miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Eitraður plástur

Þar eð nú skal nota hugsanlegan framtíðar lífeyrissparnað ungs fólks til að gera vaxtakvalirnar sem herja á landsmenn bærilegri, þá get ég því miður ekki orða bundist.

Frjósemi, hugmyndaflug og skynsemi kemur því miður hvergi við sögu nú þegar stjórnvöld reyna að leysa úr vaxtaokrinu sem haldið er uppi á Íslandi. Nú hafa launþegar í landinu samið við atvinnurekendur um aukalífeyrissparnað, vegna þess að það er hagkvæmt fyrir þjóðfélagið til lengri tíma. Með úttekt lífeyrissparnaðar er fólk hvatt áfram til þess að taka lán á alltof háum vöxtum, og hægt að færa rök fyrir því að pressa á lægra vaxtastig minnki þegar stærri hluti almennings getur nú sjálft niðurgreitt sín eigin lán með því að afskrifa framtíðar peningaeignir sínar. Fólk er hvatt sérstaklega til þess að halda áfram að greiða alltof háa vexti og nota til þess 4% af heildarlaunum sínum! Er þetta einhver hin mesta vitleysa sem launþegahreyfingin hefur kyngt um árabil?

Segjum sem svo að við séum í þeirri stöðu að við getum alls ekki lækkað vexti á Íslandi, og að framtíðin sé þannig að engin geti eignast íbúð nema að niðurgreiða vexti. Við séum föst í oki verðtryggingar til eilífðarnóns. Getum við þá ekki fundið upp einhverja skárri plástra en þennan sem nú á að líma á okkur?

Með beinni veðsetningu aukalífeyrissparnaðar við kaup á íbúðarhúsnæði gætum við vankað að minnsta kosti tvær flugur í einu höggi. Við gefum lántaka tækifæri til að leggja fram beinharða peninga sem veð, sem er besta veð í heimi, og besta veð í heimi gefur tækifæri til frábærra vaxtakjara þar sem áhætta lánveitandans verður 0%. Einnig verður til betra veðrými á eigninni vegna annarra áhvílandi lána, sem er einnig lánveitendum í hag. Þannig erum við búin að búa til betri lánskjör, er eitthvað að því? Svo til framtíðar þá getum við verndað aukalífeyrissparnað landsmanna og hvatt til sparnaðar fyrir eldri árin sem við sjáum með lifandi dæmum að geta reynst ansi erfið fjárhagslega.

sunnudagur, 17. apríl 2016

Peningaprentarar

Allir spara minna og greiða meira til að hemja höfuðstólshækkun lána. Þetta nýja kerfi þar sem Íslendingar borga með beinum hætti eigin kostnað við verðtryggðu krónuna á víst að vera komið til að vera. Þessi fylgir minni séreignasparnaður, og atvinnurekendur eru látnir borga brúsann að hálfu. Til að toppa þetta geta þeir sem hærri hafa launin borgað höfuðstóla meira niður. Þetta virðist vera framtíðarmúsíkin í íslenskri peningaprentun kostaðri af íslenskum almúga. Fjórflokkurinn vill endilega festa þennan plástur varanlega á, fullan af greftri og bakteríum. Efnahagsreikningar lánastofnana munu halda áfram að bólgna út vegna höfuðstólshækkana sem veitir aftur enn meira rými til útlána, sem kallar á enn meiri verðbólgu. Hvenær er nóg NÓG?

Íslensk pólitík á að vinda sér beint að efninu, það væri fín tilbreyting.

fimmtudagur, 9. október 2014

Spenakreistandi hönd markaðarins

Nú hef ég fylgst með umræðu um einhverskonar óstand á mjólkurmarkaðnum, sem virðist hafa varað nokkuð lengi. Það hentar mér ágætlega að byrja að pota í augun á fólki sem hefur lært að nýta sér gallaða lagasetningu og snarmeinað fyrirkomulag á markaði sem á að vera frjáls, en er það ekki.
Það sem reynsla okkar og nágranna segir okkur virðist vera þetta: Stýra þarf framleiðslu og verði mjólkur, þar sem hin ósýnilega hönd markaðarins kann greinilega ekkert með beljuspena að fara.
Ókei, í stað þess að benda á það sem búið er að fara vandlega yfir undanfarna daga um vensl einstaklinga innan mjólkurgeirans, þá langar mig til að benda á eftirfarandi:

1. Flutningskerfi allrar mjólkur í landinu er í höndum einnar fyrirtækjasamsteypu.
2. Að byggja upp annað flutningskerfi í samkeppni við þann aðila sem fyrir er hlýtur að vera óarðbær fjárfesting, og í raun galin.
3. Að ætla nýjum aðila á mjólkurmarkaði að byggja upp sitt eigið flutningsnet, er eins og að ætla í samkeppni við Póstinn, það er ekki hægt.

