föstudagur, 18. júní 2010

Grillað í kvöld


Mikið óskaplega er búið að vera heitt og notalegt í garðinum í dag. 21 gráða þykir mér sallafínt. Hrossin tvö sem kvenpeningurinn er búin að setja í garðinn sem lífræna sláttuvél eru líka afar heimilisleg.



Í kvöld ætla ég að grilla - þótt ekkert hafi ég grætt í dag.

miðvikudagur, 16. júní 2010

Ýkt er drama Ómars

Hér er um að ræða áhugaverða ábendingu frá Ómari Ragnarssyni fyrrverandi rallý-ökumanni. Var einmitt nú rétt nýverið á þessum slóðum og veitti leirfokinu við Kárahnjúka athygli, eins og örugglega allir þeir er koma á þessar slóðir. Ég einmitt tók líka ljósmyndir af ástandinu.

Ómar ef til vill ræðir ekki málið útfrá víðu sjónarhorni - heldur útfrá sjónarhorni fanatíkusins. Að vera fanatíkus á mannvirki og framleiðslu hlýtur að vera langþreytt líf til lengdar.

Ómar sleppir mikilvægum staðreyndum og afleiðum:

- Lónið er í sögulegu lágmarki á þessum árstíma.
- Því nær það yfir óvenjulega lítið landssvæði núna.
- Þess vegna liggur leir yfir miklu landssvæði, sem venjulega er þakið vatni, meirihluta árs.
- Það hefur rignt eina klst. á þessu svæði í júní.
- Sögulega miklir þurrkar mega því teljast á svæðinu, og júní yfirleitt blautur mánuður.
- Þurrkar auka leirfok.
- Það rignir í dag.
- Leir fýkur ekki næstu vikur.
- Lónið verður fullt í ágúst.
- Meira leirfok verður því að öllum líkindum ekki á þessu ári.

Að auki má til gamans geta þess að lítið mál var að keyra umhverfis lónið núna, þrátt fyrir aðeins slælegra útsýni vegna TÍMABUNDINS leirfoks.

Því verður að segjast eins og er að fyrrverandi rallý-ökuþórnum, flugkappanum sem flaug um jökulsárgljúfur og bátsmanninum við Kárahnjúka er farið að förlast á efri árum - geti hann ekki keyrt innan um leirfjúk sem lítur illa út á myndum. Ýkt er drama Ómars - þetta vissulega hafi mátt sjást leirfjúki bregða fyrir.

Té beinið kom sterkt inn


Mikið er ég stoltur af að segja frá því að besti veitingastaður á Austurlandi er á Egilsstöðum.


Lenti í því að klára mig af með grillaðan skötusel og T-bone steik af búinu á Gistihúsinu Egilsstöðum. Verð einfaldlega að segja frá því hvernig bragðlaukarnir kiknuðu í hnjánum. Skemmtilegt að geta farið með góðu fólki á einn af betri veitingastöðum landsins í eigin heimabæ. Já og síðri máltíðir hafa rifið harðar í veskið.


miðvikudagur, 9. júní 2010

ó mæ god

Eitt napurlegasta sjónvarpsefni sem hægt er að komast í tæri við er:

Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður, ræðir við Óla Björn Kárason, alþingismann á ÍNN.

Ofurkapítalísk ógnarstjórn

Opinberar framkvæmdir fjármagnaðar af öðrum en ríkinu eru næsta þjóðarböl sem kallað skal yfir íslenska þjóð. Fréttir af fjármögnun íslenskra lífeyrissjóða á framkvæmdum í vegakerfinu eru dapurlegar.

Hvar verða mörkin dregin í framhaldinu? Verða vegir aðeins byggðir þar sem umferð er nægjanlega mikil til þess að vegatollar standi undir raunvaxtakröfu lánadrottna? Verður þá að leggja sérstaka vegtolla á alla vegi? Ekki getur það talist jafnrétti að sumum íbúum sé gert að greiða vegtolla á nauðsynlegum ferðum sínum um land sitt, meðan aðrir íbúar þurfa ekki að greiða slíka skatta þar eð þeir eru öðruvísi í sveit settir.

Hvernig skal byggja upp nýja vegi á landsbyggðinni og innheimta ekki vegatolla? Hvers konar flækju er verið að búa til? Uppsprettu hápólitískra deilna um ókomin ár. Hingað til hefur verið almenn sátt um að ríkið innheimti skatta og framkvæmi fyrir þá.

Er Norræna leiðin virkilega sú að ríkissjóður dragi sér nánast allt skattfé til vaxtaafborgana af lánum frá AGS og að komandi kynslóðir verði vaxtaþrælar eigin lífeyrissjóða í gegnum vegatolla og sjúkrahúsbyggingar lífeyrissjóðanna?

Er Norræna stjórnin í raun ofurkapítalísk ógnarstjórn? Verndari hægri stefnunnar?

mánudagur, 7. júní 2010

Pólitísk bangsapressa

Hef ekki upplifað mikla pólitíska pressu á Jón Gnarr borgarstjóra í Reykjavík, fram að þessu.

Er þó að finna fyrir síaukinni pressu á meistara Gnarr með hverjum deginum. Sjö ára sonur minn bíður óþolinmóður eftir ísbirninum. Hann segir: "En Jón Narrrr, sagði að þegar hann er borgarstjóri kemur ísbjörn." og svo segir hann: "Viltu koma með mér að sjá ísbjörninn þegar hann kemur?"

Verður maður ekki að segja já?

Ég geri ráð fyrir að fleiri börn í Reykjavík bíði óþreyjufull eftir bangsanum sem var lofað. Ef þú lofar barni bangsa, þá skal það fá bangsa.

sunnudagur, 30. maí 2010

Skilaboðaleikurinn

Ókei.

Að engjast í stól og reyna að lesa út úr lýðræðislegri niðurstöðu hver skilaboðin eru fyrir fjórflokkinn finnst mér ansi hallærislegur leikur.

"Við verðum að breyta okkur og endurvinna traust." segja oddvitar og formenn.

Þetta segir mér aðeins eitt - sem er þetta: Þeir sem ÞURFA að breyta sér, hafa ekki verið í pólitík af hugsjón, heldur af atvinnuástæðum, eða öðrum annarlegum.

Skilaboðin fyrir mér er þessi: Of margir í íslenskri pólitík eru aumingjar sem koma ekki til með að hrófla við hnignandi pólitísku kerfi, heldur leita eftir skilaboðum sem hjálp til að breyta ásjónu sinni.

Króna/EURO