Sú staða sem forsetinn hefur tekið sér með því að synja
lögum staðfestingar, fyrst fjölmiðlalögunum og síðar Icesave, hefur haft stór
áhrif á íslenskt stjórnmálalíf og pólitíska siðvitund almennings. Almenningur
veit nú að stuðningur við undirskriftalista getur skipt máli.
Ríkisstjórnarflokkar sem lent hafa í synjun staðfestinga
laga hafa lýst vanþóknun á forsetanum, jafnmikla og kæti þeirra hefur verið sem
stjórnarandstöðuflokka hinu megin borðsins.
Þessi staða sem forsetinn hefur tekið sér, elska
stjórnmálamenn jafnmikið og þeir hata. Nú vill vinstri vængurinn að forsetinn
synji lögum staðfestingar, jafn heitt og sami vængur þráði að hann skrifaði
undir lög um Icesave. Það er mjög stutt síðan. Undirskriftalistar og
forsetahótun er nýjasta tækifærið sem stjórnarandstöðuflokka til að koma upp
alvöru mótþrýstingi við lagasetningu, hvað sem forsetinn gerir í framhaldinu.
Nú eru margir að velta því fyrir sér á hvaða svítu forsetinn
er að skrifa rökstuðninginn fyrir ákvörðun sinni. Það staðfestir að forsetinn
hvílir sem þokuslæða yfir þinginu, og er ógnvaldur við ríkisstjórnir – þótt ólíklegt
sé að hann reiði svipuna til höggs í þetta sinn. Þrátt fyrir að hafa áður sagt
að auðlindamál séu vel til þjóðaratkvæðagreiðslu fallin, mun hann útskýra
í afar löngu máli, baðaður í flassljósi myndavélanna, að þarna sé ferðinni
tæknilega flókið skattamál sem almenningur megi ekki blanda sér í.
1 ummæli:
Ástæðan fyrir því að stjórnarandstaðan núna vill að undirskriftirnar komi til álita hjá forsetanum er ekki sú að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið sé æskileg heldur sú að tjekka á því hvort forsetinn sé samkvæmur sjálfum sér og afgreiði þetta með eftirfarandi rökum: "já það er gjá á milli þings og þjóðar og nægilega margir hafa lýst vilja sínum til að þetta mál komi til þjóðaratkvæðis". Eða hitt sem er líklegra að hann vilji ekki að þjóðin klofni í andstæðar fylkingar og mestur friður verði á endanum um málið ef hann fer að vilja ríkisstjórnarinnar og útgerðamanna. Fyrst er að hann komi sér heim í heiðardalinn og standi fyrir máli sínu. Píratarnir sjá vonandi til þess.
Skrifa ummæli