þriðjudagur, 29. september 2009

Allt fyrir umhverfið?

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Talsvert hefur verið rætt í fjölmiðlum undanfarið um kosti umhverfisvænna orkugjafa fyrir ökutæki, þá helst Metan-gas og Rafmagn. Verðdæmi sýna ótvírætt að umhverfisvænu orkugjafarnir eru ódýrari, og spara gjaldeyri. Krafa hefur t.a.m. verið sett fram um að fella niður innflutningsskatta af rafmagnsbílum.

Gott og vel, gerum ráð fyrir að raf- og metanknúnar bifreiðar komist í almenna notkun. Gerum ráð fyrir að 30% bifreiða á Íslandi verði knúnar þessum orkugjöfum innan tíu ára. Þá stöndum við væntanlega frammi fyrir ákveðnu vandamáli - og það er: Hver borgar fyrir viðhald, endurnýjun og nýframkvæmdir á vegum landsins? Verða það ökumenn dísil og bensínbíla sem borga brúsann? Er það sanngjarnt? Við vitum jú að umhverfisvænar bifreiðar þurfa jafn mikið á góðum vegum að halda. Munu metan- og rafknúnar bifreiðar aka um á vegum landsins á kostnað "mengandi" þegna landsins sem greiða um 60% af hverjum eldsneytislítra til ríkisins.

Það væri ágætt ef strax í byrjun verði sett fram áætlun frá fjármála-, samgöngu- og umhverfisráðuneytinu um hvernig gjaldtöku "vegaskatts" verður háttað af umhverfisvænum bifreiðum í framtíðinni. Mun gjaldtakan fara stighækkandi eftir því sem umhverfisvænum bifreiðum fjölgar? Verður gjaldtaka setta strax á? Verður hún áfram engin? Hvert er planið? Væri ekki gott að eiga plan? Hvernig verður gjaldtaka þungaskatts af rafmagni útfærð?

Gleymdum að sækja um ÓL 2016

Tel það vera mistök hjá ÍSÍ og ríkisstjórninni að sækja ekki um Ólympíuleikana árið 2016. Hægt hefði verið að keppa íslenskri glímu í kynningarskyni. Algjör synd að missa af þessu tækifæri.... :) Kannski við hefðum munað eftir að sækja um ef Icesave málið hefði verið leyst.

laugardagur, 26. september 2009

Fávitans spítalabygging

Ég veit ekki hvernig það á standast nokkur rök að byggja eða stækka Landsspítalann fyrir 50 milljarða króna. (skv. kvöldfréttum RÚV) Á sama tíma og starfsfólki mun fækka við spítalann, rekstur hans smækka og laun starfsfólks lækka. Þegar byggingin verður tilbúin mun stofnunin vart hafa efni á að flytja í húsnæðið.

50 milljarðana mætti nota til að auka framleiðslu á Íslandi. Með vel útfærði fjárfestingu mætti auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar um 4-6%. Að blása út ríkisreikninginn eins og gert hefur verið undanfarin 20 ár, er ekki eitt bráðaverkefnum ríkisstjórnarinnar. 50 milljarðar er ansi hreint mikið í lagt fyrir eitt stykki sjúkrahús. Enginn bráðavandi stafar að spítalanum. Ég held að AGS ætti að stoppa þetta! Ef það er rétt að þeir stjórni landinu.

Fávitans framkvæmd! Fé til framkvæmda á að nota til einhvers sem eykur hagvöxt, en ekki til útblásturs á heilbrigðiskerfinu sem þykir þegar of kostnaðarsamt! Djö...!

föstudagur, 25. september 2009

Besti kunningjinn lifir af

Íslensk þrotabú, slitanefndir og skilanefndi eru eins konar viðbjóður.
Allt mögulegt er til sölu á Íslandi í dag. Verslunarlagerar, byggingarefni, bifreiðar, framleiðsluvélar, verkfæri, atvinnutæki, fasteignir, fyrirtæki, verðbréf og svo mætti lengi telja. Góssið sem selt er á spottprísum er hvergi auglýst. Engar verklagsreglur eru til um hvernig staðið skuli að sölu góssins. Aðeins yfirlýsingar um að allt skuli vera gagnsætt. Ekkert annað. Hafir þú áhuga á að versla kreppugóss, þá er einungis eitt sem getur hjálpað þér - að þekkja mann sem þekkir mann. Ekkert annað. Á Íslandi gildir ekki reglan "survival of the fittest" í viðskiptum - heldur hin séríslenska regla: "besti kunningjinn lifir af".

Hvenær fáum við að sjá lista yfir fasteignir í eigu Gamla eða Nýja Landsbankans, Gamla eða Nýja Kaupþings og Nýja eða Gamla Glitnis - sem eru og verða til sölu? Eða hefur það truflandi áhrif á kunningjasamfélagið?

Hvenær verða settar verklagsreglur fyrir skiptastjóra og slitastjórnir um hvernig beri að standa að auglýsingum á sölumunum þrotabúa? Þyrfti alþingi að setja lög um að slíkar sölur á munum verði að auglýsa í miðlægum gagnagrunni þrotabúa? Myndi það kannski hafa truflandi áhrif á kunningjasamfélagið?

