þriðjudagur, 30. september 2008

Þriðjudags-thriller

Kæra dagbók
Ég velti því fyrir mér hvort betra sé að horfa eignir sínar brenna ótryggðar á einni nóttu heldur en í hægum bruna í boði íslensks efnahagslífs. Þá gæti maður jafnvel staðið úti í rigningunni og horft á rústirnar í sínum eigin nærfötum.

mánudagur, 29. september 2008

Hvað væri spennandi...

Mest spennandi sem getur gerst á morgun.

1. Lárus Welding lætur lita hárið á sér svart, og allir fatta að hann er bara þrítugur.
2. Lárus Welding lætur lita hárið á sér svart, og allir fatta að hann er bara þrítugur.
3. Lárus Welding lætur lita hárið á sér svart, og allir fatta að hann er bara þrítugur.

...nema Geir.

Að vera bankasnillingur

Mótmæli því að forstjóri ríkisbankans sé maður sem metur stöðu svona - eða lýgur vísvitandi upp í opið geðið á okkur. Ríkið vill varla hafa svoleiðis menn í vinnu? Hvað fær hann í starfslokasamning?

sunnudagur, 28. september 2008

Herðubreið

Í dag barði ég Herðubreið augum. Þó var ekki um að ræða nýjasta issue Karls, heldur fjallið sjálft. Leyfi ég mér að segja að það sé tilkomumeira en samnefnt tímarit. Þetta er eiginlega mitt uppáhalds fjall, það var líka uppáhalds fjall Stefáns Stórvals. Þess vegna fannst mér synd þegar flokksblað var nefnt í höfuð Fjalladrottningarinnar, það hefur þó ekkert dregið úr fegurð fjallsins. Þó finnst mér nafngiftin soldið eins og ef flokksblað Vinstri grænna héti Esja.

Í sömu ferð settist ég niður á klöpp einni og horfði á og hlustaði á minn uppáhalds foss, Dettifoss, berja grjótið í drjúga stund. Dettifoss er nefnilega magnaður að því leyti að það er jafnvel magnaðra að hlusta á hann en horfa á hann. Þarna hitti ég ekki nokkurn Íslending, bara nokkra japani - já og líklega tékkneskt par. Almenningssalernið á staðnum var stíflað, og mannaskítur flæddi um skúrinn. Kingimagnað.

Leiðin að fossinum digra er þó þyrnum stráð. Þvílíkan vegakafla óska ég ekki nokkrum einasta manni að keyra. Hann er ekki einu sinni til þess fallinn að kynna 101 íbúum íslenska sveitavegi. Hræðilegur vegakafli.

Svo bleitti ég í mér í jarðböðunum við Mývatn, sem er kósý eftirmynd af Bláa Lóninu. Fylgdist með japönskum manni um sextugt maka sandi á skallann á sér. Svona eins og hann tryði því að ef hann nuddaði sandi nægjanlega fast í skallann, þá byrji hárið að vaxa á ný. Ég vona að það gangi hjá honum.

miðvikudagur, 24. september 2008

Að gefa það sem maður á ekki

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar hefur sannað að hann virðist vera algjörlega blindur á samfélagsleg málefni. Hann sér ástæðu til að benda sérstaklega á þetta í grein sinni í mogganum.


"Sóknarfæri gætu til að mynda verið í því að selja einkaaðilum Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjanir í eigu hins opinbera. "

Þvílíkt sóknarfæri!!! Eru menn yfirleitt ekki með öllum mjalla. Þá er ég farinn að skilja stefnu Samfylkingar rétt... Hún vill þjóðnýta auðlindirnar, hirða vatnsréttindi af landeigendum og selja virkjanir einkaaðilum....!!!! Ég leyfi mér að segja HRÆSNARAR....og rökfræðilega stenst þetta ekki skoðun.

