þriðjudagur, 26. janúar 2010

Gjaldþrota Kaupfélagið skuldlaust

Kaupfélag Héraðsbúa er eitt þeirra félaga sem stóð ákaflega veikum fótum árið 2008. Enda höfðu ákvarðanir stjórnarmanna þess heldur betur fjarlægst upphaflegan tilgang félagsins. Allt hvað gat kallast frumvinnsla eða vörusala til bænda var lagt af. Sláturhús, kjötvinnsla, mjólkurstöð, timbursala, fóðursala, áburðarsala o.s.fr.v. var lagt af hægt og bítandi. Bændur á Fljótsdalshéraði stóðu hjá og varla ræsktu sig þegar félaginu þeirra var smám saman skolað niður í hlandskálar snillinganna.

Svo var komið árið 2007 að Kaupfélag Héraðsbúa rak kjörbúðir á fjörðum og stórmarkað á Egilsstöðum kenndan við Samkaup. Austfirskir bændur voru heppnir ef þeir gátu selt kartöflur í þeirri verslun. Upp undir hálfur milljarður fannst í Landsbankanum skyndilega þetta ár. Hann var fenginn að láni og nýttur til kaupa á verktakafyrirtækinu Malarvinnslunni, góðkunnu fjölskyldufyrirtæki í þorpinu sem hafði verið drifið áfram af eljusemi þáverandi eigenda - sem þó sáu fyrir að fjárfestingar félagsins voru vægast sagt glannalegar nú þegar framkvæmdum við álver og Kárahnjúka var að ljúka. Þetta sá stjórn Kaupfélagsins ekki fyrir, þrátt fyrir að húsmæður á Egilsstöðum hristu höfuðið frá fyrstu mínútu. Malarvinnslan varð svo gjaldþrota á haustmánuðum 2008. Í kjölfarið varð Kaupfélagið gjaldþrota í febrúar 2009. Í sjónvarpsviðtali af því tilefni sagði Björn Ármann Ólafsson, stjórnarformaður, í stórum dráttum að þarna væri ráðgjöfum félagsins um að kenna - þeir hefðu reiknað út að allt yrði í himnalagi. Önnur skoðun stjórnarinnar hefur ekki enn verið reifuð opinberlega.

Þrátt fyrir að Kaupfélag Héraðsbúa hafi orðið gjaldþrota. Þá var það víst fyrir "miskunn" Landsbankans að leið nauðasamninga var farin. Í dag eru um 20% af kröfum greiddar eftir að allar eignir hafa verið seldar úr félaginu. Eftir því sem ég best fæ skilið er Kaupfélag Héraðsbúa því skuldlaust í dag, og eignalaust. Það er sárgrátlegt að KHB varð 100 ára á seinasta ári - þvílíkt ár í sögu félagsins. Eftir að stjórnarmenn félagsins síðasta áratuginn höfðu smátt og smátt keyrt það í þrot - heyrist lítið frá eigendum félagsins, þ.e. bændum á Héraði. Hvað ætla þeir að gera? Ætla þeir að stofna nýtt samvinnufélag? Gefast upp gagnvart samvinnuhugsjóninni? Eða kjósa sér nýja stjórn Kaupfélags Héraðsbúa, þróttmeiri bænda sem hafa þá hugsjón að stunda atvinnugreinina búskap á Fljótsdalshéraði á næstu áratugum. Og "by the way", KHB er 101 árs í ár, það er gott ár til góðra verka.

mánudagur, 25. janúar 2010

Þegar skýrslan kemur?

Fréttir um að Rannsóknarnefnd um íslenska Hrunið þurfi aukin frest til að skila af sér skýrslu sinni eru ákveðið "áhyggjuefni". Getur skýrslan orðið rótin að öflugri seinni bylgju íslenskra mótmæla? Verður hún grunnurinn að mótmælabylgju sem breytir íslenskum stjórnmálum og stjórnarháttum frá fjórflokknum í átt að einhverju allt öðru? Sú seinni bylgja væru sterkari mótmæli og meira upplausnarástand en við höfum áður séð í íslensku þjóðfélagi.

Nú getur biðin ein skorið úr um nákvæmlega hvað nefndarmenn eru að tala um á fréttamannafundum og hvað hefur verið svo pirrandi að heyra um og átta sig á.

