðs og hvernig hún muni hækka um áramótin með hækkuðu áfengis- og tóbaksverði meðal annars. Alls muni vísitala neysluverð hækka um 0,2 prósentustig vegna bandorms ríkisstjórnarinnar.

Í fréttinni er sagt frá því að 10 milljón króna íbúðalán geti hækkað um 200 þúsund vegna þessa. Þetta er rangt reiknað. Hið rétta er að 10 milljón króna íbúðalán gæti hækkað um 20 þúsund vegna þessa. (1,002*10000000=10020000)

Gæti hafa munað einum aukastaf hjá blaðamanni. Gæti tekið að mér námskeið í verslunarreikningi í Hádegismóum.

Annars er ég brjálaður út í verðtrygginguna og finnst fáránlegt að ef einhver arabi í eyðimörkinni fer í vont skap, þá hækki olían og þar með lánin. Meikar varla nokkurn sense.

mánudagur, 12. desember 2011

Gunnarsstaðarökfræðin

Óvart las ég úr þessari frétt Eyjunnar um hvað Steingrímur frá Gunnarsstöðum sagði í þættinum Sprengisandi.

Þar vill Steingrímurinn meina að hann geti vart hætt í stjórnmálum með öll þessi verk á herðunum. Ef hann getur sagt: "Þetta tókst sem ég tók að mér", þá getur bara vel verið að hann sé sáttur við að hætta á einhverjum tímapunkti sem ég þekki ekki.

En ef honum tekst það ekki sem hann tók að sér, hver er þá eiginlega sáttur við að hann hætti ekki heldur haldi áfram!? Sá sem ekki getur það sem hann vill geta, á að sjálfsögðu að snúa sér að öðru. Ég vill endilega leiðrétta þessa Gunnarsstaðarökfræði, og hér með benda Steingrími á - sem er by the way mjög tíðrætt um þau skítverk sem hann er "lentur í" - s.s. benda honum á að skíturinn á Gunnarsstöðum er ennþá mokaður þótt hann sjái ekki um það. Þannig fyrirkomulag gæti verið mjög áhugavert í fjármálaráðuneytinu einnig.

fimmtudagur, 1. desember 2011

"latté lepjandi" draumurinn

Það er til ákveðinn þjóðfélagshópur sem er kallaður "latté-lepjandi". Ég hef undanfarin ár eytt ógrynni fjár til að reyna að tilheyra þessum hópi. Mestum hluta þessara fjármuna hef ég látið af hendi í Café-Valný á Egilsstöðum. Eigandi kaffihússins, Heba Hauksdóttir, hefur þó sagt við mig nýverið að ég geti ekki fallið inn í þá staðalímynd sem ég sækist eftir, þ.e. að tilheyra "latté-lepjandi". Til þess sé ég of almennur í klæðaburði og sé ekki nógu vel vaxin/safnaður skeggi. Þetta eru mér talsverð vonbrigði. Nú velti ég því fyrir mér hvort fjárútlátin hafi nú borgað sig, og hvort ég eigi nú að hætta að reyna að falla inn í "latté lepjandi" staðalímyndina og hætta að greiða fyrir svo gott kaffi. Kannski ef Heba væri sölumaður af guðs náð hefði hún látið í það skína að einhvern tíma, ef ég keypti nóg af þessum drykk, gæti ég tilheyrt "latté-lepjandi" hópnum.

Draumur minn um að verða "latté-lepjandi" virðist fjarlægur. Ég hef orðið þess áskynja að "latté-lepjandi" hugtakið snýst eiginlega ekkert um gott Café Latté.

miðvikudagur, 30. nóvember 2011

Erfið verkefni

Verkefni sem fólk velur sér eru miserfið. Þetta verkefni hlýtur að vera eitthvað það allra erfiðasta sem völ er á.

föstudagur, 25. nóvember 2011

保持國家安全 - 廢除了外國人

Grímsstaðir á Fjöllum er að stórum hluta örfoka land. Þar má teljast afrek að nokkur hafi búið í gegnum tíðina. Þar hefur verið veðurstöð og meðal annars mælst mesti kuldi á Íslandi, og bærinn hefur verið öryggispunktur hvað varðar umferð um auðnina milli Mývatns og Jökuldals. Landið er örfoka að miklu leyti en fjalladýrðin meiriháttar á nálægum slóðum. Dettifoss ein mesta náttúruperla Evrópu er nálægur. Ljósmengun er engin og norðurljósin í allri sinni dýrð á vetrarnóttum.

En þessi Nubo ljóðskáld ætlaði ekkert að kaupa Dettifoss eða Norðurljósin. Hann vildi kaupa stað til að byggja upp afskekkta ferðaþjónustu með hagnaðarmarkmið. Alveg í ÆTT við þær hugmyndir og rómantík sem VintriGræna samfélagið hefur lýst fyrir okkur í náttúru Íslands. Þarna var komið þetta "eitthvað annað" sem VinstriGrænir hafa fabúlerað um í 13 ár.

