Alveg eins og miklu fleiri ætlaði ég að fylgjast með „kryddsíldinni“. Hún þróaðist eins og svo margt annað á þessu ári, rann í sandinn. Ingibjörg nokkur Sólrún var að sjálfsögðu gáttað á framferði mótmælenda. Sagðist efast um að þeir væru fulltrúar almennings. Ef farið er í hártoganir um skilgreiningar á orðinu „fulltrúi“ þá gæti hún jafnvel fært rök fyrir máli sínu. Ég held samt sem áður að hver mótmælandi fyrir utan Hótel Borg í dag hafi starfað í umboði fjölda manns sem heima sátu.
Jafnvel konan mín, sem aldrei svo mikið sem hugsar um ofbeldi, segir að auðvitað hafi fólkið gefist upp á að tala hið íslenska tungumál sem enginn skilur. Þess vegna hafi mótmælendur gripið til þess ráðs að tala tungumál sem skilst betur.
Hvað sem öðru líður hljómaði rödd almennings fyrir utan Hótel Borg í dag. Aldrei áður í íslensku samfélagi hefur svo mikil heift og reiði blossað upp gagnvart sitjandi stjórnvöldum. Auðvelt er að taka undir orð Steingríms Joð að kröfur almennings eru lítilmátlegar – að stjórnvöld axli ábyrgð og boði til kosninga. Einstaklega lítillát og hæversk krafa, sem Ingibjörg Sólrún vill velta fyrir sér þangað til eftir flokksþing Sjálfstæðiflokksins. Eins og flokksþing Sjalla breyti einhverju um ábyrgð á gjörðum stjórnvalda í fortíðinni. Gjörðir stjórnvalda verða sama staðreynd fyrir og eftir landsþing Sjalla.
Jú Ingibjörg ætlar að halda völdum. Fléttan er fyrirséð. Hún ætlar Sjöllum að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Svo skal gengið til kosninga og í aðdraganda þeirra verður kjósendum sagt að eina leiðin til að Ísland fari í ESB sé að kjósa Sjálfstæðiflokk og Samfylkingu. Þannig ætlar kerling að vinna kosningar í vor og þannig ætlar Geir H. Haarde að halda stóli. Þennan leik skal leikið til að breyta aðdraganda kosninga, þannig skal kosningabaráttan ekki snúast um nýtt fólk eða nýja flokka heldur ESB eður ei. Kerla metur það þannig að kjósendur muni af tvennu illu veita krötum atkvæði.
Boggan hefur klesst Sjallana upp að vegg og heldur um hreðjar þeirra.
Gangi flétta Ingibjargar með flokksþing Sjallana ekki upp, þá veit kerling að hún stendur uppi með pálmann í höndunum. Stjórnarslit og kosningar væri þá næsti leikur. Þá getur hún sagt þjóðinni hversu mikil hetja hún er, hafi boðið Sjöllunum byrginn og hún mun gagnrýna þá harðlega fyrir frjálshyggjustefnuna. Mun segja Íslendingum að eina leiðin að ESB sé að kjósa Samfylkinguna, og já þannig taka talsvert fylgi frá Sjöllum. Hún ætlar sér að verða forsætisráðherra, jafnvel þótt það kosti blóðsúthellingar í miðborg Reykjavíkur.
Við almenningur munum væntanlega sitja heima og jafnvel falla fyrir hvorri vitleysunni sem er, og hún mun væntanlega túlka sig sem fulltrúa almennings – þótt hún bendi á tugþúsundir annarra Íslendinga og segi þá ekki fulltrúa neins.