mánudagur, 22. október 2012

Framsókn sigurvegari helgarinnar?

Það má segja sem svo að Framsóknarflokkurinn sé sigurvegari þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaþings. Flokkurinn hefur í áratugi viljað fá slíkar tillögur fram frá þess háttar þingi, þrátt fyrir að óskoraður leiðtogi flokksins og formaður hafi ekkert viljað með tillögur stjórnlagaþings að gera. Ekki má heldur gera lítið úr Jóhönnu, en hún vildi endilega stjórnlagþing er hún bauð sig fram sem Þjóðvaki.

Einhver bestu finnanlegu rök með stjórnlagaþingi og tillögum þess í hag er finna í Fréttablaðinu 11. apríl 2009. Þar segir á kynningarsíðu Framsóknarflokksins:

"Aðeins einn flokkur er á móti tillögu Framsóknar um stjórnlagaþing. Meginrökin fyrir stjórnlagaþingi eru þau að gefa þjóðinni tækifæri til að endurskoða stjórnskipun landsins. Það var ætlunin við stofnun lýðveldis. Því standast ekki andmæli um að stjórnlagaþing taki vald frá alþingismönnum sem eru nú  einráðir um stjórnarskrána. Þingmenn hafa á undanförnum 65 árum ekki getað sæst á meiriháttar breytingar á stjórnarskrá auk þess sem Framsóknarflokkurinn hefur fært þau rök fyrir tillögu sinni um stjórnlagaþing að óeðlilegt sé að Alþingi ákveði sína eigin starfslýsingu og tengsl sín við ríkisstjórn, dómstóla o.s.frv. 
Aldur stjórnarskrárinnar, 130 ár, er því ekki meginástæðan fyrir stjórnlagaþingi.Andstæðingar stjórnlagaþings vilja að það sé ráðgefandi. Þeir óttast völd þess. Ekki hefur þó verið lagt til að stjórnlagaþing eigi lokaorðið. Þingið á að gera tillögu til þjóðarinnar um nýja stjórnaskrá, eftir samráð við Alþingi.Með „ráðgefandi“ er því í raun átt við að stjórnlagaþing geri tillögu til Alþingis í stað þjóðarinnar.
Framsóknarflokkurinn vill að ný og nútímaleg stjórnarskrá verði samin af stjórnlagaþingi þar sem eiga sæti þjóðkjörnir fulltrúar, að skerpt verði á aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdavalds og ráðherrar gegni ekki þingmennsku."

Þetta voru svosum ekki fyrstu vangaveltur Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing. Í þessari grein í Tímanum frá 1984 er einnig fjallað um stjórnlagaþing og kosti þess.

Í Framsóknarblaðinu árið 1959 er haft eftir Hermanni Jónssyni úr ræðu, hvernig stjórnlagaþing væri betur til þess fallið en alþingi að endurskoða stjórnarskrána. Ekki síst í ljósi hagsmuna flokkanna af núverandi/þáverandi kosningakerfi.

Geir H. Haarde hefur ekki skipt um skoðanir á stjórnlagaþingi. Hér skrifar hann í Moggann árið 1994 um sýndartillögur Jóhönnu Sigurðardóttir um stjórnlagaþing.

Hér skrifar Jóhanna Sigurðardóttir í Moggann 1996 m.a. um þörfina á frekari þrígreiningu ríkisvaldsins og nauðsyn þess að alþingi styrkist gagnvart framkvæmdavaldinu. Ekkert nýtt ákvæði um slíkt er í tillögum stjórnlagaþings 2012.


fimmtudagur, 29. mars 2012

Framtíðin gerist á hverjum degi

Ég velti því stundum fyrir mér hvort í alvörunni séu ekki til lausnir til að draga úr eða losna við verðtrygginguna á skömmum tíma.

1. Af hverju ekki að skattleggja alla verðtryggingu á húsnæðislánum sem bundin eru við vísitölu neysluverðs, svona ca.50%. Lántakendur fengju svo endurgreitt frá skattinum þau 50% sem ríkið hafði í tekjur af skatttökunni. Af hverju ekki? Þetta myndi skipta áhætunni af óstöðugu íslensku efnahagslífi milli lántakenda og lánaveitenda. Þessa lausn þarf enginn af 63 þingmönnum að efast um að sé lögleg, m.a.s. tiltölulega einfalt.

2. Af hverju ekki að banna öll ný húsnæðislán með verðtryggingu frá og með núna?

3. Af hverju ekki?

4. Ég veit að það myndi litlu breyta um fortíðina og í þessu felst engin leiðrétting. Framtíðin heldur hins vegar áfram. Verðum við ekki að gera ráð fyrir framtíðinni?

mánudagur, 13. febrúar 2012

Gamalmennapirringur

Það er ekki alltaf sem ég fíla þennan gaur, en ég sendi honum alla mína þumalputta lóðrétta beint til himins.

Það var nefnilega þannig að ég fékk ónot í miltað þegar Sighvatur Björgvinsson útskýrði fyrir okkur í Silfri Egils í gær af hverju verðtrygging og lífeyrissjóðir væru hrein og tær snilld, frá upphafi til enda - til eilífðarnóns.

Hann greinilega veit ekki, að við vitum, að verðtrygging er til að bæta rýrnað verðgildi krónu. Undir hann var lagður mikilvægur tími til að útskýra hvað verðtrygging gengur út á. Þetta vissum við öll.

