mánudagur, 27. apríl 2009

Valdamesta ríkisstjórn Íslandssögunnar

Hvað sem öðru líður um úrslit kosninga er eitt atriði nokkuð ljóst í mínum huga.

Sú ríkisstjórn sem mynduð verður á næstu dögum verður líklegast valdamesta ríkisstjórn allra tíma í Íslandssögunni.

Ríkisvaldið mun fara með mörg af mikilvægustu og stærstu fyrirtækjum landsins, og mun jafnframt ráða því bæði beint og óbeint hvaða fyrirtæki verpa tekin yfir, hvaða fyrirtæki eru látin rúlla, hvaða fyrirtæki eru seld áfram með afsláttum, til hverra og svo framvegis. Það verður jafnframt á valdi ríkisstjórnarinnar hvaða vinnureglum verði beitt í þessum málum, hverjir fylgja eftir vinnureglunum og hversu mikil pólitísk slagsíða mun verða við ákvörðunartökur.

Ríkisstjórnin mun jafnframt taka stærstu ákvarðanir sem teknar hafa verið um niðurskurð til velferðarmála, og ræður því í aðalatriðum hversu Ísland verður mikið velferðarþjóðfélag að nokkrum misserum eða árum liðnum. Í sömu andrá verður að nefna stórar ákvarðanir í skattamálum sem verður að taka á næstu vikum.

Ríkisstjórnin þarf ennfremur að taka ákvarðanir um umsókn eða ekki umsókn í Evrópusambandið. Þar er enn önnur stór ákvörðun sem þarf að taka sem varðar sögu þjóðarinnar til lengri tíma.

Ríkisstjórnin sem nú verður mynduð hefur óskorað umboð kjósenda til að gjörbylta umgjörð um úthlutun aflaheimilda til framtíðar. Þannig vilja kjósendur að ríkisstjórnin geri grundvallarbreytingar á einni af þremur mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin mun þurfa að endurmóta frá grunni umgjörð og regluverk fjármálastarfsemi í landinu. Þar má nefna bankastarfsemi, eftirlitsaðila, neytendavernd og afnám eða ekki afnám verðtryggingarinnar.

Að síðustu verð ég að nefna að ríkisstjórnin hefur víðtækt umboð til aðgerða til hjálpar heimilunum í landinu. Þingmeirihluti vinstri-manna gefur til kynna að kjósendur vilji róttækar aðgerðir. Ríkisstjórnin hefur því víðtækt vald, með fullu samþykki þjóðarinnar til stærri og mikilvægari aðgerða en nokkru sinni fyrr.

Að þessu sögðu er augljóst að næsta ríkisstjórn sækir sér eitthvert víðtækasta umboð til breytinga, ákvarðana og verknaða sem nokkur íslensk ríkisstjórn hefur haft undir höndum áður. Því er mikilvægt að við upphaf vegferðarinnar verði skrifaður skýr, afdráttarlaus og heiðarlegur stjórnarsáttmáli. Þar sem við fáum að vita nokkuð nákvæmlega, hvort, hvenær og hvers vegna verður ráðist í breytingar sem varða hag okkar allra.

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Í bið

Undanfarin tvö misseri hafa verið skrítin. Margir sem ég þekki hafa verið að BÍÐA. BIÐIN byrjaði við fall bankana. Þá var BEÐIÐ eftir næsta fréttamannafundi sama dag.

Smám saman breyttist BIÐIN, og flestir fóru að BÍÐA eftir vikulegum fréttamannafundi. Þar sem líklega yrði tilkynnt um aðgerðir.

Svo skapaðist sátt um að BÍÐA "róleg" yfir jólin. Eftir jólaBIÐ yrði búið að kokka saman töfralausn. JólaBIÐIN var hvað lengsta BIÐIN fram að þeim tíma. Að loknum jólum trylltust margir, því BIÐIN hafði engu skilað.

Svo varð sátt um að ný ríkisstjórn vinstri flokka og framsóknar fengi BIÐtíma til að koma lausnum sínum í framkvæmd. Og enn um sinn urðu allir sem ég þekki fyrir vonbrigðum - þrátt fyrir nokkra BIÐ kom engin töfralausn.

Nú BÍÐA allir sem ég þekki eftir kosningum. Að loknum kosningum verði mynduð svo öflug ríkisstjórn að hún hljóti að verða með töframátt. Svo öflugur er máttur BIÐARINNAR telja margir.

Ég les hins vegar úr þessari tveggja missera BIÐ að töfralausnin er ekki til. Allar okkar lausnir og leiðir hljóta að byggjast á þrotlausri vinnu, áræðni og útsjónasemi - og ekkert af þessu þrennu er kastað fram úr erminni.

