þriðjudagur, 14. maí 2013

Altari kapítalismans


Ég velti stundum fyrir mér við hvað er heppilegast að starfa frá degi til dags, til að ná endum saman og til að láta lífið ganga upp á þeim nótum sem við í fjölskyldunni höfum áhuga á. Fyrsta atriðið í okkar lífsstíl er að búa úti á landi. Við elskum náttúruna, kyrrðina, dýrin, fuglahljóðin, víðáttuna og uppeldisparadísina sem við teljum börnin hafa möguleika á.

Þetta fyrsta atriði er eiginlega forsenda alls hins. Við höfum valið okkur þennan lífsstíl og þekktum nokkurn veginn galla þess og kosti. Sjálfur hef ég prufað að búa ein 7 ár í höfuðborginni og það átti aldrei neitt sérstaklega við mig. Komst einhvern veginn aldrei í snertingu við sjálfan mig á því landssvæði. Bestu stundirnar upplifði ég í bleiku sólarlaginu þegar ég reið um Heiðmörk á hestunum mínum.  Ég fann í mér náttúrubarnið í Reykjavík og nágrenni.

Þess vegna skil ég ágætlega að ágætum Reykjavíkurognágrennisbúum standi ekki algjörlega á sama um móður náttúru um allt land. ALLIR eiga að láta náttúruna vera sér fróun, og njóta hennar. Hins vegar hef ég velt fyrir mér ýmsum hlutum og staðreyndum, sérstaklega nýverið eftir að farið var út í þá sálma að Lagarfljótinu á Fljótsdalshéraði hafi verið fórnað fyrir reykspúandi verksmiðju – svo siðlaus kapítalisminn mætti raka saman gróðanum.

Þessi framsetning fer eilítið í taugarnar á mér. Mér finnst einhvern veginn að sannleikanum vegið. Í sannleika sagt hefur Lagarfljótið alltaf verið langt frá því að vera tært. Þess vegna hefur lítið sólarljós skinið niður í vatnið og minni ljóstillífun verið þar en í öðrum vötnum, að öðrum kosti hefði Lagarfljót verið gjöfulusta vatnasvæði landsins og aldrei komið til álita að taka þá áhættu að hrófla við lífríki á vatnasvæðinu. Silungur úr þessu vatni hefur alltaf verið „glær“ vegna sólarskorts og því aldrei verið söluvara, og þess vegna hefur enginn sportveiðimaður úr þéttbýlinu sótt í Lagarfljótið fyrr eða síðar. Þess vegna hefur enginn bóndi gert athugasemdir um ráðahaginn, af því að silungsveiðar í Lagarfljóti hafa alltaf verið í afar litlum mæli. Tiltölulega litlu hefur mér því þótt vera fórnað. Það er virkilega leiðinlegt hvernig "Brynjarar Níelssynir" umræðunnar hafa sagt frá því að Lagarfljótinu hafi verið fórnað fyrir stærri hagsmuni - Lagarfljótinu var aldrei fórnað, en þar voru gerðar stórar breytingar af mannavöldum.

Svo er það hitt að til að geta verið svona lítið og sætt „úti á landi creep“ þá hef ég stundað atvinnu í þessari verksmiðju í Reyðarfirði, sem of margir að mínu áliti, tala um af einhverri heilagri vandlætingu og í einhverjum „þið hin eruð svo vitlaus“ tón. Þannig umræðum er erfitt að taka þátt í, og mínum skoðunum verður alltaf sökkt í báti meðalgáfaðra.

Mín afstaða er byggð á reynslu. Náttúran hér í sveitinni minni er falleg, á fljótinu synda gæsir og í djúpinu synda silungur. Ég fæ að stunda heiðvirða atvinnu á góðum vinnustað, og er stundum stoltur af því sem fjölskylda mín fær áorkað í góðri samvinnu við náttúruna. Mér finnst einhvern veginn að Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði hafi EKKI verið fórnað í fjölmennri messu ameríska kapítalismans. Mér finnst að fækkun á silungi í Lagarfljóti hafi verið partur af því að fleiri íbúar geta nú notið náttúru og frelsis.

