þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Fégráðugir utanbæjarmenn

Ókei, ég ætla að hætta mér út á hálann ís.

Því miður er ég einn af virkilega fáum sem hef rætt lítillega um gjaldþrot Kaupfélags Héraðsbúa, sem varð á tíma hrunadansins. Kaup félagsins á verktakafyrirtækinu Malarvinnslunni hf. árið 2007 virðist hafa verið lykillinn að falli félagsins sem varð á 99. starfsárinu.

Í mínum heimabæ virðast menn helst telja að fall Kaupfélagsins sé fyrst og fremst Stefáni Stefánssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarstofu Austurlands, um að kenna. Sá mun hafa þegið á þriðja tug milljóna fyrir ráðgjöf sína við fyrrverandi eigendur Malarvinnslunnar, skv. fréttaflutningi, fyrr og nú.

Engum virðist hafa dottið í hug að sala Malarvinnslunnar hafi eitthvað með þá að gera sem báru fé á títtnefndan Stefán. Eða hafi yfir höfuð eitthvað að gera með þá einstaklinga sem töldu að kaup Kaupfélags Héraðsbúa væri nýtt tækifæri fyrir þetta margrómaða samvinnufélag og hlustuðu á drottins orð Stefán Stefánssonar að því er virðist gagnrýnislaust.

Niðurstaða margra íbúa á Fljótsdalshéraði hefur verið sú að fégráðugur utanbæjarmaður hafi gert Kaupfélagið gjaldþrota í siðblindu sinni. Nú er það í mínum augum rétt að Stefán mun vera fégráðugur, líklega ekki siðvandur og utanbæjarmaður. En hann bar hvorki fé á sjálfan sig né tók þær ákvarðanir sem þurfti að taka til að fall Kaupfélagsins liti dagsins ljós - nokkrum mánuðum áður en Jón Kristjánsson gat lokið við meistarasmíðina um 100 ára sögu KHB.

2 ummæli:

Björgvin Valur sagði...

Þú veist ósköp vel Einar, að ekkert er fólki á landsbyggðinni að kenna heldur er það alltaf fólk að sunnan sem eyðileggur allt.

Nafnlaus sagði...

Það bar dauðann í sér fyrir samvinnufélögin, þegar framsóknarmenn lögðu hramm sinn á þau á sínum tíma. Samvinnufélagsskapurinn er í eðli sínu sósíaldemokratískur, enda er hann enn við lýði á Norðurlöndunum, sem eru sósíaldemokratísk samfélög, þar af hin norræna velferð.

Króna/EURO