þriðjudagur, 16. september 2008

Frítt í strætó fyrir Reykvíkinga á Egilsstöðum

Á Egilsstöðum er frítt í strætó. Allir Reykvíkingar geta ferðast með strætó á kostnað Fljótsdalshéraðs, á Egilsstöðum og í nágrenni. Líka námsmenn.

Í Reykjavík er frítt í Strætó fyrir Reykvíska námsmenn. Svo sendi stúdentaráð frá sér orðsendingu á dögunum til landsbyggðarsveitarfélaga á dögunum þar sem mælst er til þess að þau greiði fyrir strætógjöld nemenda sem hafa lögheimili í þessum landsbyggðarsveitarfélögum.

Ég legg til að annað hvort skuli hætt að niðurgreiða strætóferðir fyrir Reykvíkinga á Egilsstöðum. Eða að Reykvíkingar fari einföldustu og happadrýgstu leiðina - að gefa einfaldlega öllum frítt í strætó og nálgast þar með markmið sín um minn mengun, umferð og jafnvel vanskilum ungmenna á bílalánum.

Missir ManUtd sponsor?

Ég vona að mínir menn í ManUtd endi ekki eins og West Ham, þ.e. sponsorlausir. Það virðist vera hætta á því þar sem AIG, American International Group, féll um tæpt 61% á Wall Street í gær. Er einhvert stærsta samsteypufyrirtæki heims að riða til falls? Við skulum vona ekki, það væri súrt í broti að missa góðan sponsor.

Dagurinn í gær var víst versti dagurinn á Wall Street síðan 11. september 2001. *

*Reyndar fór olíutunnan niður fyrir 100 dollara í fyrsta sinn síðan í mars sem hljóta að teljast gleðitíðindi....

___________________________________

Já og svo voru það stjórnarslitin í Færeyjum....GEIR! Þetta gerist bara svona, fingrum er smellt og menn þurfa að tæma skrifborðin í stjórnarráðinu.

mánudagur, 15. september 2008

Celeb göngutúr

Össur Skarphéðinsson er í stuði og skrifar skemmtilega lýsingu á því hvernig hann spígsporaði um 101 Reykjavík og tókst að hitta nokkrar "celebrities" á kortersgöngu sinni um kjördæmið. Ekki ósvipað dagbókarfærslum Matthíasar Johannessen, nema ef til vill ívíð skemmtilegra að lesa Össurinn sem vissulega hittir viðmælendur sína fyrir tilviljun.

Merkilegt samt að Össurinn skildi ekki heilsa neinum ófrægum kjósendum.... eða hefði það ekki verið jafn kúl að skrifa um það? Kannski væri ekkert spennandi fyrir hann að taka sér "celeb göngutúr" í Grafarvoginum þar sem hann hefði getað lent á spjalli við grama fjölskyldufeður sem ná ekki endum saman til að greiða fyrir nýjasta verðbólguskotið....bara að pæla.

fimmtudagur, 11. september 2008

Þýskt drama

Sumarið 2006 kynntist ég yndislegri þýskri konu, og við búum ennþá saman. Jólin 2006 fór ég með henni til Munchen að hitta tengdó. Það var ágætt.

Í janúar bárust okkur þó þær fréttir heim til Íslands að tengdamamma hefði sagt skilið við tengdapabba og fundið sér 35 ára gamlan mann. Hún er fimmtug. Þessi maður sem heitir Matthias gaf mér til að mynda batterísskrúfvél í jólagjöf árið 2007.

Þau hafa verið saman síðan að mestu. Þau eru nýkomin heim frá Ítalíu úr vikulangri skemmtiferð. Þriðja hjólið, systir konu minnar hún Nati fór með þeim. Svo tilkynnti Mattias systurinni við hátíðlegan kvöldverð fyrr í kvöld að hann elskaði hana, en ekki tengdamóður mína. Hún er 22 ára. Þetta fengum við allt ferskt í gegnum Skype heim til Íslands. Tæknin er yndisleg.

Ég fór að hlæja, og konan mín sló mig í öxlina – þetta fannst mér absúrd og afkáralega fyndið.

....svo spurði ég hana hvort hann Matthias væri skátengdafaðir minn eða mágur minn núna.

