fimmtudagur, 26. mars 2009

Fyrir kosningar 2007

Við erum fjölmargir eftiráspekingarnir í þessu landi. Stundum kemur mér samt á óvart hversu vel er hægt að hitta naglann á höfuðið fyrirfram. Rakst á þennan stutta pistil fyrir tilviljun, sem ég skrifaði í Austurlandið fyrir kosningarnar 2007:

27. apríl 2007.

Hvaða flokkur vill afnám verðtryggingar?
Undanfarið hafa farið fram umræður stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar. Málefni eins og umhverfisvernd, staða eldri borgara og öryrkja og velferðarkerfið í heild hafa borið hæst og í raun haft höfuð og herðar yfir önnur mál - eins og þetta séu aðalmálin. Rétt er að þessi mál hafa verið aðalmálin í umræðunni undanfarið kjörtímabil og hafa umhverfisverndarsinnar haft drjúgan tíma fjölmiðla til að kynna sína stefnu hvað eftir annað allt kjörtímabilið, og hafa græningjar haft áhrif til góðs fyrir umhverfið. Auk þess liggur ljóst fyrir að ákveðnar úrbætur standa fyrir dyrum gagnvart eldri borgurum.

Pláss fyrir alvöru kosningamál
Þess vegna vonaðist ég til þess að ný mál yrðu sett á oddinn í kosningunum. Ríkisstjórnarflokkarnir keppast hins vegar við að verja gjörðir sínar undanfarið kjörtímabil, og stjórnarandstaðan hamrar á umhverfismálum sem og einstökum velferðarmálum. Það er mér óskiljanlegt að enginn flokkur geri afnám verðtryggingarinnar að sínu kosningamáli, mál sem hinn almenni neytandi myndi styðja alla leið og gefa atkvæði sitt fyrir. Sá flokkur sem stígur fram fyrstur og lýsir yfir afnámi verðtryggingar myndi að mínu mati ná atkvæðum almennings.
Af hverju skildum við afnema verðtrygginguna?

Afnám verðtryggingar er lykilatriði til þess að hagstjórn litla Íslands komist í réttar skorður. Verðtryggingin baktryggir fjármálstofnanir á borð við Glitni, Kaupthing, Landsbankann, Íbúðalánasjóð og aðrar lánastofnanir á þann hátt að höfuðstóll útlána hækkar alltaf í takt við neysluvísitöluna. Þessi fyrirtæki og stofnanir eru þannig orðin ábyrgðarlaus í efnahagslífinu og þurfa ekki að haga útlánum og fjárfestingum af skynsemi - heldur geta þau hagað sér eins fíflalega og kostur er, og samt haldið áfram að skila methagnaði. Þau útlán sem ekki eru verðtryggð skipta engu máli, því Seðlabankastjóri vor sér um að verðtryggja þau með stöðugri hækkun vaxta á verðbólgutímum. Þeir aðilar sem höndla með meirihluta fjármagns í efnahagskerfinu eru því ábyrgðarlausir með öllu og almenningur borgar brúsann með verðtryggðum lánum og okurvöxtum.

Afnám verðtryggingarinnar ætti því að vera stærsta kosningamál kosningana og myndi stuðla að hvað mestri hagsæld fyrir allan almenning í landinu.

Engin ummæli:

Króna/EURO