Og svo er það spurningin sem ég spyr mig stundum. Er „kapítalismi“ æskilegri við Reykjavíkurtjörn, á Hellisheiði og þar sem Ingólfsfjall var áður? Á fólk að líta sér nær? Á fólk að spyrja sig hvað málmar gera "snertiskjásíma" að tæki sem virkar? Hvað málmar gera flugvélar að flugvélum? Hvaða málmur er í rafstrengnum í götunni þinni sem knýr eldavélina í kvöld? Hvaða álfelgum keyrir þú um á? Hvaða málmur er í reiðhjólinu þínu?

 Heimurinn er margslungin.

Afsakið að ég minntist á þetta.

miðvikudagur, 6. mars 2013

Afsakið...


Afsakið mig. Stjórnarskrárbreytingar munu ekki gjörbylta samfélaginu, en væru ákjósanlegt skref til almennra umbóta á samfélaginu. Það eru kjaftaskar í stjórnmálasamfélaginu sem hafa gert stjórnarskrármálið stærra en það hefur burði til. Stærra til beggja átta. Stærra en það er fyrir þá sem fylgjandi eru, stærra en það er fyrir þá sem andvígir eru. Stjórnarskrármálið er smjörklípa allra flokka, sem smurt er yfir dugleysi og getuleysi alþingis sem æðstu stofnunar þjóðarinnar. Stofnun er aldrei öflugri en starfsfólk hennar – það er lögmál.

Samfylkingin hefur látið silfurhærða konu plata sig til að setja höfuð sitt í gapastokk stjórnarskrármálsins.

Sjálfstæðisflokkur lætur stjórnast af byssuframleiðendum (kvótaeigendum) í heilagri baráttu sinni gegn breytingum á orðalagi.

þriðjudagur, 29. janúar 2013

Tilviljun?

Atburðarásin í Icesave sögunni allri var eins og hönnuð fyrir Íslendinga.

1. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Norðurlönd og Evrópa vildu ekki lána okkur péning nema við myndum semja um greiðslu á gígantískum fjárhæðum.
2. Íslensk stjórnvöld segjast ætla að semja um þetta.
3. Íslensk stjórnvöld semja um þetta.
4. Íslensk stjórnvöld kaupa gálgafrest.
5. Íslensk stjórnvöld fá ekki samninga samþykkta.
6. Íslensk stjórnvöl reyna aftur semja um þetta.
7. Íslensk stjórnvöld kaupa aftur gálgafrest.
8. Íslendingar segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslu.
9. Útgreiðslur til Icesave sparifjáreigenda slá á reiði sparifjáreigenda.
10. Málið fer í lögformlegt ferli fyrir dómstólum.
11. Málið vinnst fyrir dómstólum.
* afsakið að þetta er ekki nógu ítarlegt. Vantar fleiri línur :)

Þessi atburðarrás gat einnig verið í spilunum:

1. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Norðurlönd og Evrópa vildu ekki lána okkur péning nema við myndum semja um greiðslu á gígantískum fjárhæðum.
2. Íslendingar segja Nei
3. Íslendingar fá enga peninga að láni.

Þess vegna hlýtur að vera, að hið meingallaða íslenska stjórnmálakerfi skotgrafarhernaðar hafi fært okkur sigur í afar erfiðu máli.

....og það fyrir algjöra tilviljun. Þeir sem höfðu rangt fyrir sér höfðu líka rétt fyrir sér, og öfugt. Enginn gat staðið í pontu alþingis og sagst vera klár á einhverri ákveðinni niðurstöðu dómstóla - hvorki úr stjórn né stjórnarandstöðu.

mánudagur, 19. nóvember 2012

Opið bréf frá mér

Kæru alþingismenn og konur

Efni: Sanngirni, verðtrygging og lausn.