Ég held að þennan einokunarhnút verði að rjúfa á eftirfarandi hátt:

1. Flutningskerfi mjólkuriðnaðarins verði ríkisvætt, og ríkið reki mjólkurflutninga og mjólkurgeymslutanka á fastri krónutölu per líter. (jájá með tíð og tíma væri hægt að bjóða mjólkurflutninga út á vegum ríkiskaupa til að ná fram hagkvæmni.)

2. Hverjum mjólkurvinnsluleyfishafa verði frjálst að kaupa mjólk af mjólkurtanki ríkisins á
fyrirfram ákveðnu verði, og unnið þær vörur sem eftirspurn er eftir á markaði og myndað þann hagnað sem sóst er eftir í gegnum vöruvinnslu, vöruþróun og vörumerki rétt eins og í hverri annarri sælgætisgerð eða gosverksmiðju.

Þá gætu bændur gert það sem þeir eru bestir í, framleiða mjólk.
Þá gætu mjólkurvöruframleiðendur einbeitt sér að neytendum.
Og þá gæti ríkið veitt nauðsynlegt inngrip sem þegar er gert, á sanngjarnari hátt.

Leikreglurnar gætu þá ekki orðið skýrari, og krafan um kvótakerfi mjólkur og stjórnað verð til bænda væri uppfyllt.

fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Aflandsbúar útilokaðir

Ákveðið hefur verið að framvegis skuli vegurinn um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðaröræfi einungis ruddur tvisvar í viku.

Nú hefur innanríkisráðherra ef til vill hlaupið á sig. Þjóðvegur 1 í norðausturkjördæmi skal vera lokaður bílaumferð svo dögum skiptir. Skal vera lokuð mjólkurflutningum. Skal vera lokuð nauðþurftum. Skal vera lokuð ferðamönnum. Skal vera lokuð austfirskum aflandsbúum. Meira að segja er margvísleg framleiðsla aflandsbúa flutt um þennan veg, en ostur og fiskur eru kannski ekki í tísku.

Mikið held ég að þjóð eigi bágt sem getur ekki jafnað útgjöld stærstu snjómokstursáranna milli fjárlagaára. Nú vona ég svo sannarlega að fundin verði á þessu mannsæmandi lausn svo við aflandsbúar komumst leiðar okkar.

Vegagerðinni hafa meira að segja verið settar ákveðnar reglur, sem virðist vera tilvalið að brjóta, skv. þeim skal þessi leið mokuð sex daga í viku. Ætlast til þess að þingmenn kjördæmisins verði búnir að kippa þessum málum í liðinn áður en dagur rennur.

Eftirfarandi athugasemd frá upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar er rétt að birta hér:
Sæll Einar
þessi ráðstöfun er ekki gerð í sparnaðarskyni heldur vegna aðstæðna, sem við vonum að vari ekki lengi enda verður horfið hefðbundins moksturs um leið og aðstæður breytast. Sjá á vef Vegagerðarinnar, fréttir:

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/6090

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/6093

bestu kveðjur austur
Pétur Vegagerðinni

sunnudagur, 23. febrúar 2014

Flokksfélagadraslið

 Ég er löngu hættur að vera brjálaður, svekktur og pirraður vegna gjörða stjórnvalda á öllum tímum. Það er vonlaust að gera sér grein fyrir því hvernig loforð, stefna og stemming breytist í hugarheimi pólitískra átrúnaðargoða og átrúenda þeirra.

Vinstri stjórnin sem hafði stærsta umboð til efnahagslegra og stjórnskipunarlegra breytinga sem kjósendur hafa veitt stendur eftir í minningunni sem ríkisstjórn vonlausra og misnotaðra tækifæra þar sem innanflokksátök og misklíð ríkisstjórnarflokkana í stærstu málunum leiddi til pattstöðu og kyrrstöðu-málamyndana.

