mánudagur, 13. febrúar 2012

Gamalmennapirringur

Það er ekki alltaf sem ég fíla þennan gaur, en ég sendi honum alla mína þumalputta lóðrétta beint til himins.

Það var nefnilega þannig að ég fékk ónot í miltað þegar Sighvatur Björgvinsson útskýrði fyrir okkur í Silfri Egils í gær af hverju verðtrygging og lífeyrissjóðir væru hrein og tær snilld, frá upphafi til enda - til eilífðarnóns.

Hann greinilega veit ekki, að við vitum, að verðtrygging er til að bæta rýrnað verðgildi krónu. Undir hann var lagður mikilvægur tími til að útskýra hvað verðtrygging gengur út á. Þetta vissum við öll.

Ég veit hins vegar ekki af hverju lánin mín þurfa að hækka ef arabískur prins fer í fýlu og neitar að selja olíu þann daginn, sem veldur verðhækkun á mörkuðum. Eða hvers vegna lánin mín hækka ef Morgunblaðið selst í færri eintökum, og það þarf að hækka áskriftargjaldið - og það leiðir til hækkunar vísitölunnar. Ennþá síður skil ég að lánin mín skuli hækka ef CocaCola hækkar í verði, þótt að ég geti valið að versla PepsiCola sem hækkar ekki í verði. Kannski skil ég þetta aldrei.

Svo þurftum við að horfa á þennan Sighvat Björgvinsson engjast um af gamalmennapirringi þegar okkar ágæti Vilhjálmur af Skaganum og Sigurður af Stormi voru svo vitlausir að samþykkja ekki það sem hrökk úr kokinu á honum.

Ég þoli ekki þegar dregnir eru fram í dagsljósið pissublautir fyrrverandi stjórnmálamenn sem kallað hafa yfir mig, fjölskyldu mína og vini áralanga efnahagslega bölvun - án þess að svo mikið sem sýna eitt andartak örlitla auðmýkt heldur stanslausan gamalmennapirring.

Styrmir Gunnarsson var í sama þætti. Hann veltir fyrir sér framtíðar þjóðskipulagi og vill breytingar sem hann vonar að verði til batnaðar. Það virði ég, þótt ekki sé alltaf hægt að vera honum sammála.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Viltu frekar lán tengt við launavísitölu, eða við erlendan gjaldmiðill, eða bara borga ofurvexti sem bæta fyrir gengisáhættuna?

Einar sagði...

Humm.... ég skil ekki :) Sanngjarnt væri að borga sem allra minnst :)

Nafnlaus sagði...

13. febrúar 2012 22:01
Ertu sem sagt að segja að 4.1% vestir + 6% verðbólga séu ekki okurvextir ?

Mér finst 1% vextir góðir vextir fyrir lánveitandan.
Hann er að fá 1% til baka fyrir að lána peningana sína.. 1% sem lántakinn þarf að afla meira til að lánveitandin geti gert ekki neitt.
en að gefa lánveitanda 4% er bara okur og græðgi.

Nafnlaus sagði...

Sammála pistlinum nafni. Leiðindafauskar í honum og fannst mér Guðmundur Gunnars verða sér til minnkunar.

Mér finnst vanta í þessa verðtryggingarumræðu að nefna það rétt aðeins að ég er að borga verðtryggð lán með gengisfelldum launum. Hvaða fjandans sanngirni er það að lánveitandinn fái sitt borgað í botn en ég fái ekki launin mín borguð í botn?

Nafnlaus sagði...

Sammála því að ekki eigi að vera háir vextir til viðbótar við verðtryggingu, en það verður að hafa í huga að þeir eiga líka að borga rekstrarkostnað stofnunarinnar sem veitir þá, og hugsanlega gróða líka, og líka að mæta hættunni sem skapast á því að það þurfi að afskrifa lánið.

Síðan er náttúrulega sá möguleiki fyrir hendi að sleppa því að taka lán ef manni líkar ekki kjörin, eða allavega að halda lántökum í lágmarki. Ef færri væru tilbúnir að borga háa vexti þá væru þeir kannski lægri, framboð og eftirspurn og allt það.

Nafnlaus sagði...

