miðvikudagur, 8. desember 2010

Pólitískt rangeygður

Það er ágætt að vera ekki partur af stjórnmálasamtökum. Það er einhvern veginn eins og að vera áhangandi knattspyrnuliðs. Maður verður einhvern veginn blindur á leikinn. Tekur bara eftir því hvað annað liðið gerir vel eða illa. Svoleiðis verð ég þegar "ég held með" stjórnmálaflokki. Þegar illa gengur finnst mér þá að eigi að reka "stjórann" eða "skipta út" leikmanni. Og þegar "andstæðingurinn" skorar þá öskra ég á dómarann RANGSTAÐA (lesist: lýðskrum).

Pólitísk afstaða getur gert mann svo andskoti pólitískt rangeygðan.

Það er svo frjálslegt að hafa sitt eigið X í eigin vasa.

föstudagur, 3. desember 2010

Lífeyriskerfið drasl og dót?

Lífeyriskerfið stendur - og er skrifað í bók eins og um boðorðin tíu sé að ræða. Lög um lífeyrissjóði eru lítið gagnrýnd af stjórnmálafólki, samtökum launafólks og almenningi - svona rétt eins og GUÐ hafi talað þegar lífeyriskerfið var njörvað niður.

Er lífeyriskerfið kannski DRASL og DÓT?

Sammála get ég verið þeim "brjálæðingum" sem vilja sameina fjölmarga eða alla lífeyrissjóði landsins í einn stórann og hagræða þannig í "greininni". Þá myndi stjórnarmönnum, og ýmsu starfsfólki fækka mikið. Hægt væri að reka fjárfestingadeildaskiptan sjóð með minni tilkostnaði en nú. Sérfræðiþekking myndi aukast á ákveðnum tegundum fjárfestinga, og svokallaðar áhættufjárfestingar lífeyrissjóða yrðu úr sögunni.

Einnig þyrfti að einfalda útreikning lífeyrisréttinda. Hægt væri að sjá fyrir sér að samtryggingardeild rukkaði iðgjöld trygginga og stæði undir tryggingahluta lífeyriskerfisins. Svo yrði sérstök lífeyrissöfnunardeild sem gæfi út með reglulegum hætti hver nákvæmlega inneign sjóðfélaga er á hverjum tíma. Inneignin yrði svo bundin erfðalögum eins og aðrar sjóðainnistæður í landinu. Útgreiðslukerfi þarf að rýmka og gera sveigjanlegt að einhverju marki.

Eða er það kannski ekki bilun að safna 10% tekna sinna í sjóð, allt sitt líf - og deyja svo 68 ára án þess að nokkur ættingji þinn njóti einu sinni góðs af því?

Er núverandi kerfi kannski tilvalin leið til að halda fátækum fjölskyldum áfram fátækum?

Annar stór kostur við að gefa út nákvæma inneign sjóðsfélaga, og binda í erfðalög, er að allir launþegar í landinu verða um leið áhugasamir um rekstur lífeyrissjóða - og láta sverfa til stáls um leið og mistök eru gerð í rekstri sem leiða til lækkunar innistæðna. Þetta myndi leiða til betri sjóðastjórnunar.


miðvikudagur, 1. desember 2010

Að gefa ráðgjöfum ráð

Nú hlýt ég að vera afskaplega heimskur og vitlaus að nefna þetta, sérstaklega þar sem ég er sammála manninum.

ENN, Sigurður Kári, varaþingmaður, bloggar (talar undir rós) um hvaða niðurstöðu skynsamlegt er að ráðgjafaþing um stjórnarskrána komist að. Ég stend í þeirri trú að þingmenn eigi að hafa þroska til að tjá sig ekki um breytingar á stjórnarskránni, þartil ráðgjafaþingið hefur skilað niðurstöðu.

Ósmekklegt að hópur fólks (þingmenn) sem engan veginn hefur verið hæft til að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrárplagginu skuli þurfa að vera með opin munninn vegna þess.

Króna/EURO