þriðjudagur, 9. september 2008

Martröð: Ísland – Skotland 1-4

Þar sem ég er mikill spámaður verð ég einfaldlega að spá fyrir um hvernig leikur Íslands og Skotlands þróast. Þar sem ég verð staddur á Egilsstöðum mun ég horfa á þetta í sjónvarpinu, og kannski vona ég að Valtýr Björn verði kannski ekki að lýsa leiknum í sjónvarpinu.

Þróun leiksins:

30 mín fyrir leik: Þrjú þúsund skotar mættir á völlinn og 140 Íslendingar
5 mín fyrir leik: Þjóðsöngur Íslands leikinn, og þjóðsöngur Skotlands í kjölfarið.
1,5 mín fyrir leik: Fimm þúsund skotar mættir og fimm þúsund íslenskir.
1 mín fyrir leik: Skoskir áhorfendur yfirgnæfa þá íslensku.

1. mínúta: Eiður Smári tekur miðju.
5. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
6. mínúta: Skotar skora 0-1 eftir að Kjartani Sturlusyni misteksta að kýla boltann frá.
8. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
11. mínúta: Eiður Smári fær boltann og sendir hann á samherja. Samherjinn reynir að senda aftur á Eið og mistekst.
12. mínúta: Eiður Smári vinnur boltann á miðjunni, sendir hann á samherja. Samherjinn reynir að senda aftur á Eið og mistekst.
17. mínúta: Hermann Hreiðarson fær dæmda á sig vítaspyrnu. Kjartan Sturluson leggst í hægra hornið áður skotinn hleypur af stað og rúllar honum í vinstra hornið. 0-2 fyrir Skotland.
23. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
35. mínúta: Heiðar Helguson fær gula spjaldið.
36. mínúta: Grétar Rafn Steinsson fær gula spjaldið.
37. mínúta: Hermann Hreiðarsson fær gula spjaldið.
45. mínúta: Slakur dómari leiksins flautar til leikhlés.


Hálfleiksræða Ólafs Jóhannessonar verður eitthvað á þessa leið: Ég sagði ykkur að reyna ekki að spila fótbolta heldur að kýla hann fram. Þið vitið að þið getið ekki spilað fótbolta. Ef þið viljið reyna að spila boltanum reynið þá að senda á Eið. Já og ekki senda hann aftur á Kjartan í markið, hann er bara ekki tilbúinn. OK? Já og fáið ykkur svo appelsínur og te. Dorrit ætlar að heilsa upp á ykkur eftir leik þannig að ekki ofreyna ykkur. Munið að eitt stig gegn Norðmönnum var okkar markmið í riðlinum – þetta hefur tekist.


46. mínúta: Einhver leikmaður Skotlands tekur miðju.
50. mínúta: Skotar komast upp að endamörkum, senda hann fyrir og skalla í mark. 0-3.
55. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
56. mínúta: Tvöföld skipting Íslands, Guðmundur Steinarsson og Veigar Páll koma inn í stað Heiðars Helgusonar og miðjumannsins sem heitir ekki Stefán Gíslason.
59. mínúta: Veigar Páll kemst einn í gegn eftir langt útspark Kjartans. Veigar dettur fyrir opnu marki og boltinn rúllar á stöngina og þaðan útaf.
60. mínúta: Veigar Páll nær góðu skoti beint í skeytin og út af.
64. mínúta: Skotar klúðra í góðu færi.
64. mínúta: Skotar klúðra í enn betra færi eftir hornspyrnu.
65. mínúta: Skotar spila boltanum á milli sín og skoskir háværir áhorfendur telja sendingarnar.
67. mínúta: Guðmundur Steinarsson kemst inn í sendingu og sendir boltann út af. Skoskir áhorfendur byrja aftur að telja.
69. mínúta: Ísland kemst í sókn.
70. mínúta: Skotland skora 0-4. Nei, línuvörðurinn dæmir markið af vegna rangstöðu. Líklega rangur dómur. Staðan því ennþá 0-3.
73. mínúta: Emil Hallfreðsson kemst upp vinstri kantinn og upp að endamörkum, en sending hans klikkar.
75. mínúta: Eiður Smári fær boltann. Þorir ekki að senda á samherja og missir hann.
78. mínúta: Eiður Smári fær boltann. Þorir ekki að senda á samherja og missir hann.
80. mínúta: Skotland sundurspilar íslensku vörnina og skora með skalla 0-4.
83. mínúta: Eiður Smári fær boltann. Þorir ekki að senda á samherja og kemst einn í gegn og skorar með hnitmiðuðu skoti í vinstra markhornið. Líklega óverjandi. 1-4
87. mínúta: Arnóri Guðjohnsyni skipt inn á og við það rætist langþráður draumur Eiðs og Arnórs um að spila saman. Arnór er léttur á sér.
89. mínúta: Eiður Smári fær boltann, sendir á Arnór sem kemst einn í gegn, en skoskur varnarmaður hleypur hann uppi á nokkrum sekúndubrotum og tekur af honum boltann og leikur honum út úr eigin vítateig.
90. mínúta: Guðmundur Steinarsson felldur rétt utan teigs. Aukaspyrna. Eiður tekur aukaspyrnuna og skýtur fram hjá. Hefði getað verið óverjandi.
91. mínúta: Bííb, bííb, bíib og leikurinn er búinn.

