fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Flugskúrinn í Reykjavík

Kom við þarna á flugvellinum í Reykjavík um daginn. Synd að segja frá því að flugvallarhúsið á Vopnafirði er flottara en flugskúrinn í Reykjavík. Flagnandi málning, slitnar mublur og hávært ískrandi færiband - allt til þess að íbúar allra krummaskuða heimsins verði stoltir af flugvallarhúsi sinna heimkynna.

Mætti ekki að minnsta kosti fá Reykvíkingum að gjöf gamla færibandið sem var á Bakkaflugvelli? Spurning um að Árni Johnsen fari í það mál....

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Ef ég væri ríkur....

Össur segir m.a. þetta í DV: „Ef ég væri fjárfestir í dag myndi ég verja peningunum í íslenska útrás á sviði orkumála....."

Sko...Össur þú ert ekki fjárfestir og þú átt ekki svo mikla peninga. Hins vegar hlýtur það að vera svo að ef íslenskir starfsmenn OR og LV búa yfir svo mikilli þekkingu að þeir geta bjargað heiminum þá hljóta einkaaðilar að kaupa þeirra þjónustu. Í guðanna bænum hættu að taka þátt í orkuútrás á vegum skattborgara. Við getum vel nýtt fjármunina hér heima.

Einhvert mesta vandamál íslensks þjóðfélags í gegnum tíðina hefur verið þegar stjórnmálamenn fá þráhyggju fyrir viðskiptahugmyndum.

Hér er dæmi um viðskiptahugmynd sem stjórnmálamenn fylgdu eftir.

mánudagur, 25. ágúst 2008

Íslenskt fjallalamb


Það er mjög misjafnt hvað maður keyrir fram á á þjóðvegi nr. 1. Ekki alltaf sem næst að bremsa eða sveigja hjá. Þessi varð víst fyrir stórum trukki frá Landflutningum. Bílstjórinn hafði ekki fyrir því að stansa, þannig að það lenti í mínum verkahring að draga blessunina út af veginum. Ætlaði að draga það á horninu, en það var brotið.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Bíííb!

JÁ! Við unnum Pólverjana eftir þriggja gæsahúða leik. Við ætlum að spila um verðlaun og eigum séns.

Ný stjarna er fædd. Markvörðurinn okkar Björgvin Gústafsson var helsta stoðin í leik liðsins í dag. Eftir að hafa byrjað af svakalegum krafti reyndu Pólverjarnir af öllum lífs og sálarkröftum að jafna metin. Þeim tókst það ekki þrátt fyrir mikla baráttu.

Comment dagsins, Ólafur Stefánsson eftir leik:
"Hlutir að birtast sem áður voru hugsanir og tilfinningar."

varacomment dagsins, Ólafur Stefánsson eftir leik:

"Mér líður eins og Morfeusi."


vara-varacomment dagsins, Ólafur Stefánsson eftir leik:
"Bara crazy, æ þú veist, bíííb."

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Austfjarðaþokan og Edinburg

Nú liggur Austfjarðaþokan yfir og regnið slær rúðuna taktfast. Það er þunglamalegt en samt gott að vita að hringrás lífsins er enn til staðar. Rétt eins og borgarfulltrúarnir í Reykjavík leggst Austfjarðaþokan yfir fjöllinn og yfirgnæfir allt. Maður getur ekkert annað en vonað að hún fari og komi ekki aftur í bráð, jú svona rétt eins og Gísli Marteinn.

________________________________________

Í Edenburg er fræg gata, stundum nefnd JónBaldvin street af þeim sem þekkja afrek Jóns Baldvins. Sagan segir að þar hafi flokksforinginn fyrrverandi stundað nám. Við þess götu eru reknir tugir bjórkráa og öldurhúsa. Eitt laugardagskvöldið mun Jón hafa strengt þess heit að hann skildi drekka bjór á hverri knæpu við götuna. Það mun hann jú hafa gert. Æ síðan mun þessi gata vera kölluð JónBaldvin street í háskólanum í Edenburg. Þessa sögu sel ég ekki dýrara en ég keypti af hræódýrum íslenskum fararstjóra hjá ÚrvalÚtsýn árið 2004.

Mér dettur þá í hug hvort Gísli Marteinn vilji feta í fótspor Jóns Baldvins og verða alvöru stjórnmálamaður. Hann gæti byrjað á að leika afrek hans í Edenburg eftir.

mánudagur, 18. ágúst 2008

Prumpar nærbuxnalaus

Opið bréf til viðskiptaráðherra
Einfalt reikningsdæmi – að þessu tilefni:


Eitthvað sem kostar 100 kall. 20% verðsins er álagning eða 20 kall.

Eitthvað sem kostar 150 kall. 20% verðsins er álagning eða 30 kall.


EÐA


Innkaupsverð 50 kall + 20% álagning = 60 kall (10 krónur í álagningu)

Innkaupsverð 70 kall + 20% álagning = 84 kall (14 krónur í álagningu)


Niðurstaða = Álagningarprósenta hefur ekki hækkað, en álagningarkrónum hefur fjölgað við hækkun innkaupsverðs.


