laugardagur, 19. júní 2010

Bla bla jólakaka

Össur Skarphéðinsson staðfestir ráðaleysi og þau djúpu hjólför ríkisstjórnarinnar sem illmögulegt virðist að komast upp úr. Með hugmynd sinni um þjóðstjórn veit hann sem er, að mögulega getur hann orðið leiðtogi slíkrar ríkisstjórnar. Hugmyndin virkar góð við fyrstu hlustun - jákvæðni var það fyrsta sem kom upp í huga mér.

Í framhaldinu hitti Ögmundur Jónasson svo sannarlega naglann á höfuðið í viðtali við mbl.is segir hann m.a.:
„Í stuttu máli hef ég ekki sannfæringu fyrir því að við náum betur saman um að tryggja betur almannaeign á auðlindum, að stokka upp fiskveiðistjórnunarkerfið og tryggja opinbert eignarhald á orkuauðlindum með aðkomu fleiri flokka að ríkisstjórn. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því.“

Ansi rökgóð hugsun hjá Ögmundi. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur munu ekki taka þátt í dreifingu ættjarðarauðlinda á fleiri hendur.

Eftir stendur að hvorugt líst mér á, þ.e. áframhaldandi hjólfarahjakk ríkisstjórnarinnar eða þjóðstjórn með vísan í orð Ögmundar.

Ef til vill eru kosningar með haustinu snjöll leið til að fá fram þjóðarvilja. Á sama tímapunkti væri hægt að framkvæma hliðarkosningar um fulltrúa á stjórnlagaþing.

Áhættan er vissulega sú fyrir alla flokka að ef þjóðstjórn er ekki leiðin, og ef ríkisstjórnin fer ekki í massíva endurskoðun á aðgerðaplani sínu og eftirfylgni stefnumála, þá verði kosningar til þess að kraftur fjórflokksins þverri um sinn. Pólitísk staða gæti orðið sú að loknum kosningum að VG tapi talsverðu fylgi, enda gangi þeir klofnir og ósamstíga til kosninga eftir erfitt ríkisstjórnarsamstarf og blóðug prófkjör. Að Samfylking tapi út á ódrýgðar gjörðir sínar til handa almenningi og jöfnuði í landinu og skort á forystu. Að Sjálfstæðisflokkur standi brauðfótum með meinta höfuðpaura spilltra prófkjörsmála enn í forgrunni. Að Framsóknarflokkurinn standi uppi laskaður með allnokkra landsbyggðarþingmenn og engann í Reykjavík. Að óþekkt ókomið afl eigi auðvelt með að eigna sér 20-30% atkvæða í alþingiskosningum.

Hversu mikið sem ég velti stjórnarmunstrum fyrir mér, kemst ég alltaf að þeirri niðurstöðu að kosningar innan skamms tíma er ágætis lausn fyrir íslenska þjóð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nei held að af tvennu illu sé skárra að kjós ekki strax en kjósa. Þess lengur sem Jóhanna ræður þess verri verður útkoman hjá bæði VG og S. Hvert þau atkvæði fara svo kæmi néttúrlega í ljós, en væri ekki bara gott að við fengjum að sjá hvernig sjóinu vegnar í Rvk.? Sennilega verður ekki um slík sjó aftur, eftir að hafa séð árangurinn

Króna/EURO