fimmtudagur, 28. nóvember 2013

Páll postuli

Rúv niðurskurðurinn hefur tekið á sig nýja mynd. Sagt er frá orðaskiptum Helga Seljan og Páls Magnússonar, úvarpsstjóra í þessari frétt á Visir.is.

Helgi Seljan gerði það sem margir hafa gleymt í umræðunni. Hann bendir á þá staðreynd að Páll fer þá leið að leggja upp í pólitíska refskák við yfirboðara sína. Páll fer þá leið að skera niður í útgjöldum með því að segja upp sem flestum dagskrárgerðarmönnum og uppsagnirnar eiga að mæta nær allri skerðingu á tekjum stofnunarinnar. Ekkert langtímaplan er lagt fram, engin ráðagerð um hvernig mæta eigi niðurskurðinum og mæta samt lögbundnu hlutverki. Það myndu allir góðir stjórnendur gera. Páll Magnússon hagar sér slóttuglega og má líkja niðurskurðaraðgerðum hans við það þegar stjórnandi spítala leggur niður bráðaþjónustu til að skapa pólitískan þrýsting.

Umræðan um ríkisútvarpið og niðurskurðinn þar er um margt farin að snúast um hverja hefði frekar átt að reka, hverjir eru skítseyði og um það hverju einstakir þingmenn hafa "hótað" í gegnum tíðina.

Nú vil ég benda á hið augljósa. Til að uppfylla lögbundið hlutverk sitt þá þarf Rúv ekki að reka dægurflugu útvarpsstöðvar á borð við Rás 2, einfalt hefði verið að leggja hana niður tímabundið - eða alveg. Fréttatíma útvarps,veðurfréttir og landsmál væri vel hægt að spila og ræða á gömlu gufunni og endurspila á netinu. Hægt væri að sjá fyrir sér að stjórnendur Rúv hætti innkaupum á erlendu sjónvarpsefni, og hættu tímabundið að ráða inn í stöður sem losna. Með þeim hætti hefði mátt semja um hægfarari niðurskurð og sársaukaminni fyrir starfsmenn.

Páll Magnússon kaus hins vegar að fara í pólitískan þrýsting af gamla skólanum. Segja má að viðhorf hans hafi heldur betur breyst frá því hann hélt langa og sannfærandi fyrirlestra á árunum 1997-2000 um það hvernig leggja ætti Ríkisútvarpið niður. Þá vann hann reyndar fyrir Jón Ólafsson á Íslenska Útvarpsfélaginu.

sunnudagur, 24. nóvember 2013

Grobbelaar stjórnmálanna

Hvaða fótboltaáhugamaður man ekki eftir Bruce Grobbelaar? Hann varði mark Liverpool, til margra ára.


Hann var alltaf skúrkur, eða hetja. Hann var aldrei neitt þar á milli. Meðalmennskan átti aldrei við hann. Annað hvort fékk hann hræðilega dóma, eða var talinn bjargvættur helgarinnar. Að vísu var hann frekar lúnkinn, hefði annars aldrei spilað með slíku liði.

Nákvæmlega svona sýnist mér umtalið vera um Sigmund Davíð. Hann virðist vera Grobbelaar stjórnmálanna.

þriðjudagur, 19. nóvember 2013

Færeyskur borgarstjóri?

Borgarpólitíkin er skrítin. Nú er búið að kynna til leiks Vestfirðing sem aðal hugsjónamann Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Á sama tíma kemur til greina að týna fram rykfallinn frakka í eigu Framsóknarflokksins, sérstakan kaftein landbúnaðarhagsmuna, sem borgarstjóraefni. Andstæðurnar eru kómískar.

Það hlýtur að vera Reykvíkingum áhyggjuefni að aðalhugsjónamenn borgarsamfélagins hafi verið átthagameistarar annars staðar á landinu til þessa. Snýst pólitíkin í Reykjavík ef til vill minna um hugsjónir en völd?


Verður borgarstjóraefni Vinstri Grænna kannski frá Færeyjum?

Króna/EURO