þriðjudagur, 30. október 2012

Ég er kjáni


Ég skammast mín fyrir það hvað mér finnst um mig, Ísland og Íslendinga. Mér finnst við samfélagið svo heimskt og óstarfhæft fyrirbæri. Við erum eitthvað svo ógeðslega þrjósk, heimsk og erfið öllsömul.
Við erum samfélag vandamála sem er ekki hægt að leysa. Það eina sem við megum hrósa okkur af er að finna upp orðtakið: „að berja höfðinu við steininn“. Því það lýsir okkur svo innilega vel nú um stundir.

Við erum með gjaldmiðil sem virkar ekki fyrir 90% landsmanna, en erum einhvern veginn föst með hann af því að íslenska krónan er jafn heilög og íslenska rollan og indverska beljan. Þrátt fyrir að indverska beljan stoppi umferð svo dögum skiptir, þá má ekki stugga við henni af því hún er heilög. Þannig er ástatt fyrir íslensku krónunni. Hún er svo sæt – íslenska krónan.

Íslenska krónan hefur aldrei reynst okkur vel. Krónan er eins og eiginkona sem hefur bitið af bónda sínum tittlinginn, og bóndinn er eins og íslenska þjóðin – heldur áfram að vera giftur henni og trúir því að sér vaxi tittlingur aftur.

Svo höfum við tæmt vasa okkur í stórann sparigrís frammi í eldhúsi. Já sparigrísinn fær alltaf sína tíund um hver mánaðarmót. Og svo ég/þú fattir af hverju  ég er að tala um sparigrís, þá er ég að tala um lífeyrissjóðinn minn. Já. Ég fóðra sparigrísinn minn svo ég megi ekki verða fátækur í ellinni. Ég sætti mig við það að lánin mín hækki daglega um þúsundir, og árlega svo milljónum skiptir. Bara svo að sparigrísinn minn geti áfram verið bleikur í andskotans eldhúsglugganum. Ég vill bara að sparigrísinn minn haldi áfram að vera bleikur. Ég vill engu breyta svo að sparigrísinn minn haldi áfram að vera bleikur. Frekar sel ég kofann ofan af fjölskyldu minni svo sparigrísinn minn fá verðbæturnar sínar, heldur en að sparigrísinn minn hætti að vera bleikur.

Og ef ég spyr einhvern hvort ekki sé hægt að geyma sparigrísinn minn í stofunni og hvort einhverjir stjórnmálamenn séu tilbúnir til að mála hann bláan, þá er svarið: – „NEI! Hann á að vera bleikur svo þú eigir fyrir gleraugum þegar þú verður 68 ára, ef þú verður þá einhvern tímann 68 ára fíflið þitt.“ Og ef ég segi þá að ég geti allt eins átt fyrir gleraugum þegar ég er 68 ára ef spargrísinn minn er blár, þá er svarið: „NEI! Fávitinn þinn, kerfið er þannig að sparibaukurinn þinn á að vera bleikur, kjáninn þinn. Litli sæti kjáni.“

Og svo hrópa ég í angist: „Í útlöndum er til fólk sem lifir ekki við svona kjör, eigum við að gera eins og þau?“

Og mér er svarað með fyrirlitningu:. „Nei, útlendingar eru svo gráðugir og vondir. Þeir vilja bara stela fiskinum í sjónum, móðga íslensku krónuna og gera grænmetisbændum jafn hátt undir höfði og ræktendum hinnar heilögu íslensku rollu. Og svo munu þei horfa á fallega landslagið okkar og hlæja að okkur.“

Bleiki sparigrísinn minn, íslenska heilaga krónan og ilmandi jarmandi sauðkindin segja öll það sama við mig: „Þú ert lítill sætur kjáni, þú skilur þetta ekki.“

2 ummæli:

Unknown sagði...

Elsku Einar,
ég skil þig 100%, en flestir íslendinga hafa ekki hugsað málið í botn, eins og þú hefur.
Þeir treysta á flokksforystu sína og lesa aldrei FRUMSKJÖL!
kv

Nafnlaus sagði...

Svona hefur mér liðið lengi.

Króna/EURO