Þótt líklegt sé að golfvöllur á Grímsstöðum hafi verið stjarnfræðileg hugmynd vegna veðurfars og hæðar yfir sjávarmáli þá verður bara að segjast að ákvörðun Ögmundar Jónassonar er einhver sú skringilegasta á sér enga hliðstæðu hvað varðar atvinnuuppbyggingu í landinu. Þessi skætingur er ein stór móðgun við íbúa Norð-Austurlands. Við eigum að vera paradís á jörð, sem enginn kemst í nálægð við. Norð-Austurland skal vera eins og paradísin sem Vottar Jehóva boða. Eitthvað sem allir hafa heyrt um, en enginn fær að upplifa.

Væri ekki ágætt ef fleiri viðskiptamenn en hrunvíkingar og afskriftamenn festu ból hér á landi?

Nei, segir Ögmundur. Hann veit betur. Fyrir erlenda túrista telur hann mun betra að keyra bara Gullna Hringinn frá Reykjavík, kaupa krem í Bláa Lóninu og gista á Hótel Flugleiðum, og fara svo á djammið í miðborginni og fá sér hóru eða lauslátar unglingsstelpur.

Ég þekki Nubo ekki neitt.

miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Um Gömlukallasamfélagið

Ég er þáttakandi í samfélagi gamalla karla. Gamlir karlar eru varðhundar gamla fjórflokksins. Þeim eru borguð himinhá eftirlaun úr sjóðum almennings fyrir að vera hættir að vera til óþurftar og leiðinda. Samt halda þeir áfram að vera bæði til óþurftar og leiðinda. Þeir halda úti áróðursvél gömlukallasamfélagsins innan allra stjórnmálaflokka. Sér í lagi á hægri væng og miðju stjórnmálanna. Þetta er gæjar sem skilja eftir sig velferðarkerfi sem er ekki hægt að reka, lífeyrissjóðakerfi sem er hálf-þroskaheft, pólítískar stöðuveitingarhefðir, verðtryggingu/íslenska krónu, siðlausar réttlætingar sérhagsmuna og almennt ábyrgðarleysi þáttakenda.

Vanfærir gamlir karlar sem sitja um flokksþing og forystur, og hafa allir tíma til þess að véla um framtíð okkar með óskiptum atkvæðum sínum á meðan þau sem úti vinna hafa sárafá tíma eða tækifæri til að úthugsa nýjustu trixin í fundarsköpum ,til að bægja frá leiðréttingum á syndum gömlukallasamfélagsins.

Og þau sem með þeim sitja keppast við að ganga í augun á gömluköllunum. Og við höfum eignast fjarðstýrða „stjórnmálaforingja“ sem fjarstýrt er af gömlukallasamfélaginu. Þessum miklu „höfðingjum“.

...og svo eru fluttar viðhafnarfréttir af flokksþingum. ÆÐISLEGT.

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Snjórinn ekki vandamál, það er frostið

Bjarni Benediktsson var að útskrifast sem "enn einn snillingurinn á þingi" í gær, skv. þessari frétt. Skv. þeirri frétt segir hann á alþingi í gær: "Það er nú þannig með verðtrygginguna að ég held að hún sé ekki vandamál í sjálfu sér heldur verðbólgan,".

Það kemur mér ekki sérlega á óvart að svona hlutir séu sagðir á alþingi. Þetta er eins og að segja: "Það er ekki snjókoman sem er vandamál, heldur frostið. Án frosts snjóaði ekki heldur rigndi." Þetta er einstaklega gáfulegt, eða hvað? Maðurinn hlýtur að vera snillingur. Þurfum við í alvöru að greiða þessum manni laun?

Það er reyndar mín krafa að menn sem hafa ekkert að segja, þeir þegi.

fimmtudagur, 27. október 2011

Greiðslumunkurinn

Þegar ég er loksins dauður mun verða gefin út ævisaga mín "Greiðslumunkurinn, íslenskur borgari."

Þegar hafa nokkur greinaskil verið skrifuð og eru þau birt hér:

"Það var Einari líkt að deyja 67 ára að aldri, enda vildi hann alls ekki verða enn einn sligandi bagginn á lífeyrissjóðakerfinu og heilbrigðisþjónustunni. Einar naut þess alla tíð að greiða verðbætur og skatta, einnig brosti hann alltaf út í annað þegar hann fékk þær fréttir að einhver gat gripið sér ölmusu af almannafé. Það hlýjaði honum svo um hjartaræturnar."

"Einar tók snemma þá ákvörðun að borga fyrst til skammtheimtunar og svo til kröfuhafa, síðast hugsaði hann um að reka heimili, enda dáðust ráðamenn þjóðarinnar af eljusemi hans. Vart þarf að tíunda frekar um staðfestu Einars í þessum efnum, þar eð hann hlaut fálkaorðuna árið 2027 fyrir afrek sín í greiðsluþolinmæði. Í greinargerð Deutsche Bank sagði meðal annars: "Hvar hefði Dieter Weber átt að ávaxta gullið sitt ef Einars hefði ekki notið við?""

