fimmtudagur, 9. október 2014

Spenakreistandi hönd markaðarins

Nú hef ég fylgst með umræðu um einhverskonar óstand á mjólkurmarkaðnum, sem virðist hafa varað nokkuð lengi. Það hentar mér ágætlega að byrja að pota í augun á fólki sem hefur lært að nýta sér gallaða lagasetningu og snarmeinað fyrirkomulag á markaði sem á að vera frjáls, en er það ekki.
Það sem reynsla okkar og nágranna segir okkur virðist vera þetta: Stýra þarf framleiðslu og verði mjólkur, þar sem hin ósýnilega hönd markaðarins kann greinilega ekkert með beljuspena að fara.
Ókei, í stað þess að benda á það sem búið er að fara vandlega yfir undanfarna daga um vensl einstaklinga innan mjólkurgeirans, þá langar mig til að benda á eftirfarandi:

1. Flutningskerfi allrar mjólkur í landinu er í höndum einnar fyrirtækjasamsteypu.
2. Að byggja upp annað flutningskerfi í samkeppni við þann aðila sem fyrir er hlýtur að vera óarðbær fjárfesting, og í raun galin.
3. Að ætla nýjum aðila á mjólkurmarkaði að byggja upp sitt eigið flutningsnet, er eins og að ætla í samkeppni við Póstinn, það er ekki hægt.

Ég held að þennan einokunarhnút verði að rjúfa á eftirfarandi hátt:

1. Flutningskerfi mjólkuriðnaðarins verði ríkisvætt, og ríkið reki mjólkurflutninga og mjólkurgeymslutanka á fastri krónutölu per líter. (jájá með tíð og tíma væri hægt að bjóða mjólkurflutninga út á vegum ríkiskaupa til að ná fram hagkvæmni.)

2. Hverjum mjólkurvinnsluleyfishafa verði frjálst að kaupa mjólk af mjólkurtanki ríkisins á
fyrirfram ákveðnu verði, og unnið þær vörur sem eftirspurn er eftir á markaði og myndað þann hagnað sem sóst er eftir í gegnum vöruvinnslu, vöruþróun og vörumerki rétt eins og í hverri annarri sælgætisgerð eða gosverksmiðju.

Þá gætu bændur gert það sem þeir eru bestir í, framleiða mjólk.
Þá gætu mjólkurvöruframleiðendur einbeitt sér að neytendum.
Og þá gæti ríkið veitt nauðsynlegt inngrip sem þegar er gert, á sanngjarnari hátt.

Leikreglurnar gætu þá ekki orðið skýrari, og krafan um kvótakerfi mjólkur og stjórnað verð til bænda væri uppfyllt.

fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Aflandsbúar útilokaðir

Ákveðið hefur verið að framvegis skuli vegurinn um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðaröræfi einungis ruddur tvisvar í viku.

Nú hefur innanríkisráðherra ef til vill hlaupið á sig. Þjóðvegur 1 í norðausturkjördæmi skal vera lokaður bílaumferð svo dögum skiptir. Skal vera lokuð mjólkurflutningum. Skal vera lokuð nauðþurftum. Skal vera lokuð ferðamönnum. Skal vera lokuð austfirskum aflandsbúum. Meira að segja er margvísleg framleiðsla aflandsbúa flutt um þennan veg, en ostur og fiskur eru kannski ekki í tísku.

Mikið held ég að þjóð eigi bágt sem getur ekki jafnað útgjöld stærstu snjómokstursáranna milli fjárlagaára. Nú vona ég svo sannarlega að fundin verði á þessu mannsæmandi lausn svo við aflandsbúar komumst leiðar okkar.

Vegagerðinni hafa meira að segja verið settar ákveðnar reglur, sem virðist vera tilvalið að brjóta, skv. þeim skal þessi leið mokuð sex daga í viku. Ætlast til þess að þingmenn kjördæmisins verði búnir að kippa þessum málum í liðinn áður en dagur rennur.