Og Helgi segir: "Líkanið að þessu er að finna í því samkomulagi sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking náðu í orkumálum sl. vetur,"

Jáhá....nýbúnir að ræna bændur í Fljótsdal og Jökuldal vatnsréttindum - voru einn mánuð að framleiða fyrir skaðabótum til bænda - og vilja gefa einkaaðilum arðránið. Þetta er siðblinda af versta tagi. Það er eins og nýlendustjórn Breta sér hér við stjórnvölinn.

þriðjudagur, 23. september 2008

Mikilvægur viðmælandi

Austfirðingar kætast þessa dagana yfir því að Adolf Guðmundsson á Seyðisfirði hyggist bjóða sig fram sem formaður LÍÚ. Það þykir einsýnt að hann verði formaður.

Helsti kætingurinn er sagður vera á fréttastofu svæðisútvarpsins á Austurlandi sem tekur öllum mikilvægum viðmælendum fagnandi. Þeir eru jú ekki margir staðsettir á Austurlandi sem komast í aðalfréttatíma sjónvarps - kann nú að verða breyting á. Sýnilegum verkefnum fréttastofunnar eystra mun því væntanlega fara fjölgandi.

By the way - þá eru það væntanlega engin stórtíðindi að væntanlegur formaður vill ekki ganga í Evrópubandalagið miðað við núverandi forsendur.

mánudagur, 22. september 2008

Silfrið

Umsókn landeigenda í Reykjahlíð um nýja 50 megawatta virkjun á Bjarnaflagssvæðinu er eitthvert áhugaverðasta mál hvað varðar nýtingu á auðlindum landsins sem upp hefur komið í langan tíma. Landeigendur í Reykjahlíð hafa sótt um rannsóknarleyfi og einkarétt á nýtingarrétti orkunnar í landareigninni. Undir landareigninni er jarðhitageymir sem Landsvirkjun vill nýta fyrir 90 megawatta virkjun úr sama jarðhitageymi.

Þarna er komið upp fróðlegt fordæmisgefandi mál. Hingað til hafa bændur haft réttindi til að nýta gæði innan eigin landareignar. Þeir hafa meðal annars fengið leyfi til bygginga smávirkjana á landareignum sínum, þannig hafa þeir beislað þá orku sem verður til á þeirra landareign. Össuri Skarphéðinssyni iðnarráðherra lýst ekkert á þessar fyrirætlanir. Það gefur augaleið að fyrirætlanir landeigendana eru stærri en áður hefur þekkst. Í prinsippinu eru þær þó hinar sömu og margra annarra landeigenda, að nýta gæði landareignarinnar eins vel og þess er kostur. Ráðherra gengur svo langt að kalla fyrirætlanir landeigendanna rányrkju gagnvart jarðhitanum. Hann nefnir það að Landsvirkjun hyggist vinna 90 megawött úr sama geymi. Hvor aðilinn er þá með fyrirætlanir um rányrkju? Það virðist ekki alveg augljóst.

Landsvirkjun, sem suma Sjálfstæðismenn dreymir um að einkavæða einn daginn, hefur virkjað helstu vatnsföll landsins. Fyrirtækið ásælist orku hvar sem hana er að finna. Fyrir liggur að fyrirtækið vill vinna orku á mörgum stöðum á landinu. Alls staðar inn á landareignum landeigenda, fólksins í landinu. Forkálfar Landsvirkjunar virðast telja að þeir hafi fundið upp frábæra viðskiptahugmynd, að beisla orku. Þessi viðskiptahugmynd er hins vegar ævaforn og á allra vitorði, þess vegna kallast þetta auðlind. Það liggur í orðsins hljóðan: Það er uppspretta auðs.
Til að beisla orkuna hér á landi þarf aðeins eitt, annaðhvort vatnsfall eða jarðvarma. Hvorugt af þessu hefur Landsvirkjun. Hins vegar eiga landeigendur þessa orku. Hingað til hefur Landsvirkjun farið rányrkju um landið, og stundað stórfellda eignaupptöku á vatnsréttindum bænda. Mál Kárahnjúkavirkjunar er ágætis dæmi. Þar tók virkjunina einn mánuð að framleiða rafmagn fyrir þeirri upphæð sem Landsvirkjun er tilbúin til að greiða bændum í bætur fyrir vatnsréttindin.