"Á öðrum áratug þessarar aldar hugsaði Einar oft á tíðum þá skelfilegu hugsun að flytjast til annarra landa, var hann á tímabili myrkurs m.a. reiðubúinn til að yfirgefa stórfjölskyldu sína, vini og ástfólk. Varð honum þá hlustað á eldræðu þáverandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur í sjónvarpsfréttum, þar talaði hún í hann kjark og eldmóð til að lifa lífinu til þess að greiða skuldir Íslands. Einar stóð upp fyrir framan sjónvarpstækið og klappaði taktfast saman höndum. Húrra, húrra, húrra! Mátti heyra hljóma í stofunni hjá þeim hjónum, Einar grét af gleði. Upp frá þessari stundu ákvað Einar að gerast fyrsti greiðslumunkur á Íslandi."

"Einar þótti lengi vel kankvís og gamansamur svo, að undrum sætti. Þessu líferni sneri hann baki við og tileinkaði líf sitt ríkisstjórninni og skattheimtunni sem hann taldi skorta fé. Þótt hlutdrægt þætti að segja að Einar hafi bjargað skattheimtu Íslands, þá má segja sem svo að ef hans hefði ekki notið við hefði verið vonlaust mál að halda úti allri þessari heilbrigðisþjónustu á Vopnafirði."

"Dóttir Einars, Edda Lind, segir svo frá æsku sinni: "Ég man hvað föður mínum þótti mikið vænt um ríkisstjórn Íslands. Á yngri árum var ég oft gröm yfir því hversu ótrauður hann gekk til verks í þjónustu sinni við föðurlandið. Ég man eins og gerst hefði í gær þegar hann borgaði heldur bifreiðagjöldin en að kaupa á mig gleraugun sem mig vantaði vegna sjóndepurðar. Einnig fylltist ég reiði þegar hann sagðist ekki geta greitt tannlæknaþjónustu fyrir mig. "Nei, tennur eru ekki jafn mikilvægar og þak yfir höfuðið." Tönnlaðist faðir minn alltaf á. "Þú mátt velja, þak yfir höfuðið eða tennur?" Nöldraði Pabbi minn. Í seinni tíð hugsa ég alltaf til föður míns með hlýjum hug þegar ég á í vandræðum með að tyggja kjöt. Það vekur upp svo margar hlýjar minningar. Núna skil ég auðvitað að pabbi vildi bara borga og standa sig sem greiðslumunkur. Hans hinsta ósk var að erfðafjárskattur yrði hækkaður svo um munaði, svo dauði hans mætti verða til góðs."

fimmtudagur, 13. október 2011

Ég er fáviti

Ég er einn af þessum fáráðlingum sem er Íslendingur. Ég nefnilega er ólýsanlega vitlaus. Ég yppti öxlum árin 2005, 2006, 2007 og 2008 þegar ég sá verðtryggða lánið mitt hækka daglega. Það var ég sem gerði það.

Hausinn á mér er líklega úr gegnheilu grjóti eins og alþingisveggurinn. Algjörlega óstarfhæft heilabú. Ég hef ekki kastað einu eggi þótt að eftir brauðstrit til margra ára ætti ég ekki skítinn í rassgatinu mér.

Ég er svo mikill aumingi. Ég hef horft á það, án þess að stynja eða ropa hvernig gagnsæja rúðan hennar ríkisstjórnar hefur horfið í móðu. Ég var svo vitlaus að trúa því að Eva Sólan skyldi vera frelsandi franskur engill með silfurfjaðrir Egils. Ég er með svo miklu drullu í hausnum að ég sætti mig líklega við að enginn virðist hafa brotið af sér á árunum fyrir þessa "litlu" kreppu sem við eigum við að etja.

Ég er svo heimskur að ég skil ekki af hverju fjármálafyrirtæki mega ekki fara á hausinn eins og önnur fyrirtæki. Það vantar svo margar heilafrumur í grjóthausinn á mér að ég virðist sannfærður um að best var að ég tapaði öllum eigum mínum svo enginn missti nú trú á skuldabréfamarkaðnum eða hlutabréfamarkaðnum sem er stjórnað af tölvum.

Ég er svo vitlaus að ég er til í að skulda peninga sem hafa aldrei verið til og ég hef aldrei fengið að láni. Ég er svo vitlaus að trúa því að ég skuldi 25 milljónir, þegar ég fékk 15 að láni. Hitt eru peningar sem hafa aldrei verið til. Það er eins og ég hafi verið skotinn með haglabyssu í barnæsku í gagnaugað, því ég er svo vitlaus að ég skil ekkert af þessu.

Ég verð bara að halda áfram að taka á mig skattahækkanir, þjónustuskerðingu, eignamissir, launalækkanir, verðbætur og heilsumissi svo að Ólafur í Samskip og Deutsche Bank geti lifað óbreyttu lífi. Það væri óþolandi ef Ólafur gæti nú ekki riðið Elton John í næsta afmælinu sínu. Það er svo óheilbrigt að vera gramur yfir svoleiðis hlutum sem eru eðlilegir á Íslandi. Það er svo leiðinlegt svona neikvætt fólk sem lætur ekki allt yfir sig ganga og er alltaf að nöldra á netinu. Ég verð bara að reyna að útvega mér DV blaðið frá því í síðustu viku sem ég hafði ekki efni á að kaupa, mig langar svo að vita hvernig ég get aðstoðað fleiri auðmenn í að vera áfram svoleiðis karlar í krapinu. Jón Ásgeir er kúl núna, hann segir að það sé ekki INN núna að vera mikið í einkaþotum og kavíar. Hann kann að tolla í tískunni. Hvað ef það væri í tísku?

