miðvikudagur, 6. maí 2009

Allt álverinu að þakka...*

Þær ágætu fréttir eru sagðar hér hjá mbl.is að afgangur er á vöruskiptum við útlönd í apríl, skv. heimildum hagstofunnar.

Samtals nemur útflutningur 31,7 milljarði og innflutningur 29,4 milljörðum á svokölluðu fob (free on board) verði.

Segjum sem svo að þær tölulegu upplýsingar frá opinberum aðilum séu réttar að álver Alcoa í Reyðarfirði standi undir 20% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þá liggur í augum uppi að ef ekki væri fyrir álverið í Reyðarfirði væri vöruskiptajöfnuðurinn í apríl neikvæður. Samkvæmt þessum tölum er útflutningsverðmæti úr Reyðaráli 6,34 milljarðar, og væru þeir dregnir frá útflutningsverðmæti kæmi í ljós að vöruskiptajöfnuður fyrir apríl væri neikvæður um 4,04 milljarða.

Værum við þá ekki í dýpri skít án álversins?

*Geri mér grein fyrir að sjónarhornið er þröngt, eins og þeirra sem segja álverinu allt um að KENNA.

17 ummæli:

Gunnar sagði...

Hversu mikið var flutt inn af súráli til vinnslunnar? Hver eru nettóáhrifin?

En vissulega flott að vöruskipti séu jákvæð. Fimmtungur er ansi stór kaka og því mörg egg í þeirri körfu.

Nafnlaus sagði...

Ætlaði að skrifa það sem Gunnar skreif: Hvað kostaði súrálið?

Nafnlaus sagði...

Svo mætti líka benda á allar útflutningsgreinarnar sem fóru í skítinn við þensluna sem álversframkvæmdirnar bjuggu til.

Nafnlaus sagði...

Súrálið kemur inn í stórum skömmtum þannig að mánaðartölurnar sveiflast mikið upp og niður. Í mars var flutt inn súrál fyrir einn milljarð og ál út fyrir tíu milljarða, meðalinnflutningur á súráli 2008 var tæplega 5 milljarðar á mánuði þannig ég held að það megi taka því sem þumalputtareglu að útflutningsverðmæti álsins sé rúmlega tvöfalt innlflutningsverð súrálsins.

Ísleifur Egill sagði...

Ég spyr nú bara, hvað kosta vextirnir af lánunum til að borga kárahnjúkavirkjun okkur á mánuði? Og hvað hefði það kostað okkur mikið að veita þessum brjálæðislega mikla pening í smá- og meðalstór útflutningsfyrirtæki sem gera sama gagn? 10% af kárahnjúkum? Varla það. Íslendingar þurfa að hætta að hugsa allt í STÓÓÓRUM lausnum og byrja að fatta að hlutirnir eru stundum flóknari en eitt álver.

Nafnlaus sagði...

nafnlaus 15:06, þú meinar þensluna sem að bankapésarnir, verktakarnir og skipulagsnefndir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu bjuggu til.

Nafnlaus sagði...

Súrálsverð er 320 dollarar tonnið en álverð 1500. Nettóáhrifin eru því þau að innflutt er súrál fyrir 640 dollara, skaut fyrir segjum 260dollara sem gerir 600 dollara í afgang. Þetta hlutfall gerir 2,5 miljarða inn í vöruskiptajöfnuðinn sem þýðir að án álversins væri vöruskiptajöfnuðurinn neikvæður um 0,2 miljarða.

Sigurður Högni Jónsson sagði...

Ég tek undir með Ísleifi. Við getum ekki tekið skuldir Landsvirkjunnar úr jöfnunni.
Kárahjúkavirkjun kostaði vel yfir 100 milljarða!

Nafnlaus sagði...

Það er náttúrlega ljóst að sú upphæð sem að Landfsvirkjun notaði (eigiðfé + lán) á ekki að koma inní jöfnuna. Þá þyrfti líka að taka þær tekjur sem Landsvirkjun hefur af Kárahnjúkavirkjun. Það eru heldur ekki tekin inn vaxtagjöld hjá fiskvinnslunni. Menn verða bara að sætta sig við að álverið við Reyðarfjörð er okkar gullmoli.

