þriðjudagur, 23. júlí 2013

Maður er nefndur

Ég man eftir allskonar pistlahöfundum í útvarpi. Nokkrum góðum. Þeir bestu hafa haft þann stíl að skrifa forskrúfaða, samansaumaða og jafnvel hnittna pistla um málefni líðandi stundar. Illugi Jökulsson og Karl Th. Birgisson voru meðal annarra fínir í þessu á sínum tíma. Þeir gátu verið, og þá sérstaklega Illugi óþolandi af rörsýni, og án allrar víðsýni. Báðir þessir nafngreindu menn aðhylltust kratískan eða vinstri hugsunarhátt, og var það ekkert verra en hvað annað - þeir fengu fólk til að hugsa. Það er aðalatriðið.

Þetta var ákveðið listform. Mesta listin er fólgin í því að gera háðskuna óþolandi.

Þetta hefur Hallgrímur Helgason náð að éta upp, og útfært listformið enn frekar. Þetta getur verið óþolandi, og jafnoft skemmtilegt. Fer eiginlega eftir því í hvað skapi hlustandinn er hverju sinni og hvort hann hefur gert íslenskt flokkakerfi að trúarbrögðum eða ekki. Ég get lofað ykkur því að listafólk af þessu tagi mun halda áfram að koma fram í útvarpi um ókomin ár, sama hvort það er hugsandi til hægri eða vinstri.

Aðalatriðið er að íslenskur rétttrúnaður innan íslenskra stjórnmálaflokka er að drepa okkur. Svo mjög að umburðarlyndið mælist negatíft. Meira að segja án þess að deilumálin mælist á hægri eða vinstri kvarða stjórnmálanna, í allt of mörgum tilfellum.

Við megum ekki láta eins og Hallgrímur Helgason hafi lesið Kóraninn á messutíma, þrátt fyrir að við séum mörg hver ósammála honum. Við verðum að geta lesið milli lína, og ákveðið með sjálfum okkur að fólk er ekki fífl og getur dregið þroskaðar og sjálfstæðar ályktanir af því sem það sér og heyrir í ljósvaka- og prentmiðlum.


mánudagur, 15. júlí 2013

Gamalt lífeyriskerfi er nýtt

Í fréttum hefur komið fram að búið sé að semja um nýtt lífeyrissjóðskerfi, einungis sé formsatriði að klára málið.

Afskakið ef ég var staddur á tunglinu. Nýtt lífeyrissjóðakerfi án þess að það hafi komið fram í nokkurri almennri umræðu? Er það ekki svolítið einkennilegt í rökræðusamfélaginu okkar?

Eða er bara verið að gera breytingu á réttindum opinberra starfsmanna og laga þau að réttindum á frjálsum vinnumarkaði? Hvað á maður að halda?

Ég get ekki séð að neitt NÝTT sé við kerfið, enda engin kerfisbreyting verið kynnt. Hefði ekki verið réttara að í þessum fréttaflutningi hefði komið fram að breytingar verði gerðar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna en lífeyriskerfið sem slíkt sé ÓBREYTT.

Af hverju eru birtar svona fyrirsagnir? (Í nánast öllum miðlum)  Nennti enginn að lesa innihald fréttatilkynningarinnar, og afla upplýsinga um breytingarnar? Eða er bara búið að gera stórvægilegar breytingar á lífeyriskerfinu? Verður þá ekki að útskýra í hverju þær felast?

þriðjudagur, 2. júlí 2013

Valdameiri forseti

Sú staða sem forsetinn hefur tekið sér með því að synja lögum staðfestingar, fyrst fjölmiðlalögunum og síðar Icesave, hefur haft stór áhrif á íslenskt stjórnmálalíf og pólitíska siðvitund almennings. Almenningur veit nú að stuðningur við undirskriftalista getur skipt máli.

Ríkisstjórnarflokkar sem lent hafa í synjun staðfestinga laga hafa lýst vanþóknun á forsetanum, jafnmikla og kæti þeirra hefur verið sem stjórnarandstöðuflokka hinu megin borðsins.

Þessi staða sem forsetinn hefur tekið sér, elska stjórnmálamenn jafnmikið og þeir hata. Nú vill vinstri vængurinn að forsetinn synji lögum staðfestingar, jafn heitt og sami vængur þráði að hann skrifaði undir lög um Icesave. Það er mjög stutt síðan. Undirskriftalistar og forsetahótun er nýjasta tækifærið sem stjórnarandstöðuflokka til að koma upp alvöru mótþrýstingi við lagasetningu, hvað sem forsetinn gerir í framhaldinu.


Nú eru margir að velta því fyrir sér á hvaða svítu forsetinn er að skrifa rökstuðninginn fyrir ákvörðun sinni. Það staðfestir að forsetinn hvílir sem þokuslæða yfir þinginu, og er ógnvaldur við ríkisstjórnir – þótt ólíklegt sé að hann reiði svipuna til höggs í þetta sinn. Þrátt fyrir að hafa áður sagt að auðlindamál séu vel til þjóðaratkvæðagreiðslu fallin, mun hann útskýra í afar löngu máli, baðaður í flassljósi myndavélanna, að þarna sé ferðinni tæknilega flókið skattamál sem almenningur megi ekki blanda sér í.

Taktu lán og kauptu kvóta

Taktu þér lán og kauptu þér skip og kvóta. Borgaðu af láninu, borgaðu vextina og reyndu að láta viðskiptin ganga. Bættu við kvótagjaldi og það verður erfiðara.

Kvótagjaldið, er ekki stórt vandamál, skipið er það ekki heldur, mest þurfti að greiða fyrir kvótann.


Þess vegna verður aldrei sanngjarnri skattheimtu náð á útgerðarmenn og konur nema með því að vinda ofan af kvótakerfinu og breyta því hægt og örugglega í kvótaleigukerfi ríkisins. Aldrei fyrr en þá getur markaðurinn greitt hárrétt verð fyrir náttúruauðlindina á hverjum tíma. Aldrei fyrr en þá getur markaðurinn sjálfur greitt nákvæmlega rétt afgjald fyrir auðlindina. Aldrei fyrr en þá verður hægt að segja að sönn frjálshyggja sé að verki í sjávarútvegnum, þar sem lögmálið um framboð og eftirspurn ræður ferðinni.

Króna/EURO