Ég á örugglega bara eina heilafrumu, hún segir mér að vera áfram duglegur og elska alla sem gera ekkert í því að gera Ísland að betra landi. Ég er ekki með neina heilafrumu sem segir mér að allir inni á Alþingi séu fávitar með hvorugt eistað undir sér lengur. Mér hefur aldrei dottið í hug eina sekúnda að geldingarnir á Alþingi hafi látið beigja sig til að hugsa ekki heildstæða hugsun. Þaðan af síður hefur mér dottið í hug að gefa Jóhönnu Sigurðardóttur fokkmerki þegar ég sé hana í sjónvarpinu.

Nei heilafruman mín segir mér að vera stilltur strákur og fara út á bensínstöð og borga 250 krónur fyrir olíulítran svo að Steingrímur geti fengið 170 krónur. Nei heilafruman mín er góð, hún vill að ég mæti í vinnuna í kvöld svo að Halldór Ásgrímsson geti fengið eftirlaunin sín.

Nei ekki eina millisekúndu leyfi ég mér að vera neikvæður út í Árna Pál Árnason sem telur líklegast og eðlilegast að mér gangi best að lifa ef ég skulda 110% í íbúðinni sem ég ætti ef að ég hefði ekki borgað með henni til að losna við hana.

Nei ég er ákaflega glaður í hjarta, og veit ekki hvað ég myndi gera ef ég væri ekki svona heimskur og myndi missa þessa einu heilafruma sem ég hef enn til að bera.

þriðjudagur, 4. október 2011

mánudagur, 26. september 2011

Bilað lið

Nú ber svo við að Ríkið vill fjármagna allar "stærri" framkvæmdir með því að stofna eignarhaldsfélög og leigja svo af sjálfu sér eignirnar.

Svona eins og ég myndi sjálfur stofna ehf. um hús mitt og skuldir, og leigja svo húsið mitt af sjálfum mér, og trítla svo um stræti Egilsstaða og monta mig af því að skulda ekki neitt. Bilun.

Þetta er mest absúrd leið sem hægt er að fara til að fela lántökur fyrir sjálfum sér. Sama leið og nokkur sveitarfélög sem voru undir handleiðslu Sjálfstæðisflokksins fóru á árunum fyrir hrun, með því stofna félagið Fasteign.

Nú vill vinstri stjórnin fara sömu leið og Álftaneshreppur, Reykjanesbær og fleiri fjármálaundur meðal íslenskra hreppa fóru svo eftirminnilega undir handleiðslu Sjálfstæðisflokksins.

Þrátt fyrir athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Vill Steingrímur ekki láta segjast.

Frábær leið til að gera ríkisinnkaup ógagnsæ og vinaleg í gegnum sérstök eignarhaldsfélög, sem stjórnað verður af Alfreðum Þorsteinssynum framtíðarinnar. Frábær leið til að búa til árlegan óhagganlegan rekstrarkostnað á fjárlögum til eilífðarnóns. Frábær leið til að sökkva enn dýpra.

_________________

...og ekki nenni ég að minnast á þetta blessaða sjúkrahús sem á að byggja við N1 stöðina við Hringbraut.

föstudagur, 23. september 2011

Jarmað í Fljótsdal

Fór með Fljótsdælingum að smala í gær. Fórum frá Laugará undir Snæfelli, þar sem búið er að byggja magnað hótel og hlaða potta með heitu vatni frá nátturunnar hendi. Algjörlega einstakt að hafa Snæfellið starandi á sig, sjá ofan í efri dalinn og hlusta á jarmið í nokkur hundruð kindum. Í góðu veðri. Svo var drukkið kaffi, dregið í sundur og farið heim.

Hver þarf að eiga myndavél, þegar hægt er að festa svona minningar í heilanum? :)

miðvikudagur, 14. september 2011

Töfralausnir rjúpnastofnsins

Sumir telja rjúpnastofninn við þolmörk. Rjúpu hafi fækkað svo mikið að líta beri til þess að friða stofninn tímabundið. Þetta verður að skoða.

Nær grátlegt er að skotveiðimenningu á Íslandi skuli hátta þannig til að fyrsta rjúpnaveiðidag ársins skuli þúsundir íslenskra karlmanna hlaupa í móa og fjöll til þess eins að skjóta heimskar hænur af 10-30 metra færi. Þetta á víst að vera karlmennskutákn. Á kaffistofum vinnustaða eru svo sagðar veiðisögur, og því fleiri rjúpur sem þeir hafa hengt á útidyrnar heima hjá sér - því meiri karlmenni eru þeir í augum vinnufélaga. Nú skal ég ekki leggja dóm á hversu miklu meiri karlmenni þeir eru fyrir bragðið, heldur viðurkenni ég að þetta er vandamál. Aðallega þá fyrir rjúpnastofninn að sjálfsögðu.

