föstudagur, 25. febrúar 2011

Erótíska salatið

Stundum horfi ég á matreiðsluþætti. Ekki það að ég fari svo inn á textavarpið til að sækja uppskriftirnar, heldur eru þeir ágætis dægradvöl við ákveðnar "aðstæður" í lífinu.

Hef séð tvo nýja matreiðsluþætti nú undanfarið í sjónvarpi.

Annar þeirra er á Rúv í umsjá hennar Jasmín. Ég skil sumt af því sem hún segir og eldar hún örugglega ágætis kássur. Hefði samt gefið henni eins og tvö ár á ÍNN til að þjálfa sig betur.

Hinn matreiðsluþátturinn er á Stöð 2, og er meinfyndinn að mínu áliti. Þar eru umsjónarmenn Solla Græna og Dorritt forsetafrú. Mér varð litið á þennan þátt í gærkvöldi, og náði að "fóstra" kaldhæðnina og hrokann talsvert. Meðal annars var ég að missa það þegar Dorritt hrærði í einhverju salati með berum höndum með afar erótískum og einbeittum hreyfingum. Myndi hræra mér svona salat, ef eitthvað af hráefninu í það fengist á Austurlandi - utan við salt og pipar.

ps. Biðst afsökunar á að fjalla ekki um nýlega ákvörðun Ólafs Ragnar, stjórnlagaþing eða Arnþrúði Karlsdóttur.

fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Fangelsið á Eiðum


Fyrst að hugmyndir eru uppi um að gera fangelsi úr vinnubúðunum á Reyðarfirði, þá verð ég bara að koma með framhaldshugmynd - svona í gríni og alvöru.

Á Eiðum, 12 km frá Egilsstöðum var Alþýðuskólinn starfræktur svo lengi sem elstu menn muna. Þar er auðvelt að girða í kring. Tilbúið smíðaverkstæði, íþróttasalur, tugir glæsilegra herbergja (með gluggum sem auðvelt er að fest rimla), lítið notuð kirkja, mötuneyti, matsalur, sjónvarpsherbergi á öllum göngum, starfsmannahús, gamalt pósthús (fyrir smyglara), sundlaug og svo mætti endalaust telja. Hestaleiga er í grenndinni og því gætu fangar farið á hestbak í sunnudögum - því varla fá þeir heimsóknir svona langt frá höfuðborginni (eða er það misskilningur að brotamenn komi þaðan?)

Meira að segja mætti hugsa sér að glæpamenn vinni að viðhaldi húsanna og geri þau fallegri heldur en þau hafa orðið í meðförum núverandi eiganda (Jonni Sighvats).

Skv. mínum upplýsingum er brunabótamat húseigna á Eiðum um 300 millj. Svo er bara að kýla á það Ögmundur Jónasson.

miðvikudagur, 9. febrúar 2011

Um sjoppuna

Svona mun víst lífið vera, einhver "Kalli" orðinn ritstjóri Eyjunnar. Veit ekki hvað það þýðir. Líklega óskaplega lítið í stóra samhenginu. Eyjan líklega frekar rauðari í kjölfarið, líkleg til að linka ekki á fundarboð hjá Heimssýn og svo framvegis.

Annars hefði verið gaman að fylgjast með Eyjunni í "annarra manna höndum" fyrst það var nauðsynlegt að selja sjoppuna.

mánudagur, 7. febrúar 2011

Orrahríðir framundan

Það er fróðlegt að fylgjast með átökum innan Sjálfstæðisflokksins. Í raun athyglisvert að þrumugnýr hinna gömlu stóðhesta Sjallana hafi ekki náð í gegnum freðið yfirborðið fyrr en nú. Gömlu stóðhestarnir eru ósáttir við tilburði hins unga fola sem nú rekur til Sjálfstæðismerarnar.

Miðað við allt, er óumflýjanlegt að fram fari einhvers konar uppgjör í Sjálfstæðisflokknum. Óumflýjanlegt að einhverjir folar verði geltir og jafnvel teknir af lífi svo stóðlífið í Sjálfstæðisflokknum megi verða örlítið meira aðlaðandi.

Davíð Oddsson virðist vera einhvers konar Orri frá Þúfu Sjálfstæðismanna, sem fyrir styttra komna í hestamennsku er einhver vinsælasti, og jafnframt umtalaðasti og umdeildasti stóðhestur Íslands hin seinni ár. Orri frá Þúfu er hins vegar orðinn gamall og bráðum ófrjósamur – rétt eins og Davíð. Því leita hryssueigendur á Íslandi í syni Orra, eða bara allt annað blóð.

En sem sagt það verður uppgjör í Sjálfstæðisflokknum, óumflýjanlega, eins og í öðrum flokkum. Það er alls ekki víst að Bjarni Ben standi af sér margar „orrahríðar“.

Uppgjör eiga eftir að eiga sér stað í öllum fjórflokkum.

-Ekki eru allir framsóknarmenn sáttir við heimssýn Sigmundar Davíðs, og víst er að sonur Steingríms bíður færis. Þar fer enginn tittur. Heldur þolinmóður dorgveiðimaður.

-Óánægjan kraumar undir í VG. Steingrímur veit af aftöku sinni þegar hann missir tökin á valdataumunum.

-Gráa hryssan í Samfó á fá skrefin eftir. Líklegt er að kjósa verði oftar en einu sinni um eftirmann hennar áður en „sátt“ verður um formann flokks, sem líklega mun standa eftir með gamla fylgi alþýðuflokksins.

þriðjudagur, 1. febrúar 2011

Flottur klúbbur

Gúgglaði Finnboga Jónsson í dag, sem er víst framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, sem mun vera eigandi margra mikilfenglegustu fyrirtækja landsins. Var að velta fyrir mér fortíð hans og hvort það gæti spilað inn í að hann var stjórnarformaður Samherja, forstjóri SVN, forstjóri Icelandic Seafood og svo mætti lengi telja á árum áður. Er eitthvað í hans fortíð sem fær hann til að vilja eitthvað fleira en að eigendur lífeyrissjóðanna fái hámarksávöxtun? Þessari spurningu var ég að velta fyrir mér.

Það er náttúrulega vart í frásögur færandi að er ég hafði gúgglað manninn datt ég inn á félagatal Rótarýklúbbsins í Austurbæ - sem finna má hér - aldeilis stórmerkilegur listi, þó ekki væri nema fyrir það hversu vel menn eru titlaðir í þeim klúbbnum. Aldrei hefði mér dottið í hug að svo mikil "elíta" væri komin saman á einum stað. Auðvitað er augljóst að félagatal þetta segir enga sögu um nokkurn skapaðan hlut, nema að líkur sækir líkan heim.

Króna/EURO