Hvað er það sem stendur í skýrslunni sem almenningur þarf tvo til þrjá daga til að lesa, skilja og sætta sig, eða ekki sætta sig við?

Mun nefndin fara fram á aukin viðbúnað lögreglu þegar skýrslan verður loks birt? Þessarar spurningar hefðu blaðamenn mátt spyrja.

Er ég kannski of dramatískt þenkjandi?

sunnudagur, 24. janúar 2010

RÚV brýtur þjónustusamninginn

Ríkisútvarpið, með Pál Magnússon í fararbroddi hefur gert sig sekt um samningsbrot við íslenska ríkið:

"RÚV skal bjóða upp á svæðisbundnar útsendingar á efni, þ.m.t. fréttir, menningu, afþreyingu
og listir til að þjóna betur ibúum á landinu öllu."

Þetta stendur í þjónustusamningi milli Menntamálaráðuneytisins og Rúv ohf. frá 23. mars 2007. Undir hann skrifa Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra og Páll Magnússon, ennþá útvarpsstjóri.

Rétt skal vera rétt.

Ætlar Páll Magnússon ekki að uppfylla þennan einfalda samning sem hann skrifaði sjálfur undir? Eða er leyfilegt að brjóta gerða samninga árið 2010? Gildistími samningsins er út árið 2012.

laugardagur, 23. janúar 2010

Hanna Birna í tísku?


Hanna Birna sigraði lauflétt í prófkjörinu.

En er þetta outfitt örugglega í tísku?

(myndin er tekin af www.mbl.is sem skrifar um sigurinn.)

Víst er skítafýla af eignasölunni

Margt er ritað um mistök fréttastofu Rúv með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar. Þar er fréttastofan vildi gera fasteignaviðskipti bankanna véfengjanleg, með tengingu við framafólk. Tengingin misheppnaðist, en upphaflegi tilgangur fréttaflutningsins stendur óhaggaður.

Söluferli bankanna á ýmsum eignum er ógagnsæ, og til þess fallinn valda vangaveltum um spillingu.

Punktur 1: Fasteign fer í almennt söluferli. Hún er sett í sölu hjá fasteignasala. Hvaða gegnsæja ferli ákvarðar um hvaða fasteignasali fær hana til sölu?

Punktur 2: Hvað er það sem tryggir að fasteignasalinn auglýsi eignina í dagblöðum eða netinu? Hverjir eru það sem frétta að eignin er á söluskrá?

Punktur 3: Hvað er það sem tryggir að vinur bankamanns fréttir ekki fyrir tilviljun að ákveðin eign sé komin á söluskrá hjá ákveðinni fasteignasölu?

Punktur 4: Hvenær er það sem bankinn tekur ákvörðun um að besta verði sé náð? Er það þegar Jón býður 69 milljónir, eða þegar séra Jón býður 69,2 milljónir korteri seinna?

Punktur 5: Hvenær er það sem fasteignasalinn ráðleggur bankanum að selja undir markaðsvirði? Er það þegar Jón hefur boðið 69 milljónir, eða þegar séra Jón hefur boðið 69,2 milljónir?

Opið söluferli er þegar eign er AUGLÝST til sölu, þá er tekið á móti TILBOÐUM í lokuðu umslagi, og þau OPNUÐ á sama tíma í sama rými að VIÐSTÖDDUM þeim er þessa óska. Er það kannski OF opið? Væri það of vel til þess fallið að auka trú almennings á bankastarfsemi og fasteignasala?

Alveg með sama hætti mætti fjalla um lausafjáreignir og hlutafélög á vegum bankanna.

Umræðan um lokað ferli eignasölu bankanna verður að halda áfram - því sem næst öruggt er að þar sem spillingu verður við komið, þar notfæra Íslendingar sér tækifærið.

Tilgangsminni Páll

Til hamingju Páll. Þér hefur loksins tekist að leggja niður svæðisbundnar útsendingar á landsbyggðinni. Í þriðju tilraun hefur þér tekist það - ódámur.

Um var að ræða einhverja bestu þjónustu sem Rúv hefur veitt til íbúa í mínum landsfjórðungi, hið minnsta. Þess ber að geta sérstaklega að hlustun á Svæðisútvarp Austurlands var mikil, og óvíst að hlutfallsleg hlustun verði nokkurn tíma aftur svo mikil á útvarp hér á landi.