Væri það of gagnsætt?

fimmtudagur, 24. september 2009

Berjalaust í Hádegismóum

Ég hef í nokkra daga velt því fyrir mér hvort ég hafi yfir höfuð einhverja skoðun á því hvort Davíð sé rétti ritstjóri Morgunblaðsins. Hef hugsað málið útfrá nokkrum sjónarhólum, og í raun komist að því mér finnst ráðningin skemmtilegt krydd í tilveruna.

Morgunblaðið er í raun ekki opinber stofnun, heldur eitt sterkasta vörumerki þjóðarinnar í eigu Árvakurs. Gallinn við fyrirtækið er að það hefur vaxið sjálfu sér til höfuðs í krafti offjárfestinga og metnaðarfulls mannahalds. Fyrirtækið gekk til að mynda ekki í gegnum þann hreinsunareld hagræðingar og uppstokkunar sem nauðsynleg var með nýjum eigendum eftir hrun. Að nýta ekki tækifærið á þeim tímapunkti til hagræðingar er hægt að segja hafi verið með afbrigðum slæm rekstrarmistök hjá útgefanda blaðsins. Ljóst var á þeim tímapunkti að skera þyrfti niður kostnað svo um munaði, það var einungis gert í smáum skömmtum. Mun færri seldar auglýsingar og fækkun áskrifenda í kjölfar efnahagserfiðleika áttu að klingja bjöllum hjá nýjum eigendum - strax áður en þeir ráðgerðu að kaupa fjölmiðilinn. Því má segja að óumflýjanlegum niðurskurði á "skrímslinu" hafi verið frestað. Tilfinningar eru skilst mér afar óæskileg breyta við rekstrarlegar uppstokkanir. Tánni verður að fórna fyrir búkinn. Því er ver og miður.

Nú þekki ég ekki persónulega hvernig pólitík, mannleg gildi, persónuleg geta, ritsnilli, viðvera, launastrúktor og fleira spiluðu inn í uppsagnir dagsins. Hitt vitum við þó öll; uppsagnir hljóta að hafa verið óumfýjanlegar í berjalausum Hádegismóum. Því miður get ég ekki greint á milli sannleikskorna og gremju hjá formanni blaðamannafélagsins sem svo sviplega var sagt upp í dag. Mér kemur þó vart í hug að svipuð viðbrögð hefði hún haft í frammi við sambærilegt atvik hjá öðrum fjölmiðli, t.a.m. Fréttablaðinu - eða bara hjá Kompási.

Trúverðugleiki Morgunblaðsins frá deginum í dag er eitt af því sem samkeppnisaðilinn vill tala niður. Trúverðugleiki er eitthvað sem þú ávinnur þér, með vönduðum, öguðum og réttum fréttaflutningi. Tíminn einn getur leitt í ljós hver trúverðugleiki Morgunblaðsins verður að nokkrum mánuðum liðnum. Fréttastofa Stöðvar 2 í eigu Jóns Ásgeirs, Fréttablaðið í eigu Jóns Ásgeirs, Vísir.is í eigu Jóns Ásgeirs og DV í eigu pilsfaldsins - hversu trúverðugt er það? Þessir fjölmiðlar eru frjálsir, og þangað eru ráðnir já-bræður eigendanna að sjálfsögðu. Hví skildum við ekki gefa Morgunblaðinu tækifæri til að vera frjálst um sinn? Og sjáum hvert viðskiptaleg ákvörðun fyrrverandi forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar og samverkamanns Jóns Ásgeirs leiðir fjölmiðilinn.

Það er rétt að pólitísk tengsl Morgunblaðsins við harðann kjarna í Sjálfstæðiflokknum eru augljós. Þau hafa ekki verið jafn augljós í svosum eins og eitt ár - eða síðan Styrmir Gunnarsson var innmúraður ritstjóri um áraraðir. Nú hefur múrarameistarinn sjálfur einfaldlega tekið við stólnum. Sé í raun engan mun á því skoðanalega hvort Styrmir eða Davíð ritstýri blaðinu. Kjallaragreinar og leiðarar verða að vísu skemmtilegri. Hitt veit ég þó að stór hluti lesenda mun áfram lesa fólk í fréttum, íþróttir og fleira skemmtilegt efni sem birst hefur í mogganum til þessa. Veit líka að Evrópusambandssinnum fjölgaði ekki meðan Morgunblaðið hafði ritstjóra sem vildi stefna þangað rétt eins og ég. Áskrifendur hafa jú frelsi til að segja upp blaðinu, og væri þá um að ræða afleiðingar viðskiptalegrar ákvörðunar stjórnar Árvakurs.

