mánudagur, 7. febrúar 2011

Orrahríðir framundan

Það er fróðlegt að fylgjast með átökum innan Sjálfstæðisflokksins. Í raun athyglisvert að þrumugnýr hinna gömlu stóðhesta Sjallana hafi ekki náð í gegnum freðið yfirborðið fyrr en nú. Gömlu stóðhestarnir eru ósáttir við tilburði hins unga fola sem nú rekur til Sjálfstæðismerarnar.

Miðað við allt, er óumflýjanlegt að fram fari einhvers konar uppgjör í Sjálfstæðisflokknum. Óumflýjanlegt að einhverjir folar verði geltir og jafnvel teknir af lífi svo stóðlífið í Sjálfstæðisflokknum megi verða örlítið meira aðlaðandi.

Davíð Oddsson virðist vera einhvers konar Orri frá Þúfu Sjálfstæðismanna, sem fyrir styttra komna í hestamennsku er einhver vinsælasti, og jafnframt umtalaðasti og umdeildasti stóðhestur Íslands hin seinni ár. Orri frá Þúfu er hins vegar orðinn gamall og bráðum ófrjósamur – rétt eins og Davíð. Því leita hryssueigendur á Íslandi í syni Orra, eða bara allt annað blóð.

En sem sagt það verður uppgjör í Sjálfstæðisflokknum, óumflýjanlega, eins og í öðrum flokkum. Það er alls ekki víst að Bjarni Ben standi af sér margar „orrahríðar“.

Uppgjör eiga eftir að eiga sér stað í öllum fjórflokkum.

-Ekki eru allir framsóknarmenn sáttir við heimssýn Sigmundar Davíðs, og víst er að sonur Steingríms bíður færis. Þar fer enginn tittur. Heldur þolinmóður dorgveiðimaður.

-Óánægjan kraumar undir í VG. Steingrímur veit af aftöku sinni þegar hann missir tökin á valdataumunum.

-Gráa hryssan í Samfó á fá skrefin eftir. Líklegt er að kjósa verði oftar en einu sinni um eftirmann hennar áður en „sátt“ verður um formann flokks, sem líklega mun standa eftir með gamla fylgi alþýðuflokksins.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mogginn hefur margan ært
magnað hríðar orra
Sofa munu varla vært
í Valhöllu á þorra

Einar sagði...

Vel gert nafnlaus :) Stuðlað, höfuðstafir og hrynjandi.... allt að gerast :)

Nafnlaus sagði...

Snillder pistill, Einar :D

Króna/EURO