Eignarrétturinn er eitt mikilvægasta ákvæði stjórnarskrár Íslands. Í stjórnarskránni segir meðal annars: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Að taka sér eign og greiða ekki fullt verð, og hafa svo af henni tekjur kallast í daglegu máli arðrán. Við Íslendingar þurfum að endurskoða frá grunni hvað er almenningsþörf, og hvað er fullt verð. Stöndum vörð um eignaréttinn, látum ekki ríkisstjórnina og rányrkjufyrirtæki hennar vaða yfir réttindi borgarana í krafti heilagrar réttlætingar.

föstudagur, 19. september 2008

Hallgrímur Kiljan

Í gær skrifaði ég þessa færslu. Hún lýsir í mjög stuttu máli áliti mínu á þætti Egils Helgasonar á miðvikudagskvöldum á sjónvarpinu. Ég gerði ekki ráð fyrir því að álit mitt á þættinum skipti yfir höfuð nokkru máli, því að þeim sem finnst gaman að horfa á bókakápur í sjónvarpi mun finnast það gaman áfram. ERGO: Álit mitt á þættinum hefur ekkert með vinsældir Egils eða Kiljunnar að gera. Hins vegar varð ég meira en lítið hvumsa þegar að ritstjóri Eyjunnar Hallgrímur Þorsteinsson hringdi í mig vegna færslunnar. Hann tjáði mér það að ég skildi hafa það í huga að Egill Helgason væri einn af starfsmönnum Eyjunnar, og gullkálfur hennar. "Svona ef þú vissir það ekki...." Í stuttu máli sagði hann mér að láta hann Egil í friði. Mér leið hálfkjánalega að fá þetta símtal - það var eins og Sigurður Kári hefði hringt í mig og beðið mig um að hafa engar neikvæðar skoðanir á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég varð hálf hugsi yfir þessu - og hvumsa. Ætlar Hallgrímur Kiljan virkilega að reyna að ritstýra bloggurum út í bæ? Þetta er ekki fyrsta símtalið sem ég fæ frá Hallgrími Kiljan, vegna þess að þegar ég skrifaði þessa færslu hér þá fékk ég líka símhringingu. Svar mitt var þá og verður áfram: "Ég var beðinn um að blogga á Eyjunni, ef þér líkar ekki skrif mín og ef þau henta ekki þínum "gullkálfum" þá einfaldlega kippir þú mér út af hinu heilaga sakramenti miðilsins." Mér fannst gaman á sínum tíma að óskað skildi eftir því við mig að gerast svokallaður Eyjubloggari. Skemmtilegast fannst mér að fá teiknaða af mér mynd sem birtist annað slagið á meðal hinna sérútvöldu bloggara. Ég mun halda áfram að blogga á næstunni, um hvað það verður veit nú enginn. Svona símtöl fékk ég að minnsta kosti aldrei frá Styrmi Gunnarssyni þegar ég bloggaði hjá mogganum. Kveðja Titturinn á Egilsstöðum

Hallgrímur Kiljan

Í gær skrifaði ég þessa færslu. Hún lýsir í mjög stuttu máli áliti mínu á þætti Egils Helgasonar á miðvikudagskvöldum á sjónvarpinu. Ég gerði ekki ráð fyrir því að álit mitt á þættinum skipti yfir höfuð nokkru máli, því að þeim sem finnst gaman að horfa á bókakápur í sjónvarpi mun finnast það gaman áfram. ERGO: Álit mitt á þættinum hefur ekkert með vinsældir Egils eða Kiljunnar að gera.