Eftirfarandi athugasemd frá upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar er rétt að birta hér:
Sæll Einar
þessi ráðstöfun er ekki gerð í sparnaðarskyni heldur vegna aðstæðna, sem við vonum að vari ekki lengi enda verður horfið hefðbundins moksturs um leið og aðstæður breytast. Sjá á vef Vegagerðarinnar, fréttir:

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/6090

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/6093

bestu kveðjur austur
Pétur Vegagerðinni

sunnudagur, 23. febrúar 2014

Flokksfélagadraslið

 Ég er löngu hættur að vera brjálaður, svekktur og pirraður vegna gjörða stjórnvalda á öllum tímum. Það er vonlaust að gera sér grein fyrir því hvernig loforð, stefna og stemming breytist í hugarheimi pólitískra átrúnaðargoða og átrúenda þeirra.

Vinstri stjórnin sem hafði stærsta umboð til efnahagslegra og stjórnskipunarlegra breytinga sem kjósendur hafa veitt stendur eftir í minningunni sem ríkisstjórn vonlausra og misnotaðra tækifæra þar sem innanflokksátök og misklíð ríkisstjórnarflokkana í stærstu málunum leiddi til pattstöðu og kyrrstöðu-málamyndana.

Afrek vinstri stjórnarinnar leiddu til fyrstu hreinu hægri stjórnarinnar á Íslandi. Framsóknarflokkurinn hefur fært sig svo langt til hægri í málflutningi að hægt er að leiða rökum að því að Sjálfstæðisflokkurinn sé nær miðju á hægri/vinstri ás íslenskra stjórnmála en Framsóknarflokkurinn. Grasrótarmenn sem gerðu Sigmund að framtíðarleiðtoga Framsóknarflokksins hljóta að fjarlægjast hann smám saman – enda hefur hann sýnt alla aðra Framsóknarmennsku en Framsóknarmenn eru vanir allt frá því hann sleit bernskuskónum sem formaður.

Núverandi ríkisstjórn hefur svikið alla flokksfélaga sína sem höfðu eytt mánuðum í málamiðlanir vegna Evrópusambandsins, það er eflaust gagnlausasta starf sem flokksgrasrótir Sjálfsstæðisflokks og Framsóknar hafa unnið.  Það er furðuleg staðreynd að grasrótarhópar ríkisstjórnarflokkana skuli ekki mótmæla kröftuglega þeirri framgöngu sem orðið hefur í Evrópumálunum. Framgöngu sem virðist leið ósátta og harðari stjórnmála næstu árin. Framgöngu sem lýsir algjöru virðingarleysi við sannfæringar- og skoðanaheimi annarra.


Það hlýtur að vera jafn mikil móðgun við Evrópuandstæðinga innan ríkisstjórnarflokkana og stuðningsmenn við Evrópusambandið, að málamiðlanir almennra flokksmanna skuli að engu hafðar. Vill það einhver að starf stjórnmálaflokka, þ.e. landsfundir, flokksmálafundir, stefnufundir og kosningabarátta sé marklaus hugsjónavinna venjulegs fólks og eins og hvert annað drasl sem er hægt að henda í ruslið?

fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Tökum Flugfélagið eignarnámi

Nú er það svo að oft á tíðum er ódýrara að fljúga til London og Kaupmannahafnar frá Keflavík heldur en til Egilsstaða frá Reykjavík.

Það hlýtur að teljast afar óeðlilegt svo ekki sé meira sagt. Flugfélag Íslands nýtir sér einokun á innanlandsflugi til hins ýtrasta og smjattar á nauð-viðskiptavinum sínum eins og harðfiski og étur roðið með. Dregur jafnvel úr áhuga erlendra ferðamanna á að notfæra sér innanlandsflug, og þess vegna má færa rök fyrir því að verslun og þjónusta við ferðamenn dreifist skakkt um landið.

Einokun Flugfélags Íslands er óvéfengjanleg staðreynd. Ofurverðlagningin er það einnig. Skattlagning er há, en útskýrir aðeins hluta af okurverðinu sem er í boði.

Þess vegna gæti það verið algjörlega hagur þjóðarinnar að Flugfélag Íslands verði tekið eignarnámi og rekið af ríkinu næstu árin í það minnsta. Ofurgjaldtöku Flugfélags Íslands verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Allt frjálslynt hjal um frjálsa samkeppni á alls ekki við um íslenskt innanlandsflug.

Seinni kosturinn væri að ríkið stofnaði nýtt innanlandsflugfélag til höfuðs Flugfélagi Íslands, en eignarnám væri líklegast skárri kostur.

Króna/EURO