Finnst líka að fólk eigi að geta samið við vinnuveitenda um að fá verðtryggð laun ef slíkt samkomulag næst (veit ekki hvort það er bannað eða ekki).

Síðan hefur þeirri hugmynd verið fleygt á loft að bjóða upp á lán sem eru tengd við launavísitölu en ekki neysluvísitölu, þannig að þau hækki í samræmi við laun, en ekki vöruverð. Mér skilst samt að til lengri tíma litið hafi launavísitala hækkað meira en neysluvísitala, svo það er spurning hvort það borgar sig fyrir fólk.

Nafnlaus sagði...

Sá sem skrifar hér um að fólk geti bara sleppt því að taka lán....hvernig í fj... á fólk á Íslandi að koma þaki yfir höfuðið án þess að taka þessi okurlán? Já ég sagði okurlán, því að íslensk lán eru hengingaról. Hér er enginn heilbrigður leigumarkaður og ungt fólk er nauðbeygt til að kaupa íbúð á fáránlegum kjörum.

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki að segja að ástandið sé ekki slæmt, bara að fólk eigi að hugsa um fleiri en eina hlið málsins í staðinn fyrir að tala í hringi um verðtrygginguna. Vextir eru háir, leigumarkaðurinn lélegur og síðan en ekki síst var blásin upp gríðarleg eignarbóla hér á landi. Eignabólan er langstærsti þátturinn í tapi fólks, ekki verðtryggingin. Það ætti í raun að segja sig alveg sjálft að ef maður kaupir á 2-3 földu eðlilegu verði þá verður maður fyrir tapi.

Ef fólki er virkilega annt um að bæta ástandið þá ætti það að spá í þessum hlutum og hvernig má breyta þeim til frambúðar, því þeir hafa miklu meiri áhrif en það að lánið manns hækki að nafnvirði þegar arabískur prins fer í fýlu.

Nafnlaus sagði...

1. Sighvatur Björgvinsson sagði ekki að "verðtrygging og lífeyrissjóðir væru hrein og tær snilld, frá upphafi til enda - til eilífðarnóns." Þetta eru þín orð.

2. "Hann greinilega veit ekki, að við vitum, að verðtrygging er til að bæta rýrnað verðgildi krónu." Því fer víðsfjarri, miðað við margvísleg skrif á netinu og víðar (m.a. þessi skrif), að fólk almennt átti sig á til hvers verðtrygging er.

3. "Ég veit hins vegar ekki af hverju lánin mín þurfa að hækka... Kannski skil ég þetta aldrei". Sighvatur tók reyndar sérstaklega fram að ávallt mætti deila um hvaða vísitölu skyldi nota sem viðmiðun. Hann var ekkert að mæla með einni aðferð umfram aðra.

4. Skætingur eins og "gamalmennapirringur" og "pissublautir fyrrverandi stjórnmálamenn" er ómálefnalegt bull og sýnir að þú ert óhæfur í viti borna umræðu.

Nafnlaus sagði...

Ég fæ nú "gamalmennapirring" við að lesa þessa grein þína. Ég er manna síðastur til að halda því fram að vísitölutenging lána sé heppileg og vissulega er það skelfilegt kerfi sem hækkar húsnæðislán á Íslandi ef frostnótt verður í Brasilíu. Sighvatur gerði nú ekki annað en minna á að "Ólafslög" (sem hann átti þátt í að setja) voru neyðarúrræði þegar verðbólga át upp lán og vextir voru neikvæðir (og aðeins útvaldir fengu lán sem sparifjáreigendur greiddu) En þetta "vissir þú" í þínum unggæðingshroka. Reyndar voru laun í upphafi einnig vísitölutryggð en það síðar afnumið vegna víxlverkana er mögnuðu verðbólguna. En þetta þurfum við gamlingjarnir ekkert að segja þér - þú veist þetta allt saman. Það er íslenska krónan sem okkur er að drepa, en það veist þú líka
Með kveðju
Kristján E.Guðmundsson

Einar sagði...

Æj ég verð ekki eldri..... Held að Sighvatur sé sjálfur að kommenta hér nafnlaust... .)

Króna/EURO