Svæðisútvarp Rúv hafði veigamikinn tilgang á Austurlandi. Því fækkar sem hefur tilgang á vegum Rúv undir þinni stjórn Páll - einkennilega mikið.

þriðjudagur, 19. janúar 2010

Um Eignarhaldsfélagið Fasteign

Læt hér liggja grein er ég ritaði í þann merka miðil Austurgluggann á dögunum:

Ryki kastað í augu fólks á Héraði
Inn um lúguna barst íbúum ellefu sveitarfélaga á dögunum fallega prentaður snepill frá EFF, eða Eignarhaldsfélaginu Fasteign. Ég skal taka það strax fram að ekkert þyngir hjartslátt minn jafn mikið og þegar EFF berst til tals, slíka ímugust hef ég á því félagi.

Bæklingurinn er tilraun til að bæta ímynd félagsins gagnvart íbúum sveitarfélaga sem koma að því. Enda segir í bæklingnum á blaðsíðu 9: “Komið hefur fram gagnrýni á að leigugreiðslur til EFF séu háar. Á sínum tíma var lagt til innan einstakra sveitarfélaga að þau keyptu eignirnar sem þau leigja af EFF og tækju erlend myntkörfulán til umræddra kaupa.”

Í framhaldi af þessum setningum eru “tvær eignaleiðir” bornar saman og EFF segir frá því hvernig leigugreiðslur hafi reynst lægri en afborganir af evrulánum. Kemur á óvart, eða þannig. Rangfærslan í textanum er sú að ekki eru bornar saman tvenns konar eignaleiðir. Verið er að bera saman muninn á því að leigja og kaupa. Jafnvel við afborganir Evrulána verður til eigið fé, sem myndast ALDREI við útgjöld eins og leigugreiðslur. Það sem þarna kemur fram er því LYGI, staðreyndum um eignamyndun er haldið frá íbúum. Staðreyndin er sú að ef sveitarfélag hefur tekið óhagkvæmt og verðtryggt íslenskt lán frá íslenskum banka eða lánasjóði sveitarfélagana, þá getur hið sama sveitarfélag eignast bygginguna að skuldlausu á 25 árum. Að þeim tíma liðnum hefur sveitarfélagið borgað nálægt því sömu upphæð í afborganir af lánum og í leigugreiðslur af byggingunni. Munurinn er sá að ef sveitarfélagið hefur fjármagnað eigin byggingu þá er hún eign eftir 25 ár. Eftir 25 ára leigutíma hefur engin eign myndast, aðeins nauðvalið að leigja áfram á sama verði. Séum við þeirri villutrú haldin að lífið vari aðeins í 25 ár, þá er hægt að staðhæfa þess háttar rugl.

Væntanlegur, ímyndaður hagnaður
Á bls. 3 í bæklingnum koma fram tvær fullyrðingar. Sú fyrri: “Þegar leigugreiðslur hafa við lok leigusamnings greitt upp allan kostnað af viðkomandi fasteignum, verður til hrein eign sveitarfélagana, sem eigenda, innan félagsins.” Sú seinni: “Allur hagnaður rennur til sveitarfélags þíns og annara eigenda.”
Skoðum hvað kemur fram í textanum. Jú aðeins hálfsannleikur. Ekki kemur fram í textanum hverjir “aðrir” eigendur félagsins eru. Það er t.a.m. Íslandsbanki að helmingi sem nú er ekki vitað í eigu hverra er. Rétt er að upplýsa að í eigendahópnum er Háskólinn í Reykjavík, sem talinn er vera í fjárhagskröggum – ekki síst vegna hárra leigugreiðslna. Eitt af ellefu sveitarfélögum sem eru í eigendahópnum er sveitarfélagið Álftanes, sem rambar að sögn fjölmiðla á barmi gjaldþrots og hefur tæmt lausafjárreikninga sína.