Nafnlaus sagði...

Sé ekki í færslunni þinni hvaðan þú hefur þessar tölur um álútflutninginn. Skv. mínum upplýsingum var flutt inn
Mótað járngrýti
Áloxíð
Álflúoríð og
Rafskaut fyrir bræðsluofna
fyrir um 20 ma (fob) frá jan til mars.
Það er ákaflega villandi hvernig farið er með tölur um hag okkar af útflutningi á áli eins og einhvern stórasannleik þegar er ljóst að í reikningsdæmið vantar
a) innflutning á móti
b) hver á mismuninn (ekki íslendingar)
Í raun kemur álútflutningur íslenskum efnahag sáralítið við, það eina sem við erum að flytja út er raforka á formi brædds áls.
Það er svo rétt sem hér hefur verið bent á að við fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun var farið ákaflega óvarlega - enda vildi ekki nokkur frjáls fjárfestir koma nálægt framkvæmdinni.
Kv. Dofri Hermannsson

Einar sagði...

Reyndar tók ég sérstaklega fram að færslan er skrifuð út frá þröngu sjónarhorni. Samt áhugavert að þeir sem hafa á móti álframleiðslu vilja horfa á hlutina í víðara samhengi þegar kemur að því að ræða kosti álframleiðslunnar á Íslandi.

Langar einnig að benda á það að í hagtölum eru birtar heildartölur innflutnings vegna þriggja álvera, en ekki þessa eina í Reyðarfirði, og skekkir það niðurstöðuályktun talsvert hjá skrifurum.

Reyndar minntist ég ekkert á það að álverið í Reyðarfirði framleiðir fleiri kíló af koltvísýring en það framleiðir í kílóum talið af áli - sem er í mínum huga helst galli álversins í Reyðarfirði, og leiðinda staðreynd.

Leyfist mér svo að benda á að öllum frjálsum fjárfestum í heiminum var algjörlega frjálst að fjárfesta í hvaða atvinnustarfsemi annarri sem er á Íslandi meðan á stóriðjuframkvæmdum stóð. Þannig að ekki er rétt að setja það fram svo að valið hafi staðið á milli tveggja mismunandi kosta, heldur öllu frekar að fjárfestar, stjórnvöld og skyldir aðilar lokuðu augunum fyrir því að stunda aðra heilbrigða atvinnuuppbyggingu til að auka útflutningsverðmæti á sama tíma.

Þá sem spyrja hvað kostar að borga vextina af lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar, verð ég að spyrja: Hver er vaxtakostnaðurinn sem greiðist til þýskra banka fyrir hvert kíló veitt af þorski?

Nafnlaus sagði...

Verðmunurinn rennur til Alcoa. Það sem verður eftir af peningum hér á landi eru launagreiðslur og raforkuverð.

Nafnlaus sagði...

Æ, LÁTIÐ EKKI SVONA það er vel hægt að græða á því að fara á hausinn....allavegna fyrir suma.
Og jafnel grein eins og þessi skrifuð út frá þröngu sjónarhorni getur víkkað hug mans....en sannleikurinn er sá að sannleikurinn á vissu stigi er oft verri en lygi.

Unknown sagði...

Ég held að þeir sem eru á móti álverum vilja einmitt ,,horfa vítt á hlutina" til þess að draga inn alls óskylda hluti.

Annað...að tala um að nota verð Kárahnjúka, 100 milljarða, og tala um að veita þeim peningum í aðra atvinnustarfsemi er bara óraunhæf óskhyggja.

Þessi peningar voru fengnir að láni erlendis, til þess að byggja virkjun, á þeim forsendum að búið var að selja orkuna úr þessari virkjun marga áratugi fram í tímann. Þannig tókst okkur að draga erlenda fjárfestingu inn í landið sem alltaf hefur gengið hörmulega.

