þriðjudagur, 25. júní 2013

Svarthol efnahagslífsins

Í dag hjálpaði ég góðum vini mínum að flytja síðustu og þyngstu hlutina út úr íbúðarhúsi sem nú er í eigu lífeyrissjóðs. Það var ekki góð tilfinning. Bújörðin fór á uppboð eftir að lögmaður hafði reynt að fá niðurfellingar til að hægt væri að standa í skilum. Þar sem um bújörð er að ræða áttu engar "frábærar" leiðir við fjölskylduna sem nú svæfi úti, nema fyrir velviljaða ættingja þeirra.

Þetta vinafólk er ég að hugsa um áður en ég reyni að sofna. Þetta fólk gerði sitt besta, og varð svo óheppið að fjármálakerfið hrundi yfir það. Enginn ráð eða leiðir voru mögulegar. Allar þeirra afborganir og ímyndaðar eignir voru teknar af þeim og sendar í svarthol íslensks efnahagslífs.

Eignirnar sem sogast hafa inn í svartholið, munu þeim aldrei verða bættar úr þessu.

Hefur Guð sagt bless við Ísland? Misskildi hann Geir?

mánudagur, 24. júní 2013

Smáhjálp v/Örnefnanefndar

Nú langar mig að spyrja ykkur ráða. Er búinn að rita eftirfarandi bréf. Bið ykkur að lesa það yfir og benda mér á ef ég er að gleyma mikilvægum rökum, eða ef önnur sjónarhorn gætu hjálpað. Finnst eins og ef ég sendi gott bréf til Örnefnanefndar, þá gæti nefndin miskunnað sig yfir mig. Stefni á að setja á þetta frímerki í vikunni.

Áður hefur Örnefnanefnd hafnað ábúendum um nafnið Stormur á lögbýli okkar sem nú er nefnt Hvammur 2 skv. einhliða þinglýsingu nefndarinnar.  Aðalröksemdarfærslur nefndarinnar voru þær að Stormur væri veðurfyrirbrigði sem ekki væri stöðugt á jörð okkar.
Samkvæmt skilningi okkar ábúenda eru fjölmörg bæjarnöfn á Íslandi sem innihalda orð sem eru lýsandi fyrir veður. Nærtækasta fordæmi sem hægt er að nefna er jörðin Vindbelgur í Mývatnssveit, teljum við að þar geti tæpast verið „vindbelgur“ allt árið um kring, og samræmist þannig ströngum skilyrðum örnefnanefndar. Svo er hægt að nefna að vart er ávallt heiðskýrt í Sólheimum í Grímsnesi, og svo kunn Lagarfljótið vera ansi lygnt við Straum í Hróarstungi – en „straumur“ er einmitt bæjarnafn af sama toga úr íslensku máli og „stormur“, þ.e. ósamsett nafnorð.
Sjálfsagt má týna til mun fleiri dæmi um nafngiftir af sama meiði, en látum við það ógert nú, enda af of mörgu að taka.
Um legu jarðar okkar má nefna að jörðin er opin fyrir vindum af Stóra-Sandfelli í Skriðdal sem og af Hallormsstaðahálsi. Kunnugir í sveitinni hafa viljað meina að stöðugur vindstrengur sé m.a. á jörð okkar á ákveðnum árstíðum. Einnig er jörðin opin fyrir norðan- og norðaustanátt á vetrum.  Þannig viljum við meina að nafngiftin Stormur geti einmitt verið réttnefni, því oft er stormur á svæðinu og getur eflaust talist með meiri vindsvæðum landsins.
Einnig má benda á að höfnun á slíkri nafngift skerðir viðskiptafrelsi okkar á þann hátt að við getum ekki markaðssett hrossarækt okkar frá Stormi eins og við hefðum helst viljað frá upphafi búskapar. Þar sem bændasamtökin heimila ekki að hross séu kennd við annað en nafn lögbýli ræktanda.
Þar eð okkur virðist nafngiftin „Stormur“ ekki vera sem skrattinn úr sauðalæknum biðjum við Örnefnanefnd um að staðfesta beiðni okkar um nafnabreytingu á Hvammi 2 í Storm.

sunnudagur, 23. júní 2013

Sátt um veiðiskatta

Nánast án fyrirvara er hægt að segja að engin sátt ríkir um veiðigjöld. Mörgum þykir sjálfsagt mál að útgerðarmenn greiði afnotagjald af auðlindinni.