Væntanlegur hagnaður fer því til Íslandsbanka að helmingi og skiptist auk þess milli fjölda sveitarfélaga. Vert er að hafa í huga að væntanlegur hagnaður er ekki það sama og hagnaður. Það vitum við núna árið 2009. Það skal jafnframt tekið fram að EFF á og rekur skrifstofuhúsnæði um allt land, ætlað undir bankastarfsemi Íslandsbanka. Hver fær skilið hvernig þessi samkunda varð til? Fyrrum Glitnir, með áhættusækna starfsmenn og hluthafa virðast hafa tælt fulltrúa í hinum ýmsu sveitarfélögum til samstarfs. Ennþá loka kjörnir fulltrúar sveitarfélögum augunum fyrir því að hið opinbera á ekki að vera einokunarviðskiptum við hagnaðardrifin hlutafélög.

Í glansbæklingi EFF er einnig minnst á endurskoðunarfyrirtækið KPMG. Í skýrslu KPMG kemur fram að EFF byggi hagkvæmar byggingar. Í texta er fullyrt: “Framkvæmdir á vegum EFF eru hagkvæmari og er munurinn allt að 30%.” Fullyrðingin ein stendur, hvergi er rökstutt hvernig það má vera? Þetta sama fyrirtæki hefur nú lagt blessunarhönd sína yfir EFF. Er þetta í fyrsta skipti sem KPMG prentar skýrslu sem hentar umbjóðendum sínum? Væri ekki úr vegi að töfrasprotar EFF útskýrðu hvernig þeim tekst að halda byggingarkostnaði 30% lægri heldur en opinbera útboðskerfið? Hvaða töfralyf er eiginlega drukkið í höfuðstöðvum EFF, svo aðrir húsbyggendur í landinu roðna?

Hvað mun Grunnskólinn kosta?
Í appelsínugula glansbæklingnum frá EFF segir: “EFF fjármagnar, byggir og rekur fasteignir.” Athugasemd verð ég að gera við þennan texta. EFF gat ekki fjármagnað byggingu Grunnskólans á Egilsstöðum, og guð má vita hvað annað fyrirtækið hefur ekki getað fjármagnað. Þá reyndist sveitarfélagið Fljótsdalshérað sterkari aðili en EFF og fjármagnaði bygginguna. Hins vegar hélt sveitarfélagið samningum við EFF í gildi með hjálp lögfræðinga sem þurftu að gera sitt allra besta til að halda flóknum gjörningum gangandi.

Ennþá hefur sveitarfélagið ekki kynnt hvað Grunnskólinn á Egilsstöðum kostaði eða hvað sveitarfélagið mun greiða mánaðarlega í leigu að núvirði meðan samningurinn er í gildi, og þá hversu mikið sveitarfélagið hefur greitt samtals í leigugjöld af Grunnskólanum á Egilsstöðum eftir 30 ár, þegar að bókfærð eign í grunnskólanum verður kr. 0,-? Væri ekki rétt að birta þetta herra bæjarstjóri, kæra bæjarstjórn og elsku bæjarráð á Fljótsdalshéraði?

Það sem við vitum ekki
Einnig væri gott ef við íbúar sveitarfélagsins fengjum að vita hvað bókhaldsbrellurnar þýða fyrir rekstur og efnahag sveitarfélagsins? Er það svo að leigukostnaður vegna grunn- og leikskóla á Egilsstöðum gjaldfærist á stofnanirnar? Leiðir þetta til þess að þið reiknið kostnað á hvern nemanda nú hærri en nokkru sinni? Gæti það verið af þeim sökum að ekkert af kostnaði við rekstur bygginganna eignfærist lengur? Er það þessvegna sem þurfti skyndilega að hækka leikskólagjöld í sveitarfélaginu?

Sjálfur lýsi ég þeirri skoðun að sveitarfélagið Fljótsdalshérað ætti að selja eignarhlut sinn í EFF, þegar kaupandi fæst og leysa til sín þær fasteignir EFF sem staðsettar eru í sveitarfélaginu.

Einar Ben Þorsteinsson
áhugamaður um sveitarstjórnarmál á Fljótsdalshéraði.

mánudagur, 11. janúar 2010

Smá klám-misskilningur

Konan mín kemur inn í stofu og spyr: "Einar, viltu horfa á klám."

Heyrðist mér.

Ég hvái. Enda ekki vanur svoleiðis ósóma.

Hvað meinarðu? "Klovn er að byrja í sjónvarpinu!! Hvað hélstu að ég hefði sagt?!"