Eftir leik:
Dorrit hleypur niður á völlinn og kyssir strákana. Þeir voru jú í öðru sæti í þessum leik. Ólafur Ragnar Grímsson fer hjá sér, en ákveður að fylgja Dorrit eftir inn í búningsklefa. Þar ætlar hún að skoða tattúveringar íslenska liðsins og gefa útvöldum leikmönnum líkamsnudd. Sérvaldir ljósmyndarar fá að fylgjast með.

Sigurhátíð á hóteli íslenska liðsins. Stefán Hilmarsson syngur “Eiður splæsir kvöld". Ólafur Ragnar og Dorrit skemmta sér konunglega, það sama má segja um ráðherra íþróttamála Þorgerði Katríni, sem ákvað skattborgara vegna að bjóða ekki eiginmanni sínum með í þetta sinnið.

Velkomin heim, Ólafur

Núna er ég öruggari. Ólafur tók aftur til starfa í gær, og nú heldur hann aftur um stjórnartaumana. Meðan hann var í fríi veiktist krónan talsvert og ljósmæður byrjuðu aðgerðir. Ég held að hann verði fljótur að kippa þessu í lag. Spái því að krónan hækki í dag.

sunnudagur, 7. september 2008

Vinnuhjú í sveitum


Hér austan heiða var mál þýsks veitingamanns sem rekur kaffihús við Breiðdalsvík á flestra vörum. Margir höfðu á orði að réttast væri að reka hann úr landi. Verkalýðsfélag Austurlands (Afl) hafði gert athugasemdir við starfsemi á hans vegum. Hann borgaði þýskum sumarstarfsstúlkum sínum jú smánarleg laun. Eitthvað á bilinu 70-80 þús. á mán. fyrir utan fæði og húsnæði.

Þýski maðurinn brást víst ókvæða við og hótaði öllu illu á skrifstofu verkalýðsins. Lét greipar sópa af skrifborðum og hótaði líkamsmeiðingum. Við skulum gleyma dólgslegum viðbrögðum þjóðverjans eitt augnablik.

Alþekkt er um allar sveitir Íslands að fengið er til vinnu við ferðaþjónustu og landbúnaðarstörf. Erlent starfsfólk sem vill söðla um og upplifa sveitarómantík eins og eitt sumar áður en það fer í áframhaldandi nám. Þýskar stelpur vinna við tamningar á sveitabæjum í staðinn fyrir frítt fæði og húsnæði, þýskir fjósamenn eru líka vinsælir. Algengt er að þeim sér borgað á bilinu 40-50 þús. á mánuði. Ég þekki líka bónda sem er með fjölda sjálfboðaliða í vinnu við að taka upp kartöflur með höndunum. Svona mætti lengi telja.

Líklega er mál þjóðverjans ekki einsdæmi. Skildi verkalýðsfélagið á Austurlandi ætla að heimsækja bændur í fjórðungnum og fara fram á leiðréttingu á kjörum erlends vinnufólks?

Króna/EURO