laugardagur, 14. maí 2011

Molar um þorska #1

Það besta við kvótakerfið eins og það er rekið í dag er hugmyndin um „fiskveiðiár“. Við skulum ekki breyta hugmyndinni um „fiskveiðiár“. Hagkvæmnin sem felst í því að veiða ákveðið magn af fiski yfir allt árið er mikil.

Muninn á sóknarmarki og aflamarki þekkja of fáir sem ég þekki.
Sóknarmark er þegar ALLIR sem vilja keppast um að veiða fyrirfram ákveðið magn. ALLIR vilja veiða sem mest á sem stystum tíma til að auka sinn hagnað. Þannig er innbyggt í sóknarmark að skip verða fleiri en þörf er á, og aflinn er veiddur á styttri tíma. Niðurstaðan er því of stór fiskifloti með of mikla afkastagetu og því enga hagkvæmni.

Þeir sem vilja kasta ryki í augu fólks, eins og t.a.m. Tryggvi Þór Herbertsson, láta í það skýna, að einungis núverandi kerfi geti boðið upp á „fiskveiðiár“. Það er RANGT.

Hægt er að bjóða veiðileyfi til sölu sem miðast við að ákveðin afli sé veiddur á einu ári.

3 ummæli:

Sigurður Hreinsson sagði...

Sæll félagi.
Mér finnst niðurstaða þín í þessari stuttu færslu, býsna sérkennileg. En ok ef það besta við kvótakerfið er “fiskveiðiárið” þá er það kanski lýsandi fyrir hvað allt annað í því kerfi er rotið. Slíkri niðurstöðu er ég reyndar sammála.
Niðurstaða þín varðandi sóknarmark er mjög fljótfærin. Því að það er ekkert samasem-merki á milli þess að veiða sem mest á tímaeiningu og þess hvað flotinn er stór. Ekkert mál er að takmarka stærð flotans.
Á sama hátt er það beinlínis rangt að setja það fram sem einhver sannindi að færri skip með mikinn kvóta, séu hagkvæmari en fleiri skip í sóknarmarki. Fyrir því eru tvær gildar ástæður.
Annarsvegar sú að skipin í sóknarmarkinu veiða meira á tímaeiningu, þe. þau einbeita sér að veiðum, en skipin í kvótakerfinu eru meira að forðast ákveðnar tegundir af fiski. Meiri afli á tímaeiningu=hagkvæmari rekstur.
Hitt atriðið snýr að fjárfestingu. Jafn sérkennilegt og það nú er, þá talar þú ekki um kvóta sem fjárfestingu. Samt sem áður er kvóti mikið stærra hlutfall af “eignum” útgerða en skip. Það hefur reyndar verið reiknað út að kvótaverð hér sé svo hátt að fjármagnskostnaður vegna þess komi í veg fyrir að útgerðir séu reknar á hagkvæmann hátt. Ef það er ekki offjárfesting, hvað er það þá?
Ég er hinsvegar sammála þér varðandi Tryggva Þór, hann stundar það að kasta ryki í augu almennings, með allskonar upphrópunum sem ekki eiga við rök að styðjast.
En í allri umræðu um fiskveiðimál, af hverju er ekki meira talað um “fiskifræðingana” og þeirra speki. Ætla menn að halda endalaust áfram að láta draga þjóðina á asnaeyrunum? Fræði Hafró hefur aldrei gengið upp og mun aldrei gera. Módelið með 20% veiðiálagi hefur þegar verið prufað, við Nýfundnaland. Þar eru í dag engar þorsveiðar. Sömu örlög býða okkar ef við höldum áfram að elta “fræðingana”.

Einar sagði...

Já Sæll Sigurður takk fyrir komment.

Þegar ég ræði um hagkæmni í færslunni á ég svo sannarlega við þjóðarhagkvæmni. Mun hagkvæmara er að leggja fé í einn veg til Ísafjarðar frekar en þrjá, ekki satt?

Peningar þjóðar væru því að eins litlu leyti bundnar í fiskiskipum eins og hægt er. Því er ekki ekki hægt að mótmæla. Ég er að velta fyrir mér hámarkshagkvæmni fyrir þjóðina ekki einstaklinga.

En til að greinin skili hámörkuðum arði þurfa einstaklingar að hafa hagnað af henni. Það má gera tildæmis með auðlindagjaldi, sem tildæmis markaðurinn gæti ákveðið. Þá myndi markaðurinn bjóða ákveðið verð í veiðiheimildir og væri það hærra eftir því sem EBIDTA er hærra í þessari grein en öðrum greinum.

Sigurður Hreinson sagði...

Sæll félagi.
Ég sé ekki að það sé neitt betra að binda peninga þjóðarinnar í kvóta frekar en skip. Skip hafa amk þann skemtilega kost að það útheimtir vinnu að eiga þau og reka. Það eru því peningar sem renna út í samfélagið. Skuldir vegna kvóta draga oft bara peninga út úr samfélaginu, samanber erlend lán. Í þessu samhengi má benda á að skuldastaða íslenkra útgerða er líklega nálægt 600% af árlegu útflutningsverðmæti, í Færeyjum er sama hlutfall nálægt 130%.
En af tveimur kostm er sóknarmarkið mun betri kostur en aflamarkið, einfaldlega af þeirri ástæðu að í sóknarmarki er allur hvatinn að skila afla á land og ágóðinn af hverskonar svindli er hverfandi. Alveg öfugt við kvótann.

Króna/EURO