mánudagur, 4. október 2010

Þorpsfífl spáir í mótmæli

Hvað myndi ég gera sem mótmælandi? Mig hefur oft langað til að mótmæla fyrir utan Alþingishúsið. Ég er þyrstur í að mótmæla. En ég bý í sveit um það bil 700 kílómetra frá Alþingishúsinu og er frekar bitlaus þaðan. Að fljúga til Reykjavíkur kostar mig reyndar 1,8 sinnum meir en Reykvíking að ferðast til borgar í Amríku - en það er reyndar önnur saga, algjör útúrdúr.

Oft hefur mér verið hugsað ef ég væri staddur á sunnan heiða þá myndi ég sko fá lánaðan 12.000 lítra mykjudreifara og keyra úr honum á Alþingishúsis til að auka grósku í huga þingmanna. Allar hugmyndir sem ég fæ eru alltof stórar og ganga of langt - og sennilega ekki fyrir svo huglausann mann sem mig.

Síðustu mótmæli sem ég tók þátt í voru á Egilsstöðum í janúar 2009. Þá mættu sjö manns og kveiktu í europallettu. Nokkur hundruð manns keyrðu framhjá til að athuga hverjir þessir sjö væru. Þrír lögreglumenn sáu um að halda skikki á mótmælendum. Þetta var rétt við Landsbankann á Egilsstöðum. Þetta kvöld hverfur mér seint úr huga, aðallega fyrir hversu mér þótti það misheppnað. Mér leið eins og þorpsfífli á eftir, frekar en öflugum mótmælanda

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er sjálfsagt þetta hugarfar þitt sem stöðvar alvöru hugsanir. Þeir sem búa á litlum stöðum eru alltaf að skoða sig út frá öðrum - meta sig út frá öðrum - í stað þess að gefa skít í hvað öðrum finnst og taka skrefið til fulls og lyfta bæjarfélaginu upp með byltingarkenndum hugsunum. Hinir litlu menn líta á skugga sinn og sjá hann er lítill og flýja.

Nafnlaus sagði...

Ég fór niður í bæ áðan, hafði hugsað mér að vera á Austurvelli. Ég fékk ekkert bílastæði, öll stæði í miðbænum full af lúxusjeppum. Virkaði svolítið ankannalegt.

Jón G

Jónína sagði...

Skemmtileg frásögn og mundu að: Mjór er mikils vísir

Króna/EURO