Ég veit hins vegar ekki af hverju lánin mín þurfa að hækka ef arabískur prins fer í fýlu og neitar að selja olíu þann daginn, sem veldur verðhækkun á mörkuðum. Eða hvers vegna lánin mín hækka ef Morgunblaðið selst í færri eintökum, og það þarf að hækka áskriftargjaldið - og það leiðir til hækkunar vísitölunnar. Ennþá síður skil ég að lánin mín skuli hækka ef CocaCola hækkar í verði, þótt að ég geti valið að versla PepsiCola sem hækkar ekki í verði. Kannski skil ég þetta aldrei.

Svo þurftum við að horfa á þennan Sighvat Björgvinsson engjast um af gamalmennapirringi þegar okkar ágæti Vilhjálmur af Skaganum og Sigurður af Stormi voru svo vitlausir að samþykkja ekki það sem hrökk úr kokinu á honum.

Ég þoli ekki þegar dregnir eru fram í dagsljósið pissublautir fyrrverandi stjórnmálamenn sem kallað hafa yfir mig, fjölskyldu mína og vini áralanga efnahagslega bölvun - án þess að svo mikið sem sýna eitt andartak örlitla auðmýkt heldur stanslausan gamalmennapirring.

Styrmir Gunnarsson var í sama þætti. Hann veltir fyrir sér framtíðar þjóðskipulagi og vill breytingar sem hann vonar að verði til batnaðar. Það virði ég, þótt ekki sé alltaf hægt að vera honum sammála.

mánudagur, 6. febrúar 2012

Sparnaður og tryggingar

Engu skiptir þótt lífeyrissjóðir verði "lýðræðisvæddir". Hvers konar persónur nenna að taka þátt í framboði til lífeyrissjóðsstjórna? Þarf ekki að hugsa þetta aðeins lengra? Hvernig í ósköpunum næst þannig betri ávöxtun? Væri ekki hægt að skipa lífeyrissjóðsstjórnir á annan hátt?

Lykilatriðið er að hvergi kemur fram hver höfuðstóll innlagnar sjóðsfélaga er í raun og veru. Hvergi kemur fram í yfirlitum hver er raunverulegur hluti tryggingarhluta annars vegar og söfnunarhluta hins vegar.

Góð lausn væri að skilja tryggingahluta frá söfnunarhluta, og yfirlit myndi sýna glögglega hvað hefur verið lagt inn í sjóðinn og hver innistæðan er í dag. Fái sjóðsfélagar þessa vitneskju verður sjálfkrafa til lifandi aðhald sjóðfélagana. Sjóður hvers félaga yrði svo raunveruleg eign, og myndi erfast innan fjölskyldna.

Mikil vinna ætti að vera framundan sem snýst um hvernig á að breyta lífeyrissjóðunum.

þriðjudagur, 24. janúar 2012

Bla bla jólakaka

Þar sem að gáfurnar þvælast nú ekkert ofboðslega fyrir mér skil ég ósköp lítið í því hvers vegna heilu vikurnar fara í það að ræða mál sem var komið í farveg á alþingi og afgreitt. Ennþá síður skil ég hvernig "leiðtogar" stjórnarflokkanna fara að því að koma sér og þingmönnum sínum í svo mikil vandræði.

Enn þá síður skil ég ekki af hverju 63 x þingmaður spá ekki allir í því í einu og leggist á eitt um að verða til gagns. (Kannski slöpp hugmynd)

Ég fæ ógeð þegar ég hugsa til þess að í seinustu viku hafi ég í alvörunni spáð í hvað Sigmundur Ernir var að gera í Búrkína Fasó.

Þessa vikuna ætla ég að spá í íslenska landsliðið í handbolta og hvers vegna logar ekki bál á Austurvelli.

laugardagur, 14. janúar 2012

Skotbardagar lögreglunnar

Íslenskir löggumenn vilja fá byssur í beltið, til þess að skjóta tilbaka á glæpamenn sem nota byssur til að ráðast á þá. Samt hef ég aldrei heyrt um að lögreglumaður hafi verið skotinn á Íslandi, hvað þá lent í skotbardaga. Mest eru það brennivínsbrjálaðir heimilisfeður sem hafa hingað til ógnað lögreglunni með skotvopnum.

Nýjustu greiningarskýrslur lögreglunnar segja frá því að íslenskir smákrimmar séu afar hræddir við bandbrjálaða útlendinga sem ganga um með byssur. Allt sem frá lögreglunni kemur ýtir í eina átt, að lögreglan þurfi að fá skotleyfi. Þrátt fyrir að innan lögreglunnar starfi sérstök deild með sniper-riffla og hríðskotabyssur, sérhönnuð morðvopn.

Ýmislegt er nú hægt að gera til að minnka ólöglegan vopnaburð og glæpamennsku yfirhöfuð. Hægt væri að þyngja refsingar fyrir vörslu á óskráðum skotvopnum og tækjum til barsmíða og jafnvel pyntinga - og lögreglan gæti jafnvel séð um að ákæra í slíkum málum.

Að sinni höfum við dómsmálaráðherra sem er á móti því að lögreglan fari almennt að bera vopn. Það er gott. Því miður er það svo að lögreglan verður að lenda í skotbardaga áður en hún biður um byssur. Jafnvel vil ég ganga svo langt að segja að lögreglumaður verður að særast lífshættulega, eða jafnvel deyja af sárum sínum áður en ég samþykki fyrir mitt leyti að skotvopnaburður lögreglumanna verði almennur. Hart að segja, en að mínu viti kaldranaleg staðreynd.

miðvikudagur, 11. janúar 2012

Ástin


Það verður að viðurkennast að það eru ef til vill einhver líkindi með þessu....

Króna/EURO