Afrek vinstri stjórnarinnar leiddu til fyrstu hreinu hægri stjórnarinnar á Íslandi. Framsóknarflokkurinn hefur fært sig svo langt til hægri í málflutningi að hægt er að leiða rökum að því að Sjálfstæðisflokkurinn sé nær miðju á hægri/vinstri ás íslenskra stjórnmála en Framsóknarflokkurinn. Grasrótarmenn sem gerðu Sigmund að framtíðarleiðtoga Framsóknarflokksins hljóta að fjarlægjast hann smám saman – enda hefur hann sýnt alla aðra Framsóknarmennsku en Framsóknarmenn eru vanir allt frá því hann sleit bernskuskónum sem formaður.

Núverandi ríkisstjórn hefur svikið alla flokksfélaga sína sem höfðu eytt mánuðum í málamiðlanir vegna Evrópusambandsins, það er eflaust gagnlausasta starf sem flokksgrasrótir Sjálfsstæðisflokks og Framsóknar hafa unnið.  Það er furðuleg staðreynd að grasrótarhópar ríkisstjórnarflokkana skuli ekki mótmæla kröftuglega þeirri framgöngu sem orðið hefur í Evrópumálunum. Framgöngu sem virðist leið ósátta og harðari stjórnmála næstu árin. Framgöngu sem lýsir algjöru virðingarleysi við sannfæringar- og skoðanaheimi annarra.


Það hlýtur að vera jafn mikil móðgun við Evrópuandstæðinga innan ríkisstjórnarflokkana og stuðningsmenn við Evrópusambandið, að málamiðlanir almennra flokksmanna skuli að engu hafðar. Vill það einhver að starf stjórnmálaflokka, þ.e. landsfundir, flokksmálafundir, stefnufundir og kosningabarátta sé marklaus hugsjónavinna venjulegs fólks og eins og hvert annað drasl sem er hægt að henda í ruslið?

fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Tökum Flugfélagið eignarnámi

Nú er það svo að oft á tíðum er ódýrara að fljúga til London og Kaupmannahafnar frá Keflavík heldur en til Egilsstaða frá Reykjavík.

Það hlýtur að teljast afar óeðlilegt svo ekki sé meira sagt. Flugfélag Íslands nýtir sér einokun á innanlandsflugi til hins ýtrasta og smjattar á nauð-viðskiptavinum sínum eins og harðfiski og étur roðið með. Dregur jafnvel úr áhuga erlendra ferðamanna á að notfæra sér innanlandsflug, og þess vegna má færa rök fyrir því að verslun og þjónusta við ferðamenn dreifist skakkt um landið.

Einokun Flugfélags Íslands er óvéfengjanleg staðreynd. Ofurverðlagningin er það einnig. Skattlagning er há, en útskýrir aðeins hluta af okurverðinu sem er í boði.

Þess vegna gæti það verið algjörlega hagur þjóðarinnar að Flugfélag Íslands verði tekið eignarnámi og rekið af ríkinu næstu árin í það minnsta. Ofurgjaldtöku Flugfélags Íslands verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Allt frjálslynt hjal um frjálsa samkeppni á alls ekki við um íslenskt innanlandsflug.

Seinni kosturinn væri að ríkið stofnaði nýtt innanlandsflugfélag til höfuðs Flugfélagi Íslands, en eignarnám væri líklegast skárri kostur.

mánudagur, 23. desember 2013

Vantar rjóma í Vöfflusamninginn

Allir þeir sem ég hef rætt við um hinn nýja Vöfflusamning ASÍ eru nokkuð sammála um að best væri að hafna honum og færa forystu ASÍ það verkefni að gera betur. Það er misskilningur hjá forseta ASÍ að einungis rúm 4% félagsmanna hafi athugasemdir við Vöfflusamninginn.

Á nýja Vöfflusamningnum er enginn rjómi, enginn sulta og enginn sykur - eini rjóminn er í skegginu hans Gylfa. Að 12 mánuðum liðnum verður launafólk í sömu eða verri stöðu en nú. Seðlabanki Íslands hefur aldrei náð verðbólgumarkmiði sínu, og ég þekki engann sem er tilbúinn að veðja meira en þúsundkalli á að gerist á næstu árum.

Króna/EURO