Íslendingar hafa aldrei, og munu væntanlega aldrei, getað farið erlendis og beðið um 100 milljarða að láni til þess að ,,veita til allsskonar atvinnusköpunar".

Nafnlaus sagði...

Enda er sá tími vonandi liðinn að menn rjúki af stað í að gera 150 milljarða sértækar aðgerðir í atvinnumálum. Þessvegna mun aldrei koma til þess að beðið sé um svona mikla peninga í einu til þess að gera eitthvað. Og ef þessi lán (150 milljarðar) eru í erlendri mynt (sem þau eru) er þetta ekki 150 milljarðar heldur 270 milljarðar. Þannig að nú væri gaman að fá talnaglögga menn til að reikna verð per starf á Reyðarfirði, og þá er ég að tala um störfin við álverið og í beinum tengslum við framleiðsluna, ekki aflei(t)dd störf sem menn virðast alltaf telja í þúsundum (kassadama í kauffélaginu afgreiðir verkstjóra úr álverinu = afleitt starf).

Unknown sagði...

Það má ekki gleyma að þessi erlendu lán sem hugsanlega eru orðin 270 milljarðar eru tryggð með tekjustreymi sem einnig er í erlendum gjaldeyri...

Og ef einhver fer að tala um álverð vil ég bara minna á að nú er spáð hækkun á áli strax á seinni part þessa árs og tímabundnar verðsveiflur niður á við skipta engu máli i verkefni sem reiknað er til 25 til 30 ára.

Það er enginn vandi að slá á kostnað per starf við álver og virkjun.

Verð fyrir íslendinga vegna starfa í álveri = 0 (greitt af útlendingum)
Verð fyrir íslendinga vegna starfa við virkjun = 0 (greitt af útlendingum).
Samanlagður kostnaður = 0(allt greitt af útlendingum, annarsvegar með eiginfjárframlagi, hinsvegar með lánsfjárframlagi)

Til samanburðar mætti skoða verð per starf í fiskvinnslu. Ég veit ekki hvað það er...ræð ekki við svo háar tölur. En það er allt greitt af íslendingum og fórnarkostnaður starfa í fiskvinnslu er því margfaldur á við álver.

En að lokum eru svona ,,kostnaður per starf" hugsanir heimskulegar. Ódýrasta starf sem þú getur fundið er malarvinnsla. Þarf ekkert til nema slaghamar og stór steinn.

Þetta er svona svipað einsog reikna kostnað per sumarleyfisdag hjá Neil Armstrong á tunglinu og bera saman við tjaldferð á Þingvöllum. Afhverju var kallinn ekki bara sendur til Þingvalla? Jú...vegna þess að markmiðið var að senda hann til tunglsins.

Með sama hætti má benda á að markmið þeirra útlendinga sem fjármögnuðu byggingu álvers á Reyðarfirði var ekki að framleiða störf fyrir Íslendinga. Markmiðið var að fá arð af fjárfestingu sinni með framleiðslu og sölu áls.

Íslendingar græddu í leiðinni 500 ókeypis störf. Störf sem ekki hefðu orðið til ef þessir útlendingar hefðu ekki verið til í að koma með peningana sína hingað.

Á sama tíma gátu íslendingar notað sína eigin peningana til að byggja upp arðbær fyrirtæki í öðrum greinum. Dæmi: CCP, Össur og Actavis. Allt fyrirtæki sem voru byggð upp í alþjóðafyrirtæki sem veita þúsundum atvinnu á sama tíma og verið var að byggja álver fyrir austan.

Bjarki sagði...

Það er ekki langt síðan það var mikið talað um "sovéska stóriðjustefnu". Þetta var þegar atvinnu-andstæðingar voru að reyna breikka skírskotun boðskapar síns með því að bæta við hann frjálshyggjuelementum. Svo datt frjálshyggjan úr tísku með hruninu.

Maður spyr sig hvort að það sé ekkert "sovéskt" við þessar pælingar um kostnað (útlendra einkaaðila) per starf og hvernig hægt hefði verið að "nota þennan pening" til að koma upp fleiri störfum við "eitthvað annað"?

Króna/EURO