Hins vegar varð ég meira en lítið hvumsa þegar að ritstjóri Eyjunnar Hallgrímur Þorsteinsson hringdi í mig vegna færslunnar. Hann tjáði mér það að ég skildi hafa það í huga að Egill Helgason væri einn af starfsmönnum Eyjunnar, og gullkálfur hennar. "Svona ef þú vissir það ekki...." Í stuttu máli sagði hann mér að láta hann Egil í friði. Mér leið hálfkjánalega að fá þetta símtal - það var eins og Sigurður Kári hefði hringt í mig og beðið mig um að hafa engar neikvæðar skoðanir á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég varð hálf hugsi yfir þessu - og hvumsa. Ætlar Hallgrímur Kiljan virkilega að reyna að ritstýra bloggurum út í bæ?

Þetta er ekki fyrsta símtalið sem ég fæ frá Hallgrími Kiljan, vegna þess að þegar ég skrifaði þessa færslu hér þá fékk ég líka símhringingu. Svar mitt var þá og verður áfram: "Ég var beðinn um að blogga á Eyjunni, ef þér líkar ekki skrif mín og ef þau henta ekki þínum "gullkálfum" þá einfaldlega kippir þú mér út af hinu heilaga sakramenti miðilsins."

Mér fannst gaman á sínum tíma að óskað skildi eftir því við mig að gerast svokallaður Eyjubloggari. Skemmtilegast fannst mér að fá teiknaða af mér mynd sem birtist annað slagið á meðal hinna sérútvöldu bloggara. Ég mun halda áfram að blogga á næstunni, um hvað það verður veit nú enginn. Svona símtöl fékk ég að minnsta kosti aldrei frá Styrmi Gunnarssyni þegar ég bloggaði hjá mogganum.

Kveðja Titturinn á Egilsstöðum

fimmtudagur, 18. september 2008

Ekkert BRAVÓ meir

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla um mál Eimskipafélagsins undanfarna daga og vikur. Fyrrverandi stjórnarformaður, Magnús Þorsteinsson, hefur verið málaður upp sem skratti á vegg ásamt fyrrverandi forstjóra. Það virðist vera sem svo að óformleg skotleyfi séu gefin á menn þegar hallar undan fæti. Sambærilegt dæmi er þegar fjaraði undan Hannesi Smárasyni, þá breyttust fjárfestingar hans á nokkrum nóttum úr því að verða hrein og klár djörfung og dugur yfir í flónsku. Þegar hætti að fiskast var honum hent fyrir borð af skipsfélögum - án björgunarvestis. Fyrrverandi viðskiptafélagar Hannesar földu sig á bakvið nýjan og frelsandi kaptein. Höfðu þeir aldrei neitt að segja?

Nú er máluð upp áþekk mynd af Magga Þorsteins og Baldri Guðnasyni sem báðir stóðu í brúnni hjá Eimskip. Skyndilega var sem aðeins þeir tveir - eða bara annar þeirra hafi verið haldinn forheimsku í fjárfestingum og viðskiptum. Ekkert BRAVÓ fyrir þeim neitt meir. Meðan að daninn er ligeglad og talar í rólegheitum um Hróarskeldubanka og Bretar spjalla um XL Leisure sem tákn um vandræði flugrekstrar um allan heim. Þá hrópum við Íslendingar ÚLFUR, ÚLFUR - kötturinn segir ekki ég. - og það hlakkar í íslenskum blönkum verðtryggingarþjökuðum blaðamönnum sem vilja finna sökudólga og hengja þá og kasta í þeim tómötum.

Kiljan

= þokkalegur útvarpsþáttur í sjónvarpi.

þriðjudagur, 16. september 2008

Frítt í strætó fyrir Reykvíkinga á Egilsstöðum

Á Egilsstöðum er frítt í strætó. Allir Reykvíkingar geta ferðast með strætó á kostnað Fljótsdalshéraðs, á Egilsstöðum og í nágrenni. Líka námsmenn.

Í Reykjavík er frítt í Strætó fyrir Reykvíska námsmenn. Svo sendi stúdentaráð frá sér orðsendingu á dögunum til landsbyggðarsveitarfélaga á dögunum þar sem mælst er til þess að þau greiði fyrir strætógjöld nemenda sem hafa lögheimili í þessum landsbyggðarsveitarfélögum.