Svona er að vera með "skapandi" heyrn. Ákvað að horfa á danska trúðinn.

sunnudagur, 10. janúar 2010

Vagga austfirskrar menningar

Skrapp í bíó í kvöld. Kannski ekki í frásögur færandi, nema að bíóferðin var farin til Seyðisfjarðar - vöggu austfirskrar menningar. Filman innihélt stórmyndina Bjarnfreðarson, sem var ágæt. Líður eins og kjána að hafa ekki uppgötvað kvikmyndahúsið á Seyðisfirði fyrr en nú. Sannast það fornkveðna að stundum er lengra til Seyðisfjarðar, en frá Seyðisfirði. Allt eins og að oft er lengra frá RVK til AK, en frá AK til RVK, í praxis.

laugardagur, 9. janúar 2010

Vikugamlir hvolpar

Vinnufélagi hefur nýlega fengið 4 litla hvolpa úr tík sinni. Þeir eru vikugamlir. Hann segir þá þroskast hraðar en Sjálfstæðisflokkurinn.

"Já, þeir eru lítillega farnir að opna augun." segir hann.

fimmtudagur, 7. janúar 2010

Kvæði á vegg

Við Shellstöðina á Egilsstöðum er kvæði Páls Ólafssonar málað á vegg.

Eg vildi' eg fengi' að vera strá

og visna' í skónum þínum,

því léttast gengirðu' eflaust á

yfirsjónum mínum.

Snilldarlega ort.

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Að spjalla sig í stjórnarkreppu

Ekki er ólíklegt annað en að Samfylking sá á ágætri leið með að tala sig út úr ríkisstjórn. Eina stjórnarmynstrið sem gæti fengið vinnufrið næstu árin. Forsætisráðherrann hefur ákveðið gera málið stærra í augum ríkisstjórnarinnar, en ástæða er til. Stjórnarliðar eru á góðri leið að kjafta sig inn í stjórnarkreppu. Umburðarlyndið er í lágmarki.

Sjálf varð vinstri stjórnin því valdandi að forsetinn sá sig knúinn til að senda lögin í þjóðaratkvæði. Ráðherra hefur sagt af sér vegna þessa máls. Þingmenn úr VG hafa haft efasemdir um lagasetninguna. Fyrrverandi formaður Samfylkingar leggst gegn lögunum. Stjórnarandstaðan er öll á móti lögunum, utan Þráinn Bertelsson. Ríkisstjórnin missti stjórn á málinu þegar horfið var frá því að keyra það í gegnum þingið í fyrra sinnið án breytinga. Eða var ríkistjórnin ekki valdameiri en þetta? Ríkisstjórn sem ekki tekur sér vald, lendir í því að einhver annar tekur sér það.

Setningar eins og: "Ríkisstjórnin eða forsetinn." munu leiða til stjórnarkreppu. Verkefni bíða ríkisstjórnarinnar á flestum sviðum. Mál eins og RÉTTLÆTI TIL HANDA ÞEGNUNUM bíða ennþá.
_________________________

Þegar ráðamenn funduðu með lífeyrissjóðum landsins um hvernig þeir gætu komið að uppbyggingu efnahagskerfis Íslendinga, kom niðurstaðan mér á óvart. Lífeyrissjóðir ætla að byggja mannvirki og leigja ríkinu þau. Afar kærkomið, eða þannig.

Ég var svo barnalegur að halda að möguleiki væri að íslensku lífeyrissjóðirnir borguðu Icesave skuldina á einu augabragði. Að greitt væri með erlendum hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum vafningum lífeyrissjóðanna á erlendri grundu. Og að ríkið skildi ábyrgjast skuldabréf og greiða lífeyrissjóðunum tilbaka á nokkrum tugum ára - á mannsæmandi vöxtum. Skuldabréfið gæti þess vegna verið hýst á erlendri grundu, og jafnvel selt öðrum fjármagnseigendum þegar vorar í íslenskum efnahag á ný. Mál af þessari tegund hefði flogið í gegnum þingið - og væri líklegast löngu afgreitt.