Því miður er ekki um það að tala í þessu tilviki að veiða og sleppa. Fáir hefðu áhuga á rjúpnaveiðum með púðurskotum. Verðum við ekki einhvern veginn í fjáranum að leyfa náttúrunni að njóta vafans?

Nokkrar leiðir væri hægt að fara án þess að friða rjúpuna 100%, hér skal ég nefna nokkrar leiðir.

1. Einungis má veiða á laugardögum.
2. Þeir sem skilað hafa inn tveimur refaskottum eða fleiri á árinu fá leyfi til að skjóta einnig á sunnudögum.
3. Þeir sem verða uppvísir af því að selja rjúpnakjöt eigi yfir höfði sér kr. 350.000 í stjórnvaldssekt.
4. Þeir sem þurfa á aðstoð björgunarsveita að halda missi skotveiðileyfið að eilífu. (þetta gæti dregið verulega úr veiði.)
5. Opna fyrir veiðar á álftum í rannsóknarskyni :) , til að draga úr karlmennskusýniþörf karlmanna og dreifa henni betur yfir árið.
6. Að spila lygilegar veiðisögur milli kl. 10 og 11 alla morgna á Rás2 þannig að skyttur finni ekki eins mikla knýjandi þörf til að segja nýjar veiðisögur.
7. Að banna orðið Rjúpa með lögum og nefna fuglinn íslenska hænu, því það hlýtur að vera minna sport að skjóta hænu en rjúpu.
8. Að dreifa gervirjúpum um dali og fjöll, þannig að skyttur lendi reglulega í því að skjóta "falskar hænur" og fái hugsanlega leið á hænuveiðunum.
9. Að útrýma fálka á Íslandi, því hann étur jú rjúpu í talsverðum mæli.
10. Að selja rjúpnaveiðileyfi á 50.000 kr. stk til að eingöngu hálaunafólk, sem nennir vart að ganga til fjalla, hafi efni á að veiða rjúpu.

....eða var þetta djók?

föstudagur, 2. september 2011

Þórunnarbless

Þórunn dóttir Sveinbjarnar er hætt á þingi skv. þessu.

Kemur þá tvennt myndrænt upp í huga mér:



mánudagur, 29. ágúst 2011

Kínagæinn

Ég fagna því að þessi Kínagæji sé á góðri leið með að tryggja sér Grímsstaði á fjöllum, sé það rétt að hann hyggist byggja þar upp farsæla ferðaþjónustu. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Það er nauðsynlegt að fámennari landshlutar eignist fjárfesta sem tilbúnir eru að festa fé í ört vaxandi geira, og að ferðagjaldeyrir dreifist betur um landið, þ.e. útfyrir "gullna hringinn".

Stjórnvöld hljóta að sjá að Kínagæjinn getur gert meira en fært bóndanum á Grímsstöðum björg í bú. Hann getur lyft grettistaki í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og orðið öðrum fyrirmynd til stórra verka í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Nú þekki ég ekki nákvæmlega hver vatnsréttindi Grímsstaða á Fjöllum eru, þó er ekki ólíklegt að Kínagæinn kunni jafnvel með þau að fara, og væri hann íbúi á Evrópska Efnahagssvæðinu.

Semsagt áfram Kínagæi, og Ögmundur að sjálfsögðu.

miðvikudagur, 18. maí 2011

Veruleikafirring Fáskrúðsfirðings

Mikið er það ömurleg staðreynd að austfirskar hægrisinnaðar húsmæður, nokkrir hægrisinnaðir bændur úr minni sveit og mjög náinn ættingji hafi látið lífskúnstnerinn og einkaneyslufíkilinn Tryggva Þór Herbertsson plata sig til að kjósa sig á þing.

- Tryggvi telur sig ekki geta lifað á þingmannlaunum einum saman.

Tryggvi er enn að ljúga. Efri millistétt er ekki þeir sem geta ekki lifað af launum sem eru vel yfir meðallagi.

Amerísk skilgreining á "efri millistétt" hljóðar einhvernveginn svona: Þeir er hafa góða menntun og tekjur sem eru EKKI yfir meðallagi. Margir hverjir ráðgjafar, eða eru virtir að verðleikum sem fræði- eða fagmenn.

Að tilheyra efri millistétt fjallar um virðingarstiga og menntun frekar en laun eða ríkidæmi.

ERGO: Vandamálið hjá þér Tryggvi, er að þú ert ekki nógu skynsamur í eigin fjármálum. Þú lifir eins og kóngur og áttar þig ekki á stöðu þinni í lífinu. Þekkt fyrirbæri sem íslenska orðið "veruleikafyrring" nær að fanga svo auðveldlega og lýsir stöðu þinni ákaflega vel.


laugardagur, 14. maí 2011

Molar um þorska #1

Það besta við kvótakerfið eins og það er rekið í dag er hugmyndin um „fiskveiðiár“. Við skulum ekki breyta hugmyndinni um „fiskveiðiár“. Hagkvæmnin sem felst í því að veiða ákveðið magn af fiski yfir allt árið er mikil.

