Við erum á Íslandi – og erum Íslendingar. Vinnusöm og veiklunduð.
Ógengin í gegnum talsverða sjálfskapaða kreppu göngum við nú til verks og bendum hvert á annað – og segjum: “Nei, þú.”, “Það var hann.”, “Það var hún.” Góðu fréttirnar eru að það er rétt – það varst þú, það var hann og það var hún.
Við vitum í raun ekkert hvað gerðist í smáatriðum. Við höfum jú nú á mánudagsmorgun fengið að vita í smáatriðum hvað sumhver sagði og gerði, eða gerði ekki. Við vitum hins vegar ekki hvernig við urðum svona heimsk – við Íslendingar.
Hvar lærðum við að vera svona andskoti heimsk og gagnrýnislaus?
Hnignun íslensks samfélags er líklega rótin að þeim vanda sem við glímum við í dag. Við erum á byrjunarreit, eftir fall Babýlon. Stjórnmál og viðskipti eru talin vera okkur veikustu hlekkir. En líklega er þó réttast að siðferði okkar og skortur á réttsýni er okkar veikasti hlekkur. Það er hlekkurinn sem skilur milli manna og dýra – hlekkurinn milli manns og apa er týndur á Íslandi. Það hefur fyrir löngu gerst.
Verkefnið sem framundan er, er ansi stórt. Að tryggja að ekkert þessu líkt gerist aftur meðan nokkurt okkar lifir.
Við þurfum að kenna börnum okkar réttsýni, heiðarleika, gagnrýni og öguð vinnubrögð, byggð á rökum en ekki tilfinningum. En hvernig er hægt að framselja það sem við höfum ekki öðlast sjálf?
Jú temjum okkur réttsýni, heiðarleika, gagnrýni og öguð vinnubrögð svo við megum framselja kynslóðum þeim er takast á við arfleifð okkar.