Það verður víst að byggja hið nýja Ísland upp í rólegheitum, því það gæti nú verið að nýjar töfralausnir kölluðu á nýjar bólur. Mér finnst bara ágætt að BÍÐA meðan að gömul graftarkýli eru kreist...... eða svoleiðis.... aðeins þannig hljótum við að horfa fram á bólulaust andlit....??

föstudagur, 17. apríl 2009

Að ríða á kjörstað....

Bíð eftir að grasið byrji að grænka - það er minn uppáhaldstími, ég elska að gefa hestunum græna grasnál í fyrsta sinn á vorin. Það fer að koma sá dagur, en kannski ekki alveg strax hér fyrir austan.

Er að spá í að fara ríðandi á kjörstað.....!!? Gæti verið soldið kúl?? Lopapeysa og íslenskir gæðingar og gagnslaust atkvæði - eitthvað íslenskara en það?! Einhver með í hópreið á kjörstað?

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Skort-hugsun

Sjálfstæðiflokkurinn hefur tekið í notkun orð eða hugtak í kosningabaráttunni og tengt það við úthlutun aflaheimilda. "ATVINNURÉTTINDI" er orðið sem þeir tönnlast á.

Einhverra hluta vegna telja stuðningsmenn frelsis til athafna, að hugtakið "atvinnuréttindi" hafi eitthvað með fiskinn í sjónum að gera.

Eigir þú bát vilja Sjálfstæðismenn að þú eigir þau einkaréttindi að veiða fisk úr sjó.

Eigir þú byggingakrana vilja Sjálfstæðismenn að aðrar reglur gildi!

Að veiða fisk, er ekkert öðruvísi en önnur verk sem þarf að framkvæma. Þeir sem hafa þekkingu til að veiða fisk, skipstjórar, stýrimenn, vélstjórar og sjómenn hafa sín ATVINNURÉTTINDI og þekkingu sem ekki verður tekin frá þeim. Að mixa atvinnuréttindum inn í umræðu um EIGNARRÉTT á auðlindum er fáránlegasta rökvilla kosningabaráttunar.... og undarlegt að ekki nokkur frambjóðandi FRELSINS skuli hafa gert sér grein fyrir þessari heimsku í sínum herbúðum.

...og undarlegt að ekki nokkur mótframbjóðandi skuli hafa bent á þennan skort á hugsun.

...og ennþá hefur enginn rökstudd efnislega hvernig "SJÁVARÚTVEGURINN HRYNUR" við breytingar á úthlutun aflaheimilda.... þá er ég að tala um EFNISLEGA.

D-Genetics

Á meðan Sjálfstæðisflokkur missir allt nema sitt genetíska fylgi eru nokkrir dagar í kosningar. Fylgishrun Sjálfstæðisflokksins er þónokkuð merkilegt og hefur afgerandi áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar. Fylgi Sjallana virðist hafa færst á Ríkisstjórnarflokkana og á Borgarahreyfinguna í Reykjavík. Þónokkuð merkileg tíðindi, sem virðist ætla að gulltryggja hreina vinstristjórn eftir kosningar.

Eins lítið og mér hugnast hægri stjórn án viðspyrnu frá miðju - hugnast mér alls ekki vinstristjórn án nokkurrar viðspyrnu frá miðju. Og hana-nú.

...svo er spurning hvað gerist þegar í kjörklefana er komið. Ég spurði pabba minn Ben út í málið. Hann svaraði: "Þegar ég fór grautfúll í framboð fyrir Þjóðarflokkinn, þá kaus ég Sjálfstæðisflokkinn. Það var ekki hægt annað." - svona trygg geta atkvæði verið!

_____________________


....og það var eins og ég hugsaði í byrjun: Sjálfstæðismenn áttu að fórna fleiru en dauðri hænu á tröppum Valhallar.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Gylfi! Ekki koma heim

Þess frétt vekur spurningar um orsakatengsl.

Ég man þá ljóslifandi er það gerðist að meistara Geir H. Haarde lokaði Nasdaq markaðnum með því að hringja kúabjöllum - þá er Haarde kom heim nokkrum dögum síðar, þá hrundi íslensk fjármálastarfsemi til grunna, og jafnvel niður fyrir sjávarmál.

Nú þáði hinn geðþekki ráðherra Gylfi Magnússon áþekkt boð, og hringdi sömu kúbjöllu og Haarde. Og þá er spurning hvað gerist þegar Gylfi kemur heim? Hvað hrynur þá? Hvað ef skyldu vera orsakatengsl?

Ég segi því: "Í þjóðarþágu, Gylfi, ekki koma heim á næstunni. Bara svona til öryggis."

:)

Króna/EURO