Þar sem Íslendingar búa við miklar sveiflur á gengi krónunnar, vaxtastigi og afurðaverði á fiskmörkuðum þá hljóta veiðigjöld að þurfa að vera sveigjanleg upphæð. Það hljóta flestir að vera sammála um.

Aðrar atvinnugreinar búa við fastar stærðir. Þess vegna ætti auðlindageirinn að búa við slíkt hið sama.
Lang farsælast væri að setja ákveðin veiðiskatt í prósentum á veiddan afla. Veiðiskattsprósentuna vita þá allir fyrirfram til lengri tíma. Allar hugmyndir um að reikna út fast gjald á veitt tonn, eða að byggja á bókhaldstölum útgerða standast aldrei til lengri tíma í íslensku efnahagsumhverfi. Jafnvel væri hægt að byggja á sitthvorri hlutfallstölunni eftir tegundum. Við þekkjum líka að bókhaldstölur er hægt að sveigja til eftir hentisemi hverju sinni.

Ákvörðun um stærð veiðiskatta ætti að auki að heyra beint undir fjármálaráðuneytið, sem á að sjálfsögðu að ákvarða um alla skatta, en ekki undanskilja ákvarðanir um einstakar atvinnugreinar til annarra ráðuneyta.

Almenn sátt hlýtur að ríkja í samfélaginu um að náttúruauðlindir ber að skattleggja með einum eða öðrum hætti. Því hljóta stjórnarflokkarnir að vilja auka samstöðu um „veiðigjöld“, og tryggja að samstaðan nái út fyrir kjörtímabilið.

föstudagur, 21. júní 2013

Siðanefnd mannanafna

Mannanafnanefnd heitir eitthvert nafntogaðasta fyrirbæri samfélagsins. Þar fer fram lífsnauðsynleg vinna við að rótargreina eðli mannanafna og hvort er hægt að heita þeim eða ekki.

Það er mín bjargfasta trú að íslenskt þjóðfélag stefni ekki til ragnaraka ef ákveðið verður að leggja nefndina niður. Þjóðskrá gæti fengið að hlutverk að tilkynna „nafnasiðanefnd“ um afar einkennileg og mannskemmandi nöfn sem gæti haft áhrif á líf barna til langframa.

Nöfn eins og „Svínka“ og „Snati“ kæmi þá fyrir slíka nefnd. Óþarfi er að anda ofan í hálsmálið á foreldrum, sem eru nánast án undantekninga vel hæfir til að nefna börn sín. Verði nýstárleg nöfn fyrir valinu hlýtur það að verða þróun á menningu okkar og sögu.

þriðjudagur, 4. júní 2013

Næturbleik uppgötvun

Þegar ég sit að kveldi, og horfi næturbleikan himininn, þá veit ég að nánast þriðja hvert handtak sem ég hef unnið um ævina hefur verið gagnslaust og brunnið upp á verðtryggingarbáli.

Þegar ég gægist út um veðsett glerið í fallegri sumarsólinni, þá veit ég að ég er af sjálfhverfu kynslóðinni sem erft hefur hið fullkomna kerfi til að lifa af í nútímaheimi.

Um leið og tek upp kíkirinn sem ég fékk í fermingargjöf og stari í augu ráfandi hreindýrstarfa verður mér ljóst að ég ætti ekki að gefa mér tíma til að njóta náttúrunnar.

Á sama tíma rjúpukarrinn rífur næturkyrrðina og fuglasönginn með undarlegum kokhljóðum sínum, þá opnast fyrir mér leyndardómur lífsins.


Verðtryggingin er kraftaverk! Þakka þér fyrir Sighvatur Björgvinsson – og allir hinir, sem hafa komið þessu frábæra kerfi á laggirnar sem ég er svo vanþakklátur fyrir. Guð megi hjálpa mér til þess að vinna fleiri tíma í mánuði, svo hægt verði útbýta laununum í formi skatta til allra þeirra sem vilja kalla mig sjálfhverfan.

Króna/EURO