mánudagur, 22. október 2012

Framsókn sigurvegari helgarinnar?

Það má segja sem svo að Framsóknarflokkurinn sé sigurvegari þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaþings. Flokkurinn hefur í áratugi viljað fá slíkar tillögur fram frá þess háttar þingi, þrátt fyrir að óskoraður leiðtogi flokksins og formaður hafi ekkert viljað með tillögur stjórnlagaþings að gera. Ekki má heldur gera lítið úr Jóhönnu, en hún vildi endilega stjórnlagþing er hún bauð sig fram sem Þjóðvaki.

Einhver bestu finnanlegu rök með stjórnlagaþingi og tillögum þess í hag er finna í Fréttablaðinu 11. apríl 2009. Þar segir á kynningarsíðu Framsóknarflokksins:

"Aðeins einn flokkur er á móti tillögu Framsóknar um stjórnlagaþing. Meginrökin fyrir stjórnlagaþingi eru þau að gefa þjóðinni tækifæri til að endurskoða stjórnskipun landsins. Það var ætlunin við stofnun lýðveldis. Því standast ekki andmæli um að stjórnlagaþing taki vald frá alþingismönnum sem eru nú  einráðir um stjórnarskrána. Þingmenn hafa á undanförnum 65 árum ekki getað sæst á meiriháttar breytingar á stjórnarskrá auk þess sem Framsóknarflokkurinn hefur fært þau rök fyrir tillögu sinni um stjórnlagaþing að óeðlilegt sé að Alþingi ákveði sína eigin starfslýsingu og tengsl sín við ríkisstjórn, dómstóla o.s.frv. 
Aldur stjórnarskrárinnar, 130 ár, er því ekki meginástæðan fyrir stjórnlagaþingi.Andstæðingar stjórnlagaþings vilja að það sé ráðgefandi. Þeir óttast völd þess. Ekki hefur þó verið lagt til að stjórnlagaþing eigi lokaorðið. Þingið á að gera tillögu til þjóðarinnar um nýja stjórnaskrá, eftir samráð við Alþingi.Með „ráðgefandi“ er því í raun átt við að stjórnlagaþing geri tillögu til Alþingis í stað þjóðarinnar.
Framsóknarflokkurinn vill að ný og nútímaleg stjórnarskrá verði samin af stjórnlagaþingi þar sem eiga sæti þjóðkjörnir fulltrúar, að skerpt verði á aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdavalds og ráðherrar gegni ekki þingmennsku."

Þetta voru svosum ekki fyrstu vangaveltur Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing. Í þessari grein í Tímanum frá 1984 er einnig fjallað um stjórnlagaþing og kosti þess.

Í Framsóknarblaðinu árið 1959 er haft eftir Hermanni Jónssyni úr ræðu, hvernig stjórnlagaþing væri betur til þess fallið en alþingi að endurskoða stjórnarskrána. Ekki síst í ljósi hagsmuna flokkanna af núverandi/þáverandi kosningakerfi.

Geir H. Haarde hefur ekki skipt um skoðanir á stjórnlagaþingi. Hér skrifar hann í Moggann árið 1994 um sýndartillögur Jóhönnu Sigurðardóttir um stjórnlagaþing.

Hér skrifar Jóhanna Sigurðardóttir í Moggann 1996 m.a. um þörfina á frekari þrígreiningu ríkisvaldsins og nauðsyn þess að alþingi styrkist gagnvart framkvæmdavaldinu. Ekkert nýtt ákvæði um slíkt er í tillögum stjórnlagaþings 2012.


Engin ummæli:

Króna/EURO