En NEI. Það virðist engan veginn hægt að horfa út fyrir þann þrönga ramma sem hengdur hefur verið upp á vegg í stjórnarráðinu.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Útvarp hefur mismunandi áhrif

Byrjaði daginn á morgungjöf, og að pikkfesta mig úti á túni í "afskaplega" miklum snjó. Hitti svo mun síðar fyrir leigusala minn, bóndann á Úlfsstöðum, sem réði sér ekki fyrir kæti. Jú hann hafði hlustað á útvarpið kl. 11:00, og líkaði vel við niðurstöðu kollega síns á Bessastöðum. Ég hlustaði á sama þátt í útvarpinu og komst ekki í sama vímuástand af inntöku tíðindanna. Varð frekar meir hugsi. Fór að spá í því fyrir alvöru hvort ég mun segja JÁ eða NEI. Ég hallast frekar að JÁ, a.m.k. í kvöld.
_________

Rökin um að forsetinn sé að skipta sér af utanríkismálum eru vinsælust meðal andstæðinga þjóðaratkvæðisgreiðslunnar. Að mínu viti er klárlega innanríkismál hvort íslenskir skattborgarar standi skil á slíkri upphæð. Mál sem hefur áhrif á efnahag þjóðarinnar til næstu tveggja áratuga hlýtur að vera að stórum parti innanríkismál. Þess vegna leka rökin vatni.

_________

Í kvöld mætti Þráinn Bertelsson í Kastljós, ásamt hinum formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Flestir við borðið hringhvolfdu augunum meðan hann talaði. Ég treysti mér ekki til þess að hringla augasteinum - þar eð ég skildi ekki hvað hann var að fara.

_________

Vantar sárlega öflugan talsmann Íslendinga í Evrópu, til þess meðal annars að útskýra ICESAVE málið fyrir erlendu pressunni, og hvað veg það hefur ratað á Íslandi. Nokkrir punktar sem mætti koma áleiðis eru t.d. "We have already approved to pay for the mess of EU legislation."

_________

Sigmundur Davíð hefur veikst talsvert sem formaður Framsóknarflokksins undanfarin misseri. Líklegt er að hann fái mótframboð á næsta landsþingi Framsóknar. Áramótaskaupið hefur í ofanálag opnað augu margra. Legg til að Sigmundur fari nú þegar til Kanada að leita lausnar á millaríkjadeilum.

mánudagur, 4. janúar 2010

Hver fann ekki G-blettinn?

Í morgunútvarpinu hlustaði ég á athyglisverða frétt, sem væntanlega er fengin af mbl.is (mest lesna frétt dagsins)

Fjallað var um að breskir vísindamenn hafa rannsakað 1800 kvenmenn, og komist að því að G-bletturinn er ekki til.

Vöknuðu þá tvær áleitnar spurningar. Rannsakaði sami maðurinn allar konurnar? Hvaða aðferð var beitt?

laugardagur, 2. janúar 2010

Nýársheitin....

1. Auka ekki reykingarnar.
2. Þyngjast ekki.
3. Fjölga ekki ókláruðum verkefnum.

Gengur vel til þessa.....

Óskar á Bessastaði?

Við vitum það sem viljum vita það að ÓRG er aðeins að performera í leikriti sem brátt tekur enda. Enginn mun klappa hann upp eftir að hann hneigir sig svo virðulega á Bessastöðum eftir að hafa undirritað nýjustu lögin frá Alþingi, eftir "rækilega" umhugsun og "gáfulega" niðurstöðu. Nei hann mun engann óskar fá sendan frá Hollywood eftir það leikrit.

Vonandi förum við að tala um alvöru pólitík í framhaldinu. Um aðskilda kosningu framkvæmda- og löggjafarvalds og að leggja niður forsetaembættið. Forsætisráðherrabústaðurinn gæti hæglega orðið Bessastaðir. Vilji menn halda í svokallað sameiningartákn, þá væri auðveldlega hægt að kjósa fjallkonu til fjögurra ára í senn og gæti hún verið til sýnis í Kringlunni, Smáralind, Glerártorgi og Krónunni á Reyðarfirði til skiptis.

Öll umræða og ákvarðanir um að breyta löggjöf um lánakerfi landsmanna hlýtur að vera á næsta leyti. Tveir stórir bankar komnir úr ríkiseigu, og meira að segja enginn veit hver á þá. Því frábært tómarúm til að klára verkefnið á nokkrum mánuðum.

Hvar er annarss þessi heildarendurskoðun á stjórnarskránni?

Króna/EURO