STOPP! Við getum þetta ekki lengur. Lifað við fullkomna óvissu um hver skuldastaðan verður í lok hvers mánaðar, hvers árs og hvers áratugs. Við þolum ekki lengur að vera peð á taflborði fjármálahagkerfis sem er mikilvægara en nokkuð hjarta og nokkur samviska þessa lands. Við getum ekki staðið undir þessu lengur. Það eru til lausnir. Setjist niður og ræðið þær. Við erum að bíða. Við getum ekki beðið mikið lengur. Við verðum bráðum brjáluð. Við viljum sjálfsögð mannréttindi.

Þið hafið tækifæri á að verða hetjur morgundagsins. Þið getið gert sjálfsagðan hlut og hrósað ykkur af um ókomin ár sem bjargvættur íslensku alþýðunnar!

Hér fylgir ein lausn, sem er lagalega, siðferðislega og hagfræðilega hægt að koma í framkvæmd:

Markmið: Að auka sanngirni og að dreifa áhættu jafnt milli lánveitenda og lántaka hvað varðar verðtryggingu lána.

Lausnin: Lagður verður 50% skattur á verðtryggingu þann. 1. janúar n.k. Skatturinn greiðist beint til ríkisins af fjármálastofnunum og hvers kyns lánveitendum. Ríkið greiðir svo sömu upphæð sem vaxtabætur til lántakenda. Vaxtabæturnar greiðast hins vegar ekki út í reiðufé heldur sér ríkið um að greiða niður verðbætur um sömu krónutölu inn á hvert lán fyrir hönd lántakenda.

Afleiðingar: Aðgerðin hefði í för með sér margvíslegar afleiðingar sem sumar er hægt að sjá fyrir og aðrar ekki.

Ég veit að ég er algjört krútt og kannski kjáni. En er í alvöru ekki hægt að hlusta á mig?

þriðjudagur, 13. nóvember 2012

Sveitarómagans greinar


Margoft hefur Sighvatur Björgvinsson skrifað ógeðis-grein í Fréttablaðið. Þar kemur glögglega fram mannfyrirlitning og sögublinda sem einkennir hrukkótta og afgamla leikhúshvíslara fjórflokksins. Þessir hvíslarar eiga það reyndar allir sameiginlegt að vera á framfæri almennings, þrátt fyrir að hafa verið meira til óþurftar en gagns í gegnum tíðina, og valdið óbætanlegum þjóðhagslegum skaða. Arfleifð þeirra er partur af okkar stóra þjóðfélagslega vandamáli og meini.Og í tímaleysi sínu á eftirlaunum gerast þeir sjálfskipaðir meistarar í að afvegaleiða umræður. Hlustum ekki á þessi gömlu typpi, sem taka of marga kippi.

Sighvatur skautar framhjá afar mikilvægum staðreyndum. Sú fyrri er að gjaldmiðill okkar verðtryggða krónan er skaðræðis gjaldmiðill og hefur komið í veg fyrir, frá því hún var tekin upp, að eignir verði til hjá almenningi í landinu. Verðtryggða krónan hefur orðið til þess að lántakar hafa borið allan kostnað af þeim aragrúa efnahagsmistaka sem hafa verið gerð undanfarin 30 ár. Hin staðreyndin er sú að á sínum tíma var tekið upp samtryggingakerfi (lífeyrissjóðakerfi) sem heldur þjóðfélaginu í gíslingu með því að ríghalda í verðtryggðu krónuna.

Sighvatur tekur upp á skopi, stælum og mannfyrirlitningu og er eins og margir aðrir íslenskir fábjánar; kemur af fjöllum vegna þess hvað við hin erum vitlaus að skilja ekki söguna sem hann tók svo rækilegan þátt í að skapa. Sveitarómagi af verstu sort.


.....og hana nú!

föstudagur, 9. nóvember 2012

Kúbismi dagsins

Rak smettið í úrdrátt úr grein Vigdísar Hauksdóttur í Morgunblaðinu í dag. Þar fær hún þá flugu í höfuðið að enda "röksemdafærslur" sínar um fátækt með þessum orðum: „Hver ætlar að borða stjórnarskrána" – þegar ekki er til peningur til að kaupa mat?“

Ef ég gæti byrjað að stama þá væri sá tími kominn núna - það er bara ekki hægt að svara svona vitleysu. Þetta er einhvern veginn of absúrd -  svona eins og tilraun til kúbisma innan stjórnmálanna.

