Áramótaávarpi Geirs H. Haarde hefur verið lekið hingað af óábyggilegum heimildamanni:
“Kæru Íslendingar, ég vil byrja á að óska ykkur öllum heilla á nýju ári.
Nú fara í hönd erfiðir tímar. Lúxus og vellysting verða brátt gleymdir frasar meðal almennings. Ráðdeild, hagsýni og útsjónarsemi verða nú þeir mannkostir sem mest verða metnir. Því miður hefur ekki öllum tekist að virkja þessa mannkosti undanfarin ár. Því fólki er vorkunn. Vil ég helst nefna forkólfa útrásarinnar svokölluðu, sjávarútvegsins, stjórnmálanna og stjórnsýslunnar. Þessar smásálir megum við Íslendingar ekki horfa á aðgerðalaus. Þess vegna er mikilvægt að við hugum að því að gleyma skuldum þeirra við þjóðfélagið. Það er ákaflega þarft að auðlindir Íslendinga haldist í einkaeigu. Við megum ekki nota tækifærið og troða fótum ofurskuldsettum einstaklingum og fyrirtækjum í krafti kapítalismans. Það eru ókostir kapítalsimans að hægt er tapa eignum, alveg eins og að græða fé. Þann ókost viljum við varla virkja. Við munum ekki sitja og horfa upp á eignir örkumla viðskiptamanna verði teknar upp í skuldir. Heldur munum við afskrifa megnið af skuldum athafnaskálda.
Til þess að þetta megi gerast verðum við íslenska þjóðin að standa saman. Við höfum gert okkar besta til að regluverkið bregðist ekki í þessum nauðsynlegu hjálparaðgerðum. Okkar mikilhæfustu einstaklingar hafa verið valdir til að stjórna aðgerðunum. Við höfum lagt okkur sérstaklega fram við skipa fólk í réttar stöður sem þekkja og skilja þarfir aumingja viðskiptamanna betur en nokkrir aðrir. Við teljum mikilvægt að þessir stjórnendur þekki viðskiptahættina af eigin reynslu svo að hraðar gangi að bjarga því sem bjargað verður. Allt til þess að taka helsta ókost kapítalismans úr sambandi. Þannig verður aðeins hægt að græða, ekki tapa. Hinir íslensku viðskiptamenn, okkar athafnaskáld, munu því aldrei aftur þurfa að glíma við þann ótta að geta tapað eignum sínum. Þannig náum við að virkja kapítalsimans til hins ýtrasta, og bæla niður ókosti hans.
Þið hin sem heima sitjið megið ekki örvænta. Lífið heldur áfram. Eftir tuttugu til þrjátíu ár munum við líklega sjá til sólar á ný ef vel tekst til. Það er mikilvægt að einstaklingar og fjölskyldur haldi áfram að greiða skuldir sínar, jafnvel þótt eignir þeirra rýrni eilítið í verði og að verðbólgan hækki höfuðstól skulda um nokkur prósent á mánuði. Þessa fórn þarf að færa. Þannig getum við hjálpað þeim mönnum sem mestri hjálp þurfa við – athafnaskáldunum. Ef afar, ömmur, feður, mæður, dætur, synir og ófædd börn þeirra færa ekki fórnir verður mun erfiðara fyrir ríkisrekin fyrirtæki að afskrifa skuldir viðskiptamannana. Vinnan göfgar manninn og mun gjöra yður frjálsan – á nokkrum áratugum. Arbeit macht frei!!!
Til að leggja áherslu á orð mín vil ég minna á kvæði athafnaskáldsins Einars Benediktssonar:
Í þrælsótta
Þjóðin!
Menn á flótta
Hjálp!
Bretar vondir
Hollendingar
Hvar er Churchill?
Evrópan
Vonda fólkið
Hvar er djammið?
Fyrirgefum.
Undanfarin ár hafa verið gerð nokkur smávægileg mistök. Eltum ekki ólar við fortíðina. Gerum upp hið liðna og sættum okkur við orðin hlut. Beiskja fortíðarinnar getur steypt okkur í glötun. Mikilvægt er fyrir ykkur 20% þjóðarinnar sem gæti orðið atvinnulaus á næstu mánuðum að rækta sálartetrið. Sinna andlegum málefnum frekar en eltast við veraldleg gæði. Þótt að gjalda verði keisaranum það sem keisarans er. Það er ekki göfugt að hugsa einungis um eigin hag. Við hin íslenska þjóð ættum að vita það best hversu vandlifað er í þessum heimi. Forfeður okkar sem börðust við spænsku veikina, móðuharðindin, öskuföll, snjóflóð, aurflóð og skrímsli og höfðust við í torfkofum vissu sem var – lífið getur verið ömurlegt. Þetta verðum við að hafa í huga.
Mér sem forsætisráðherra næstu árin bíða ærin verkefni. Það ber margt að skoða í íslensku samfélagi og mörgum spurningum er ósvarað þegar íslenskur tíðarandi hefur færst heila öld aftur í tímann. Það verður að skoða hvort réttlætanlegt sé að konur og verkafólk hafi áfram kosningarétt, hvort húðlitað innflutt atvinnuafli eigi rétt á atvinnu, hvort fólk úr öllum stéttum geti virkilega átt kost á framhaldsmenntun, hvort lengja verði kjörtímabílið í fimmtán ár og svo mætti lengi telja. Ég held ég tali fyrir alla Íslendina þegar ég segi að manngæska, fyrirgefning og dugnaður eru nauðsynleg vopn á þessum tímum.
Sjálfur mun ég með táknrænum hætti leggja mitt af mörkum. Fyrr á þessu ári ferðuðumst ég og hæstvirtur utanríkisráðherra með einkaþotu til að draga úr kostnaði við ferðalagið. Ég hef ákveðið að gera meira af slíku, til að spara enn meiri fjármuni og mun þannig leggja mitt af mörkum með táknrænum hætti. Voanndi fylgja fleiri úr ríkisstjórninni í fótspor mín.
Íslendingar nær og Íslendingar fjær. Þið sem nær mér standið, hafið engar áhyggjur – þið sem fjær liggið, vinsamlegast herðið hug ykkar. Nú dugar ekki þankagangur gungunnar heldur er það arfleifð hins íslenska vinnumannns og kotbónda sem þið þurfið að rækta í huga ykkar. Ég lýk þessu ávarpi með kvæði meistara Hannesar Hólmsteins:
Íslenskt efnahagsundur
Ekkert danaglundur
Veðsetjum fiskinn
Veðsetjum vatnið
Þinglýst afsal
Og syndaaflausn
Og olían vonandi líka.
Góðar stundir.”
6 ummæli:
Lifir þú í þeirri blekkingu að þú sért fyndinn??
Bara pæling...
Frábær grein! Skora á "forsætisráðherra" að sýna snefil af manndómi og lesa fremur þetta ávarp en hverja þá lygafroðu og kattarþvottaþulu sem raunin verður.
- Hósea.
Einmitt eins og ég hélt að ávarpið myndi vera.
Já veistu, nafnlaus nr. 1, nú á tímur er oft erfitt að meta hvort um er að ræða blekkingu eða raunveruleika.
Hefur ávarp seðlabankastjóra nokkuð rekið á þínar fjörur?
Sigurður Ásbjörnsson
Nei Sigurður, það er víst verið að prófarkalesa það í Zimbabwe. Á von á því í hús fyrir páska.
Skrifa ummæli