fimmtudagur, 7. október 2010

Vegagerðin skaðabótaskyld?

Ég er sjálfmiðaður bastarður. Þ.e. mið margt út frá sjálfum mér og hvað ég geri.

Fór til höfuðborgar Íslands í þessari viku til að vera viðstaddur jarðarför.

Og þar sem ÉG var að keyra fór ég að hugsa um umferðaröryggi og umferð yfir höfuð. Aðallega um hve langt Austurland er á eftir í umferðaröryggi sérstaklega hvað varðar vegmerkingar, einbreiðar brýr, vegrið og fleira. Sérlega á þeim hættulegu fjallvegum sem tengja byggðir Austurlands saman. Eftir að hafa keyrt nýjan kafla Skagafjarðarmegin Öxnadalsheiðar varð mér ljóst að bæta má umferðaröryggi mikið á Austurlandi með tiltölulega litlum tilkostnaði.

1. Vegstikur á 25 metra millibili á heiðum í stað 50 metra millibils myndi fækka þeim er "ráða" ekki við akstur í lélegu skyggni um meir en helming. Þegar slys verða á Austurlandi kenna eldri menn því um að ökumaðurinn hafi ekki verið nægilega reyndur og afslappaður í lélegu skyggni. Það er reyndar ekki rétt, mestur partur af útafakstri á vegum á Austurlandi á sér stað þegar sést ekki milli vegstika (eða illa) vegna skafrennings, kófs eða þoku. Þessum slysum mætti því fækka með styttra bili milli stika. 50 metra millibil milli stika á heiðum er það sama og á söndunum á Suðurlandi þar sem skyggni er yfirleitt um 3-5 kílómetrar.

2. Vegrið eru nú sett víða þar sem hátt er fram af vegum. Á Austurlandi þarf fallhæð oft að vera meir en 100 metrar, að mestu frjálst, til að vegrið þyki nauðsyn. Frjálst fall virðist á mörgum stöðum ekki nægjanleg ástæða fyrir vegriðum. Alvarlegum slysum má því nánast útrýma með u.þ.b. 1000% aukningu á vegriðum á heiðum Austurlands - ódýr og hagkvæm aðgerð. Sem mátti ráðast í meðan stærri fjárveitingar eru ekki sýnilegar fjósbitanum.

3. Hreinsa mætti vegstikur með reglulegri hætti á Austurlandi til að endurskin sjáist betur. Þar sem þau eru léleg væri ráð að líma nýtt endurskinsmerki á. Hver límmiði ætti ekki að kosta meir en nokkra tugi króna.

4. Til að auka umferðaröryggi og fækka óþarfa útköllum björgunarsveita mætti þjóðvegur 1 liggja um Suðurfirði.

Að lokum verð ég að segja að við útafakstur á heiðum á Austurlandi þá er nánast hægt að fullyrða að Vegagerðin sé skaðabótaskyld vegna lélegra öryggismerkinga og fallvarnarbúnaðar. Hugsanlegt er að tryggingafélög og ökumenn eigi bótarétt á hendur Vegagerðinni sem hefði getað komið í veg fyrir slys með betri merkingum - merkingum sem þeir telja nauðsynlegar á sambærilegum eða auðveldari vegköflum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er pínu fyndið að þér hafi dottið þetta í hug einmitt þegar þú varst að keyra besta vegakaflann á Norðurlandi. Hann var byggður af Héraðsverki og var ekki "tiltölulega ódýr".
Eftir að hafa klárað umræddan vegakafla fóru Héraðsverksmenn austur í Jökuldal (ef ég man rétt) og gerðu nýjan veg eftir sömu stöðlum og þeir gerðu veginn fyrir norðan. Þú kannast kannski við að hafa ekið upp glæsilegan nýjan veg upp úr Jökuldalnum svona c.a. 3 klukkustundum áður en þú varst í Norðurárdalnum að spá í hvað vegirnir fyrir norðan eru flottir?

kv.
jens

Nafnlaus sagði...

Hvernig væri að sveitarfélagið bæði bara vegagerðina um að annast þetta (þ.e. bæta við það sem betur má fara)

Einar sagði...

Sæll Jens.

Glæsilegur vegur upp úr Jökuldalnum=rétt

Jafnvel merktur og öruggur=rangt

Var ég á suðurleið=rangt :)

mbk E.

Króna/EURO