Þarf hæstvirtur Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra að fara á námskeið í einföldum reikningi í Réttarholtsskóla? Eða vill hann einfaldlega setja lög sem banna að álagning sé reiknuð út í prósentum?


Ætlar Björgvin þá að binda virðisaukaskatt við fasta krónutölu? Eða vill hann byggja skattheimtu á fastri krónutölu? Nei líklega ekki. Að minnsta kosti þarf maðurinn að útskýra betur hvað hann eiginlega meinar. Þótt olíufélögum sé jafnilla treystandi og öðrum aðilum á markaðnum – þá held ég að nú sé Björgvin að reka við nærbuxnalaus.

Nýr aðstoðarmaður Óskars

Var að spá í hvort ég gæti fengið vinnu sem aðstoðarmaður Óskars Bergssonar. Er líka húsasmiður og hugsa að við gætum sameinast í ýmsum málum. Tildæmis gætum við tekið að okkur endurbætur uppkeyptra húsa á Laugaveginum án útboðs og sem starfsmenn borgarinnar. Þannig gætum við lagt húsafriðun lið með eigin höndum.

Gæti líka hjálpað Óskari við stjórn Orkuveitunnar. Við gætum gert starfsmönnum Orkuveitunnar grein fyrir því að þeir eru engir snillingar og eiga engan rétt á að sólunda fé borgarbúa draumóraverkefni í þriðja heiminum.

Gæti líka hjálpað Óskari við að hitta samgönguráðherra og gera honum grein fyrir því að viljum byggja Sundabraut sem allra fyrst. Um það sé full samstaða. Við gætum byrjað bráðum.

Gæti líka hjálpað Óskari við að hafa samskipti við Miðborgarstjórann Jakob Frímann. Saman gætum ég og Óskar gert Jakobi grein fyrir því að hann sé ágætis tónlistarmaður - en vonlaus draumóramaður að öðru leyti. Ég gæti skrifað uppsagnarbréfið.

Gæti aðstoðað Óskar við að hafa samskipti við Hönnu Birnu borgarstjóra. Tildæmis með því að setja upp flotta kerta- og reykelsisstemmingu á heimili Óskars fyrir leynifundi. Það vantar nefnilega nýtt einkaheimili fyrir leynifundi - nú þegar Villi stjórnar þeim ekki lengur.

Gæti aðstoðað Óskar við að verðleggja byggingarlóðir í Reykjavík. Saman gætum við komist að þeirri niðurstöðu að enginn byggingaverktaki í Reykjavík sé nú borgunarmaður fyrir byggingalóð á "Gamla góða" verðinu.

Gæti farið á fund til Gunnars Smára fyrir Óskar og beðið hann um að skrifa Fréttablað Strætó og gera kynningarbækling vegna öldrunarþjónustu í Reykjavík. Þá gæti Gunnar Smári séð um að láta gera nýtt lógó fyrir áhaldageymslu Reykjavíkurborgar.

Óskar - við gætum svo smíðað nýja pontu í fundarsal Ráðhússins í frístundum. Þannig myndum við kynnast betur. Heldurðu að þetta gæti gengið? Myndi svo fara á mávaskytterí með þér á föstudagskvöldum við ráðhúsið.

föstudagur, 15. ágúst 2008

Bitur virkjun

Velti því fyrir mér hvað Jakob Frímann fái háaNN starfslokasamning þegar honum verður sparkað í næstu viku.

Velti því fyrir mér hvort Gunnar Smári fari á biðlaun, þótt hann hafi ekki byrjað.

Velti því fyrir mér hvað Ólafur F. sé að gera núna? Ætli Dagur B. sé að ávísa á hann róandi núna?

"Bitruvirkjun reyndist bitur virkjun." sagði einhver.
__________________________________________


Sakaður um klikk og sækó
Settist í stólinn af festu
Sjallinn gaf í strætó
En hinn stjórnaði að mestu

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Hyggimannlegt?

Eftir EM í handbolta tók ég út úr favourites vefsíðuna "Í Blíðu og stríðu". Vonbrigðin voru þvílík. Svo virðist sem ég sé ekki einn af þessum heiðarlegu stuðningsmönnum íslenska liðsins. Er að spá í að horfa á leikinn gegn Suður-Kóreu eftir að hafa "haft annað að gera" þegar "strákarnir okkar" spiluðu fyrstu tvo leikina. Ráðgjafi minn segir reyndar að það geti boðað "slæma lukku". Hann segir: "Maður á engu að breyta milli sigurleikja." Þannig að ég þori varla að horfa leikinn gegn Suður-Kóreu.
______________________________

Enn er ruglað í borginni. Formaður Framsóknarflokksins virðist vera tilbúinn til að bjarga Sjálfstæðiflokknum út úr stærsta klúðri í íslenskri pólitík fyrr og síðar. Það væri mjög kristilegt að bjarga núverandi andstæðingi frá drukknun. En væri það hyggimannlegt?

Eða er Sjálfstæðiflokkurinn að nota Guðna Ágústsson til að berja Ólaf "Frímann" til hlýðni.

Króna/EURO