Muninn á sóknarmarki og aflamarki þekkja of fáir sem ég þekki.
Sóknarmark er þegar ALLIR sem vilja keppast um að veiða fyrirfram ákveðið magn. ALLIR vilja veiða sem mest á sem stystum tíma til að auka sinn hagnað. Þannig er innbyggt í sóknarmark að skip verða fleiri en þörf er á, og aflinn er veiddur á styttri tíma. Niðurstaðan er því of stór fiskifloti með of mikla afkastagetu og því enga hagkvæmni.

Þeir sem vilja kasta ryki í augu fólks, eins og t.a.m. Tryggvi Þór Herbertsson, láta í það skýna, að einungis núverandi kerfi geti boðið upp á „fiskveiðiár“. Það er RANGT.

Hægt er að bjóða veiðileyfi til sölu sem miðast við að ákveðin afli sé veiddur á einu ári.

föstudagur, 13. maí 2011

Klappstýran í Hörpunni

Veskið mitt vældi eins og gömul fiðla í kvöld - vitandi það hvað Harpan kostaði.

Við verðum að þakka Björgólfi Guðmundssyni fyrir Hörpuna. Án hans hefðum við aldrei getað setið fyrir framan sjónvarpið í kvöld og dáðst að Hörpu. Þetta er allt honum að þakka. Hverjum öðrum hefði dottið í hug að reisa svo frábært hús. Áfram BJÖGGI!!!!

Og jákvæða umfjöllunin alveg áreynslulaus - koma svo Íslendingar - látum bara eins og við höfum viljað þetta hús? Áfram Björgólfur.

___________

Horfði á forsetann - hann var ágætis klappstýra þarna í Hörpunni í kvöld. Soldið táknrænt einhvern veginn að einhvern veginn að forsetinn skuli hafa verið aðalklappari á opnunarhátíð Hörpunnar. Frábært Björgólfur! Klöppum fyrir Björgólfi!

Þannig upplifði ég þetta, auðvitað voru einhverjir iðnaðarmenn þarna sem voru að klappa fyrir flottum flutning Sinfó o.fl.

- EN ég held að forsetinn hafi verið að klappa fyrir Björgólfi.

laugardagur, 7. maí 2011

Það var ekki fyrr en nú undanfarið að ég hef illa fylgst með fréttum og lítið skoðað heimsmálin eða landsmálin. Fór svo að fletta hér á internetinu áðan.

Og sé að Jónas hefur valtað yfir Egil. Leit aðeins á það.

Sá svo að Þráinn hefur hraunað yfir Þorgerði. Las fljótt yfir það.

Og að Páll útvarpsstjóri hefur hrokast út í Eið. Skautaði snöggt yfir það svell.

Komst að því að ég hef lítið lent í "battli" af þessu tagi. Ætli það sé heilbrigt? Eða Óheilbrigt? Er hollt að rífast og skammast með offorsi? Hlýtur að veita einhverja fróun - fyrst svo margir stunda það?

Væri ekki skemmtilegra að þetta fólk myndi yrkja níðvísur hvert um annað og jafnvel rappa þær - svo þetta yrði eilíf skemmtun?

föstudagur, 25. febrúar 2011

Erótíska salatið

Stundum horfi ég á matreiðsluþætti. Ekki það að ég fari svo inn á textavarpið til að sækja uppskriftirnar, heldur eru þeir ágætis dægradvöl við ákveðnar "aðstæður" í lífinu.

Hef séð tvo nýja matreiðsluþætti nú undanfarið í sjónvarpi.

Annar þeirra er á Rúv í umsjá hennar Jasmín. Ég skil sumt af því sem hún segir og eldar hún örugglega ágætis kássur. Hefði samt gefið henni eins og tvö ár á ÍNN til að þjálfa sig betur.

Hinn matreiðsluþátturinn er á Stöð 2, og er meinfyndinn að mínu áliti. Þar eru umsjónarmenn Solla Græna og Dorritt forsetafrú. Mér varð litið á þennan þátt í gærkvöldi, og náði að "fóstra" kaldhæðnina og hrokann talsvert. Meðal annars var ég að missa það þegar Dorritt hrærði í einhverju salati með berum höndum með afar erótískum og einbeittum hreyfingum. Myndi hræra mér svona salat, ef eitthvað af hráefninu í það fengist á Austurlandi - utan við salt og pipar.

ps. Biðst afsökunar á að fjalla ekki um nýlega ákvörðun Ólafs Ragnar, stjórnlagaþing eða Arnþrúði Karlsdóttur.

fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Fangelsið á Eiðum


Fyrst að hugmyndir eru uppi um að gera fangelsi úr vinnubúðunum á Reyðarfirði, þá verð ég bara að koma með framhaldshugmynd - svona í gríni og alvöru.

Á Eiðum, 12 km frá Egilsstöðum var Alþýðuskólinn starfræktur svo lengi sem elstu menn muna. Þar er auðvelt að girða í kring. Tilbúið smíðaverkstæði, íþróttasalur, tugir glæsilegra herbergja (með gluggum sem auðvelt er að fest rimla), lítið notuð kirkja, mötuneyti, matsalur, sjónvarpsherbergi á öllum göngum, starfsmannahús, gamalt pósthús (fyrir smyglara), sundlaug og svo mætti endalaust telja. Hestaleiga er í grenndinni og því gætu fangar farið á hestbak í sunnudögum - því varla fá þeir heimsóknir svona langt frá höfuðborginni (eða er það misskilningur að brotamenn komi þaðan?)