Ég legg til að annað hvort skuli hætt að niðurgreiða strætóferðir fyrir Reykvíkinga á Egilsstöðum. Eða að Reykvíkingar fari einföldustu og happadrýgstu leiðina - að gefa einfaldlega öllum frítt í strætó og nálgast þar með markmið sín um minn mengun, umferð og jafnvel vanskilum ungmenna á bílalánum.

Missir ManUtd sponsor?

Ég vona að mínir menn í ManUtd endi ekki eins og West Ham, þ.e. sponsorlausir. Það virðist vera hætta á því þar sem AIG, American International Group, féll um tæpt 61% á Wall Street í gær. Er einhvert stærsta samsteypufyrirtæki heims að riða til falls? Við skulum vona ekki, það væri súrt í broti að missa góðan sponsor.

Dagurinn í gær var víst versti dagurinn á Wall Street síðan 11. september 2001. *

*Reyndar fór olíutunnan niður fyrir 100 dollara í fyrsta sinn síðan í mars sem hljóta að teljast gleðitíðindi....

___________________________________

Já og svo voru það stjórnarslitin í Færeyjum....GEIR! Þetta gerist bara svona, fingrum er smellt og menn þurfa að tæma skrifborðin í stjórnarráðinu.

mánudagur, 15. september 2008

Celeb göngutúr

Össur Skarphéðinsson er í stuði og skrifar skemmtilega lýsingu á því hvernig hann spígsporaði um 101 Reykjavík og tókst að hitta nokkrar "celebrities" á kortersgöngu sinni um kjördæmið. Ekki ósvipað dagbókarfærslum Matthíasar Johannessen, nema ef til vill ívíð skemmtilegra að lesa Össurinn sem vissulega hittir viðmælendur sína fyrir tilviljun.

Merkilegt samt að Össurinn skildi ekki heilsa neinum ófrægum kjósendum.... eða hefði það ekki verið jafn kúl að skrifa um það? Kannski væri ekkert spennandi fyrir hann að taka sér "celeb göngutúr" í Grafarvoginum þar sem hann hefði getað lent á spjalli við grama fjölskyldufeður sem ná ekki endum saman til að greiða fyrir nýjasta verðbólguskotið....bara að pæla.

fimmtudagur, 11. september 2008

Þýskt drama

Sumarið 2006 kynntist ég yndislegri þýskri konu, og við búum ennþá saman. Jólin 2006 fór ég með henni til Munchen að hitta tengdó. Það var ágætt.

Í janúar bárust okkur þó þær fréttir heim til Íslands að tengdamamma hefði sagt skilið við tengdapabba og fundið sér 35 ára gamlan mann. Hún er fimmtug. Þessi maður sem heitir Matthias gaf mér til að mynda batterísskrúfvél í jólagjöf árið 2007.

Þau hafa verið saman síðan að mestu. Þau eru nýkomin heim frá Ítalíu úr vikulangri skemmtiferð. Þriðja hjólið, systir konu minnar hún Nati fór með þeim. Svo tilkynnti Mattias systurinni við hátíðlegan kvöldverð fyrr í kvöld að hann elskaði hana, en ekki tengdamóður mína. Hún er 22 ára. Þetta fengum við allt ferskt í gegnum Skype heim til Íslands. Tæknin er yndisleg.

Ég fór að hlæja, og konan mín sló mig í öxlina – þetta fannst mér absúrd og afkáralega fyndið.

....svo spurði ég hana hvort hann Matthias væri skátengdafaðir minn eða mágur minn núna.

þriðjudagur, 9. september 2008

Martröð: Ísland – Skotland 1-4

Þar sem ég er mikill spámaður verð ég einfaldlega að spá fyrir um hvernig leikur Íslands og Skotlands þróast. Þar sem ég verð staddur á Egilsstöðum mun ég horfa á þetta í sjónvarpinu, og kannski vona ég að Valtýr Björn verði kannski ekki að lýsa leiknum í sjónvarpinu.