Hver ætlar eiginlega að éta grein úr Morgunblaðinu, þegar ekki er til peningur til að kaupa mat Vigdís?

þriðjudagur, 30. október 2012

Ég er kjáni


Ég skammast mín fyrir það hvað mér finnst um mig, Ísland og Íslendinga. Mér finnst við samfélagið svo heimskt og óstarfhæft fyrirbæri. Við erum eitthvað svo ógeðslega þrjósk, heimsk og erfið öllsömul.
Við erum samfélag vandamála sem er ekki hægt að leysa. Það eina sem við megum hrósa okkur af er að finna upp orðtakið: „að berja höfðinu við steininn“. Því það lýsir okkur svo innilega vel nú um stundir.

Við erum með gjaldmiðil sem virkar ekki fyrir 90% landsmanna, en erum einhvern veginn föst með hann af því að íslenska krónan er jafn heilög og íslenska rollan og indverska beljan. Þrátt fyrir að indverska beljan stoppi umferð svo dögum skiptir, þá má ekki stugga við henni af því hún er heilög. Þannig er ástatt fyrir íslensku krónunni. Hún er svo sæt – íslenska krónan.

Íslenska krónan hefur aldrei reynst okkur vel. Krónan er eins og eiginkona sem hefur bitið af bónda sínum tittlinginn, og bóndinn er eins og íslenska þjóðin – heldur áfram að vera giftur henni og trúir því að sér vaxi tittlingur aftur.

Svo höfum við tæmt vasa okkur í stórann sparigrís frammi í eldhúsi. Já sparigrísinn fær alltaf sína tíund um hver mánaðarmót. Og svo ég/þú fattir af hverju  ég er að tala um sparigrís, þá er ég að tala um lífeyrissjóðinn minn. Já. Ég fóðra sparigrísinn minn svo ég megi ekki verða fátækur í ellinni. Ég sætti mig við það að lánin mín hækki daglega um þúsundir, og árlega svo milljónum skiptir. Bara svo að sparigrísinn minn geti áfram verið bleikur í andskotans eldhúsglugganum. Ég vill bara að sparigrísinn minn haldi áfram að vera bleikur. Ég vill engu breyta svo að sparigrísinn minn haldi áfram að vera bleikur. Frekar sel ég kofann ofan af fjölskyldu minni svo sparigrísinn minn fá verðbæturnar sínar, heldur en að sparigrísinn minn hætti að vera bleikur.

Og ef ég spyr einhvern hvort ekki sé hægt að geyma sparigrísinn minn í stofunni og hvort einhverjir stjórnmálamenn séu tilbúnir til að mála hann bláan, þá er svarið: – „NEI! Hann á að vera bleikur svo þú eigir fyrir gleraugum þegar þú verður 68 ára, ef þú verður þá einhvern tímann 68 ára fíflið þitt.“ Og ef ég segi þá að ég geti allt eins átt fyrir gleraugum þegar ég er 68 ára ef spargrísinn minn er blár, þá er svarið: „NEI! Fávitinn þinn, kerfið er þannig að sparibaukurinn þinn á að vera bleikur, kjáninn þinn. Litli sæti kjáni.“

Og svo hrópa ég í angist: „Í útlöndum er til fólk sem lifir ekki við svona kjör, eigum við að gera eins og þau?“

Og mér er svarað með fyrirlitningu:. „Nei, útlendingar eru svo gráðugir og vondir. Þeir vilja bara stela fiskinum í sjónum, móðga íslensku krónuna og gera grænmetisbændum jafn hátt undir höfði og ræktendum hinnar heilögu íslensku rollu. Og svo munu þei horfa á fallega landslagið okkar og hlæja að okkur.“

Bleiki sparigrísinn minn, íslenska heilaga krónan og ilmandi jarmandi sauðkindin segja öll það sama við mig: „Þú ert lítill sætur kjáni, þú skilur þetta ekki.“

Króna/EURO