miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Eitraður plástur

Þar eð nú skal nota hugsanlegan framtíðar lífeyrissparnað ungs fólks til að gera vaxtakvalirnar sem herja á landsmenn bærilegri, þá get ég því miður ekki orða bundist.

Frjósemi, hugmyndaflug og skynsemi kemur því miður hvergi við sögu nú þegar stjórnvöld reyna að leysa úr vaxtaokrinu sem haldið er uppi á Íslandi. Nú hafa launþegar í landinu samið við atvinnurekendur um aukalífeyrissparnað, vegna þess að það er hagkvæmt fyrir þjóðfélagið til lengri tíma. Með úttekt lífeyrissparnaðar er fólk hvatt áfram til þess að taka lán á alltof háum vöxtum, og hægt að færa rök fyrir því að pressa á lægra vaxtastig minnki þegar stærri hluti almennings getur nú sjálft niðurgreitt sín eigin lán með því að afskrifa framtíðar peningaeignir sínar. Fólk er hvatt sérstaklega til þess að halda áfram að greiða alltof háa vexti og nota til þess 4% af heildarlaunum sínum! Er þetta einhver hin mesta vitleysa sem launþegahreyfingin hefur kyngt um árabil?

Segjum sem svo að við séum í þeirri stöðu að við getum alls ekki lækkað vexti á Íslandi, og að framtíðin sé þannig að engin geti eignast íbúð nema að niðurgreiða vexti. Við séum föst í oki verðtryggingar til eilífðarnóns. Getum við þá ekki fundið upp einhverja skárri plástra en þennan sem nú á að líma á okkur?

Með beinni veðsetningu aukalífeyrissparnaðar við kaup á íbúðarhúsnæði gætum við vankað að minnsta kosti tvær flugur í einu höggi. Við gefum lántaka tækifæri til að leggja fram beinharða peninga sem veð, sem er besta veð í heimi, og besta veð í heimi gefur tækifæri til frábærra vaxtakjara þar sem áhætta lánveitandans verður 0%. Einnig verður til betra veðrými á eigninni vegna annarra áhvílandi lána, sem er einnig lánveitendum í hag. Þannig erum við búin að búa til betri lánskjör, er eitthvað að því? Svo til framtíðar þá getum við verndað aukalífeyrissparnað landsmanna og hvatt til sparnaðar fyrir eldri árin sem við sjáum með lifandi dæmum að geta reynst ansi erfið fjárhagslega.

sunnudagur, 17. apríl 2016

Peningaprentarar

Allir spara minna og greiða meira til að hemja höfuðstólshækkun lána. Þetta nýja kerfi þar sem Íslendingar borga með beinum hætti eigin kostnað við verðtryggðu krónuna á víst að vera komið til að vera. Þessi fylgir minni séreignasparnaður, og atvinnurekendur eru látnir borga brúsann að hálfu. Til að toppa þetta geta þeir sem hærri hafa launin borgað höfuðstóla meira niður. Þetta virðist vera framtíðarmúsíkin í íslenskri peningaprentun kostaðri af íslenskum almúga. Fjórflokkurinn vill endilega festa þennan plástur varanlega á, fullan af greftri og bakteríum. Efnahagsreikningar lánastofnana munu halda áfram að bólgna út vegna höfuðstólshækkana sem veitir aftur enn meira rými til útlána, sem kallar á enn meiri verðbólgu. Hvenær er nóg NÓG?

Íslensk pólitík á að vinda sér beint að efninu, það væri fín tilbreyting.

Króna/EURO