Áhyggjuefni er að sjálfsögðu að blaðamenn búa við afar slakt atvinnuöryggi. Ég votta þeim sem misstu störf sín samúð mína. Ég veit af eigin reynslu hversu sárt er að horfa á eftir starfi sem unnið er fórnfýsi. Formaður blaðamannafélagsins og stjórn þess hefur ærin verkefni að vinnu næstu misseri. Helsta verkefnið að sjálfsögðu að bæta kjör blaðamanna upp til hópa. Ísland er eitt af fáum lýðræðisríkjum þar sem blaðamenn ná vart launakjörum millistéttarinnar. Í ljósi reynslu síðustu ára verður blaðamannafélagið að einbeita sér markvisst að því að auka réttindi stéttarinnar við uppsögn. Lengja verður uppsagnarfrest í ljósi reynslunnar, en þó ekki gagnkvæmt. Það má ekki vera ódýrt að segja upp blaðamanni á oft annarlegum forsendum. Að auki þyrfti blaðamannafélagið að taka þátt í upplýstara þjóðfélagi og upplýsa opinberlega á heimasíðu sinni um flokkstengsl, kunningjahóp, fjölskyldutengsl, bakgrunn og hlutabréfaeign félagsmanna. Ljóst er að blaðamannastéttin er rúin trausti, og það nánast á öllum fjölmiðlum. Formaður blaðamannafélagsins á EKKI að hafa skoðun á því hver er ritstjóri prentmiðla.

Að þessu sögðu er ég í heildina ánægður með það að Davíð Oddsson skuli vera orðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Sérstaklega held ég að skemmtanagildið verði á háu stigi þegar kastað verður steinum úr glerhúsum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins á víxl næstu mánuðina. Merkilegast við þessa stöðu er að tveir stærstu prentmiðlar landsins sem báðir ramba á barmi gjaldþrots, munu heyja baráttu á næstu mánuðum upp á líf og dauða, viðskiptalega - og alveg pottþétt persónulega. Þegar annar hvor eða báðir þessir prentmiðlar deyja drottni sínum, mun öngvum koma það neitt sérstaklega á óvart.

miðvikudagur, 23. september 2009

Fiskveiðiverktaka

Mætti ég kynna til leiks nýtt hugtak: FISKVEIÐIVERKTAKA

Lagabreytingar á löggjöf um stjórn fiskveiða væri auðveldlega hægt að framkvæma á haustþingi. Hægt væri með smávægilegum viðauka að úthluta aflaheimildum í tilraunaskyni á t.d. 30.000 tonnum af þorski til Ríkiskaupa. Úthlutunin gæti til frekari réttlætingar kallast aukaúthlutun til gjaldeyrisöflunar.

Ríkiskaup sæi svo um útboð til fiskveiðiverktaka sem gæfist kostur á að bjóða í verkið. Fiskveiðiverktakar gætu svo ráðstafað aflanum að eigin vild. Líklegast má telja fiskveiðiverktakar myndu vilja greiða fé fyrir að vinna verkið. Það fé mætti kalla sanngjarna auðlindarentu með verðmyndun á frjálsum markaði. Hægt væri að bjóða fiskveiðiverkin út í 1.000, 2.000 og 3.000 tonna skömmtum, til að byrja með og í tilraunaskyni.

Á komandi árum mætti svo setja reglu í lögin um ákveðna aflahlutdeild Ríkiskaupa sem færi stighækkandi á ákveðnum árafjölda, þar til hún er 100%. Einnig gæti komið fram í lögunum að samningar um fiskveiðiverktöku skuli vara í ákveðin tímabil, t.a.m. 1ár, 3ár, 5ár, 7ár og 10ár. Þannig gætu þeir fiskveiðiverktakar sem stunda hagkvæmustu veiðarnar boðið besta verðið per kíló í auðlindarentu. Þannig gætu fiskveiðiverktakar hlotið fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum út á fiskveiðiverktökusamningana, sé rekstraráætlun ásættanleg. Þannig gætu fiskveiðiverktakar aukið eða minnkað við sig heimildir milli ára. Einnig mætti hugsa sér fiskveiðiverktökusamninga á fleiri fiskitegundum en þorski. Á uppsjávartegundum mætti síðar hugsa sér gagnvirkt og sjálfvirkt uppboðskerfi, sem yrði of gallað og flókið að útskýra hér.

Kannski of sanngjarnt og of gagnsætt?

mánudagur, 7. september 2009

Tryggvi og Teitur

Eitthvert fyndnasta blogg sem ég hef lesið er birt á bloggsíðu Tryggva Þórs Herbertssonar, alþingismanns Norðeystlendinga.

Hann kvartar semsagt sáran undan hæðnum setningum Teits Atlasonar um Sjálfstæðisflokkinn og sjálfan sig.

- Rosalega er erfitt að vera til Tryggvi.

Tryggvi Þór veit ekki að í hvert skipti sem greinar eftir hann birtast á blogginu og í mogganum kvelur hann þúsundir lesenda með lesblindu sinni á raunveruleikann. En við leyfum Tryggva að njóta vafans, það er kallað ritfrelsi.

- Og þegar maður er með eigin bloggsíðu, þá er maður sjálfur ritstjóri. Teitur er því ritstjóri á eigin síðu.

Tryggvi er að skrifa röngum manni.

Króna/EURO