Þróun leiksins:

30 mín fyrir leik: Þrjú þúsund skotar mættir á völlinn og 140 Íslendingar
5 mín fyrir leik: Þjóðsöngur Íslands leikinn, og þjóðsöngur Skotlands í kjölfarið.
1,5 mín fyrir leik: Fimm þúsund skotar mættir og fimm þúsund íslenskir.
1 mín fyrir leik: Skoskir áhorfendur yfirgnæfa þá íslensku.

1. mínúta: Eiður Smári tekur miðju.
5. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
6. mínúta: Skotar skora 0-1 eftir að Kjartani Sturlusyni misteksta að kýla boltann frá.
8. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
11. mínúta: Eiður Smári fær boltann og sendir hann á samherja. Samherjinn reynir að senda aftur á Eið og mistekst.
12. mínúta: Eiður Smári vinnur boltann á miðjunni, sendir hann á samherja. Samherjinn reynir að senda aftur á Eið og mistekst.
17. mínúta: Hermann Hreiðarson fær dæmda á sig vítaspyrnu. Kjartan Sturluson leggst í hægra hornið áður skotinn hleypur af stað og rúllar honum í vinstra hornið. 0-2 fyrir Skotland.
23. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
35. mínúta: Heiðar Helguson fær gula spjaldið.
36. mínúta: Grétar Rafn Steinsson fær gula spjaldið.
37. mínúta: Hermann Hreiðarsson fær gula spjaldið.
45. mínúta: Slakur dómari leiksins flautar til leikhlés.


Hálfleiksræða Ólafs Jóhannessonar verður eitthvað á þessa leið: Ég sagði ykkur að reyna ekki að spila fótbolta heldur að kýla hann fram. Þið vitið að þið getið ekki spilað fótbolta. Ef þið viljið reyna að spila boltanum reynið þá að senda á Eið. Já og ekki senda hann aftur á Kjartan í markið, hann er bara ekki tilbúinn. OK? Já og fáið ykkur svo appelsínur og te. Dorrit ætlar að heilsa upp á ykkur eftir leik þannig að ekki ofreyna ykkur. Munið að eitt stig gegn Norðmönnum var okkar markmið í riðlinum – þetta hefur tekist.


46. mínúta: Einhver leikmaður Skotlands tekur miðju.
50. mínúta: Skotar komast upp að endamörkum, senda hann fyrir og skalla í mark. 0-3.
55. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
56. mínúta: Tvöföld skipting Íslands, Guðmundur Steinarsson og Veigar Páll koma inn í stað Heiðars Helgusonar og miðjumannsins sem heitir ekki Stefán Gíslason.
59. mínúta: Veigar Páll kemst einn í gegn eftir langt útspark Kjartans. Veigar dettur fyrir opnu marki og boltinn rúllar á stöngina og þaðan útaf.
60. mínúta: Veigar Páll nær góðu skoti beint í skeytin og út af.
64. mínúta: Skotar klúðra í góðu færi.
64. mínúta: Skotar klúðra í enn betra færi eftir hornspyrnu.
65. mínúta: Skotar spila boltanum á milli sín og skoskir háværir áhorfendur telja sendingarnar.
67. mínúta: Guðmundur Steinarsson kemst inn í sendingu og sendir boltann út af. Skoskir áhorfendur byrja aftur að telja.
69. mínúta: Ísland kemst í sókn.
70. mínúta: Skotland skora 0-4. Nei, línuvörðurinn dæmir markið af vegna rangstöðu. Líklega rangur dómur. Staðan því ennþá 0-3.
73. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
75. mínúta: Eiður Smári fær boltann. Þorir ekki að senda á samherja og missir hann.
78. mínúta: Eiður Smári fær boltann. Þorir ekki að senda á samherja og missir hann.
80. mínúta: Skotland sundurspilar íslensku vörnina og skora með skalla 0-4.
83. mínúta: Eiður Smári fær boltann. Þorir ekki að senda á samherja og kemst einn í gegn og skorar með hnitmiðuðu skoti í vinstra markhornið. Líklega óverjandi. 1-4
87. mínúta: Arnóri Guðjohnsyni skipt inn á og við það rætist langþráður draumur Eiðs og Arnórs um að spila saman. Arnór er léttur á sér.
89. mínúta: Eiður Smári fær boltann, sendir á Arnór sem kemst einn í gegn, en skoskur varnarmaður hleypur hann uppi á nokkrum sekúndubrotum og tekur af honum boltann og leikur honum út úr eigin vítateig.
90. mínúta: Guðmundur Steinarsson felldur rétt utan teigs. Aukaspyrna. Eiður tekur aukaspyrnuna og skýtur fram hjá. Hefði getað verið óverjandi.
91. mínúta: Bííb, bííb, bíib og leikurinn er búinn.

