Svo virðist sem í mér og fleiri lítilmögnum séu allt í einu talsverð verðmæti fólgin. Jú vinnufúsar hendur mínar gætu aflað tekna í framtíðinni í sameiginlegan sjóð allra Íslendinga - ríkissjóð. Sjóð sem er tæknilega gjaldþrota. Sami sjóður og mér var sagt að væri skuldlaus fyrir nokkrum mánuðum. Ég var hvorki eigandi í sjóð sex eða níu - ég var eigandi í Ríkissjóð. Ég hafði lagt í sjóðinn tæp 40% af tekjum mínum undanfarinn 12 ár. Ávöxtunina og eignina í sjóðnum átti að vera hægt að taka út í þjónustu og neyðarúrræðum, aðallega í heilbrigðis- og menntageiranum. Nú hefur þessi sjóður hins vegar fallið eins og hver annar fjárfestingasjóður.
Þeir sjóðstjórnendur sem hafa setið og hrært í súpunni í rúm fjögur kjörtímabíl vilja endilega að ég haldi áfram að fjárfesta í sjóðnum. Þeir telja sig hafa verið svikna og niðurstaðan tengist þeim vart með nokkrum hætti. Þeir séu jú einungis eins og býfluga í stormi - krækiber á frjálsum markaði, þeir geti ekki haft nein áhrif á heildarútkomuna. Þess vegna telja þeir sig vera traustsins verðir - vilja að ég treysti þeim fyrir tæpum 40% af tekjum mínum, og jafnvel barna, ófæddra barna og ófæddra barnabarna. En ég einhvern þráast við og hugsa með mér að betra sé að hafa menn við stjórnvölinn sem telja sig geta haft áhrif afkomu sjóðsins, Ríkissjóðs.
Ég á vinsamlegast að greiða hærra hlutfall af tekjum mínum í sjóðinn samkvæmt nýjustu útgáfunni af lögum og reglum. Enginn veit samt sem áður hversu mikið af skuldbindingum sjóðurinn hefur tekið á sig. Þó er vitað að um allmargar billjónir dollara er að ræða. Í ofanálag hefur mér verið tjáð að ég taki einn og sjálfur áhættu af öllum þeim áhrifum sem hrun íslensks efnahagslífs hefur á höfuðstól skulda minna. Þannig megi ég búast við því að höfuðstóll skulda minna hækki um 30-40% á næstu tólf mánuðum. Á sama tima verða eignir mínar í lífeyrissjóðum færðar niður um svipaða prósentutölu.
Mér er sagt reglulega að Fúsa liggi lífið á við að bjarga öllum þeim gífurlega miklu verðmætum mínum sem liggja í fjármálastofnunum ýmiskonar. Þrotabúavafningar ganga jafnvel kaupum og sölum vafningalaust með niðurfellingu skulda til bjargar fyrirtækjunum, starfsmönnunum og síðast en ekki síst eigendum. Mikill leyndardómur er fólgin í þessum björgunaraðgerðum, og slökkvilið Nýju bankanna neitar jafnvel að segja frá því í hvaða húsi var verið slökkva eld og hver hafi verið eigandi húsinns og hvaða umsjónarmanni hafi verið falið að sjá um það. Brunagóssið er jafnvel selt eða gefið á leynifundum - og fólkið í götunni fréttir ekki einu sinni af þeim.
Á nálægri stundu er stórskuldugur sjávarútvegurinn að semja um niðurfellingu skulda upp á tugi milljarða í Nýju bönkunum. Niðurfellinguna mun minn sjóður taka á sig, Ríkissjóður. Minn sjóður. Samt sem áður öðlast minn sjóður enga hlutdeild í auðlindum hafsins, því þessir menn eiga sérstakan rétt á því að eiga allan þann fisk sem lokkaður er upp úr íslensku hafi. Þessir menn eiga einkarétt á fisknum í sjónum í meira en þúsund ár. Samt er einhver að segja mér að ég eigi á hættu að glata fisknum í sjónum gangi Ísland í samband með þjóðum í Evrópu. Fyrirgefðu en mér er nánast sama hverjir eiga óveiddan fisk við Íslandsstrendur við núverandi skipulag. Ég sárvorkenni aðeins þeim hugsjónasjómönnum sem leigja veiðirétt á 250 krónur kílóið, og selja hvert kíló á 290 krónur. Í stað þess að leigja veiðiréttinn beint af mínum sjóði, ríkissjóði, þá hefur minn sjóður gefið ákveðnum hópi manna verðmætin. Skamm. Og hefur engar áætlanir um að sækja föðurarfinn aftur.
Skömmu eftir að ég borgaði 2000 krónur fyrir pylsu og kók á Kastrup var mér sagt að mikil tækifæri lægju í íslensku krónunni, leynd viðskiptatækifæri. Ég gapti af undrun, og þagði af vanþóknun.
Svo er mér sagt í útvarpinu af Steingrími Joð að 30.000 milljónir séu ekki svo mikið til eða frá við svona aðstæður - það liggur við að ég trúi honum. Þótt ég viti í hjarta mínu að það eru 6.000 ársverk vinnandi manna og kvenna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
Góður vinkillog góður pistill.
heyr heyr
Öddi
massífur pistill ... kv,p
Frábær pistill. You said it all!
Flott hjá þér Einar.
bravó, frábært sjónarhorn.
Áhugaverð nálgun hjá þér Einar. Augljóst að arðsemi þessa sameiginlega sjóðs okkar verður sýnilegur, þegar arðurinn verður borgaður út í skertri þjónustu!
Snilldar pistill hjá þér.
Nær 30% með persónuafslættinum, er í ca. 28% núna. Gæti farið upp í 30% á næstunni ...
En hvað er málið með skotið á Steingrím J. í lokin, var það til að bæta upp fyrir að skammast út í flokkinn þinn?
Skemmtileg grein þrátt fyrir það.
Góður Einar!
Frábær pistill skemmtilega sett fram og allt rétt
Takk Einar, frábær pistill,þetta er einmitt mergurinn málsins.
Tek einkum undir áskorun þína um að nú sé tíminn að endurheimta sjávarauðlindina úr höndum skuldsettra sægreifa.
Skrifa ummæli