fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Tökum Flugfélagið eignarnámi

Nú er það svo að oft á tíðum er ódýrara að fljúga til London og Kaupmannahafnar frá Keflavík heldur en til Egilsstaða frá Reykjavík.

Það hlýtur að teljast afar óeðlilegt svo ekki sé meira sagt. Flugfélag Íslands nýtir sér einokun á innanlandsflugi til hins ýtrasta og smjattar á nauð-viðskiptavinum sínum eins og harðfiski og étur roðið með. Dregur jafnvel úr áhuga erlendra ferðamanna á að notfæra sér innanlandsflug, og þess vegna má færa rök fyrir því að verslun og þjónusta við ferðamenn dreifist skakkt um landið.

Einokun Flugfélags Íslands er óvéfengjanleg staðreynd. Ofurverðlagningin er það einnig. Skattlagning er há, en útskýrir aðeins hluta af okurverðinu sem er í boði.

Þess vegna gæti það verið algjörlega hagur þjóðarinnar að Flugfélag Íslands verði tekið eignarnámi og rekið af ríkinu næstu árin í það minnsta. Ofurgjaldtöku Flugfélags Íslands verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Allt frjálslynt hjal um frjálsa samkeppni á alls ekki við um íslenskt innanlandsflug.

Seinni kosturinn væri að ríkið stofnaði nýtt innanlandsflugfélag til höfuðs Flugfélagi Íslands, en eignarnám væri líklegast skárri kostur.

1 ummæli:

bladurskjodan sagði...

Það hefur ekki staðið á samgönguráðuneitinu að niðurgreiða fargjöld Flugfélags Ísland innanlands síðustu áratugina hafi einhver vogað sér í samkeppni

Króna/EURO