Eftir leik:
Dorrit hleypur niður á völlinn og kyssir strákana. Þeir voru jú í öðru sæti í þessum leik. Ólafur Ragnar Grímsson fer hjá sér, en ákveður að fylgja Dorrit eftir inn í búningsklefa. Þar ætlar hún að skoða tattúveringar íslenska liðsins og gefa útvöldum leikmönnum líkamsnudd. Sérvaldir ljósmyndarar fá að fylgjast með.

Sigurhátíð á hóteli íslenska liðsins. Stefán Hilmarsson syngur “Eiður splæsir kvöld". Ólafur Ragnar og Dorrit skemmta sér konunglega, það sama má segja um ráðherra íþróttamála Þorgerði Katríni, sem ákvað skattborgara vegna að bjóða ekki eiginmanni sínum með í þetta sinnið.

Velkomin heim, Ólafur

Núna er ég öruggari. Ólafur tók aftur til starfa í gær, og nú heldur hann aftur um stjórnartaumana. Meðan hann var í fríi veiktist krónan talsvert og ljósmæður byrjuðu aðgerðir. Ég held að hann verði fljótur að kippa þessu í lag. Spái því að krónan hækki í dag.

sunnudagur, 7. september 2008

Vinnuhjú í sveitum


Hér austan heiða var mál þýsks veitingamanns sem rekur kaffihús við Breiðdalsvík á flestra vörum. Margir höfðu á orði að réttast væri að reka hann úr landi. Verkalýðsfélag Austurlands (Afl) hafði gert athugasemdir við starfsemi á hans vegum. Hann borgaði þýskum sumarstarfsstúlkum sínum jú smánarleg laun. Eitthvað á bilinu 70-80 þús. á mán. fyrir utan fæði og húsnæði.

Þýski maðurinn brást víst ókvæða við og hótaði öllu illu á skrifstofu verkalýðsins. Lét greipar sópa af skrifborðum og hótaði líkamsmeiðingum. Við skulum gleyma dólgslegum viðbrögðum þjóðverjans eitt augnablik.

Alþekkt er um allar sveitir Íslands að fengið er til vinnu við ferðaþjónustu og landbúnaðarstörf. Erlent starfsfólk sem vill söðla um og upplifa sveitarómantík eins og eitt sumar áður en það fer í áframhaldandi nám. Þýskar stelpur vinna við tamningar á sveitabæjum í staðinn fyrir frítt fæði og húsnæði, þýskir fjósamenn eru líka vinsælir. Algengt er að þeim sér borgað á bilinu 40-50 þús. á mánuði. Ég þekki líka bónda sem er með fjölda sjálfboðaliða í vinnu við að taka upp kartöflur með höndunum. Svona mætti lengi telja.

Líklega er mál þjóðverjans ekki einsdæmi. Skildi verkalýðsfélagið á Austurlandi ætla að heimsækja bændur í fjórðungnum og fara fram á leiðréttingu á kjörum erlends vinnufólks?

Króna/EURO