Meira að segja mætti hugsa sér að glæpamenn vinni að viðhaldi húsanna og geri þau fallegri heldur en þau hafa orðið í meðförum núverandi eiganda (Jonni Sighvats).

Skv. mínum upplýsingum er brunabótamat húseigna á Eiðum um 300 millj. Svo er bara að kýla á það Ögmundur Jónasson.

miðvikudagur, 9. febrúar 2011

Um sjoppuna

Svona mun víst lífið vera, einhver "Kalli" orðinn ritstjóri Eyjunnar. Veit ekki hvað það þýðir. Líklega óskaplega lítið í stóra samhenginu. Eyjan líklega frekar rauðari í kjölfarið, líkleg til að linka ekki á fundarboð hjá Heimssýn og svo framvegis.

Annars hefði verið gaman að fylgjast með Eyjunni í "annarra manna höndum" fyrst það var nauðsynlegt að selja sjoppuna.

mánudagur, 7. febrúar 2011

Orrahríðir framundan

Það er fróðlegt að fylgjast með átökum innan Sjálfstæðisflokksins. Í raun athyglisvert að þrumugnýr hinna gömlu stóðhesta Sjallana hafi ekki náð í gegnum freðið yfirborðið fyrr en nú. Gömlu stóðhestarnir eru ósáttir við tilburði hins unga fola sem nú rekur til Sjálfstæðismerarnar.

Miðað við allt, er óumflýjanlegt að fram fari einhvers konar uppgjör í Sjálfstæðisflokknum. Óumflýjanlegt að einhverjir folar verði geltir og jafnvel teknir af lífi svo stóðlífið í Sjálfstæðisflokknum megi verða örlítið meira aðlaðandi.

Davíð Oddsson virðist vera einhvers konar Orri frá Þúfu Sjálfstæðismanna, sem fyrir styttra komna í hestamennsku er einhver vinsælasti, og jafnframt umtalaðasti og umdeildasti stóðhestur Íslands hin seinni ár. Orri frá Þúfu er hins vegar orðinn gamall og bráðum ófrjósamur – rétt eins og Davíð. Því leita hryssueigendur á Íslandi í syni Orra, eða bara allt annað blóð.

En sem sagt það verður uppgjör í Sjálfstæðisflokknum, óumflýjanlega, eins og í öðrum flokkum. Það er alls ekki víst að Bjarni Ben standi af sér margar „orrahríðar“.

Uppgjör eiga eftir að eiga sér stað í öllum fjórflokkum.

-Ekki eru allir framsóknarmenn sáttir við heimssýn Sigmundar Davíðs, og víst er að sonur Steingríms bíður færis. Þar fer enginn tittur. Heldur þolinmóður dorgveiðimaður.

-Óánægjan kraumar undir í VG. Steingrímur veit af aftöku sinni þegar hann missir tökin á valdataumunum.

-Gráa hryssan í Samfó á fá skrefin eftir. Líklegt er að kjósa verði oftar en einu sinni um eftirmann hennar áður en „sátt“ verður um formann flokks, sem líklega mun standa eftir með gamla fylgi alþýðuflokksins.

þriðjudagur, 1. febrúar 2011

Flottur klúbbur

Gúgglaði Finnboga Jónsson í dag, sem er víst framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, sem mun vera eigandi margra mikilfenglegustu fyrirtækja landsins. Var að velta fyrir mér fortíð hans og hvort það gæti spilað inn í að hann var stjórnarformaður Samherja, forstjóri SVN, forstjóri Icelandic Seafood og svo mætti lengi telja á árum áður. Er eitthvað í hans fortíð sem fær hann til að vilja eitthvað fleira en að eigendur lífeyrissjóðanna fái hámarksávöxtun? Þessari spurningu var ég að velta fyrir mér.

Það er náttúrulega vart í frásögur færandi að er ég hafði gúgglað manninn datt ég inn á félagatal Rótarýklúbbsins í Austurbæ - sem finna má hér - aldeilis stórmerkilegur listi, þó ekki væri nema fyrir það hversu vel menn eru titlaðir í þeim klúbbnum. Aldrei hefði mér dottið í hug að svo mikil "elíta" væri komin saman á einum stað. Auðvitað er augljóst að félagatal þetta segir enga sögu um nokkurn skapaðan hlut, nema að líkur sækir líkan heim.

fimmtudagur, 27. janúar 2011

Kröfugerð

Á ég þá að fara í mál við alþingi? Búinn að "eyða" peningum í að keyra á kjörstað og fórna dýrmætum tíma mínum í að kynna mér NÚMER frambjóðenda. Þvílíkt tap - þvílík fórn.

Kröfugerð:

Kílómetragjald: 24 x 90kr = 2.160,-
Vinnutap: 3,4 klst = 24.970,-


Nei svona í alvöru talað. Ef einhverjir af þessum stjórnlagaþingsframbjóðendum vilja í alvörunni fara í skaðabótamál við alþingi þá hljóta þeir ekki mína meðaumkvun. Þeir verða bara að bjóða sig fram aftur.

