fimmtudagur, 27. október 2011

Greiðslumunkurinn

Þegar ég er loksins dauður mun verða gefin út ævisaga mín "Greiðslumunkurinn, íslenskur borgari."

Þegar hafa nokkur greinaskil verið skrifuð og eru þau birt hér:

"Það var Einari líkt að deyja 67 ára að aldri, enda vildi hann alls ekki verða enn einn sligandi bagginn á lífeyrissjóðakerfinu og heilbrigðisþjónustunni. Einar naut þess alla tíð að greiða verðbætur og skatta, einnig brosti hann alltaf út í annað þegar hann fékk þær fréttir að einhver gat gripið sér ölmusu af almannafé. Það hlýjaði honum svo um hjartaræturnar."

"Einar tók snemma þá ákvörðun að borga fyrst til skammtheimtunar og svo til kröfuhafa, síðast hugsaði hann um að reka heimili, enda dáðust ráðamenn þjóðarinnar af eljusemi hans. Vart þarf að tíunda frekar um staðfestu Einars í þessum efnum, þar eð hann hlaut fálkaorðuna árið 2027 fyrir afrek sín í greiðsluþolinmæði. Í greinargerð Deutsche Bank sagði meðal annars: "Hvar hefði Dieter Weber átt að ávaxta gullið sitt ef Einars hefði ekki notið við?""

"Á öðrum áratug þessarar aldar hugsaði Einar oft á tíðum þá skelfilegu hugsun að flytjast til annarra landa, var hann á tímabili myrkurs m.a. reiðubúinn til að yfirgefa stórfjölskyldu sína, vini og ástfólk. Varð honum þá hlustað á eldræðu þáverandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur í sjónvarpsfréttum, þar talaði hún í hann kjark og eldmóð til að lifa lífinu til þess að greiða skuldir Íslands. Einar stóð upp fyrir framan sjónvarpstækið og klappaði taktfast saman höndum. Húrra, húrra, húrra! Mátti heyra hljóma í stofunni hjá þeim hjónum, Einar grét af gleði. Upp frá þessari stundu ákvað Einar að gerast fyrsti greiðslumunkur á Íslandi."

"Einar þótti lengi vel kankvís og gamansamur svo, að undrum sætti. Þessu líferni sneri hann baki við og tileinkaði líf sitt ríkisstjórninni og skattheimtunni sem hann taldi skorta fé. Þótt hlutdrægt þætti að segja að Einar hafi bjargað skattheimtu Íslands, þá má segja sem svo að ef hans hefði ekki notið við hefði verið vonlaust mál að halda úti allri þessari heilbrigðisþjónustu á Vopnafirði."

"Dóttir Einars, Edda Lind, segir svo frá æsku sinni: "Ég man hvað föður mínum þótti mikið vænt um ríkisstjórn Íslands. Á yngri árum var ég oft gröm yfir því hversu ótrauður hann gekk til verks í þjónustu sinni við föðurlandið. Ég man eins og gerst hefði í gær þegar hann borgaði heldur bifreiðagjöldin en að kaupa á mig gleraugun sem mig vantaði vegna sjóndepurðar. Einnig fylltist ég reiði þegar hann sagðist ekki geta greitt tannlæknaþjónustu fyrir mig. "Nei, tennur eru ekki jafn mikilvægar og þak yfir höfuðið." Tönnlaðist faðir minn alltaf á. "Þú mátt velja, þak yfir höfuðið eða tennur?" Nöldraði Pabbi minn. Í seinni tíð hugsa ég alltaf til föður míns með hlýjum hug þegar ég á í vandræðum með að tyggja kjöt. Það vekur upp svo margar hlýjar minningar. Núna skil ég auðvitað að pabbi vildi bara borga og standa sig sem greiðslumunkur. Hans hinsta ósk var að erfðafjárskattur yrði hækkaður svo um munaði, svo dauði hans mætti verða til góðs."

Engin ummæli:

Króna/EURO