miðvikudagur, 14. september 2011

Töfralausnir rjúpnastofnsins

Sumir telja rjúpnastofninn við þolmörk. Rjúpu hafi fækkað svo mikið að líta beri til þess að friða stofninn tímabundið. Þetta verður að skoða.

Nær grátlegt er að skotveiðimenningu á Íslandi skuli hátta þannig til að fyrsta rjúpnaveiðidag ársins skuli þúsundir íslenskra karlmanna hlaupa í móa og fjöll til þess eins að skjóta heimskar hænur af 10-30 metra færi. Þetta á víst að vera karlmennskutákn. Á kaffistofum vinnustaða eru svo sagðar veiðisögur, og því fleiri rjúpur sem þeir hafa hengt á útidyrnar heima hjá sér - því meiri karlmenni eru þeir í augum vinnufélaga. Nú skal ég ekki leggja dóm á hversu miklu meiri karlmenni þeir eru fyrir bragðið, heldur viðurkenni ég að þetta er vandamál. Aðallega þá fyrir rjúpnastofninn að sjálfsögðu.

Því miður er ekki um það að tala í þessu tilviki að veiða og sleppa. Fáir hefðu áhuga á rjúpnaveiðum með púðurskotum. Verðum við ekki einhvern veginn í fjáranum að leyfa náttúrunni að njóta vafans?

Nokkrar leiðir væri hægt að fara án þess að friða rjúpuna 100%, hér skal ég nefna nokkrar leiðir.

1. Einungis má veiða á laugardögum.
2. Þeir sem skilað hafa inn tveimur refaskottum eða fleiri á árinu fá leyfi til að skjóta einnig á sunnudögum.
3. Þeir sem verða uppvísir af því að selja rjúpnakjöt eigi yfir höfði sér kr. 350.000 í stjórnvaldssekt.
4. Þeir sem þurfa á aðstoð björgunarsveita að halda missi skotveiðileyfið að eilífu. (þetta gæti dregið verulega úr veiði.)
5. Opna fyrir veiðar á álftum í rannsóknarskyni :) , til að draga úr karlmennskusýniþörf karlmanna og dreifa henni betur yfir árið.
6. Að spila lygilegar veiðisögur milli kl. 10 og 11 alla morgna á Rás2 þannig að skyttur finni ekki eins mikla knýjandi þörf til að segja nýjar veiðisögur.
7. Að banna orðið Rjúpa með lögum og nefna fuglinn íslenska hænu, því það hlýtur að vera minna sport að skjóta hænu en rjúpu.
8. Að dreifa gervirjúpum um dali og fjöll, þannig að skyttur lendi reglulega í því að skjóta "falskar hænur" og fái hugsanlega leið á hænuveiðunum.
9. Að útrýma fálka á Íslandi, því hann étur jú rjúpu í talsverðum mæli.
10. Að selja rjúpnaveiðileyfi á 50.000 kr. stk til að eingöngu hálaunafólk, sem nennir vart að ganga til fjalla, hafi efni á að veiða rjúpu.

....eða var þetta djók?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef stundað það hin síðari ár að veiða/sleppa rjúpu. Það er afar einfalt. Í stað haglarans nota ég myndavél með þokkalegri aðdráttarlinsu og get stundað mínar rjúpnaveiðar hvar sem er. Við Rauðavatn og í Heiðmörkinni. Engin hætta og ekkert drepið og stöku sinnum næ ég frábærum myndum af þessum heimska fugli sem íslenska hænan (rjúpa) er.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Snjallar hugmyndir. Sérstaklega er ég hrifinn af þessari með að það þurfi að skila inn nokkrum refaskottum til að fá leyfi til rjúpnaveiða.
Kv. Dofri.

Króna/EURO