mánudagur, 19. nóvember 2012

Opið bréf frá mér

Kæru alþingismenn og konur

Efni: Sanngirni, verðtrygging og lausn.

STOPP! Við getum þetta ekki lengur. Lifað við fullkomna óvissu um hver skuldastaðan verður í lok hvers mánaðar, hvers árs og hvers áratugs. Við þolum ekki lengur að vera peð á taflborði fjármálahagkerfis sem er mikilvægara en nokkuð hjarta og nokkur samviska þessa lands. Við getum ekki staðið undir þessu lengur. Það eru til lausnir. Setjist niður og ræðið þær. Við erum að bíða. Við getum ekki beðið mikið lengur. Við verðum bráðum brjáluð. Við viljum sjálfsögð mannréttindi.

Þið hafið tækifæri á að verða hetjur morgundagsins. Þið getið gert sjálfsagðan hlut og hrósað ykkur af um ókomin ár sem bjargvættur íslensku alþýðunnar!

Hér fylgir ein lausn, sem er lagalega, siðferðislega og hagfræðilega hægt að koma í framkvæmd:

Markmið: Að auka sanngirni og að dreifa áhættu jafnt milli lánveitenda og lántaka hvað varðar verðtryggingu lána.

Lausnin: Lagður verður 50% skattur á verðtryggingu þann. 1. janúar n.k. Skatturinn greiðist beint til ríkisins af fjármálastofnunum og hvers kyns lánveitendum. Ríkið greiðir svo sömu upphæð sem vaxtabætur til lántakenda. Vaxtabæturnar greiðast hins vegar ekki út í reiðufé heldur sér ríkið um að greiða niður verðbætur um sömu krónutölu inn á hvert lán fyrir hönd lántakenda.

Afleiðingar: Aðgerðin hefði í för með sér margvíslegar afleiðingar sem sumar er hægt að sjá fyrir og aðrar ekki.

Ég veit að ég er algjört krútt og kannski kjáni. En er í alvöru ekki hægt að hlusta á mig?

þriðjudagur, 13. nóvember 2012

Sveitarómagans greinar


Margoft hefur Sighvatur Björgvinsson skrifað ógeðis-grein í Fréttablaðið. Þar kemur glögglega fram mannfyrirlitning og sögublinda sem einkennir hrukkótta og afgamla leikhúshvíslara fjórflokksins. Þessir hvíslarar eiga það reyndar allir sameiginlegt að vera á framfæri almennings, þrátt fyrir að hafa verið meira til óþurftar en gagns í gegnum tíðina, og valdið óbætanlegum þjóðhagslegum skaða. Arfleifð þeirra er partur af okkar stóra þjóðfélagslega vandamáli og meini.Og í tímaleysi sínu á eftirlaunum gerast þeir sjálfskipaðir meistarar í að afvegaleiða umræður. Hlustum ekki á þessi gömlu typpi, sem taka of marga kippi.

Sighvatur skautar framhjá afar mikilvægum staðreyndum. Sú fyrri er að gjaldmiðill okkar verðtryggða krónan er skaðræðis gjaldmiðill og hefur komið í veg fyrir, frá því hún var tekin upp, að eignir verði til hjá almenningi í landinu. Verðtryggða krónan hefur orðið til þess að lántakar hafa borið allan kostnað af þeim aragrúa efnahagsmistaka sem hafa verið gerð undanfarin 30 ár. Hin staðreyndin er sú að á sínum tíma var tekið upp samtryggingakerfi (lífeyrissjóðakerfi) sem heldur þjóðfélaginu í gíslingu með því að ríghalda í verðtryggðu krónuna.

Sighvatur tekur upp á skopi, stælum og mannfyrirlitningu og er eins og margir aðrir íslenskir fábjánar; kemur af fjöllum vegna þess hvað við hin erum vitlaus að skilja ekki söguna sem hann tók svo rækilegan þátt í að skapa. Sveitarómagi af verstu sort.


.....og hana nú!

föstudagur, 9. nóvember 2012

Kúbismi dagsins

Rak smettið í úrdrátt úr grein Vigdísar Hauksdóttur í Morgunblaðinu í dag. Þar fær hún þá flugu í höfuðið að enda "röksemdafærslur" sínar um fátækt með þessum orðum: „Hver ætlar að borða stjórnarskrána" – þegar ekki er til peningur til að kaupa mat?“

Ef ég gæti byrjað að stama þá væri sá tími kominn núna - það er bara ekki hægt að svara svona vitleysu. Þetta er einhvern veginn of absúrd -  svona eins og tilraun til kúbisma innan stjórnmálanna.

Hver ætlar eiginlega að éta grein úr Morgunblaðinu, þegar ekki er til peningur til að kaupa mat Vigdís?

Króna/EURO