Þetta er eins og að ætla í mál við Veðurstofuna þegar haustar of snemma.



mánudagur, 24. janúar 2011

Þorskhausar

Fjári er ég hugsi yfir þessu. Æ, þið vitið krafan frá SA um að "eitthvað" þurfi að liggja ljóst fyrir vegna fiskveiðistjórnunar í Íslandi.

Svo beinn þrýstingur á eitt pólitískt þrætuepli er skrítið meðal. Eitthvað svo rangt við þetta.

Ja,. svona einhvern veginn eins og SA gæti lagt það næst á matardisk stjórnvalda að skilyrði gerðar kjarasamnings væri að fóstureyðingar yrðu bannaðar á Íslandi.

mánudagur, 10. janúar 2011

Ráð dagsins

Eftir að hafa horft á tíufréttir Sjónvarps er einungis eitt ráð sem ég get gefið meðlimum í þingflokki VG, varðandi samskipti við fjölmiðla: Hættið að standa eins og aular við lyftuna, takið STIGANN.

Heyrnarlaust fólk

Í gær sagði Ólafur Margeirsson frá því í góðu viðtali í Silfri Egils að lífeyrissjóðakerfið muni ekki standast tímans rás - og hrynja. Nauðsynlegt væri að koma upp nýju lífeyrissparnaðarkerfi - SÉREIGN. Honum þykir ekki einu sinni heillavænlegt að plástra kerfið.

Þarf kannski ekki að koma á óvart. En ég held að enginn hafi heyrt þetta í REYND. Greyjið Ólafur þarf að mæta aftur í viðtal eftir 6-8 ár og reyna að svara þessari ósvaranlegu spurningu: "Af hverju hlustaði enginn á þig Ólafur Margeirsson, þegar þú settir fram gagnrýni á kerfið?"

Af hverju í ósköpunum hefur enginn ráðamaður verið spurður út í þetta nú á mánudagsmorgni? Af hverju í ósköpunum taka stjórnvöld ekki upp þráðinn við að rannsaka þetta fallvalta kerfi.

fimmtudagur, 6. janúar 2011

Enginn Adolf!

Ekkert er betra en að heyra ástkæra og ylhýra íslenskuna, við flughlið nr. 26, þegar maður hefur verið nokkra daga á erlendri grund - og er á leiðinni heim. Þegar ég heyri móðurmálið á ný skil ég ættjarðarljóðin þúsund og fimmtíu svo vel. Þá veit ég að ég er aðeins nokkur skref frá "heim". Heima er best.

_________

Fátt hefur breyst á einum mánuði. Fjölmiðlar eru í alvörunni ennþá að velta því fyrir sér hvað hjáseta þremenningana í VG þýðir "raunverulega" fyrir ríkisstjórnina.

_________

Páll Magnússon er raunverulega búinn að fatta hvað það er skítt að RÚV sýni ekki handboltaleiki í beinni útsendingu. Þegar það var ljóst fyrst varð ég fyrir talverðum vonbrigðum. Þá gerði Páll pirringslegar athugasemdir við sjónvarpsstöðina Stöð 2, en útskýrði ekki af hverju RÚV hefði misst af sjónvarpsréttinum. En horfum á björtu hliðarnar! Enginn Adolf Ingi! (hvaðan kom hann?).

_________

Einu sinni var Páll reyndar með rúmlega tvítugan mann í vinnu bakvið tjöldin við að reyna að fá GettuBetur yfir á Stöð 2 fyrir mörgum árum - þá flutti Páll ágætis fyrirlestra um hvers vegna ætti að leggja niður Ríkissjónvarpið, fyrir alla þá er heyra vildu.

Enginn Adolf!

Ekkert er betra en að heyra ástkæra og ylhýra íslenskuna, við flughlið nr. 26, þegar maður hefur verið nokkra daga á erlendri grund - og er á leiðinni heim. Þegar ég heyri móðurmálið á ný skil ég ættjarðarljóðin þúsund og fimmtíu svo vel. Þá veit ég að ég er aðeins nokkur skref frá "heim". Heima er best.

_________

Fátt hefur breyst á einum mánuði. Fjölmiðlar eru í alvörunni ennþá að velta því fyrir sér hvað hjáseta þremenningana í VG þýðir "raunverulega" fyrir ríkisstjórnina.

_________

Páll Magnússon er raunverulega búinn að fatta hvað það er skítt að RÚV sýni ekki handboltaleiki í beinni útsendingu. Þegar það var ljóst fyrst varð ég fyrir talverðum vonbrigðum. Þá gerði Páll pirringslegar athugasemdir við sjónvarpsstöðina Stöð 2, en útskýrði ekki af hverju RÚV hefði misst af sjónvarpsréttinum. En horfum á björtu hliðarnar! Enginn Adolf Ingi! (hvaðan kom hann?).

_________

Einu sinni var Páll reyndar með rúmlega tvítugan mann í vinnu bakvið tjöldin við að reyna að fá GettuBetur yfir á Stöð 2 - þá flutti Páll ágætis fyrirlestra um hvers vegna ætti að leggja niður Ríkissjónvarpið.....

Króna/EURO